14. marsJæja, þá er maður aðeins að komast niður á jörðina eftir allt saman. Þetta var erfiðasta og skrítnasta fæðing sem ég hef gengið í gegnum en mér skilst að það sé oft þannig með þriðja eða fjórða barn. En þetta fór allt vel að lokum og við erum öll að hressast. Ég sem sagt byrjaði að missa vatnið á miðvikudagskvöld. Allar mínar fæðingar hafa byrjað svoleiðis þannig að það kom svo sem ekkert á óvart. Það sem ég var hins vegar að vona var að ég færi sjálf í gang með sótt eins og þegar ég átti Dagbjart Elí. Með bæði Margréti Helgu og Jóel þurfti dreypi til að koma sóttinni almenilega í gang en þá var ég samt komin með sæilega góða útvíkkun svo það tók bara stuttan tíma. Núna var hins vegar eitthvað allt annað í gangi. Við ákváðum í samráði við ljósmóðurina að bíða og sjá, ég fékk hjá henni töflur sem áttu að hjálpa til við að koma af stað samdráttum og byrjaði að taka þær á föstudagsmorgun. Ég var með veika samdrætti allan daginn en svo datt allt niður um nóttina. Það var því ákveðið að ég fengi dreypi á laugardagsmorguninn þar sem þá voru liðnir á þriðja sólarhring frá því vatnið byrjaði að leka og alltaf hætta á sýkingu. Áætlanir um heimafæðingu fóru því lönd og leið þar sem fæðing með dreypi verður að fara fram á spítala undir eftirliti lækna og í mónítor . Við lögðum af stað heiman frá kl. hálfátta á laugardagsmorgun. Á leiðinni bilaði svo auðvitað bíllinn, eða þ.e.a.s. hann ofhitnaði. Við renndum inn á næstu bensínstöð og ætluðum að fá vatn en var tilkynnt að það væri vatnslaust, ekki einu sinni hægt að kaupa drykkjarvatn á flösku! Það reyndist nú síðan bara einhver misskilningur og fengum við vatn á bílinn sem dugði til að komast á spítalann. Asnakú, barnapían okkar var heima með krakkana. Hún er sko búin að vera betri en enginn siðustu daga. Kl. 9:30 var svo dreypið komið af stað. Þetta gekk hægt í byrjun og ég fékk litla verki. Það sem var líka furðulegt við þetta allt saman miðað við fyrri fæðingar var að ég var ekki komin með nema 1 cm í útvíkkun. En við höfðum svo sem ekki mikið val þar sem svo langt var liðið frá því vatnið fór að fara. Hér í landinu eru reglur um að setja af stað eftir 8 klst. En í samráði við Reginu ljósmóður ákváðum við að bíða eins og gert er í okkar heimalöndum ef allt lítur vel út. Læknarnir á spítalanum voru að sjálfsögðu gapandi yfir þessu en þeir eru held ég vanir að Regina fari sínar eigin leiðir. Jæja en ég sem sagt fékk dreypi og hélt að ég yrði bara komin heim fyrir kvöldmat en það var nú aldeilis ekki. Það leið á daginn og svo fram á kvöld. Útvíkkunin gekk ekki neitt og sóttin var alltaf að detta niður þrátt fyrir að dreypið væri í botni. Ég var orðin mjög þreytt og úrkula vonar þegar komið var fram á kvöld. Ég hafði ekkert sofið nóttina áður og nú var farið að nálgast miðnætti. Regina hafði samband við yfirlækni kvennadeildar spítalans sem sagði að það væri ekkert annað að gera en að halda áfram og bæta við dreypi þar til barnið væri fætt. Við vorum farin að spá í hvort ekki væri hægt að stoppa svo ég gæti sofið og halda svo áfram morgunin eftir. Við vorum í stöðugu símasambandi við mömmu og pabba og ég talaði líka við Höllu vinkonu hennar mömmu sem er ljósmóðir og tók á móti Margréti Helgu og Jóel.við héldum kanski að þetta væri sama vandamálið og þegar Jóel fæddist þegar allt stoppaði með dreypi í botni en þá var hægt að sprengja belgina og hleypa honum út. Í þetta sinn hinsvegar gat ljósmóðirin ekki fundið upp á belgina og því ekkert hægt að gera. Það var því bara haldið áfram og alltaf skipt um poka með dreypi. Svo leið á nóttina og loksins um þrjú eða fjögur leytið fór eitthvað að gerast. (ég er ekki alveg viss hvað klukkan var því ég var orðin svo þreytt að ég vissi varla hvað ég hét lengur) Upp úr því hófust svo átökin en þá var ekki mikil orka eftir, ég hélt ég myndi ekki hafa orku í þetta en allt gekk vel og loksins klukkan 8:08 (5:08 að íslenskum tíma) kom Davíð Ómar í heiminn. Mikið urðu nú allir glaðir! Ég var búin að tala aðeins við Margréti Helgu og Jóel í símann kvöldið áður. Þau skildu ekkert í hvað við vorum lengi og báðu mig bara að koma heim. Jóel sagði mér að skila til ljósmóðurinnar að gera þetta fljótt! En þennan tíma tók þetta og þar sem ég hafði nú einhverja orku eftir og allt í lagi var með hjartsláttinn hjá barninu var svo sem ekkert annað að gera. Ég held ég hafi aldrei verið jafnþreytt á ævi minni en það var yndislegt að fá litla krílið í fangið. Hann var bara 3, 8 kg eða rúmar 15 merkur. Ég hef aldrei átt svona lítið barn áður! Líka þegar síðasta barn sem ég fékk í hendurnar var næstum 5 kg (19 m) þá finnst okkur hann ósköp smár. En hann er alveg yndislegur auðvitað, alveg fullkominn! Þegar Regina svo talaði aftur við yfirlækninn seinna um daginn og sagði honum hversu lengi við hefðum haldið áfram með dreypið sagði hann Þú ert aldeilis þolinmóð! Eþíópskir læknar hefðu líklega löngu verið búinir að fyrirskipa keisaraskurð. Þeir grípa mun fyrr inn í hér en það sem tíðskast í Evrópu. Ég er mjög fegin að ekki kom til þess og að hann fæddist að lokum eðlilega. Við fórum svo bara fljótlega heim enda ekki mikill friður á spítalanum til hvíldar. Við vorum komin heim um 12 leytið. Asnakú var hjá okkur til kl. 4 svo við gátum öll, ég Kristján og Davíð Ómar hvílt okkur aðeins og svo fór Kristján út með krakkana seinni partinn þannig að við mæðginin bara sváfum og sváfum. Ég hef aldri getað sofið svona vel eftir fæðingu áður. Æðislegt að koma bara heim og hafa alla þessa hjálp og geta hvílt mig eins mikið og ég þarf. Ég er enn að vinna upp svefn og ná úr mér þreytu svo það er frábært að þurfa hvorki að elda nér þrífa og hafa svona mikla hjálp með hin börnin líka. Ég hef líka miklu meiri orku til að sinna þeim þegar Davíð Ómar sefur. Ég reyni að lesa fyrir þau og fara með þeim í göngutúr og þetta gengur líka bar rosalega vel. Þau eru hæstánægð með litla bróður. Það þarf helst að passa að Dagbjartur Elí knúsi hann ekki of fast en hann vill helst alltaf vera að kyssa hann og strjúka honum svo segir hann :ekki pota af og til! Hann er líka fljótur að láta vita ef litli bróðir er að gráta. Margrét Helga var nú fyrst ekki alveg sátt við að þetta skildi vera enn einn strákurinn. Hún sagði við Berit, nágrannakonu okkar þegar hún kom og tilkynnti þeim að þau væru búin að eignast bróður: ég vildi heldur systur, en ég vissi það, það hlaut að þurfa að verða strákur því það er bara til bláir sokkar! Þetta var auðvitað áður en hún var búin að sjá hann. En daginn eftir tók hún utan um hálsin á mér og sagði: Mamma ég ruglaðist bara mig langaði auðvitað að fá lítinn bróður! Hún er voða hrifin af honum og Jóel líka og eru þau dugleg að hjálpa til. Það gengur sem sagt allt vel. Það er að komast regla á lífið aftur. Mér gengur reyndar ekkert með brjóstagjöf frekar en fyrri daginn. Við erum farin að þurfa að gefa honum pela með og fær hann megnið úr honum. Hann var farinn að gulna og þorna svo það var ekkert annað að gera. Hann fær þá bara þessa dropa sem ég hef og svo pelann. Hin hafa öll braggast vel svo ég ætla ekki að stressa mig. Eþíópunum finnst þetta dálítið undarlegt að ég skuli ekki geta haft hann á brjósti. En svona er þetta bara. Það er ekki á allt kosið. Ég er bara búin að læra af reynslunni eftir streð með þrjú stykki að það þýðir ekkert að stressa sig og börnin verða ekkert verri og ég ekkert verri mamma fyrir vikið!Jæja ætli þetta fari ekki að verða gott í bili. Við erum öll svo þakklát Guði fyrir litla Davíð Ómar og að allt gekk vel þrátt fyrir að hafa tekið á og tekið langan tíma. Við viljum þakka ykkur öllum sem voruð með okkur í bæn, það skipti miklu máli og við finnum að við erum borin áfram á bænarörmum í jafnt stóru sem smáu. Að lokum verð ég að láta fljóta með smá sögu af litla skáldinu á heimilinu honum Jóel:Á föstudaginn hringdi mamma til að athuga hvernig gengi. Einmitt þegar hún hringdi vorum við Kristján í smá bíltúr. Jóel tilkynnti hins vegar ömmu sinni að barnið væri fætt og lægi inni í rúmi og það væri lítill drengur en við værum ekki búin að ákveða nafn á hann. Ömmu brá nú dáldið og vissi ekki alveg hvort hún átti að trúa þessu en drengurinn hljómaði nokkuð sannfærandi. En hvar er mamma? spurði amma þá hún er úti í göngutúr svaraði snáðinn. Ömmu fannst það nú dáldið undarlegt en spurði svo Jóel hverjum litli drengurinn líktist Hann er alveg eins og ég! Og það fyndna er að Davíð Ómar er bara glettilega líkur honum!
Nafnið Davíð Ómar:
Davíð er nafn Davíð konungs úr Biblíunni og merkir hinn elskaði. Allir drengirnir okkar hafa eitt Biblíunafn þótt það hafi ekki verið neitt systematískt ákveðið!
Ómar kemur úr Kristjáns fjölskyldu en móðurbróðir hans sem lést ungur hét Ómar. Samkvæmt mannanofn.com er nafnið ungt í íslensku kom til landsins á fjórða áratug síðustu aldar en þó nokkuð margir heita nafninu bæði sem fyrsta og öðru nafni. Nafnið kemur fyrir í Biblíunni en er þó talið eiga uppruna sinn í Arabíu
Athugasemdir
Innilega til hamingju !!!! Núna eru þið sannarlega orðin stóreignafólk. Guð geymi ykkur
Magga Sverris
Magnea Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 12:00
Helga og fjölskylda !!!
Innilega til hamingju með litla gullið !!
Kveðja Inga,Halli,Andri,Óskar og Kristín Helga
Kristín Helga Hallgrímssdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 20:25
Til hamingju með drenginn. Gangi ykkur vel. Hlakka til að sjá ykkur öll í sumar.
Kveðja Guðrún Laufey
Guðrún Laufey (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 02:25
Kæra fjölskylda
Til hamingju með Davíð Ómar.Rosalega fallegur eins og öll hin börnin ykkar.Gangi ykkur vel,við hugsum til ykkar.Kær kveðja frá okkur.
Ása,Lalli,Linda og Mummi
Ásgerður Baldursdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 12:37
Elsku fraendfolk...
Hjartanlega tilhamingju med fjolskyldu vidbotina... hlokkum til ad sja ykkur i sumar. Knus fra Svitjod Sigurbjorg, Oli og Andrea Elin
Sigurbjorg (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 12:50
Til hamingju með herra nýfæddan! Af myndunum að dæma er hann alveg svimandi sætur. Ég lít annars reglulega hérna inn á síðuna og njósna - er bara arfaléleg við að skilja eftir kveðju. - En nú fékk ég náttúrlega ekki orða bundist!
Eyrún Hjörleifsdóttir
Eyrún Hjörleifsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.