20.8.2007 | 10:21
Komin til Addis
Jæja þá erum við komin heilu og höldnu út aftur. Ferðin gekk vel þrátt fyrir að Dagbjartur Elí hafi verið með hita og slappur á leiðinni og því munaði miklu að hafa Önnu Lilju frænku með okkur.
Nú er lífið farið að ganga sinn vanagang og allir að komast í fasta rútínu á ný. Ég hef hugsað mér að reyna að skrifa smá útdrátt úr Íslandsferðinni en þar sem ég hef ekkert skrifað í sumar birtist ferðasagan í nokkrum hlutum á næstu dögum.
Hér kemur fyrsti hluti:
I hlutiVið vorum öll orðin mjög spennt að koma heim og hitta vini og ættingja. Því miður náðum við ekki að heimsækja all sem við hefðum viljað en við áttum margar góðar stundir með nánustu fjölskyldu og vinum og það var auðvitað mikilvægast fyrir börnin að fá að vera með ömmum og öfum. Við lögðum af stað eldsnemma á mánudagsmorgni kl. 5 að eþópskum tíma, 11. Júní. Raggi Schram keyrði okkur út á flugvöll og mér varð hugsað til þess þegar við komum fyrir tveimur árum. Þessi tvö ár hafa liðið ótrúlega hratt! Það gekk vel að bóka okkur inn, við vorum vel tímanlega og biðum því smá stund á flugvellinum. Við fengum okkur sæti hjá tveimur alríkislögreglumönnum sem fóru strax að leika við krakkana og fannst alveg frábært að þau töluðu amharísku. Það var mjög fámennt í British Airways flugvélinni sem við flugum með frá Addis til London með stuttu stoppi í Alexandríu í Egyptalandi. Margrét Helga og Jóel undu sér vel við aðhorfa á teiknimyndir og Davíð Ómar svaf bara og var voða rólegur. Við fengum auka sæti fyrir hann og hann var svo lítill að hann passaði akkúrat í sætið og svað þar vært! Dagbjartur Elí var hins vegar þreyttur og ef hann er ekki vel sofinn getur skapið verið eftir því. Eftir tvo tíma á flugi sagði hann:Beqqa hljújel og vildi bara far út. (beqqa=amh. = nóg) En það var víst ekki hægt. Við áttum eftir að vera tæpan sólarhring í viðbót á ferðinni!Jóel sat við gluggann við hliðina á mér þegar við vorum að fara á loft. Honum fannst þetta mjög spennandi en var einhverra hluta vegna eitthvað pínu smeykur og alltaf að tala um að flugvélar gætu sprungið. Jú ef það er bensín á flugvélum geta þær sprungið!, Friðrik segir það! ég reyndi að útskýra fyrir honum að flugvélin þyrfti bensín til að komast á loft og hún væri ekkert að fara að springa! Þegar við komum upp fyrir skýin hróðpaði hann svo upp yfir sig: Sjáðu mamma jörðin er snjóhvít! Það féllu mörg stórkostleg gullkornin af vörum Jóels í þessari ferð. Ég reyni að rifja upp nokkur þeirra. Við áttum að bíða sjö tíma í London eftir vélinni til Íslands. Það veitti ekkert af þessum tíma þar sem það er svo mikið að gera á Heathrow og allt tekur sinn tíma. Við gátum ekki bókað farangurinn alla leið og þurftum því að ná fyrst í hann til að fara með á næsta terminal. Fyrst þurftum við nú að bíða í klukkutíma eftir að farangurinn kæmu á bandið og síðan eitthvað í viðbót eftir að töskurnar okkar kæmu. Við vorum nú ekki með mikinn farangur á heimleiðinni þar sem við gerðum ráð fyrir að eitthvað myndi nú bætast við heima! Það tók síðan smá tíma að komast á næsta terminal og þar voru þá þegar Íslendingar farnir að standa í röð og bíða eftir að bóka inn í vélina. Við bara ákváðum að bíða líka og þremur tímum fyrir brottför voru töskurnar komnar inn í vél. Við höfðum því tíma til að fá okkur aðeins að borða en svo var bara að koma sér af stað að hliðinu. Þetta eru svoddan rangalar þarna og með fjögur lítil börn hleypur maður ekkert á milli. En nú fór að draga til tíðinda. Margrét Helga hafði lítið sofið og Jóel ekki neitt alla leiðina og því var kominn dáldill svefngalsi í mannskapinn. Við fórum eitthvað að spjalla við Íslendinga sem voru að fara með sömu vél og krakkarnir voru alveg undrandi á öllu þessu fólki sem talaði íslensku. Þau fóru að spjalla við fólkið og heldu uppi skemmtiatriðum og gengu á milli fólks og spurðu: Kannt þú íslensku? og Hvernig kannt þú íslensku? Jóel var alve orðinn hálfruglaður og söng og dansaði og upp úr honum ultu frasar úr hinum ýmsu teikni myndum fólki til skemmtunar. Ég held þau hafi haldið að við þekktum allt þetta fólk fyrst þetta voru Íslendingar! Margrét Helga spurði mig: Mamma er þetta íslensk flugvél? ég svaraði því játandi og er íslenskur flugmaður? Já, sagði ég .. og eru konurnar (flugfreyjurnar) líka íslenskar? já, svaraði ég. Þá getur maður bara sagt á ÍSLENSKU, get ég fengið vatn?. Þegar við vorum að bíða hittum við svo Mæju frænku og Snæja manninn hennar og Guðfinnu dóttur þeirra sem voru að koma úr ústskrift Daníels frænda sem starfar sem flugrekstrarfræðingur í London. Þau voru svo samferða okkur í vélinni.Vélin var nánast troðfull, aðallega Íslendingar. Við hliðina á okkur Jóel sat maður sem var einn á ferð og lét Jóel dæluna ganga við hann og spurði hann spjörunum úr, hvort hann kynni íslensku og af hverju og hvert hann væri að fara og hvar hann ætti heima. Ég útskýrði fyrir manninum að drengurinn hefði ekki momið til Íslands í tvö ár og væri ekki búinn að sofa neitt í 20 tíma. Hann fékk síðan annað sæti svo við gætum fengið sæti fyrir Davíð Ómar. Hann hefur kanski bara verið feginn að sleppa við frekari yfirheyrslu!! Jóel var fljótur að hóa í næstu flugfreyju sem hann sá og biðja um vatn (fyrst það var hægt að gera það á íslensku var nú um að gera að prófa!) en þegar vatnið kom, þegar vélin var komin á loft, var litli prófessorinn steinsofnaður! Þegar við lentum vaknaði svo drengurinn eiginlega með jafnmikinn svefngalsa og áður. Það fyrsta sem hann gerði var að snúa sér að konunum sem sátu fyrri aftan hann og segja"Voruð þið að tala um rauðan plastpoka?!! Eitthvað voru eyrun uppsperrt að reyna að fylgjast með öllu þeissu fólki sem var saman komið einni flugvél og nánast allir töluði íslensku!!
Það var heil móttökunefnd sem sem var mætt í Keflavík til að taka á móti okkur. Það var frábært að hitta alla. Dagbjartur Elí var að vonum dálítið feiminn, enda mundi hann ekkert eftir fólkinu. Margrét Helga og Jóel hlupu upp um hálsinn á öllum en Davíð Ómar steinsvaf í öllum látunum. Það var kalt að koma heim og mamma kom með flísteppi til að vefja utan um krakkana. Ég helt ég þyrfti að fara að redda okkur vetrargöllum en annað kom nú á daginn. Við notuðum ekki einu sinni regnfötin og stígvélin sem ég var búin að drösla með okkur alla leið frá Eþíópiu!To be continued..... (framhald)
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ kæra fjölskylda og velkomin aftur heim
Gott að ferðalagið og sumarfríið gekk vel. Það var leitt að hafa ekki náð að hitta ykkur, við bjuggumst við ykkur í rokinu á Sæludögum Gengur bara betur næst.
Bestu kveðjur, Nanna og Siggi.
Nanna Guðný Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.