22.8.2007 | 08:01
Ferðasaga II hluti
II hluti Þa var komið fram yfir miðnætti að íslenskum tíma þegar við lentum en að ganga þrjú að morgni að eþíópskum tíma og við búin að vera á ferðinni í heilan sólarhring. Það var gott að koma á Karló til afa og ömmu. Við fengum okkur skyr með rjóma og fórum svo í háttinn. Mamma og pabbi voru búin að undirbúa komu okkur fyrir löngu, búin að ná í gömlu kojurnar sem Gunnar afi smíðaði og setja upp barnarúmið fyrir Davíð Ómar. Hjónarúmið okkar stendur í kjallaranum og Margrét Helga fékk gamla herbergið hans Gunnars uppi þar sem búið var að taka fram gamla barbíhúsið sem pabbi smíðaði handa okkur Öglu Mörtu og allskonar fleiri leikföng fyrir krakkana. Við sváfum vel en það tók nú samt dálítinn tíma að jafna sig á flugþreytunni. Fyrstu dagarnir fóru í að hitta nánustu fjölskyldu og að jafna sig eftir ferðalagið. Við vorum síðan búin að ákveða að láta skíra Davíð Ómar 17. júní Hallgrímskirkju. Almaz sem er eþíópsk vinkona mömmu kom á Karló til að búa til wodd , þjóðarrétt Eþíópa. Það var svo boðið upp á það í skírnarveislunni. Auk þess var á boðstólum fiskréttur og flatkökur með hangikjöti sem amma gerði af sinni kunnu snilld og mamma bauð upp á skírnartertuna sem var stórglæsileg að vanda. Athöfnin var mjög falleg. Ragnar frændi skírði og Margrét Helga, Jóel og Dagbjartur Elí sungu. Messan var sérstaklega tileinkuð kristniboðinu að þessu tilefni og gladdi okkur það mjög. Svo var veisla heima hjá ömmu á Þórsgötunni á eftir. Amma lét nú ekki þar við sitja en var líka með opið hús fyrir stórfjölskylduna í eftirmiðdaginn eins og hún er vön að gera á 17. Júní. Það var frábært því við gátum þá hitt nánast alla föðurfjölskylduna mína. Við röltum svo aðeins um bæinn, svona til að sýna okkur og sjá aðra. Við mæðgurnar vorum á upphlut, ég í mínum sem mamma saumaði á mig og Margrét Helga í litla upphlutnum sem amma saumaði á Ragnhildi frænku þegar hún var lítil. Það vildu margir fá að taka myndir af okkur, sérstaklega útlendingar og var Margrét Helga orðin frekar þreytt á þessari athygli þegar á leið. Þetta var góður og fallegur dagur.Næstu daga vorum við svo að fara á milli í matarboð og hitta vini og ættingja. Þetta var mjög erfitt fyrir Margréti Helgu í byrjun sem vildi helst vera Karlagötunni nema ef amma og afi kæmu með okkur. Ég held hún hafi verið hrædd um að fá ekki nógan tíma með þeim. Þetta lagaðist nú þegar á leið og hún áttaði sig á að við myndum vera dáldinn tíma á Íslandi. En auðvitað reynir þetta á lítið fólk. Dagbjartur Elí var fljótur að taka alla í sátt en það var samt vart við dálítið óöryggi hjá honum sem gerði m.a. að verkum að hann fór aftur að pissa í buxurnar. Það jafnaði sig líka þegar á leið en hann þurfti að fara aftur að hafa bleyju á nóttunni og þarf enn því hann er ekki alveg fyllilega búinn að ná áttum greyið.Síðustu helgina í júní fórum við í sumarbústað Landsbankans í Selvík þar sem við vorum í heila viku. Það var mjög góð afslöppun og vorum við þar með mömmu og pabba og systkinum mínum og fjölskyldum. Pabbi fékk einn bústað og Agla Marta annan þannig að var nóg pláss fyrir alla.Það var slappað af í heita pottinum, farið út á bát, í sund á Borg og í dýragarðinn í Slakka svo eitthvað sé nefnt. Svo var MIKIÐ borðað af grill- veilsumat og góðgæti. Við fengum alveg frábært veður sem ekki spillti fyrir. Einn daginn komu Bjarni frændi og Lilja dóttir hans í heimsókn. Það var mikil gleði. Lilja og Margrét Helga eru jafngamlar og mikla vinkonur og alltaf jafngaman hjá þeim þegar þær hittast. Helgina 11.-15. Júlí fórum við Kristján með litlu strákana á kristniboðsmót á Löngumýri í Skagafirði þar sem við höfðum verið beðin um að taka þátt og segja frá strfinu. (Margrét Helga og Jóel fóru með mömmu og pabba aftur í Selvíkina þar sem pabbi hafði getað fengið lítinn bústað.) Þetta var fámennt en góðmennt mót og var gott að vera meðal kristniboðsvina. Það er líka miklvægt fyrir okkur að geta fengið svona tækifæri til að segja frá starfinu okkar hér úti. Það var kaldara fyrir norðan en í bænum en fallegt og milt veður samt. Dagbjartur Elí var í essinu sínu enda fékk hann mikla athygli mótsgesta þar sem hann og litli bróðir hans voru einu börnin á mótinu. Hann gekk um og spjallaði við alla og spurði hvað þeir hétu. Honum fanns mikið til koma að aðalmótshaldarinn skildi heita Ljón (Jón Oddgeir) og vildi ekki láta sannfærast um neitt annað. Í einum matartímanum sátum við við borðið og varDagbjartur Elí að velta fyrir sér sessunautunum. Mamma, þetta er Ljón sagði hann og benti á Jón Oddgeir. Svo benti hann á Bjarna Ánason sem líka sat við sama borð og sagði :Mamma, þetta er ekki ljón, þetta er köttur! Hann uppgötvaði líka vettlinga í þessari ferð. Þarna var sýning á munum sem stúlkur sem verið höfðu nemendur á hússtjórnarskólanum á Löngumýri höfðu gert. M.a. voru þar útprjónaðir vetlongar sem Dagbjartur Elí hélt fyrst að væru sokkar. (Til útskýringar þá hefur drengurinn aldrei notað vettlinga svo hann muni, alinn upp í Afríku frá 6 mánaða aldri). Hann dró alla með sér að glerinu til að sýna þeim þetta stórmerkilega fyrirbæri sem vettlingar eru! Við sáum um kristniboðsstund á laugardeginum sem litlu bræðurnir settu svip sinn á. Davíð Ómar gubbaði á milli atriða og Dagbjartur Elí vildi ráða hvaða söngvar væru sungnir og sitja í fanginu á mömmu sinni meðan hún spilaði undir. Það var bara heimilislegt og ég held fólk hafi bara verið ánægt. Við sýndum bæði myndir og video og sögðum frá störfum okkar og daglegu lífi hér úti. Framhald fljótlega....
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl, gaman að lesa og rifja upp skemmtilega daga og nú er Gunnar búin að setja inn myndir frá sumrinu en hafði myndir frá 17. júní og skírn sér og svo aðrar myndir undir sumarið 2007. Kanski væri hægt að fá fleiri myndir frá skírninni og bæta við síðar.
Bestu kveðjur frá AFA Sissa
Sigurjón Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 16:01
Sæl Helga Vilborg
Gott að heyra að ferðalagið hafi gengið vel. Það var virkilega gaman að hitta þig og Dagbjart Elí og Davíð Ómar. Hlakka til að lesa framhald ferðasögunnar.
Verðum í sambandi, bið að heilsa.
Kær Köbenkveðja, Svava María o.fjsk.
Svava María (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 08:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.