(Það sem átti að verða) Lúxus sumarfrí- stutt ferðasaga ofl.

6. júlí Það er alveg ótrúlega hljótt í húsinu núna. Margrét Helga er að horfa á íslenskan barnatína á vídeo, Jóel fór með Kristjáni út í búð og litli hnoðrinn sefur. Hann er með einhverja smá hálsbólgu og eitthvað hálfdruslulegur greyið svo það er ágætt að hann sefur. Hann er alltaf að braggast, talar nú ekki mikið enn svo við skiljum en það eru alltaf að koma ný og ný orð á stangli. Í gær sagði hann “Olla” tvisvar sinnum og átti þá við Jóel. Margréti Helgu kallar hann ýmist “mammakka” eða “makka” eða eitthvað annað sem erfitt er að átta sig á. Krisján er ýmist kallaður “mammist” eða þá að hann kallar “istá” og einstöku sinnum segir hann “babba”. Mamma er alveg á hreinu og hefur verið lengi!En hann skilur allt hvort sem það er á amharísku eða íslensku og svara og hlýðir eftir því sem talað er við hann. Honum finnst orðið svakalega skemmtilegt að láta lesa fyrir sig og er Einar Áskell hinn sænski í miklu uppáhaldi hjá honum. Ef hann er eitthvað ósáttur við að fara að hátta spyr ég hann bara hvort við eigum að lesa Einar Áskel og þá verður allt í fína lagi. Hann fer líka og nær í Einar Áskel sé hann beðinn um það.Margrét Helga er eins og lítil mamma á heimilinu. Iðulega vakna þau fyrst á morgnana. Í fyrstu byrjaði hún á því að hrópa, mamma fullum hálsi. Ég sagði henni að hún mætti ekki gera það því við hrykkjum upp og héldum að eitthvað væri að. Hún ætti frekar að koma inn til okkar. Núna heyrir maður stundum bara hlátur og hún sér bara um litla bróður. Um daginn tók hún hann upp í til sín og las fyrir hann Línu langsokk og fór svo bara með hann með sér á klósettið þegar hún þurfti að pissa. Munur að eiga svona litla dugnaðarkonu! Dagbjartur Elí er farinn að sofa miklu betur. Sefur yfirleitt alla nóttina, hefur kanski þrisvar vaknað um miðja nótt eftir að við fluttum og sefur líka betur á daginn. Mér finnst ég bara vera ný manneskja að fá svona góðan svefn. Jóel reyndar kemur uppí nánast á hverri nóttu með Diddu litlu sína og koddanna sinn en yfirleitt getum við samt sofið rólega. Didda litla gleymdist þegar við fórum í ferðalag í vikunni. Í gærkvöld þegar hann var alveg að sofna lagði ég hana í fangið á honum og þá færðist bros á litla þreytta andlitið. Didda litla hefur svo fylgt honum hvert fótmál í dag. Didda litla er sem sagt lítil dúkka sem Margrét Helga fékk upphaflega í afmælisgjöf frá ömmu Borgu og Diddu þegar hún var tveggja ára. Jóel hefur hins vegar ætleitt hana og það er á hreinu að þetta er dóttir hans, hann er svo mikill pabbi hennar Diddu litlu. Ég var um daginn að skoða myndir frá því þegar við vorum í Noregi og á öllum myndum af Jóel er Didda litla líka með, Jóel að kubba, með Diddu litlu, Jóel í bílaleik, með Diddu litlu, Jóel að teikna...enn með Diddu litlu..........................................................................Nú erum við í sumarfríi og húshjálpirnar líka. Það er að verða hálftómlegt hér í Addis því margir eru farnir heim til heimalandanna annðhvort í frí eða til lengri tíma, jafnvel alfarnir. Eftir viku verðum bara við og ein dönsk kennarafjölskylda eftir. Þetta er skrítinn tími, margar kveðjustundir og ekki auðvelt. Þó svp við höfum bara verið hér í tæpt ár höfum við kynnst mörgu góðu fólki sem við eigum eftir að sakna. Núna sl. sunnudag kvöddum við vinafjölskyldu okkar, Eli og Nils Andreas Loland ásamt börnum þeirra sem eru þrjú og á sama aldri og okkar. Þau fara heim ári á undan áætlun vegna erfiðleika sem upp komu á starfsstöð þeirra og ekki reyndist unnt að leysa á annan hátt. Ég þekki ekki málið til hlýtar en upp komu árekstrar milli þeirra og Mekane Yesus kirkjunnar(kirkjan sem við störfum fyrir hér úti). Þetta er hið leiðinlegasta mál og sárt að sjá á eftir þeim á þennan hátt. Auðvitað eru margar hliðar á málinu en þetta er duglegt fólk og Nissan skilur eftir sig mikið verk í Filtu þar sem þau störfuðu. (Við að byggja vatnsból). Þið megið gjarnan muna eftir þeim í bænum ykkar..............................................................................................................................................En þá er það ferðasagan. Systkinin voru eitthvað að kvarta yfir því að við værum ekkert almennilega í sumarfríi fyrst við værum bara heima svo við ákváðum til að byrja með að fara til bæjar sem heitir Nazret og tekur um einn og hálfan tíma að keyra þangað. Margir af kristniboðunum okkar hafa farið þangað á stað sem heitir Safari Lodge og talað um að þetta væri hreynasta paradís. Við ákváðum því að slpæsa á okkur þremur nóttum (þetta er sko ekki alveg ókeypis- allavega svona miðað við launin okkar), þetta átti bara að vera smá lúxus í sumarfríinu. Við vorum komin um hálfellefu leitið á þriðjudeginum en þá var okkur sagt að það væri ekki hæagt að fá herbergið fyrr en kl. 3 þrátt fyrir að Kristján hafi spurt hvort það væri ekki í lagi að við kæmum um hádegi. Jæja, Krsitján fór því í smá bíltúr til að láta Dagbjart Elí, sem var orðinn mjög þreyttur, sofna en ég ætlaði að kaupa eitthvað handa Margréti Helgu og Jóel að borða. Veitingastaðurinn var enn ekki opinn en við fundum lítið leiksvæði sem þau léku sér á í smá stund. Við fengum okkur svo að borða og stuttu seinna komu Kristján og “minnstemann”. Eftir matinn fengum við svo herbergið. Þetta var bara ósköp huggulegt og mjög fínt, sérstaklega ef  tekið er tillit til almenns standards í landin sem við búum í. Málið var bara það  að þegar við opnuðum dyrnar gaus á móti okkur megn flugnaeiturslykt sem var alveg skelfileg og mettaði loftið í herberginu. Þar sem Kristján hafði ekki verið fyllilega sáttur við móttökurnar í resepsjóninni var þetta nú ekki alveg til að bæta ástandið. En við ákváðum nú að reyna að láta þetta ekki eyðileggja fyrir okkur og skelltum okkur í sund. Laugin var alveg ís- jökulköld og frekar djúp, ss. ekki mjög barnvæn en við hentum okkur útí. Ég veit ekki alveg hvort það var meira magn af vatni eða klór í lauginni, en mikll var klórinn allavega. Við entumst í smástund en urðum svo að fara upp úr vegna kulda. Það var skýjað svo ekki iljaði sólin okkur heldur. Á þessari stundu vorum við farin að tala um að stytta dvölina niður í tvær nætur. Þetta er ósköp fínn staður, mangotré allt í kring og fuglasöngur og húsin hugguleg en ekki alveg það besta fyrir smábarnafjölskyldu. Á fyrsta auglýsingaskyltinu sem við sáum stóð að alls ekki mætti taka með sér neinn mat inn á hótelið og af öllum drykkjarföngum (þmt vatni) þyrfti að greiða 30% skatt. Á öðru spjaldi stóð að ef börn undir tólf ára aldri sæjust á svölum veitingastaðarins yrðu foreldrarnir krafnir um sekt upp á 1000 birr (eitthvað á milli níu og tíu þús. Ísl. Kr) Við sáum ekki alveg fyrir okkur að borða hverja einustu máltíð á veitingastaðnum með þrjá litla gríslinga (auk þess sem það yrði ekki mjög ódýrt) og hvað seinni reglunni viðkemur gerðum við okkar til að halda þeim frá svölunum (veitingastaðurinn var opinn upp á gátt ) en þjónarnir voru ekki stressaðir á þessari reglu og sögðu að þetta væri allt í lagi! Svo leið að kvöldi og börnin fengu nú bara brauð sem við höfðum laumast inn með í kæliboxi, fyrir svefninn.Það tók tíma sinn að koma þeim niður vegna hita og ólofts. Dagbjartur Elí ætlaði aldrei að sofna og þambaði mörg glös af vatni. Vegna flugnaeitursins var loftið mjög þurrt og óþægilegt go hann hóstaði alla nóttina svo við sváfum nánast ekki neitt. Strax um morgunin ákváðum við að næturnar yrðu ekki fleiri á þessum stað. Niðurstaðan var: Fínt hótel-fyrir fullorðna- burt séð frá öllu fluganeitrinu. Ekki staður fyrir fólk með lítil börn, kanski aðeins stálpaðri krakka! Ferðasögunni líkur þó ekki hér. Í stað þess að fara beinustu leið heim ákváðum við að keyra í Awash park sem er þjóðgarður í uþb tveggja tím akstursfjarlægð frá Nazret. Það er alveg ótrúlegt hversu stutt maður þarf að fara frá Addis til að allt verði öðruvísi, landslagið, veðrið og jafnvel tungumál fólksins. Það var mjög heitt í Awash, um 35°. Allt var þurrt og greinilegt að ekki hafði ringt lengi. Við komum að aðalhliðinu og greiddum aðgöngueyri og spurðum hvort eitthvert hótel væri í garðinum. Jú, í 12km fjarlægð var hótel, caravans (ens) sem allavega ég var ekki alveg viss hvað væri og nóttin kostaði 200 birr (uþb 2000kr ísl). Á ferðamannakorti sem við eigum stendur eftirfarandi: “A number of air- conditioned caravans.....serve as lodges” (Talsvert af loftkældum hjólhýsum...þjóna hlutverki sæluhúsa). Þegar við komum á staðinn val vel tekið á móti okkur, starfsfólið afskaplega elskulegt og hafði gaman af því að við skildum tala amharísku (amk. reyna!). Og sannarlega var nóg af hjólhýsum en loftkælingin var löngu hætt að virka!!! Flest hýsin litu út fyrir að vera að hruni komin og voru frekar fátækleg að sjá innandyra einnig, brotnir speglar oþh. En rúmfötin voru hrein. Ég verð að viðurkenna að ég hafði búist við meiru fyrir 200 birr. Við ákváðum að fá okkur hádegismat á veitingastaðnum og eitthvað að drekka sem var mjög kærkomið eftir aksturinn í hitanum (bílinn okkar er 18 ára gamall Landcruiser og eins og í hjólhýsunum er loftkælingin hætt að virka!). Eftir það ætæuðum við síðan að áveða hvort við myndum verja þarna nóttinni eða bara keyra til baka til Addis. Þegar þarna var komið sögu höfðum við ekki séð eitt einasta dýr, nema fáeinar geitur og svo eitt dýr úr mjög miklum fjarska sem við héldum að væri sebrahestur(það kom svo reyndar í ljós þegar við skoðuðum myndbandið sem við höfðum tekið að þetta var eitthvað allt annað!!). Eftir smá umhugsun og eftir að hafa notið útsýnis af svölum veitingastaðarins ákváðum við að keyra heim. Við vorum mjög þreytt eftir svefnlausa nótt og hugsuðum að það væri skemmtilegara að koma aftur seinna og jafnvel tjalda. Við kvöddum því þetta góða fólk og héldum afru í bílinn. Þar sem við höfðum ágætis tíma ákváðum við að keyra að tjaldstæðunum við ána til að skoða hvernig þar væri umhorfs. Það varð síðan hápunktur ferðarinnar því þar sáum við loksins dýr. Þarna voru dádýr (tvær tegundir sem ég ekki kann frekar skil á) apakettir sem á amharísku nefnast zinjero, ég veit ekki hvað þeir heita á íslensku en held þeir heiti bamboons á ensku. Svo voru þarna villisvín bara rétt hjá okkur og krókódíll sem svaf á hinum árbakkanum. Kristján reyndi nokkurnveginn án árangurs að vekja hann. Á meðan við vorum að skoða krókóldílinn drápum við á bílnum en þegar við ætluðum að starta aftur var eins og hann ætlaði ekki í gang aftur. Þetta var ekki beint þægileg tilfinning að vera lengst inni í skógi, með börnin, ekkert símasamband meðal villidýranna. Við vorum nú orðin nokkuð sveitt en svitnuðum enn meira við þessa upplifun. Við tókum okkur smá tíma og báðum Guð um hjálp og Kristján reyndi aftur fór bíllinn aftur í gang- Guði sé lof. Eftir þetta ákváðum við að keyra beint heim. Á leiðinni sáum við nokkur fleiri dýr og meðfram þjóðveginum  var talsvert af úlföldum og lamadýrum sem eru húsdýr fólksins á þessum slóðum. Við vorum nú mjög þakklát og ekki síst barnanna vegna að hafa séð öll þessi dýr. Ekki veit ég nú samt hvort við myndum leggja í að tjalda þarna amk ekki án þess að ráða vaktmann!. Við komum svo til Addis í gærkvöld, þreytt og sveitt og þá var nú gott að geta skellt sér í heitt bað. Í dag erum við svo bara búin að vera heima. Við erum að spá í að fara kanski til Awasa í næstu viku og vera í nokkra daga. Þar getum við slappað af með krakkana og vitum vel að hverju við göngum. Nú er þetta að verða allt of langt. Ég vil að lokum þakka fyrir allar góðar kveðjur í gestabókina. Það er gott að vita aðvið erum ekki alveg gleymd þrátt fyrir fjarlægðina og gott að vita að við erum borin á bænarörmum hvern dag. Og Matta, mikið var gaman að fá kveðju frá þér þú mátt endilega senda mér netfangið þitt. Okkar er missionaries@gmail.com. Og svona að endingu- mýsnar hafa ekki látið sjá sig í meira en viku!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband