7.5.2007 | 08:20
Meiri fréttir
5.maíJá við sem sagt náðum okkur í alveg skelfilega flensu um miðjan apríl, eða eins og Eþíóparnir segja það, náði flensan í okkur!Margrét Helga veiktist fyrst og byrjaði á að fá hálsbólgu á fimmtudagskvöldi og var svo komin með hita á föstudeginum, þetta var 12. apríl minnir mig. Ég var bara að vona að þetta væri svona sólarhringspest en hún var veik í næstum tvær vikur. Dagbjartur Elí bættist við á föstudeginum líka. Þegar Dagbjartur Elí Kristjánsson biður um að fá að leggja sig á miðjum degi þá er hann veikur. Jóel veiktist svo á laugardeginum og ég á aðfaranótt sunnudags. Jóel er svo merkilegur þegar hann er lasinn. Ég spurði hann oft hvernig honum liði og hann svaraði: bara vel og brosti hálfdofinn og svo fimm mínútum seinna fannst hann sofandi á gólfinu inni í leikherbergi! Kristján bættist svo í hópinn á miðvikudeginum. Við fengum öll háan hita og slæmt kvef og krakkarnir köstuðu öll upp. Ég var með um 40°hita í 6 daga. Ég reyndi að halda því eitthvað niðri með paraset til að geta sinnt veikum börnunum og frískum litlum Davíð Ómari. Sem betur fer slapp hann alveg. Ég var mest hrædd um að hann myndi veikjast en hann fékk bara smá nefstíflu og hnerra, ekkert alvarlegt. Kristján druslaðist veikur í vinnuna og kom svo bara alveg búinn heim. Þegar við vorum komin yfir það versta ákváðum við að fara til Awasa til að ná okkur almennilega. Það var frídagur á seminarinu föstudaginn 27. apríl og svo auðvitað 1. maí frí hér eins og annars staðar í heiminum. Kristján gat síðan fært til nokkrar kennslustundir þannig að við fengum heila viku í Awasa. Það var bara alveg frábært. Við nutum þess að liggja í sólinni og hitanum og synda og busla í lauginni. Nú er kominn hreinsibúnaður í stóru laugina og dúkur breiddur yfir hana á kvöldin svo nú er hægt að sjá til botns, allt annað! Margrét Helga og Jóel eru orðin ótrúlega dugleg að synda. Þau geta látið sig fljóta og synda alveg ótrúlega langt í kafi. Það vantar reyndar aðeins upp á sundtæknina en þau kanski komast á sundnámskeið heima í sumar til að kippa því í lag. Dagbjarti Elí líður best á bakkanum eða í litlu lauginni. Skemmtilegast fannst honum að vera í litlu lauginni ef annað hvort mamma eða pabbi sátu hjá honum. Davíð Ómar fékk nú ekkert að fara í sund, aðeins of kaldar laugar fyrir svona lítinn kall! Hann fær bara að fara í sund á Íslandi í sumar! Í Awasa er allt morandi í apaköttum, þeir eru eiginlega algjör plága og verða alltaf kræafari og kræfari. Það er mikilvægt að krakkarnir séu ekki ein úti að labba með mat í höndunum því þá eru þeir komnir um leið og þessir apakettir bera rabies (hundaæði). Einn daginn voru dyrnar á veröndinni hjá okkur opnar í nokkrar sekúndur og þá vissum við ekki fyrr til en tveir apakettir voru komnir inn til að stela banönum sem voru uppi á ísskápnum! Kristjáni tókst að reka þá út að meðan ég beið inni með krakkana. Þeir voru líka alltaf að sniglast í krisngum vagninn hans Davíðs Ómars á meðan við vorum í sundi svo maður varð að vera vel á verði. Einn daginn reyndi einn lítill apaköttur að stela pelanum hans og annan daginn voru þeir kominir tveir upp í vagninn en þá var litli maðurinn ekki í vagninum. Það getur nú verið stundum skemmtilegt að fylgjast með þeim en þeir eru alveg ferlega kræfir. Eftir viku í Awasa vorum við öll næstum orðin frísk. Við Kristján erum bara ennþá með smá kvef og ég er ekki alveg komin með röddina til baka. Ég var gjörsamlega raddlaus í tvær vikur en nú er þetta að koma. Börnin eru orðin eldspræk en ég reyndar vaknaði með skelfilega magapínu í morgun- ég held samt að það sé að ganga yfir- alltaf eitthvað!!Svo erum við bara komin baka til hins daglega lífs. Kristján er auðvitað að kenna og svo er heilmikil vinna við íþróttaverkefnið sem hann stjórnar (Hope sport project). Þetta er verkefni þar sem fátækum börnum er boðið upp á að æfa íþróttir og um leið er þeim boðað fagnaðarerindið um Jesú. Hann er einmitt núna við athöfn þar sem taka á nýjan fótboltavöll í gagnið. Hverfisstjórninni (kebele) er boðið og Kristján átti að halda ræðu og svona. Svo er Kristján líka í stjórn alþjóðlegu kirkjunnar (International Lutheran Church) og þar er heilmikið að gera þar sem ekki hefur fengist neinn prestur til að leiða kirkjuna.Ég er alveg heima að sinna krökkunum en fæ til þess góða hjálp frá Asnakú. Davíð Ómar hefur verið með dáldið magavesen enn er reyndar misjafn eftir dögum. Suma daga er hann alveg ómögulegur og sefur lítið en annars dafnar hann vel og hann hefur stækkað heilmikið, aðallega lengst. Hann er sko algjört krútt og hann brosir mikið og hlær og hjalar. Ég er reyndar með barnakórinn áfram einu sinni í viku en það eru bara tvær æfingar eftir og svo eiga þau að syngja á 17. maí (þjóðhátíðardegi Norðmanna) Dagbjartur Elí fékk að byrja í kórnum og finnst voða sport. Hann átti reyndar dáldið erfitt með að sitja kyrr þegar framhaldssagan var lesin því hún er á norsku sem hann skilur lítið í þótt alltaf virðist hann skilja meira og meira og er farinn að segja nokkur orð á norsku.Þau þrjú eldri leika sér úti allan daginn og nú er sól og heitt nánast alla daga. Það rignir inn á milli en maí er heitasti mánuðurinn svo nú er voða notalegt hér, meira að segja hlýtt inni í húsinu. Annars erum við farin að hlakka mikið til að koma heim. Það verður gaman að fá að hitta fjölskyldu og vini. Ég er spenntust að sjá viðbrögð Dagbjarts Elís, hann þekkir auðvitað ekkert nema Eþíópíu. Margrét Helga man held ég mest frá Íslandi, Jóel man eftir eitthvað af fólkinu allvega ömmum og öfum en ég held stundum að hann rugli stundum saman Íslandi og Noregi. Hann var bara 2 ára þegar við fluttum út til Noregs. Einhverntíma var hann spurður hvaðan hann væri og þá sagði hann að hann væri frá Íslandi og Noregi. Vonandi verður veðrið svona skítsæmilegt en annars er það aukaatrtiði aðalmálið að hitt allt fólkið okkar.Ætlsi ég segi það ekki í bili. Látum heyra aftur í okkur fljótlega og vonandi fáið þið líka bráðum að sjá fleiri myndir.
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.