Borta bra men hemma bäst...

Þá erum við komin heim  aftur. Er reyndar að verða heil vika síðan en ég hef bara ekki komið mér að því ennþá að skrifa. Ætli ég byrji ekki bara á að skrifa ferðasöguna svo þið fáið aðeins innsýn í þessa fínu ferð sem við fengum. Við lögðum af stað á þriðjudagsmorgni til Awasa þar sem við þurftum að skipta þar um bíl. Bíllinn okkar er orðinn gamall og lúinn og ekki alveg hægt að treysta honum í svona langferð á misjöfnum vegum. Jorunn Sörbö, sem býr í Awasa er hins vegar á betri bíl og féllst á að skipta við okkur þennan tíma þar sem hún þurfti ekki að keyra á neinum torfæruvegum. Við gistum því eina nótt í Awasa svo við gátum aðeins skolað af okkur þar og kælt okkur í sundlauginni. Morguninn eftir var svo förinni haldið til Arba Minch þar sem við ætluðum einnig að gista eina nótt áður en lengra væri haldið. Það tekur ekki nema u.þb. fjóra til fimm tíma að keyra þangað frá Awasa svo við þurftum ekkert að leggja eldsnemma af stað. Það var gaman að koma aftur til Arba Minch. Gulli frændi og fjölskylda bjuggu þar síðasta tímabilið sem þau voru hér úti og voru þar einmitt þegar ég var hér fyrir 11 árum. Ég var því oft hjá þeim í fríum og hélt m.a. jólin þar með þeim. Húsið sem þau bjuggu í er nú notað sem gestahús fyrir NLM kristniboða svo við gistum þar. Þetta var nú stutt stopp því við þurftum að fara snemma af stað því við höfðum hugsað okkur að fara beina leið til Omo Rate sem er um 8 tíma akstur. Þar sem við höfum ekki keyrt þessa leið áður (þ.e.a.s. ein, ég fór þangað fyrir 11 árum) þá var mikilvægt að vera nógu snemma til að vera komin fyrir myrkur til Omo Rate.  Raggi hafði gefið Kristjáni lýsingu á leiðinni svo það gekk greiðlega að komast á leiðarenda. Á leiðinni, ekki löngu áður en komið er til Turmí sem er næsta þorp við Omo Rate er á sem getur verið varhugaverð. Ef vatn er í ánni er ekki ráðlegt að keyra yfir nema maður sjái aðra bíla komast klakklaust yfir. Þegar við komum að ánni mátti glögglega sjá hvers megnug áin er. Tveir stórir trukkar voru sökknir djúpt ofan í jarðvegin sem hefur verið blautur þegar þeir reyndu að komast yfir. Það var örlítið rennsli í ánni þegar við komum að en við vorum ekki alveg viss hvað við áttum að gera svo við biðum aðeins. Kristján fór út og kannaði jarðveginn. Það varð fljótt steikjandi hiti í bílnum en eftir smá vangaveltur hugðum við að það væri óhætt að fara yfir. Við lögðum þessa keyrslu í Guðs hendur og létum svo vaða og komumst heil yfir.  Við komum svo til Omo Rate um  fjögurleitið um eftirmiðdaginn og fengum góðar móttökur hjá Kíu og Ragga. Það hefur rignt óvenju mikið þarna suðurfrá að undanförnu þannig að umhverfið var allt miklu grænna en þegar ég kom þarna fyrir nákvæmlega 11 árum síðan. Í minningunni hjá mér er þetta hálfgerð eyðimörk. Þá fór hitinn í 47 gráður í skugga og allt var skrjáfþurrt og fullt af ryki. Á meðan við vorum þarna fór hitinn aldrei yfir 36 gráður. Mér fannst gaman að sjá breytingarnar á kristniboðsstöðinni. Það hefur verið plantað talsvert af trjám svo nú er skuggsælla en var og húsin eru auðvitað mikil breyting. Þau eru byggð þannig að það loftar vel í gegnum þau. Það er oftast einhver smá gjóla sem er mjög nauðsynleg til að kæla niður! Við vorum í Omo Rate í viku og fengum að upplifa heilmargt. Kristján fór mikið með Ragga og hjálpaði til við hin ýmsu verkefni en ég var meira heima með Kíu og krökkunum. Ég þurfti að fara varlega fyrstu tvo dagana vegna hitans og passa að drekka nóg og hvíla mig. En það tók ekki langan tíma að venjast og mér leið t.d. betur í bakinu en nokkru sinni fyrr! Krakkarnir undu sér við leik og fannst frábært að þurfa ekki að vera í neinu nema nærbuxum. Minnsti maðurinn var reyndar dáldið plagaður af hitabólum en það var farið í sturtu minnst einu sinni til tvisvar á dag. Ég fór nú oft upp í þrisvar sinnum þar sem ég er með ”extra termo” innvortis núna!! Við fórum út á bát á krókódílavatninu, eins og krakkarnir kölluðu það. Það er ss. Ómó áin. Hún er reyndar full af krókódílum en þeir eru skíthræddir við mótorinn í bátnum svo okkur varð ekki meint af.  Svo fórum við á sunnudeginum í guðsþjónustu til Kambútsía sem er þorp í um 15 mín akstursfjarlægð frá kristniboðsstöðinni,. Guðsþjónustan fór fram á dasenetsj máli en predikunin á amharísku og var svo túlkuð yfir á dasenetsj. Við gátum því aðeins fylgst með (þ.e. amharískunni!) Mér fannst skemmtilegast að heyra sönginn. Tónlistin þarna er talsvert ólík tónlist Amharanna sem við heyrum hér í Addis og líkist eiginlega meira tónlist pókotmanna í Keníu. Á þrettándakvöld var okkur boðið í mat til Marie Amitzböll sem er danskur hjúkrunarfræðingur sem hefur starfaðí mörg ár þarna suðurfrá. Þar fengum við dýrindis danskt rúgbrauð og fínerí. Eftir matinn fórum við svo á stúlkna heimavistina sem er á lóð stöðvarinnar þar sem Raggi skaut nokkrum blysum við mikla kátínu stúlknanna. Á eþíópsku jólunum var okkur svo boðið að borða injera og wodd (þjóðarréttinn) á heimavistinni. Heimavistin var sett á stofn af Marie fyrir nokkrum árum til að auðvelda stúlkum skólagöngu. Þarna búa um 25 stúlkur á aldrinum 7- 15 ára og fá þarna föt og mat og fara svo í skóla í bænum. Þetta voru alveg sérlega prúðar og indælar stúlkur og gaman að hitta þær. Eftir vikudvöl í góðu yfirlæti hjá Schram- fjöslkyldunni ákváðum við að halda af stað til baka til Addis. Harpa þurfti líka að fara að byrja í skólanum svo við vildum ekki vera til trafala. Þetta var líka búnn að vera alveg frábær tími og við vorum þakklát fyrir að hafa getað náð að heimsækja þau þar sem þau flytja heim til Íslands í sumar. Margrét Helga spurði hvort við Kristján gætum ekki bara farið heim með Dagbjart Elí, hún og Jóel gætu bara verið eftir. Jóel var nú ekki alveg á því, er svoddan mömmus! En það tókst nú að fá hana með til baka. Það er er alveg frábært að fylgjast með samtölum hennar og Friðriks Páls því þau eru alltaf að plana framtíðina. Þau ætla sko að giftast þegar þau verða stór. Þau tala samt aldrei um að þau séu kærustupar eða neitt í þá áttina. Þetta er bara plan fyrir framtíðina! Jæja við fórum svo af stað til Arba Minch á miðvikudagsmorgni. Á leiðinni stoppuðum við aðeins í Gisma í Voito þar sem Gulli og Vallý hófu starf fyrir, ætli það séu ekki að verða hátt í 20 ár síðan. Eins og er eru engir kristniboðar á stöðinni og og hefur hún aðeins látið á sjá finnst mér. En það var gaman að koma þarna aftur og sjá aðeins og líka fyrir Kristján sem aldrei hefur komið þarna. Við fengum okkur nesti þar með slatta af áhorfendum af sjálfsögðu en vildum svo flýta okkur áfram til að ná til AM fyrir myrkur. Stuttu eftir að við keyrðum út af kristniboðsstöðinni í Voito komum við að bómullarakri. Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema hvað vatni er veitt á þennan akur sem svo safnast saman og rennur út á veginnn á einum stað. Þegar við komum að ”pollinum” (ætti frekar að segja ánni) sátu þar fastir tveir stórir vörubílar. Nú voru góð ráð dýr, áttum við að reyna að komast yfir eða áttum við að bíða í hitanum. Kristján fór út og athugaði málið og við ákváðum svo að láta á reyna. Ekki vildi betur til en svo að við komumst ekki alveg yfir og bíllinn pikk festist í drullunni sem er ekkert venjuleg hér úti (ekki skrítið að þessi jarðvegur sé notaður til að byggja úr hús!) Fljótlega hópuðust að fjöldi stráka á öllum aldri og fóru að biðja um peninga til að hjálpa. Þeir voru í fyrstu mjög agressívir og vildu ekkert gera nema við myndum borga þeim góða summu. Okkur tókst nú síðan að útskýra fyrir þeim að við værum ekki ríkir túristar heldur kristniboðar og að við þekktum Elsu (Lintjörn) Þá kom nú annað hljóð í strokkinn. Þeir vissu nánast allir hver Elsa var og héldu reyndar sumir að ég væri hún! Við vorum meira að segja á bílnum sem hún hafði úti hér síðast. Þess má geta að þeir töluðu ekki mikla amharísku en einhernvegin gátum við haft smá samskipti við þá. (Elsa Lindtjörn er norskur hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað lengi í Voito og m.a. í mörg ár með Gulla frænda og fj.) Nú fóru þeir að reyna að moka, aðallega með höndunum og svo reyndu þeir að ýta bílnum,áræðanlega tuttugu manns en ekkert gekk. Það var orðið verulega heitt í bílnum, lofthitinn úti vel yfir 30° og  kemst því fljótt yfir 40°inni. Krakkarnir voru orðin hálfskelkuð greyin og farin að gráta en ég reyndi að róa þau eins og ég gat. Kristján var farin að telja í huganum hversu mikið við værum með af vatni ef við þyftum að vera þarna einhvern tíma. Ég bara bað í Guð að senda enhvern til að hjálpa okkur. Við gátum ekki haft samband við neinn því ekki er farsímasamband á þessum slóðum og enginn vissi nákvæmlega hvar við vorum. Við þurftum samt ekkert að bíða mjög lengi þar til það komu bílar úr báðum áttum, Izuzu flutningabílar og gat einn þeirra dregið okkur uppúr- Guði sé lof! Við þurftum auðvitað að borga þeim fyrir en við hefðurm næstum borgað hvað sem var til að losna úr þessu. Þetta er ekkert grín með þrjú lítil börn og kasólétta konu!! En allt fór vel og við náðum þrátt fyrir allt til Arba Minch fyrir myrkur. Þar gistum við eina nótt. Áður en við héldum áfram til Awasa stoppuðum við í krókódílagarðinum í AM. Krakkarnir hafa beðið eftir því að fara þangað síðan við komum hingað út því þau sáu einhverntíma myndir sem ég ég hafði tekið þar og fannst það voða spennandi. Þetta er ss. Krókódílabúgarður og eru skinnin af þeim seld til Grikklands. Þarna eru krókódílar af öllum stærðum og líka slöngur (anacondur) til sýnis. Svo var bara förinn heitið til Awasa þar sem við vorum búin að ákveða að vera í nokkra daga áður en við héldum heimleiðis til Addis. Í Awasa hittum við svo sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson dómkirkjuprest sem er hér í skoðunarferð. Hann hefur boðið fram krafta sína á kristniboðsakrinum í 2-3 mán. á ári eftir að hann kemst á eftirlaun og er því að skoða aðstæður og spjalla við kristniboða og reyna að finna út hvar og hvernig kraftar hans geta sem best nýst. Hann var í Awasa að bíða eftir fari til Ómó Rate og ætlar svo að koma hingað aftur með Kíu og Ragga á miðvikudaginn. . Það var mjög gaman að hitta hann og spjalla. Aldrei leiðinlegt að hitta Íslendinga. Við áttum góða og afslappaða daga við sundlaug og sólböð í fimm daga áður en við hérldum heim á leið. Það var nú gott að koma heim þótt þetta hefði verið mjög gott ferðalag. Við ákváðum að leyfa svo húshjálpunum að vera bara í fríi þar til í dag þar sem við byrjuðum ekki að vinna fyrr. Það er stundum ágætt að vera bara fjölskyldan heima. Þótt það sé ótrúlegur lúxus að vera með húshjálpir og þær séu alveg frábærara getur það líka stundum verið álag að vera alltaf með fólk á heimilinu. Það var samt gott að fá þær aftur í dag og krakkarnir tóku þeim fagnandi. Á föstudaginn ákváðum við að gera okkur dagamun og skruppum í tívolí, nýjan skemmtigarð sem var verið að opna. Krökkunum fannst voða gaman. Þarna voru hringekjur, klessubílar, boltaland og hoppukastali svo eitthvað sé nefnt. Eftir það var okkur boðið í kaffi á Casa Inces þar sem við hittum fleiri Íslendinga, Jóhannes Ólafsson og Margréti dóttur hans og dætur hennar tvær Áslaugu og Ingunni. Þær komu með sendingu frá Íslandi, hangikjöt, flatkökur og fleira sem við kunnum vel að meta. Mamma og pabbi fengu að nota ferðina og sendu með þeim. Þær mæðgur voru svo í mat hjá okkur á laugardag. Jóhannes og Kari kona hans voru orðin eitthvað lasin en vonandi orðin hressari þar sem þau ætluðu að leggja af stað til Awasa í dag. Í gær fór ég að spila í kirkjunni en Kristján var heima með krakkana þar sem Dagbjartur Elí var hálf slappur. Hann er með hrikalegt kvef og var búinn að vera með smá hita. Þegar ég kom heim fékk ég þær sorgrfréttir að litla kanínan hún Karin (sem hét fyrst Brói) væri dáin . Þau höfðu bara komið að henni hreyfingarlausri í búrinu. Kristján hafðu hjálpað þeim að grafa hana og nú er lítið leiði í garðinum með krossi. Þau voru nokkuð fljót að jafna sig í gærmorgun en svo í gærkvöld hágrétu þau bæði yfir að vera búin að missa litlu kanínuna sína. Það endaði með því að ég þurfti að sitja hjá þeim þar til þau sofnuði bæði í Jóels rúmi. Við vitum ekki hvað varð henni að bana en svona er þetta stundum. Þetta var voða sorglegt, hún var svo sæt og þau voru voða dugleg að knúsa hana og passa hana. Við sjáum hvort við fáum aðra seinna en við látum nú kanski líða smá tíma. Svona er lífið. Í gær fengum við líka góða gesti í mat. Ann Kristin og Geir vinir okkar sem voru með okkur á Fjellhaug voru að koma frá Noregi eftir að hafa eignast lítinn dreng. Hann hefur fengið nafnið Joel André. Hugmyndin af nafninu er komið frá Jóel okkar og er Jóel voða stoltur yfir því. Þetta er mjög sjaldgæft nafn í Noregi og segja þau að margir hafi hváð og spurt út í nafnið þegar þau voru þar. Fjölskyldan þeirra var alveg steinhissa yfir nafninu! Jæja í dag byrjaði svo alvara lífsins, eða átti amk. að gera það. Það mætti nú enginn í tíma hjá mér en ég fékk svo upplýsingar um að það væri skráning í gangi svo þess vegna myndi enginn mæta. Kristján komst líka að því að hann fær nýja stundatöflu og átti því að kenna frá kl. 11 í stað þess að kenna frá kl. 8:00. Svona upplýsingum þarf maður bara að komast að eftir krókaleiðum hér á bæ!! Ekki alveg sömu vinnureglur og skipulag og maður á að venjast að heiman. Ég er hætt að kenna á norska skólanum nema ég verð með barnakórinn eitthvað áfram. Það er yfirdrifið nóg af kennurum þar núna svo það hentaði skólanum bara betur að ég hætti um áramót heldur en að ég kenndi fyrsta eða fyrstu tvo mánuðina. Mér finnst það fínt. Mér veitir ekkert af að hafa smá tíma til að hvíla mig auk þess sem nóg er af verkefnum hér heima. Ég ætla líka að herða dáldið á lestrarkennslunni fyrir krakkana þar til barnið fæðist, reyna að hafa skólatíma svona þrisvar í viku í staðinn fyrir einu sinni svo við náum allvega að komast yfir að kynnast öllum stöfunum. Að lokum langar mig að biðja ykkur að biðja fyrir atvinnuleyfismálum. Eins og er er erfitt fyrir alla útlendinga að fá atvinnu og dvalarleyfi. Okkar leyfi rann út 29. des og er starfsmaður krsitniboðsins hér úti að vinna í að fá það endurnýjað, eins og er erum við án atvinnuleyfis en hugsanlegt að við getum allvega fengið ferðamannaáritun allavega í einn mánuð í einu. Á föstudaginn þurfti ein norsk sex manna fjölskylda að fara til Keníu þar sem ekki tókst að fá atvinnuleyfi fyrir þau. Þau koma heim í kvöld og fá keypt ferðamanna áritun á flugvellinum hér vonandi í þrjá mánuði en kanski bara einn. Þið megið biðja fyrir þessu og gjarnan sérstaklega fyrir okkur þar sem ég get ekkert farið að fljúga neitt fram og til baka á næstunni. Ef við þurfum að fara úr landi þýðir það líka lengri tíma fyrir okkur því við getum ekki keypt visum á flugvellinum hér eins og Norðmennirnir þar sem það er ekkert íslenskt sendiráð í landinu. Þetta vandamál á við um alla útlendinga í landinu, ekki bara kristniboða og virðist fyrst og fremst vera vegna ósættis milli tveggja ráðuneyta hér í landinu þótt maður hafi heyrt ýmsar aðrar skýringar líka.Ætli ég fari ekki að segja þetta gott, þetta er orðin svoddan langloka. Ég vona samt þið hafið haft gaman af lestrinum, allvega þeir sem nenna að lesa þetta allt saman! Ég reyni svo að senda myndir við fyrsta tækifæri, þarf helst að gera það að nóttu til þegar lítil traffík er á netinu hér.Bið Guð að blessa ykkur öll”Því þín vegna bíður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum..” Sálm 91:11

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við óskum ykkur velkomin til baka. Gaman að heyra ferðasöguna og hve Drottinn lét rætast vel úr vanda ykkar í ferðinni. Við munum biðja fyrir ykkur og taka með þau bænaefni sem þú nefndir.

Kveðja með þakklæti fyrir að fá að fylgjast svona vel með ykkur Ingibjörg og Sigursteinn 

Sigursteinn Hersveinsson (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband