19.2.2010 | 07:03
Af sebrahestum og krókódílum
19. febrúar 2010
Úff! Þetta er víst fyrsta bloggið mitt á þessu herrans ári! En allvega.....
Við áttum langt jólafrí hér í Addis. Lengra en upphaflega var planlagt, sem kom nú reyndar ekki til af góðu. Þ.e. við sátum hér föst vegna veikinda bóndans. Hann fékk einhverja heiftarlega sýkingu í eitil á hálsi sem læknarnir hérldu fyrst að væri hettusótt. Dr. Eina Eriksen, norskur læknir sem skoðaði hann, var samt ekki alveg viss og sendi Kristján í rannsókn á Swedish clinic, þar sem fljótlega kom í ljós að þetta var bakteríusýking. Hann er orðinn frískur núna en er samt enn að klára fjórða sýklalyfjakúrinn. Þá er þetta vonandi búið.
Krakkarnir voru í skólanum síðustu tvær vikurnar fyrir jól og að venju er alltaf mikið um að vera fyrir jólin. Dagbjartur Elí tók þátt í jólasöngleiknum Whoops a daisy angel" sem var alveg hrikalega krúttlegt. Við vorum búin að vera að æfa lögin heima og hann stóð sig eins og hetja! Rétt fyrir jól fórum við í nokkra daga til Awasa svona rétt til að slappa af fyrir jólin. Sjálfa hátiðina vorum við svo hér í Addis. Það var borðað hangikjöt að venju og meira að segja líka lambalæri sem við tókum með að heiman í sumar. Á jóladag voru tónleikar hér í kapellunni þar sem bæði hérbúandi kristniboðar og gestir komu fram. Það tókst mjög vel og góð tilbreyting. Við ætluðum síðan að vera komin til Voító fyrir áramót þar sem við áttum von á gestum, norskri fjölskyldu sem býr hér í Addis, en eins og áður sagði gekk það ekki eftir vegna veikinda. En í staðin gátum við hitt Katrínu og Vilborgu (frænkur mínar sem eru aldar upp hér í Eþíópíu) sem voru komnar til að vinna í Addis og í Jinka. Það var gaman að fá aðeins að hitta þær áður en við fórum svo suður eftir. Þær ætla svo að heimsækja okkur til Voító núna í byrjun mars.
Við vorum ekki nema tvær vikur í Voító áður en við þurftum að fara af stað aftur á ráðstefnu NLM kristniboða í Awasa. Á þessum tíma gerðist samt ýmislegt. Margrét Helga er búin að eignast nokkrar vinkonur í Gisma og er farin að syngja í kirkjukórnum. Kórar Mekane Yesus kirkjunnar eru allir í sérstökum búningum, kirtlum með skuplur á höfðinu og er litli kirkjukórinn okkar í Gisma engin undantekning. Hún fer á kóræfingar á hverum degi og syngur lög með mörgum erindum á bæði amharísku og tsamakko. Það var ekki laust við að mamman táraðist í fyrstu guðsþjónustunni sem litla krúsin var að syngja.
Jóel er alltaf sami dýrakallinn og á þessum tveimur vikum eignaðist hann tvö gæludýr, fuglinn Che che sem lifði ekki nema tvo daga og íkornann Kirrkirr sem fékk að gleðja okkur aðeins lengur. Vinir hans komu með dýrin til hans. Þegar fuglinn dó varð mikil sorg og hann var jarðaður í bakgarðinum. Kirrkirr var alveg ótrúlega krúttlegur og alveg frábært gæludýr. Það var smíðað búr handa honum , aðallega til að sofa í á nóttunni. Hann var svo lítill að við urðum að gefa honum mjólk úr sprautu og til að byrja með vildi hann ekkert annað. Hann braggaðist fljótt og hændist mjög að krökkunum. Vildi helst kúra í hálsakotinu á þeim og ef hann var settur á jörðina elti hann þau og stoppaði ef þau stoppuðu. Það varð úr að hann var tekinn með til Awasa í með viðkomu í Arba Minch og svo til Addis. Það gekk vel með hann í bílnum. Hann bara kúrði hjá krökkunum og fékk sér af og til mjólk og brauðmola. Í Awasa var hann hvers manns hugljúfi og allir bæði ungir og eldri yfir sig hrifnir af honum. En Addis varð honum ofviða greyinu. Hann þoldi lílega ekki kuldann og varð veikur nokkrum dögum efir að við komum hingað þrátt fyrir ýtrekaðar tilraunir til að halda á honum hita. Hann dó síðan fyrir viku síðan. Það var mikil sorg og mikið grátið. En svona er lífið...
Ráðstefnan í Awasa gekk vel og var óvenju afslappað andrúmsloft. Fá mál voru á dagskrá og því gafst meiri tími en ella til að ræða starfið almennt. Krakkarnir voru í góðum höndum nema frá biblíuskólanum á Fjellhaug í Osló. Þaðan hefur komið hópur á hverju ári til að sjá um barnadagskrá sem er bara alveg frábært. Munar miklu fyrir okkur foreldrana.
Dagbjartur Elí átti afmæli fjórða febrúar og voru bakaðar pönnsur í tilefni dagsins. Almennileg veisla var svo haldin efir að við komum til Addis þar sem ekki gafst tími til þess í Awasa. Hann lenti reyndar í því tveimur dögum fyrir afmælisdaginn að handleggsbrotna þegar hann datt úr klifurgrind. Það var farið með hann í röntgenmyndatöku í Awasa og svo skoðuðu hann Torleif og Jerin Kiserud, sem eru læknar í Jinka. Það kom í ljós að hann þufti að fá gifs. Sama dag höfðu Fjellhaug krakkarnir verið að föndra gifsgrímur með börnunum og það var akkúrat afgangur sem passaði á höndina á Dagbjarti Elí. Torleif setti svo á hann gifsið úti á tréstólpa með aðstoð efnilegra ungra stúlkna! Hann er enn með gifsið en losnar við það eftir u.þ.b. viku.
Sl. tvær vikur höfum við svo verið í Addis. Krakkarnir una sér vel í skólanum og það er mikið fjör hér á lóðinni líka. Margrét Helga og þrjár norskar vinkonur hennar stofnuðuð dans og söng hópinn Makíato" sem hefur komið fram við hin ýmsu tækifæri bæði í Awasa og í Addis. Þær eru líka búnar að vera á fullu að búa til skartgripi sem þær selja til styrkar kristniboðsstarfinu. Elisabeth norskur kennari hér, saumaði á þær allar eins tunikur og þær skottast um allt með ósýnilegan þráð á milli sýn. Bara alveg frábært. Jóel leikur mest við Samúel vin sinn sem býr hér á lóðinni go svo eru norskir bræður sem búa hér rétt hjá sem eru líka góðr vinir hans og leikfélagar. Hann fékk að gista hjá þeim síðustu helgi og ég get ímyndað mér að það hafi verið fjör. Dagbjartur Elí unir sér vel í leikskólanum. Hann fékk reyndar ekki alveg pláss núna alla dagana vegna aukins fjölda nemenda í KG1 núna eftir jól en það hjálpaði að Mikael Kiplesund vinur hans er hér núna líka. Þeir bralla margt saman og fara oft að heimsækja mormor" ömmu hans Mikaels sem býr hér á lóðinni. Við vorum svo heppin núna að fá alveg frábæra barnapíu fyrir Davíð Ómar. Hún heitir Selam og hefur verið hér stundum í afleysingum. Það var bara ást við fyrstu sýn. Hún er dugleg og ákveðin sem á vel við Davíð Ómar. Þau eru líka oft með Asnakú, sem er barnfóstran sem við höfðum meðan við bjuggum í Addis, og Jon Gabriel, vini Davíðs Ómars sem Asnakú er núna að passa.
Þannig að við gætum eiginlega ekki haft það betra. Á meðan börnin eru sátt og ánægð erum við það líka. Það skiptir alveg ótrúlega miklu máli.
Við fengum líka óvænta heimsókn frá Önnu Páu mágkonu minni nú í febrúar. Hún kom og var nokkra daga hjá okkur í Voító og fór svo með okkur til Arba Minch þar sem við m.a. fórum í Nech sar þjóðgarðin og sáum sebrahesta, flóðhesta, krókódíla og antílópur. Þar drukkum við líka vatn úr uppsprettu lindunum sem Arba Minch (Fjörtíu lindir) dregur nafn sitt af. Og stukkum meira að segja út í til að kæla okkur. Aveg dásamlegt! Anna Pála kom svo með okkur til Awasa og var þar í tvo daga en fór svo í ferð til norður Eþíópíu á meðan við vorum á ráðstefnunnni. Svo hittumst við aftur í Addis þar sem hún fékk m.a. að vera með á menningarkvöldi í bekknum hans Jóels. Þar höfðu krakkarnir allir undirbúið kynningar af löndum sínum og allir áttu að koma með mat sem fólk gat svo keypt fyrir ljósritaða peninga frá hverju landi. Við komum með rjómapönnsur sem vöktu mikla lukku.
En nú fer þessari Addis dvöl að ljúka og við höldum suður á mánudaginn þar sem við verðum næstu sjö vikurnar. Það fer síðan að styttast í að við flytjum heim, um miðjan júní í sumar. Ég verða að viðurkenna að því fylgja blendnar tilfinningar. Við hlökkum að sjálfsögðu til að búa nálægt fjölskyldu og vinum en það verður líka erfitt að kveðja og fara héðan og margt sem við komum til að sakna. En ef Guð lofar komum við aftur....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2009 | 10:53
Aðventa í Addis Abeba
Þá erum við aftur komin til Addis. Það er eiginleg alltaf gott að koma hingað. Uppábúin rúm á gestahúsinu. Allt hreint og fínt, ekkert stöðugt ryk og hitastigið talsvert þægilegra. Það er reyndar kalt hér á morgnana og kvöldin núna en við erum með ofn í íbúðinni svo það er allt í lagi. Sólin skín á daginn og þá hlýnar.
Síðasti mánuður hefur einkennst af pensilín inntöku og tilheyrandi veikindum sem enn eru ekki alveg á enda. Síðast þegar við vorum í Addis var ég veik allan tímann og var enn ekki góð þegar við komum til Voító. Ég endaði á að fara á pensilín þar sem ég var svo slæm í lungunum og með ljótan hósta. Það sama átti við um litlu strákana. Margrét Helga og Jóel urðu bæð alveg hundlasin í Voító og enduðu líka á pensilíni. Það er ekki gaman að vera með hita þegar lofthitinn er 40°eða meira, vonlaust að reyna að kæla líkamann niður. En þau jöfnuðu sig nú öll og ég líka eða að minnsta kosti í smá stund. Pensilínið fer svo illa í mig. Ég var svo slöpp og þreytt af því og fékk svima og ógleði svo ég var mjög fegin þegar ég gat hætt að taka það. En Adam var ekki lengi í Paradís. Ég var búin að vera alveg frísk í þrjá daga þegar við fórum til Jinka og fyrsta kvöldið þar fékk ég hita, alveg upp úr þurru. Ég var strax skárri aginn eftir en var svona hálfdrusluleg í nokkra daga. Svo komum við aftur til Voító og þá tók ekki betra við. Eina nóttina fyrir svona viku síðan, þá vaknaði ég við alveg skelfilegan verk í handleggnum. Ég ætlaði að reyna að hrista þetta af mér en á endanum varð ég að far fram og hugsaði mér að taka verkjalyf til að geta sofnað. Þegar ég kom fram og kveikti ljósið sá ég hvers kyns var. Ég var ss. Með pínu ogguponsu sár á þumlinum sem hafði komist svona heiftarleg sýking í. Fingurinn var stokkbólginn og eldrauður og frá honum lá rauð rák upp undir handarkrika. Það fyrsta sem mér datt í hug var Alfreð vinnumaður í Emil í Kattholti því svona var því lýst í bókinni þegar hann fékk blóðeitrun. Svo þá var bara að byrja á nýjum skammti af pensilíni, þriðji skammturinn á tveimur mánuðum. (ég fékk líka slæma sýkingu í október þá í fótinn þannig að ég gat ekki gengið). Maginn á mér er búinn að fá yfir sig af pensilíni og ég er fegin að þetta er búið í bili. En ég þakka Guði fyrir að við höfum aðgang að þessum lyfjum. Maður veit ekki hvað hefði getað gerst hefði ég ekki strax tekið pensilín þarna um nóttina. Núna erum við krakkarnir hress en Kristján er búinn að vera hundlasinn frá því á laugardag. Hann fór samt að kenna á Seminarinu í gær og í dag og er eitthvað að skríða saman. Ég vona bara að við getum verið frísk yfir jólin. Við ætlum að vera hér núna til 18. Des. fara þá í fjóra daga til Awasa og vera svo hér um jólin. Við förum svo líklega aftur suðureftir á milli jóla og nýjárs.
Krakkarnir eru komin í skólann aftur og alsæl að venju. Bekkurinn hans DagbjartsElí er að fra að sýna jólasöngleik núna í vikunni. Við vorum með lögin á kasettu heima svo hann er búinn að læra allt saman, eða svona það helsta allavega, og er alveg rosalega spenntur. Ég held ég sé ekki minna spennt að fara að sjá hann! Þetta á eftir að verða alveg hrikalega krúttlegt. Svo eru allskonar jólapartý og allt mögulegt um að vera í skólanum. Margrétar Helgu og Jóels bekkur tekur þátt í tónleikum. Svo er líka ýmislegt um að vera í norræna samfélaginu. Aðventumorgunverður á hverjum sunnudegi, julespill á Mekanissa, jóleikrit sem allir taka þátt í. Þá er sett upp fjárhúsog allir fá hlutverk. Þá er jólafrásagan lesin í bundnu máli og söngvar sungnir og það er meira að segja lifandi asni. Venjulega er er Jesúbarnið leikið af yngsta kristniboðabarninu en í ár er enginn með svona pínulítið barn svo það verður stór dúkka í staðinn. Davíð Ómar var Jesúbarnið fyrir tveimur árum og við Kristján, María og Jósef. Þetta er alveg æðislegt og kemur manni svo sannarlega í jólaskap.
Svo verða æfðir jólakórar fyrir guðsþjónustuna hér á aðfangadag. Bæði barna og fullorðins. Í ár stjórna ég bara barnakórnum þar sem það er annar tónlistarkennari hér líka sem tekur að sér fullorðins kórinn. Ég er mjög fegin því. Ekki svo oft sem ég hef fengið bara að vera í í kór síðan við komum hér út.
Kristján er að kenna á Seminarinu, seinni tvær vikurnar af námskeiðinu sem hann var að kenna síðast þegar við vorum hér. Við Davíð Ómar erum tvö heima og höfum það hugglegt saman. Við vorum nú eitthvað búin að baka að smákökum og svoleiðis í Voító en við ætlum aðeins að bæta við. Piparkökurnar voru bakaðar og skreyttar í Voító og rétt svo lifðu ferðina til Addis. Það voru einhverjar sem brotnuðu en þær eru alveg jafngóðar á bragðið. Piparkökuhúsið ætlum við að gera hér. Tók ekki sénsinn á að fara að ferðast með það þessa 600 km á misgóðum vegum! Krakkarnir voru búin að vera á fullu að búa til jólakort til nánustu ættingja sem send verða út fljótlega og skila sér vonandi. Þau voru mjög spennt að byrja á jólaundirbúningnum. Við komum frá Jinka 28. Nóvember og það fyrsta sem þau spurðu um þegar við renndum í hlað í Gisma var: Meigum við núna hlusta á Jóla- Ladda?"
Segi það í bili
Læt vonandi heyra frá mér fljótlega aftur.
Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast og æskumenn hníga en þeir sem vona á Drottinn fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki."
Jesaja 40: 29- 31
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2009 | 14:06
Enn er lagt í´ann
Förum til Arba Minch á morgun og þaðan til Voító á sunnudag. Biðjið endilega fyrir okkur. Það er ekki bara bara að ferðast hér í þessu landi þar sem allt er alltaf fullt af fólki og búfénaði á veginum. Mestur hluti leiðarinnar er á sæmilegum vegi en um 150km eru mjög slæmir. Þið megið líka biðja fyrir því að allt megi ganga vel í Voító, að við meigum vera frísk og verði forðað frá slysum og hættum.
Smá gullkorna að lokum:
Krakkarnir sem búa hér á lóðinni eru með allskonar dýr sem gæludýr m.a. hænur, dúfyr og kanínur. Jóel er mjög upptekinn af þessu.
Jóel: Mamma það var dauð hæna þarna úti
HVS: Nú hvernig drapst hún
JK: Hún bara dó. Hænur deyja bara svona upp úr þurru. Mamma hvernig fara Eþíóparnir eiginlega að því að halda lífi í hænunum?
...........................................
Jóel: Mamma við drápum mongoos.
HVS: Hverjir? Þið strákarni?
JK: Já
HVS: Nei nú ertu að bulla ´Jóel. Segðu mér nú satt, þið hafið ekkert getað drepið neinn mongoos.
JK:Jú víst, við bara drápum hann
HVS: Jóel ertu að segja satt?
JK: Jæja OK. Við SÁUM allavega monoos!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2009 | 11:29
Fréttir af fjölskyldunni í Eþíópíu framhald...
Starfið í Gisma gengur vel og við höfum fengið að upplifa mikla blessun núna undanfarið. Nýlega var kosin ný safnaðarstjórn sem við erum mjög ánægð með. Einn daginn komu nokkur úr söfnuðnum að máli við Kristján því þau vildu reyna að ná með fagnaðarerindið til fleira fólks í Voítódalnum. Kristján fór svo með þeim einn sunnudag og heimsótti tvö þorp hinum megin við fjallið. Konurnar höfðu sett saman lítinn kór og svo fóru þau til að tala við fólkið, uppörva þá kristnu og til að reyna að ná til fleiri. Vikuna á undan hafði Aseffa sem er evangelistalærlingur í Gisma, dvalið á þessum stöðum og verið með fólkinu.
Filló og Aseffa eru tsemaimenn sem eru komnir tilbaka eftir nám. Sirpa er ein af kristnu konunum í Gisma. Þessi þrjú hefur Guð kallað til að starfa meðal barnanna í Gisma. Þau komu til mín og sögðust vilja vera með í barnastarfinu. Þau túlka fyrir mig þegar ég tala við börnin og þegar ég er í burtu sjá þau um starfið. Fyrir mér er þetta stórkostlegt bænasvar. Frá því að við komum fyrst til Voító hef ég beðið fyrir því að Guð kallaði fólk til starfa meðal barnanna í Gisma. Ég hafði miklar áhyggjur af að enginn myndi taka við starfinu þegar við færum heim næsta sumar en svo gaf Guð mér frið fyrir því að hann myndi sjá um þetta og nú hefur hann sent þetta fólk.
Meira má lesa um þetta í næsta tölublaði Kristniboðsfrétta sem allir geta gerst áskrifendur að án endurgjalds (sjá http://www.sik.is/)
Fleiri fréttir af krökkunum:
Jóel var ekki fyrr búinn að póstleggja ástarbréf með bónorði til Júlíu vinkonu sinnar í Svíþjóð þegar hann skrifaði annað eins bréf til Sigrid Helene vinkonu Margrétar Helgu hér úti. Hún þurfti smá umhugsunartíma (svona hálftíma eða svo) en ákvað svo að slá til svo það var brúðkaup hér á laugardaginn!! Hann sagðist einu sinni ætla að eignast margar mömmur, átti við eiginkonur, svo hann fengi mörg börn! Það læra börnin það sem þau sjá í kringum sig. Í Voító eiga karlarnir jú fleiri en eina konu!
Eitt sinn þegar við sátum í bílnum komst eitthvað til tals þetta með Habesha (Eþíópa) og Ferenge (útlendiga) Ég spurði Jóel:"Hvort ert þú habesha eða ferenge?" Jóel:"Mamma þetta er allt of erfið spurning, ég get ekki svarað þessu."
Þetta er nú það sem er dæmigert fyrir mörk TCK (Third Cultural Kids) eins og það kallast þau vita ekki alveg hvar þau tilheyra, eru einhversstaðar mitt á milli. Dagbjartur Elí var hins vegar alveg með það á hreinu að hann væri habesha (Eþíópi) og Margrét Helga lagði áherslu á það að hún væri sko ferenge (útlendingur)! Þá vitið þið það!
Nú fer Addisdvöl að ljúka í bili. Við leggjum í hann til Arba Minch á laugardaginn og verðum svo koin til Voító á sunnudag.
Núna kemur með okkur kennari frá Bingham sem er yfir heimaskólanum (Homeschool coordinator) og ætlar að hjálpa mér aðeins með kennsluna. Hún verður hjá okkur í viku. Það verður gaman. Við komum svo aftur til Addis í kringum 6. des svo krakkarnir geti tekið þátt í jólaverkefnum í skólanum og Kristján klárar að kenna námskeiðið sem hann er að kenna á Seminarinu. Hvort við verðum svo i Addis eða í Awasa um jólin erum við ekki alveg búin að ákveða. Það verður ekkert frí ef við erum í Voító þannig að við verðum ekki þar um jólin en verðum þar um áramótin.
Það er því ekki við neinu bloggi að búast alveg næstu vikurnar en þangað til bið ég ykkur Guðs blessunar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2009 | 05:48
Nýjar fréttir af fjölskyldunni í Eþíópíu 1
Hér koma smá fréttir
Við erum núna í netsambandi í Addis svo loksins, loksins kom ég mér í að skrifa. Þetta kemur samt í allavega tveimur hlutum svo það verði ekki allt of mikið í einu. Njótið vel og endilega kvittið í gestabókina!
23. október 2009
Núna er ég loksins komin í sæmilegt bloggstuð svo það er best að koma sér að verki. Já þið verðið að fyrir gefa, ég hef verið eitthvað voðalega andlaus þessi fáu skipti sem ég hef verið í netsambandi og ekki fundist ég hafa um neitt skemmtilegt að skrifa. En nú er ég í Addis og því líkur léttir að koma í kaldara loftslag. Hitinn og rakinn í Woitó er búinn að vera alveg hræðilega erfið undanfarið svona eins og að búa í 40°heitu gróðurhúsi! Það hefur bara rétt og slétt verið erfitt að ná andanum stundum. Ég hef ekki upplifað akkúrat svona í Woító áður þótt ég geri ráð fyrir að þetta ´sé kanski ekkert óvenjulegt. Við erum búin að bíða eftir almennilegri rigningu LENGI en ekkert gerist bara þung ský sem bera með sér raka og kanski rignir pínulítið svo fer sólin aftur að skína og hitinn verður aftur óbærilegur. En kvöldið áður en við keyrðum núna til Addis rigndi aðeins meira en áður svo við biðjum og vonum að það sé komin almennileg rigning núna. Ef ekki fer að rigna almennilega getur ástandið orðið mjög erfitt. Uppskerubrestur og dýrin deyja, sem hefur ekkert annað í för með sér en hungursneyð. Það er því bænarefni að það komi rigning í Gisma. Það hefur rignt í nágrannaþorpum og bæjum en ekki akkúrat í Gisma.
Best ég byrji á byrjuninni. Ferðin út eftir frábært sumarfrí heima. Gekk vonum framar. Ég á svo yndisleg og dugleg börn, þó ég segi sjálf frá. Það er ekki sjálfgefið að sólarhrings ferðalag milli heimsálfa með fjörgur börn á aldrinum 2- 8 ára gangi svona vel. En við vitum líka að við erum ekki ein, við erum allan tímann í hendi Drottins.
Fyrstu vikurnar í Addis voru hins vegar erfiðar af ýmsum sökum sem ég ætla ekki að tíunda hér, enda eru þær að baki og með Guðs hjálp vinnum við það verk sem Hann hefur ætlað okkur hér.
Reyndar eitt af því sem kom eins og áfall var að Davíð Ómar veiktist fimm dögum eftir að við lentum í Addis. Hann kstaði stanslaust upp í heilan sólarhring og var svo alveg listar laus í marga daga. Svo sló út með því að hann var kominn með blóðugar hægðir daginn áður en við ætluðum suður til Woito. Það við frestuðum því ferðinni og fórum með prufur í ransókn. Ekker kom út úr þeim en daginn eftir var hann skyndilega frískur og hefur verið síðan. Er duglegur að borða og stækkar og dafnar. Fyrir okkur er þetta ekkert annað en blessun og stórt bænasvar.
Eins og ég sagði er loftslagið búið að vera erfitt eiginlega síðan við komum í byrjun sept. Stundum koma daga sem ég skil bara ekki hvernig ég á að fara að því að búa þarna og reyna að vera í fullri vinnu og óft langar mig met að gefast upp. En þá rífur Guð mig á fætur og hjálpar mér í gegnum þetta. Stundum hugsa ég, þetta er náttúrulega bilun, samtímis að kenna 3. Og 2. Bekk, forskóla og vera svo með 2 ára snúð sem heldur að hann geti allt og vill líka vera í skóla. Svo þarf líka að elda mat, baka, reyna að halda húsinu í horfinu og í viðbót við það að hafa stjórn á heimsóknum barnanna úr þorpinu. Að halda húsinu hreinu og í horfinu er nú bara kapítuli út af fyrir sig. Fyrir það fyrsta er það mjög opið til þess að allur sá litli andvari sem er í Voító komist örugglega inn en það hefur líka í för með sér að litlir sandstormar sem koma gjarnan sérstaklega í kirngum regntímann, fara beint í gegnum húsið sem þíði að allt inni verður loðið af ryki og sandi á tveimur mínútum. (Þetta gerist yfirleitt alltaf þegar ég er nýbúin að þrífa og skúra, eða allvega finnst mér það!) Svo á ég tvo litla gorma sem geta auðveldlega sett allt á hvolf á korteri. Málið er að þá fæ ég allavega smá frið til að kenna tveimur elstu svo þannig verður þetta bara að vera! Við ákváðum að færa skólann frá bílskúrnum og upp í húsið okkar, þannig að nú kenni ég bara í stofunni. Þá get ég líka sinnt einhverjum heimilisstörfum á meðan ef færi gefst og litlu strákarnir geta leikið sér inni í herbergi á meðan.
Ég þarf oft að minna mig að versið sem hangir í ramma yfir rúminu mínu sem ún systir mín gaf mér í kveðjugjöf þegar við fyrst fórum út:"Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir"
26.okt
Þá eru þau þrjú elstu farin í skólann, Kristján að kenna á Mekane Yesus seminarinu og við Davíð Ómar höfum það huggulegt hér saman. Ekki svo oft sem hann fær alla athygli mömmu sinnar óskerta.
En hvert var ég nú komin. Já ég er búin að lýsa svona nokkurnvegin aðstæðum okkar í Voító núna þótt það sé alltaf erfitt að gera það nákvæmlega með orðum. Það er sumsé allt gott að frétta af börnunum og okkur líka þótt hver dagur sé áskorun. Margrét Helga er alltaf sami lestrarhesturinn og ses oft tvær kaflabækur á einum degi. Hún hefur því miður kanski ekki mikið annað að gera þar sem það eru ekki margar stelpur sem hún getur leikið við í Gisma. Hún var í vor búin að eignast eina vinkonu en hún þarf oft að hjálpa mömmu sinni og vinna heima þannig að það er ekki oft sem þær geta leikið saman. Margrét Helga er reyndar mjög dugleg að hjálpa til heima líka. Henni finnst gaman að stússast með mér í eldhúsinu og er líka dugleg að passa minnsta bróður sinn. Hún kvartar ekki og virðist líða vel þrátt fyrir að það sé ekki mikið félagslegt umhverfi. Henni finnst gaman í skólanum og er íslenskan uppáhaldsfagið. Jóel hefur farið mikið fram í skólanum og er farinn að vera nokkuð sleipur í lestri og er meira að segja farinn að lesa líka á ensku. Annars finnst honum stærðfræðin skemmtilegust. Hann leikur mest við syni Dilló nágranna okkar og oft sjáum við hann ekkert frá hádegi og þar til komið er fram í myrkur. Ergama Dillóson er besti vinur hans og þeir bralla ýmislegt saman. Ergama býr til boga og örvar sem Jóel er að æfa sig í að skjóta af, svo eru þeir í því að búa til gildrur og reyna að lokka einhver dýr til sín sem ég kann ekki alveg nánari skil á. Stundum fær Jóel líka að fara með á kvöldin að sækja geiturnar upp í fjall. Dagbjartur Elí fær líka stundum að vera með þeim eða þá hann leikur við einhverja aðra strák sem koma í heimsókn. Margrét Helga og Jóel eru bæði farin að spila á blokkflautu og píanó og við reynum að æfa okkur saman reglulega. Um daginn héldu þau smá tónleika fyrir Hönnu sem er danskur kristniboði sem býr í Jinka. Dagbjartur Elí hefur mikinn áhuga á að læra stafi og tölur og vinnur í forskólabókunum sínum af kappi. Hann hefur líka sínar eigin lestrarbækur sem eru myndlestrarbækur. Það er mjög mikilvægt. Davíð Ómar vill líka vera í skóla og hefur sína eigin stílabók sem hann skrifar og litar í eins og hann vill. Þeir tveir yngstu eru orðnir voða duglegir að leika sér saman og reynda þau öll fjögur. Um daginn settu þau upp af eigin frumkvæði, leikrit um Dodda og félaga. Krúttlegasta leikrit sem ég hef séð held ég! Dagbjartur Elí sagði við mig um daginn:"Mamma, það er svo gaman að eiga svona marga krakka!" (Þar átti hann við systkini sín)
Framhald fljótlega.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2009 | 13:09
So long, farvel.....
Jæja, þá er þetta sumarfrí á enda. Við leggjum af stað héðan kl. 4:30 í fyrramálið, förum í loftið kl. 7:40, bíðum 10 tíma á Heathrow og lendum svo eftir næturflug, í Addis kl. 8:10 að staðartíma á föstudagsmorgun. (5:30 að íslenskum tíma). Þetta verður langt og strangt ferðalag en við vitum að englar Guðs vaka yfir okkur á leiðinni og margir sem biðja fyrir okkur. Þetta er búið að ver ayndilsegt sumar og hlökkum til að takast á við komandi ár. Það eru auðvitað blendnar tilfinningar við að vera að fara, alltaf jafnerfitt að kveðja, en nú er þetta ekki langur tími, verðum komin heim aftur um mitt næsta sumar.
Það er búið að vera mikið að gera þessa síðustu viku. Við héldum afmælisveislu fyrir krakkana á föstudaginn, svaka fjör, í kristniboðssalnum því það er víst ekki hægt að stóla á veður hér á Íslandi. Þetta var afmælisdagur Margrétar Helgu en hún var svo elskuleg að leyfa bræðrunum að eiga veisluna með sér því þeir eiga aldrei afmæli á Íslandi. Á laugardaginn hittust svo systkini mömmu ásamt afkomendum og var það svaka fjör líka. Svona mætti lengi telja, alls kona hittingur með vinum og ættingjum.
En nú höldum við af stað til Eþíópíu á ný. Þið megið muna eftir okkur í bænum ykkar, ferðin, skólinn hjá krökkunum starfið í Woító, já allt sem er framundan.
Drottinn blessi ykkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2009 | 13:16
Styttist í Eþíópíu á ný..
Nú er vika þar til við leggjum í hann á ný. Þetta er búið að vera frábært sumarfrí og gott að koma heim og fá að hvílast svona vel. Nú er ég eiginlega bara farin að hlakka til að fara út aftur. Planið er að við flytjum heim a.m.k í bili, næsta sumar svo nú er þetta ekki langur tími sem við verðum úti. Eitt ár líður alveg ótrúlega fljótt. Það er líka dýrmætt að fá að klára tímabilið með nýjum kröftum, ekki vera alveg búin á því á lokasprettinum. Við biðjum núna bara fyrir því að öll fjölskyldan fái gott ár í Eþíópíu og við meigum fara þaðan sátt og með góðar minningar. Við erum opin fyrir því að fara svo aftur út en það er ekki alveg ákveðið ennþá. allavega verðum við 1- 2 ár heima. Við erum líka alveg farin að vera tilbúin í það.
Nú er nóg að gera við að pakka, ég er búin að kaupa jólahangikjötið og ýmislegt fleira sem þarf að hafa með út. Dagurinn í dag fer í að undirbúa afmælisveislu. Margrét Helga verður 8 ára á morgun en hún leyfir bræðrum sínum líka að eiga afmælisveisluna með henni þar sem þeir eiga aldrei afmæli á Íslandi. Það verður svaka fjör!
Ett gullkorn í lokin:
Dagbjartur Elí er með mjög stóra hálskirtla og hrýtur því mjög mikið. Ég hef látið lækni kíkja á hann til að meta hvort taka þyrfti kirtlana sen það þarf nú vonandi ekki. Við vorum svo að lesa Tumi fer til læknis um daginn og þar skoðar læknirinn í hálsinn á Tuma, þá fékk ég þessa spurningu frá hnoðranum:" Mamma hrýtur hann?"
"Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Fyrir því hæðumst við eigi þótt jöðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins" Sálm.46:2-3
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2009 | 12:53
Frónið fagra!
Bara smá fréttir af okkur.
Við erum búin að eiga alveg yndislegt sumarfrí hér heima og höfum náð að slaka vel á og uppbyggjast bæði andlega og líkamlega. Nú fer að styttast í brottför á ný og eigum við bókað flug út 20. ágúst og erum bara farin að verða tilbúin að takast á við þetta síðasta ár í bili.
Það sem stendur upp úr hjá mér eftir þetta sumar að ég hef fengið að uppbyggjast og uppörvast í trúnni, eitthvað sem ég þurfti mjög á að halda. Við áttum góða daga á Löngumýri með kristniboðsvinum og svo fékk ég gott tækifæri til að syngja með Gospelkór Reykjavíkur, æfingar, brúðkaupið hans Sigga Bjarna og síðast en ekki síst tónleikar með André Crouch í Kirkjulækjarkoti núna um verslunarmannahelgina- stórkostlegt hreint út sagt og ég á eiginlega bara ekki orð tið að lýsa því!
Við höfum líka haft góðan tíma með vinum og fjölskyldu þó svo að margir hafi verið á flakki vegna sumarfría og enn einhverjir sem við höfum ekki náð að hitta. En nú er ekki svo langt þangað til við komum aftur til að vera og þá verður tími til að endurnýja gömul kynni.
Við erum búin að fara í sumarbústað tvisvar, skruppum í Skóginn um verslunarmannahelgina þar sem ég (meðal annarra) hljóp í skarðið fyrir Keith Reed, sá um barnakór sem var bara mjög gaman, fórum eins og áður sagði á Löngumýraramót og bara margt fleira. Krakkarnir hafa unað sér vel, notið þess að fá að vera með ömmum og öfum og frændsystkinum, farið í bíó, leikhús, Húsdýragarðinn og svo mætti áfram telja.
Veðrið er búið að vera frábært, gott fyrir okkur Afríkubúa sem erum vön hitanum, það á eftir að verða spennandi að upplifa vetur hér aftur!
Verið Guði falin!
"Verið ávalt glaðir í Drottni, ég segi aftur, verið glaðir!" Fil.4:4
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2009 | 17:52
Komin heim
Jamm og jæja!
Pabbi var að benda mér á að það eru alltaf einhverjir að detta inn á síðuna svo ég ætti nú kanski að henda inn smá fréttum af okkur. Reyndar var ég búin að skrifa helling sem ég ætlaði að setja inn þegar við vorum í Addis síðast en þá var alltaf rafmagnslaust og ekki hægt að komast á netið svo ekkert varð af því.
Við komum ss. heim 26. maí eftir sólarhrings ferðalag, þremur vikum fyrr en áætlað hafði verið vegna veikinda Davíðs Ómars. Það var nefnilega þannig að hann fór að kasta upp blóði og við brunuðum í flýti til Arba Minch. Þetta var í kringum 10. maí. Þegar þetta gerðist var Kristján akkúrat að heimsækja evangelistana hinum megin við fjallið og það tók mig smá tíma að ná í hann. Ég náði í lækninn okkar í Addis sem sagði okkur að koma honum undir læknis hendur sem fyrst. Ég náði loks í Kristján og við mættumst í Bíræle og fórum svo til Arba Minch þar sem Bernt Lindtjörn, norskur læknir er starfandi. í fyrstu vorum við að velta fyrir okkur að ég kæmi bara með hann heim með næstu vél en þetta var ekki eins alvarlegt og það leit út fyrir. Það var reyndar ekkert hægt að rannsaka mikið þarna í Arba Minch en eftir nokkurra daga bið ákváðum við að fara í nokkra daga aftur til Woító og svo öll saman heim. Það var í samráði við Kjell Magne Kiplesund lækni NLM að ákveðið var að við færum fyrr heim svo Davíð Ómar fengi lengri tíma hér heima þar sem hann væri ekki útsettur fyrir amöbum og sýkingum. Hann hefur meira eða minna verið lasinn í maganum frá því hann fæddist og af þeim sökum ekki vaxið eðlilega. Hann hefur aldrei náð að jafna sig almennilega á milli og því ekki nærst eðlilega. Hann fór beint í rannsóknir hér þegar við komum heim uppi á barnaspítala en ekkert kom út úr þeim nema að það er einhver smá röskun á einu vaxtarhormóni sem stafar af því að hann hefur ekki nærst eðlilega á einhverju tímabili. Það er ekkert alvarlegt og ekkert til að hafa áhyggjur af en verður samt tékkað aftur næsta sumar.
Við erum ss. búin að vera hér í næstum mánuð og alveg ótrúlega kærkomin hvíld. Við vorum orðin mjög þreytt og lúin og þakklát fyrir að fá að koma heim til að hlaða batteríin fyrir síðustu törnina úti í bili. Það var mikið álag að flytja og venjast breyttum aðstæðum í Woító auk þess sem hlutir eins og veikindi Davíðs Ómars, sorgarferli Dagbjarts Elí og ísskápsleysi gerðu ekki hlutina auðveldari.
Við höfum mikið verið með fjölskyldum okkar þessar fyrstu vikur og erum svona að vinna í að reyna að hitta sem flesta vini og kunningja. Það er alveg ótrúlega gaman að hitta alla aftur og gott að þurfa ekki að vera í stressi þar sem við verðum hér alveg til 20. ágúst. Það er ótrúlega notalegt að geta opnað ísskáp og fengið sér mat og geta skroppið út í búð ef mann vantar eitthvað, geta gengið næstum hvert sem mann langar til, farið í sund, borðað ís osfr. þvílíkur lúxus!!
Við búum heima hjá foreldrum mínum svo hægt er að hafa samband við okkur þangað.
Reyni kanski að láta í mér heyra eitthvað svona þegar líður á sumarið, kanski maður fari að skoða þessa fésbók eitthvað líka sem er algjörlega ný tækninýjung fyrir mér!
Eigið gott sumar og njótið þess að búa á þessu góða og fallega landi sem Guð hefur gefið okkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2009 | 07:07
Gleðilegt sumar!
23. apríl
Það er farið að líða alltaf lengra og lengra á milli þess sem ég skrifa svo ég ætla ekkert að vera að afsaka neitt eða lofa neinu fögru. Það er bara svona. Mikið að gera og mikil ferðalög, lítið um netsamband og svo framvegis.
Ég vil byrja á að þakka fyrir góðar kveðjur á síðuna. Það er alltaf uppörfandi þótt það sé bara stutt kveðja að fá smá lífsmark frá vinum og vandamönnum. Það má líka alltaf senda okkur tölvupóst bara muna engin stór sköl eða viðhengi eða fjöldapóst því þá stíflast allt hjá okkur.
Það hefur gengið á ýmsu síðan ég skrifaði síðast. Það sem hefur kanski sett mestan svip á síðustu vikur er að við lentum í bílslysi. Þ.e. við lentum í að keyra á komu þegar við vorum á leiðinni til Woító eftir nokkra frídaga í Jinka. Ég hef oft hugsað að það sé eiginlega ekki spurning hvort heldur hvenær þetta myndi gerast því það er fólk allsstaðar og það er eins og fólkið hér skynji ekki hættuna sem stafara af bílum, hvort sem það er að keyra þá, sitja sem farþegi eða gangandi vegfarandi. Fyrstu viðbrögðin voru auðvitað að ahuga hvort það væri í lagi með konuna. Að sjálfsögðu fylktist fólk að úr öllum áttum og þegar svona gerist verða viðbrögð fólks svo ofsafengin hér. Ég held að það hafi sjokkerað krakkana mest hvað fólkið í kring var æst og reitt. M.a. var maður sem beindi boga að Kristjáni og margir voru tilbúnir með grjót í höndunum. Það er næstum eins og fólk skilji ekki að þetta var slys og ekki gert með ásetningi. En við tókum konuna upp í bílinn og keyrðum með hana beina leið aftur til Jinka á spítalann þar sem Sverrir Ólafsson (sonur Jóhannesar Ólafssonar kristniboðslæknis) læknir tók á móti okkur. Hann skoðaði konuna og í ljós kom að hún var algjörlega ósködduð, ekki ein skráma. Við lofum Guð fyrir það og lítum á það sem hreint kraftaverk. Við gistum svo bara aftur í Jinka. Kristján keyrði svo konuna heim ásamt Sverri og tveimur lögreglumönnum. Kristján þurfti auðvitað að gefa skýrslu um það sem gerðist. Ég var með krakkana á gestahúsinu í Jinka og þau voru dáldið óróleg, sérstaklega Margrét Helga sem hélt að einhver ætlaði að gera pabba eitthvað ill. Kristján kom svo loks til baka eftir að hafa farið með konuna heim til sín og sagði þá Margréti Helgu að hann hefði hitt aftur manninn sem beindi boganum að okkur og þeir höfðu faðmast. Þá róaðist hún aðeins. Þegar svona gerist hugsar maður ósjálfrátt um eigið skinn. Við höfum heyrt margar sögur af fangelsisvistunum og dómsmálum í kjölfar slysa sem þessa og það er ekkert grín að lenda í svoleiðis hér. En það er allt útlit fyrir að þetta mál sé búið og við lofum Guð og þökkum fyrir það. Áfallið kom síðan eiginlega ekki fyrr en nokkrum dögum seinna. Ég var mjög langt niðri um tíma en það hjálpaði að tala við mömmu og pabba og fleiri heima. Þetta var erfiður tími fyrir okkur bæði og ekki hjálpar að við erum farin að finna fyrir mikilli þreytu svona almennt. En við ákváðum síðan að fara nokkra daga til Awasa áður en við komum hingað til Addis núna til að aðeins slappa af og það var sko sannarlega gott. Bara daginn sem við komum til Awasa leið mér betur og er bara í góðu jafnvægi núna. Við erum líka farin að hlakka til að koma heim í frí í sumar. En við erum líka þakklát fyrir að fá að búa og starfa í Woító þó það sé langt frá því að vera auðvelt en við fáum svo sannarlega að finna og upplifa nærveru Guðs og varðveislu í stóru sem smáu. Við höfum fengið að upplifa bænasvör varðandi börnin okkar núna mjög áþreifanlega. Dagbjartur Elí sem átti svo erfitt í haust og alveg fram að jólum er eins og nýtt barn, hann er orðinn svo öruggur með sjálfan sig, svo duglegur í leikskólanum og sáttur heima í Woító. Asnakú er núna hjá okkur og passar Davíð Ómar þessar tvær vikur sem við verðum í Addis. Dagbjartur Elí fer í leikskólann á morgnana og hittir svo Asnakú þegar hann kemur heim. Það að hann fer glaður í leikskólann vitandi af Asnakú hér sýnir bara hvað hann er sáttur og öruggur. Svo hleypur hann fangið á Asnakú sinni þegar hann kemur heim! Ég var búin að hafa áhyggju af Margréti Helgu undanfarið því hún grét mikið og sagðist ekki vilja fara aftur á Bingham því hún ætti enga vini og allt væri svo erfitt og erfitt að skilja. En það hefur allt gengið eins og í sögu. Það er svo gaman hjá henni í skólanum og gaman að ver með hinum stelpunum og ekkert vandamál með námið. Það er mikill léttir fyrir okkur hvað þeim líður vel og gengur vel.
30. apríl
Jæja best að reyna að klára þetta áður en við förum aftur suðureftir. Netið lá niðri hér í næstum heila viku þannig að ég hef ekkert verið að flýta mér að skrifa.
Við höfum notið þess mjög vel að vera í Addis núna í þetta skipti. Allir nokkurnvegin frískir sem hefur aldrei gerst áður í Addis ferðum. Bara eitthvað smá kvef, svo er líka ekki eins kalt núna hér. Á mánudag förum við svo til Arba Minch og þaðan áfram til Voító þar sem við verðum í um 4 vikur áður en við komum svo heim á klakann.
Ég reyni að senda lífsmark frá okkur áður en af því verður en eins og ég sagði lofa ég engu...
Því að þín vegna býður hann út englun sínum, til þess að gæta þín á öllum vegum þínum" Sálm. 91:11
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar