Í kulda og trekki

8. ágúst Hér sit ég og berst við að halda á mér hita. Já haldið það sé nú. Maður er hér í Afríku að krókna úr kulda! Mér er bókstaflega stöðugt kalt á höndunum og fótunum með hroll inn að beini og illt í eyrunum í þokkabót, vegna kulda!  Fólkið hér segir að þessi regntími sé óvenjuslæmur. Það er ekki þessi venjulegu hitabeltisskúrar þar sem styttir upp á milli og jafnvel alveg regnlausir dagar inn á milli. Þetta er meira svona eins og íslensk rigning. Rignir stöðugt þótt ekki sé það endilega mikið í einu og sólin skín varla og það rignir líka á nánasthverjum degi. Annars ætti ég ekki að vera að kvarta. Þorri íbúa Addis borgar búa í svokölluðum “djigga” –húsum sem eru einskonar moldar eða leirhús. (eþíópska moldin eða djigga er mjög sérstök og líkist meira leir en venjulegri mold). Þessi hús þola ekki svona stöðuga rigningu. Húshjálpin okkar, Fantanesh, lenti í að húsið hennar eyðilagðist í vegna mikilla rigninga. Húna sem betur fer annað lítið hús á lóðinni sem hún getur búið í en þið getið trúað að þetta er heilmikið mál. Svo eru auðvitað ótal margir hér sem búa á götunni og ekki eru þeir öfundsverðir. Stundum er sagt að megnið af betlurunum þurfi ekkert að betla, þetta sé bara svo fín vinna og mikið upp úr því að hafa. Eflaust er þetta í einhverjum tilfellum rétt en mjög margir og flestir held ég geri þetta tilneyddir. A.m.k. eru margir svangir á götunum. Ég er farin að setja matarafganga, pasta, kjöt, hrísgrjón og hvað annað sem til fellur í niðursuðudósir og gefa betlurunum. Þegar fólkið sér að ég er með mat kemur það hlaupandi úr öllum áttum. Það sýnir bara að fólkið er svangt. Svona er veruleikinn hér.........Ég byrjaði að vinna í gær. Fyrsti kennarafundurinn í norska skólanum. Svo er ég að fara á fund á seminarinu á morgun. Kristján er búinn að vera á fullu við undirbúning fyrir kennsluna sína sem hefst í lok ágúst. Kennsla hefst á norska skólanum komandi mánudag. Þa er dáldið skrýtið að vera að fara að kenna aftur. Ég hlakka nú bara til að fara að kenna þessum krökkum en ég kvíði dáldið fyrir að fylgja þessum norsku lögum og námsskrá sem ég þekki hvorki haus né sporð á. Það er líka dálítið sérstakt að kenna 1.- 4. bekk saman í einum hóp. Ég fer aftur á fund á föstudaginn og þá þarf ég að skoða betur norsku námsskránna og hvernig efnið hefur verið kennt undanfarin ár. Það er reyndar stór kostur að þeir eiga mjög gott námsefni í tónmennt, norðmennirnir, fyrir 1.- 10. bekk sem er meira en hægt er að segja um tónmenntina heima, því miður. Ég þarf bara að setja mig inn í þetta. Eitthvað get ég notað af því sem ég kann og hef í kollinum, leiki og dansa og svoleiðis en ég þarf að læra ný lög því ekki get ég notað íslenskt efni þar, amk ekki nema í litlu magni. Ég verð með norska, danska og sænska nemendur svo verður Harpa Vilborg með þegar hún er í Addis og einn finnskur nemandi! Á seminarinu fer svo kennslan öll fram á ensku þótt ég eigi nú eitthvað eftir að reyna að spreyta mig á amharískunni þar líka vonandi.........Nú erum við búin að hafa tvisvar sinnum skóladag hér heima. Ég stefni á að allavega Margrét Helga verði nokkurnvegin læs á íslensku í vor. Við vitum ekkert hvernig verður með íslensku kennslu næsta vetur svo mér finnst mikilvægt að þau læri amk að lesa á íslensku. Þeim finnst þetta mjög spennandi og eru mjög dugleg. Ég fékk lánað lestrarkennsluefni frá skólanum og þau sitja prúð og stillt og fylgjast með og vinna verkefnin sín. Ég ætla að reyna að hafa svona skóladag einu sinni til tvisvar í viku. Við sitjum ekki við meira en u.þ.b. klukkutíma í einu og höfum frímínútur þar inní. Það var mjög mikilvægt að hafa frímínútur og þá verður maður að fara út í boltaleik, segir Margrét Helga. Hún hefur fylgst með stóru krökkunum á norska skólanum þegar þau fara í frímínútur! Nú eru líka komin fleiri börn hingað á Mekanissa. Sl. fimmtudag komu læknishjón á málaskólan sem eiga tvö börn Julianne 7 ára og Johannes 3 ára. Þeim lindir mjög vel við Margréti Helgu og Jóel og það tók ekki langan tíma þar til þau höfðu náð vel saman. Í dag bauð Ragnhild þeim öllum fjórum með sér á Kaldi´s sem er vinsæll veitngastaður og gaf þeim hamborgara og mjólkurhristing. Það var auðvitað heilmikið fjör og svo voru þau allan eftirmiðdaginn heima hjá Ragnhild. Ragnhild er góð vinkona okkar sem var með Krstjáni í bekk á kristniboðsskólanum. Hún er eins og frænka fyrir krakkana og er mjög dugleg að bjóða þeim til sín og gera eitthvað skemmtilegt með þeim. Margrét Helga kom heim einhvern dagin og sagði: “ Mamma, Ragnhild ER frænka okkar!”. Þau eru mjög hrifin af henni öll þrjú.......Jæja, loksins er mér orðið sæmilega hlýtt! Ég veit ekki hvað marga tebolla og súpuskálaer ég er búin að innbyrða í dag!.....

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir að fá að fylgjast með ykkur. Við bíðum spennt eftir að heyra hvernig daglegt líf gengur hjá ykkur og munum daglega eftir ykkur í bænum okkar.
Kveðja Ingibjörg og Sigursteinn

Sigursteinn Hersveinsson (IP-tala skráð) 9.8.2006 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband