1.- 20. júní: Fótbolti, flutningar, þjóðhátíð og mýs (eða kanski þjóðhátíðarmýs...)

  1. júní
 Bara kominn júní. Tíminn líður svo ótrúlega hratt. Allt í einu er málaskólinn bara búinn og við búin að vera hér í næstum ár. Mér finnst við vera nýkomin. Prófið gekk bara vel í dag. Var talsvert léttara en ég hafði búist við. En lofa skal dag að kveldi, níðurstöðurnar fáum við á morgun svo þá kemur í ljós hversu vel þetta í rauninni hefur gengið. Kristján er núna á landsleik Eþíópíu og Ítalíu (heismeistararnir frá ´92), fótbolta semsagt. Þeir spiluðu æfingaleik við áhugamenn á mánudaginn og skíttöpuðu, þeas. Ítalirnir, þannig að það verður fróðlegt að heyra hvernig þetta fer í kvöld. Þeir hafa kanski verið nýlentir og óvanir hæðinni og þunna loftinu svo kanski eru þeir í eitthvað betra formi í kvöld. 12. júní Þá er heimsmeistarakeppnin byrjuð og hér getum við séð alla leiki ólæsta!! Forréttindi ha?Annars er bara allt fínt að frétta. Við erum að vonast til að fá húsið á miðvikudaginn svo ég er byrjuð að undirbúa flutninga af miklum móð. Krakkarnir eru alsælir því Kía og fjölskylda eru í Addis svo nú hafa þau Friðrik til að leika við. Hann kom einmitt með þeim heim eftir leikskólann í dag svo þau eru búin að vera að leika sér saman í allan dag. Þau eru svo á leið heim til Íslands í frí á föstudaginn. Við fórum í tívolí um daginn. Þetta er skemmtigarður sem heitir “Vera´s Wonderland”  “Undraland Veru” eða eitthvað í þá áttina á áskæra ilhýra. Við fórum ásamt Craig og Allison og strákunum þeirra. Þau höfðu farið þarna áður og spurðu okkur hvort við vildum koma með þeim í þetta skiptið. Þetta var voða gaman. Reyndar engir sænskir öryggisstaðlar en engu að skemmtum við okkur vel. Þarna er parísarhjól, klessubílar, hringekjur, risarennibraut, svo eitthvað sé nefnt. Svo er hægt að kaupa skyndimat, þ.e.. pizzur, hamborgara og slíkt sem bragðaðist afbragðsvel. T.a.m. fengum við þær bestu franskar sem við höfum smakkað hér í Eþíópíu. Krakkarnir voru alsælir og vildu fara aftur daginn eftir, en við látum það nú aðeins bíða. Það er heilmikill léttir að vera búin með skólann þó ég hafi nú ekki eitt miklum tíma í heimanám þá er gott að þurfa ekki að vera að hugsa um að eiginlega ætti maður að vera að læra. Náminu er þó alls ekki lokið því skólinn er eiginlega bara til að koma manni af stað í málanáminu. Nú er bara að vera duglegur að tala, lesa og hlusta. Við erum ekkert búin að skipuleggja sumarfríið að öðru leiti en því að flytja. Júlí ætti nú samt að gefa okkur tækifæri til einhverra styttri ferða allavega. Ég held við leggjum ekki í neina svaka langferð þetta sumarið. Ég byrja svo að vinna í byrjun ágúst í norska skólanum og svo eitthvað seinna á seminarinu. Svo er alltaf verið að bjóða mér allskonar vinnu, píanókennslu,  söngkennslu, og allt mögulegt sem við kemur tónlistinni. Ég get auðvitað ekki sagt já við öllu. Ætla aðeins að skoða þetta betur. Ég er líka mikið að velta fyrir mér hvort ég á að bjóðast til að taka við yfirumsjón með tónlistinni í kirkjunni okkar. Eitthvað þarf að gera áður en ég fer yfir um á þessu tónlistarveseni þar. Mig langar að stofna kór og halda skipulega utan um þetta þannig að fólk læri söngvana sem eru sungnir og svoleiðis. Þið meigið gjarnan muna eftir þessu í bænum ykkar. Fyrst ég er farin að minnast á bænarefni megið þið líka halda áfram að biðja fyrir Mickiasi og einnig systur hans, Tesfanesh, sem er sex ára. Kristján fann líka skóla fyrir hana. Hún er mjög feimin svo við biðjum þess að henni megi líða vel í skólanum og eignast vini þar. Gabri er enn fyrir norðan með móður sinni. Þið megið líka muna eftir honum og fjölskyldu hans áfram. Ég vona að sumarið fari að láta sjá sig heima. Hér er regntímabilið hafið svo það er stundum kalt og hráslagalegt. Við kveikjum þá bara upp í arninum og reynum að ilja okkur. Hér eru húsin ekki upphituð svo oft er miklu kaldara inni en maður á að venjast að heiman. Sólin lætur þó alltaf eitthvað sjá sig og það er nú heitara hér en á venjulegum íslenskum sumardegi. Vonandi verðum við komin á nýja staðin næst þegar ég skrifa......þangað til, Guð geymi ykkur.  18. júní.Sökum sambandsleysis kom ég ekki þessari síðustu færslu á síðuna, en nú held ég áfram. Nýjustu fréttir eru þær að við erum flutt. Þetta væri alveg fullkomið ef ekki væri fyrir mýsnar sem ákváðu að flytja inn með okkur. Húsið er frábært, allavega nóg pláss, þó það sé komið til ára sinna. Músunum finnst við greinilega ekki þurfa á öllu þessu plássi að halda og ákváðu því að taka smá af eldhúsinu fyrir sig. Þeir sem þekkja mig vita að ég er með skelfilega músafóbíu á talsvert háu stigi svo þetta var það versta sem komið gat fyrir. Fyrst héldum við að það væri bara ein og náðum að senda hana út í skóg í gær eftir að hafa fundið felustaðinn hennar, kassa á gólfinu í matarbúrinu. En í gærkvöld var ég að fá mér vatn í te úr vatnsfilternum sem er inni í búri og sá þá eitthvað hreyfast sem ekki gat annað verið en mús. Kristján gat síðan ekki betur séð en þær væru tvær! Hann kom svo fyrir eitri í búrinu en ekki virðist það hafa bitið á þær (amk. Ekki aðra þeirra) því þegar ég var að borða morgunmatinn með krökkunum í morgun gerði hún sér lítið fyrir og trítlaði í gegnum borðstofuna. Þrátt fyrir að hafa sagt við sjálfa mig að ég skildi reyna að halda ró minni við þessar aðstæður, barnanna vegna, tókst mér það ekki með nokkru móti og hljóðaði upp og rauk inn í svefnherbergi þar sem Kristján lá. Það er eins og öll skynsemi hverfi lönd og leið. Auðvitað VEIT ég að mýs eru ekkert hættulegar, það bara hjálpar ekkert, þessi viðbrögð og hræðsla eru svo gersamlega ósjálfráð að ég fæ engu stjórnað. Kristján og Jóel fóru svo að leita að músinni en fundu hana ekki svo vonandi hefur hún hypjað sig út. Nú þarf bara að smíða lista við báðar útidyrnar sem eru frekar gisnar og auðveldur inngangur fyrir mýs. Þegar ég var hér fyrir 10 árum síðan upplifði ég skelfilegan músagang á heimavistinni þar sem ég bjó sem var nú ekki til að minnka þessa hræðslu. Vinkonur muna eflaust eftir löngum bréfaskriftum frá því ævintýri. Ég held samt/VONA að þær vogi sér ekki inn í svefnherbergisálmuna (þetta er sko frekar stórt hús) þannig að ég sef nokkuð róleg. En nóg um mýsnar. Krakkarnir eru alsæl með að vera flutt. Nóg pláss til að leika bæði úti og inni. Þau sofa öll saman í herbergi (sem er m.a. tilraun til að sjá hvort minnsti maðurinn fari að sofa betur á nóttunni- hingað til hefur hann vaknað einu sinni en var reyndar með óttalegt vesen í nótt, við sjáum til) svo eru þau með sér leikherbergi sem þau eru ægilega ánægð með. Lóðin er líka mjög stór svo það er auðvelt að skreppa í stutta göngutúra án þess að þurfa að fara út á götu. Í gær héldum við upp á þjóðhátíðardaginn með því að borða saman góðan morgunverð, fara í litla skrúðgöngu í stofunni með fána og syngja “Öxar við ána” (stefnan að kenna þeim þjóðsönginn fyrir næsta ár), borðuðum pönnsur sem við Fantanesh bökuðum fyrr um daginn (ákvað að kenna henni að baka íslenskar pönnukökur sem bara gekk mjög vel) og enduðum svo daginn á að borða íslenskan lax með kartöflusalati og ristuðu brauði. Margrét Helga og Jóel voru ekkert yfir sig hrifin af laxinum en Dagbjartur Elí hakkaði hann í sig.  Ég er búin að vera hálflasin í gær og í dag þannig að við vorum heima í dag, fórum ekkert í kirkju eða neitt. Er reyndar á nálum yfir þessu músaveseni en vonandi fara þær að láta okkur í friði. Annars er fínt að ver akomin í frí. Nú þurfum við bara að koma okkur betur fyrir. Ég er búin að ganga frá mest öllu sem var í kössum og tunnum en nú þarf að finna efni í gardínur og fara að sauma. 16. júní voru skólaslit í norska skólanum . Þessi skólaslit eru dáldið öðruvísi en í öðrum skólum og stemmningin dálítið öðruvísi. Margir eru að fara og ósvíst hvort maður eigi nokkurntíma eftir að hitta allt þetta fólk aftur sem maður hefur umgengist svo mikið undanfarið. En svona er líf kristniboðans, fólk kemur og fólk fer. Getur verið slítandi , ekki síst fyrir börnin en Guð gefi okkur styrk til að takast einnig á við það. Segi það gott í bili... 20. júní Ekki tókst mér enn að komast á netið. Það virðist alltaf bregðast þegar ég ætla að koma færslum inn á síðuna. Ég held að inngönguleið músanna sé fundin. Það er allvega ekta svona teiknimyndamúsarhola á bak við ísskápinn. Ragnhild kom hér í gær og við fulltum holuna með kennaratyggjóinu dýrmæta sem við fengum frá Íslandi. Þetta er allvega bráðabyrgðalausn. Svo settum við kókkassa fyrir að auki svona til öryggis. Allavega komu engar mýs í gærkvöld og hafa heldur ekki sést í kvöld. Vona bara að vandamálið sé úr sögunni.Ég er annars að ná mér af kvefpestinni. Anda að mér seyði sem Fantanesh sauð fyrir mig úr sérstökum laufum af einu trénu í garðinum. Virkar bara nokkuð vel. Svo fer ég baraí heitt bað. Ekkert smá æðislegt að vera með baðkar. Já þetta er hálfgert kóngalíf. Allavega höfum við það mjög gott. Nú fara krakkarnir líka í bað á hverjum degi. Það er svo lítið mál að láta renna í baðið og skella þeim öllum ofaní í einu. Þeim finnst það ekki slæmt. Litli maðurinn hefur smitast af mér því hann er orðinn ferlega kvefaður. Þetta er líka frekar kalt hús þar sem mikið er af trjám og sólin nær ekki að hita það upp. Það er kostur á daginn því hann er farinn að sofa tvo til tvo og hálfan tíma um hádegisbilið. Er líka allt annað barn fyrir vikið. Hér er líka svo hljótt miðað við hinn staðinn. Hann er líka farinn að sofa mun betur á nóttunni. Vaknar bara einu sinni. Mikill munur fyrir móðurina. Jæja nú geri ég enn eina tilraun til nettengingar... “Lofið Drottin allar þjóðir, vegsamið hann allir lýðir, því að miskun hans er voldug yfir oss  og trúfesti Drottins varir að eilífu. Hallelúja”  Sálmur 117     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, gaman að lesa þennan pistil og vonandi hafið þið það sem best í nýja húsinu. Spurning er hvort það þurfi að senda meira kennaratyggjó.
Bestu kveðjur til allra frá AFA á Karló

Sigurjón Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.6.2006 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband