4.9.2006 | 07:42
Loksins....
.....komumst við á netið. Það kom í ljós að modemið okkar var bilað (erum búin að vera sambandslaus í rúmar tvær vikur) en nú er ss. búið að kaupa nýtt svo ég set hér inn dagbókarfærslur frá miðjum ágúst. Bæti svo fljótlega við meiru:
12. ágústÉg hélt ég væri bara að hressast í gær en þá tók þessi heiftarlega gubbupest við! Ætli ég hafi ekki smitast af Dagbjarti Elí sem var kastandi upp aðfaranótt föstudagsins og nú er bara spurning hvenær röðin kemur að hinum. Jóel var að kvarta um í maganum í kvöl. Hann sagði reyndar að honum væri svo illt í hjartanu og benti svo á þyndina. Þannig að það kæmi ekkert á óvart þótt hann kastaði upp í nótt. Ég vona bara að Margrét Helga verði ekki lasin á afmælisdaginn sinn. Það yrði nú frekar mikið svekkelsi. Þau spjölluðu aðeins við ömmu og afa á Karló í símann í dag. Það eru ekki beint hógværar kröfurnar sem gerðar eru við afa og ömmu: þið verðið að senda... og svo koma lýsingar á hve nauðsynlegt er að fá hitt og þetta, aðallega leikföng, sent! Jóel er reyndar alltaf í einhverjum fantasíuheimi. Hann, eða þau saman systkinin, bjuggu til músagildru út í garði úr garni sem strengt var á milli veggja og agnið er lítð fræ eða hneta, að þeirra sögn sem músin á að girnast. Þessu öllu lýsti hann fyrir ömmu og afa. Allt í einu sagði hann svo: Það...er... köttur inni í húsinu! Kettir eru mýs, það segir mamma Svo fór hann að telja upp orð sem Dagbjartur Elí væri farinn að segja: Hann kann að segja pyslur og egg og laukur Ég hef reyndar aldrei heyrt hann segja það, en hver veit hann reynir að segja ýmislegt og systkinin eru dugleg að túlka tungumál þessa litla manns! En svona er hann Jóel minn. Hann getur talað og talað, mest um dýr og hvað þau gera, hver éti hvern og þegar hann var lítill og hann og pabbi veiddu krókódíl á Íslandi osfrv. Það er stundum erfitt að fá hann til að borða við við matarborðið því hann er svo upptekinn í sínum eigin hugarheimi. Það getur verið alveg yndislegt að hlusta á þessar pælingar hans. Dagbjartur Elí sagði sína fyrstu þriggja orða setningu í dag og það ekki á íslensku eða amharísku heldur ensku: I love you Lína litla dúkkan hennar Margrétar Helgu kann nefnilega að syngja og í hvert skipti sem hún hefur lokið söng sínum segir hún I love you (ég elska þig) og þetta greip litli hnoðrinn og tönnlaðist á í sífellu allan seinnipartinn í dag ælojú. Frekar krúttlegt. Mig minnir nú að systir hans hafi líka gert þetta á sínum tíma. Jæja, tíminn líður. Í dag er 22 ágúst. Litla frökenin er orðin fimm ára og alsæl með það. Við Kristján sungum fyrir hana og færðum henni nokkrar gjafir. Ég hafði bakað súkkulaðiköku kvöldið áður sem þau fengu að skreyta systkinin og svo komu Kía og fjölskylda ásamt Þráni Haraldssyni sem hefur var sjálfboðaliði í Omo Rate í sumar, í kaffi. Krakkarnir voru auvðitað mjög ánægð að hittast. Dagjartur Elí var sko líka alveg sáttur við súkkulaðikökuna. Venjulega ef krakkarnir eru á undan honum að borða þá má hann ekki vera að því að klára og vill fara frá borðinu. En þarna sat hann einn eftir og gæddi sér á afmælistertunni. Ég spurði hann nokkrum sinnum hvort hann væri ekki saddur en alltaf hristi hann höfuðið og benti á kökuna! Frekar krúttlegur með súkkulaði út um allt andlit. Svo fórum við öll saman á Hótel Gihon og fengum okkur wodd, svona til að kveðja Þráin sem fór heim morguninn eftir. Ég byrjaði að kenna á norska skólanum sl. miðvikudag. Það var bara mjög gaman. Það er alvg frábært að hafa svona jákvæða og skemmtilega nemendur. Algjör draumur. Öllum finnst allt æðislega gaman og fimmti bekkur mátti varla vera að að fara út í frímínútur því það var svo gaman að syngja. Það er líka alveg frábært að geta gert áætlun og farið eftir henni. Það er nokkuð nýtt fyrir mér í kennslu. Ég veit ekki hvað ég þurfti oft að breyta áætlun á síðustu stundu þegar ég var að kenna heima aðallega út af einhverju veseni. Þannig að þetta verður bara gaman. Við notuðum þennan fyrsta tíma aðallega til að undirbúa söng fyrir skólaguðsþjónustu sem var svo á sunnudeginum. Krakkarnir fengu að vera með Friðriki Páli á meðan ég var að kenna. Þegar ég kom að sækja þau kl. 4 eftir að hafa verið allan morguninn að leika þá vildu þau ekki koma heim: Þú sagðir að við mættum vera ALLAN daginn! og þar sem enn var bjart gat ekki verið að þau hefðu verið allan daginn! Í bílnum á leiðinni hem byrjuðu þau strax að tala um að þau vildu hitta Friðrik Pál aftur á morgun. Þau eru svo góðir vinir öll þrjú og ótrúlegt hve vel gengur fyrir þau að vera þrjú saman. Það er svo sjaldan sem slettist upp á vinskapinn eða einn skilinn út undan þótt það hafi einstöku sinnum komið fyrir. Friðrik Páll er meira að segja búinn að bera upp bónorð við Margréti Helgu. Fyrst sagði hún þvert nei og sagðist ætla að giftast Jóel þegar hún yrði stór. Aumingja Friðrik Páll var alveg miður sín. En nú er hún búin að skipta um skoðun og játast vonbiðlinum honum til mikillar gleði! Þetta byrjar snemma! Í næstu viku bryjar svo kennslan á Seminarinu. Það er nóg að gera við undirbúning hjá okkur báðum. Osvald yfir maðurinn okkar hjá NLM skrifaði bréf til seminarsins um að ég gæti bara tekið kórinn. En þeir láta nú ekki þar við sitja og suða í mér að taka meiri kennslu. Ég reyndi að vera eins ákveðin og ég gat en það endaði með að ég varð að segjast ætla að hugsa málið til að sleppa út. Ég bara held ég geti ekki tekið meira. Það er nóg að gera á heimilinu með þrjú lítil börn og svo er alltaf eitthvað spilerí hér og kórstjórn þar sem fellur til þegar maður hefur eitthvað vit á tónlist. Ég ætla líka að reyna að halda því að hafa einn til tvo skóladaga fyrir krakkana í viku. Þau eru mjög áhugasöm. Í dag byrjuðum við á nýju efni sem Kía kom með að heiman og svo eru þau aðeins farin að tengja saman stafi. Þau ætluðu aldrei að vilja stoppa í morgun, vildu ekki einu sinni hafa frímínútur! Á föstudaginn kemur svo fullt af fólki því það verður sameiginleg afmælisveisla fyrir þau systkinin og þau vilja helst bjóða öllum. Við höfum allavega nóg pláss og vonandi verður gott veður svo hægt verði að vera úti í stóra fína garðinum okkar. Það er nú eitthvað að létta rigningunni. Sl. þrír dagar hafa verið mun heitari en verið hefur og sól hálfan daginn ímist fyrir eða eftir hádegi og þess á milli rignt svakalega. Svona meira eins og regntíminn á að sér að vera. Svo fer nú líka að styttast í annan endan á regntímanum, BARA einn mánuður eftir. Sl fimmtudag vorum við með tæplega fjörtíu manns hér á bænastund. Það var fyrsta formlega bænastund vetrarins. Á hverju fimmtudagskvöldi eru bænastundir á öllum starfstöðvum NLM allstaðar í heiminum. Venjulega höfum við þetta á kvöldin og bara fyrir fullorðna fólkið en svona fyrsta skiptið ákváðum við að hafa öll börnin með og borða saman kvöldmat. Það komu allir Mekanissabúarnir og svo nokkrir gestir sem venjulega búa úti á landi en eru hér í Addis vegna skólabarna. Þetta heppnasðist mjög vel. Við sungum dálítið og ég var með stutta hugleiðingu fyrri krakkana. Svo sungu Margrét Helga og Jóel tvö lög og Kristján var með hugleiðingu fyrir fullorðna fólkið. Svo höfðum við stutta bænastund og borðuðum saman kvöldmat og kaffi þar sem allir höfðu lagt eitthvað til. Við erum að hugsa um að hafa svona af og til þar sem allir eru með. Við fegnum myndir úr brúðkaupi Péturs frænda og Guðrúnar Birnu með Kíu og co. Það var voðalega gaman að fá að sjá þetta allt. Í dag skoðaði ég myndirnar með húshjálpunum mínum og Mörtu vinkonu minni en þær þekkja allar Guðrúnu og hennar fólk sem hefur verið hér úti. Þær minntust sérstaklega á hvað þeim fannst Gíslason bræðurnir orðnir miklir shemagile (gamlir menn!) Ætli gráu hárin eigi ekki sök á því.....(varð bara að láta þetta fylgja með!)É morgun er svo nýr kennsludagur. Ég, Margrét Helga og Jóel förum með skólabílnum og verðum allan daginn á skólanum því eftir hádegi verð ég með barnakór. Nú ætlum við að reyna að hafa sameiginlegan barnakór fyrir bæði leikskóla og skólakrakkana. Það eru svo fá börn hér þegar börnin sem búa út á landi fara að við ætlum að sjá hvernig þetta gengur. Við erum búin að ákvða að senda krakkana bara einn dag í viku í leikskólann því okkur finnst tveggja tíma keyrsla þrisvar í viku í brjálæðislegri umferð og hrikalegri mengun dálítið mikið þegar leikskólinn er síðan bara þrír tímar í hvert skipti. Ég held þau séu alveg sátt með það allavega ennþá. Þau hafa líka alltaf hvort annað og svo höfum við skóladaga hér heima og svoleiðis. Það er ekki alveg víst hversu lengi það verður leikskóli því stelpan sem er sjálfboðaliði og sér um leikskólann verður send til Raitu (í Sómalilandi) til að aðstoða við heimakennslu í lok október. Það á bara eftir að koma í ljós. Er á meðan er og krakkarnir hafa gaman af að hittast og leika saman. Ætli ég fari þá ekki að taka til nesti og setja niður í töskur fyrir morgundaginn. Skólabíllinn kemur hálfátta og þá verðum við að vera tilbúin. 28. ágústNú erum við búin að vera algjörlega nestambandslaus í viku og er það frekar pirrandi. Það væri kanski allt í lagi ef maður byggi úti á landi og vissi að maður kæmist ekki á netið nema stöku sinnum en við búum í höfuðborginni og trystum á að komast á netið í sambandi við upplýsingar frá höfuðstöðvum og eins gera allir heima ráð fyrir að við séum nettengd. En svona er Eþíópía. Þetta virðist vera eitthvað meiriháttar vandamál hér á lóðinni því á málaskólalóðinni (þar sem við bjuggum í fyrra) er netsamband og ens á casa inces þar sem norski skólinn og skrifstofur kristniboðsins eru. Það verður bara að koma í ljós hvenær við komumst aftur á netið.Það var svaka veisla hér á föstudaginn. 22 börn og einhver slatti af fullorðnum. Húsið er svo stórt að maður finnur lítið fyrir fjöldanum. Margrét Helga og Jóel voru alsæl. Daginn áður höfðum við Fantanesh bakað 180 litlar pitsur, búið til fullan bala af pastasalati og stóra skál af ávaxtasalati! Ég bakaði svo afmæliskökur. Jóel fékk fótboltavöll og Margrét Helga dúkkuköku (svona köku sem dúkkunni er stungið í og kakan er kjóllinn) Hún vildi nú helst fá brúðartertu en ég sagði að það yrði að bíða betri tíma! Þá sagðist hún bara ætla að fá brúðartertu þegar hún yrði sex ára! Morguninn sem veislan var. Afhentum við systkinunum afmælisgjafirnar frá ömmu og afa á Karló. Mamma og pabbi sendu peninga sem við síðan keyptum hjól fyrir. Við skoðuðum hjól út um allan bæ og alls staðar var sama sagan að gæðin virðast ekki mikil. En Kristján fann hjól sem virtust sæmileg. Þau vildu auðvitað strax fara að hjóla en fljótlega slitnaði keðjan af hjólinu hennar Margrétar Helgu. Við vorum svo heppin að einn garðyrkjumaðurinn hér auk garðyrkjumannsins okkar gátu gert við hjólið og það virðist alveg halda. En það eru fjórir aukahlutir nú þegar brotnit af hjólunum. Það kanski gerir ekki til svo lengi sem hægt er að hjóla a´þeim. Amma og afi sendu líka hjálma. Nú hjóla þau og hjóla. Margrét Helga er orðin bísna flink á meðan Jóel þarf smá stuðning með kústskafti á hjólinu því hjálpadekkin fuga ekki til. Þau eru einhvernvegin ekki nógu breið eða eitthvað . En þetta kemur allt. Þau fengu síðan auðvitað fullt af gjöfum, litabækur og liti bíla, geisla disk með Lisu Börud sem er norsk kristin, barnastjarna sem þau hlustuðu mikið á í Noregi. Svo fékk daman litla pappa kommóðu sem hún geimir gjafirnar í, m.a. gloss og naglalakk svo nú getur hún verið pen prinsessa eins og hún segir sjálf. Hún er meira að segja búin að naglalakka bræður sína! Hún segist gera það því hana langar svo í systur. Á laugardaginn fórm við með Kíu og fjölskyldu út að borða og svo í velkomstpartý hér á seminarinu.- sept
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að fá nýjar fréttir af ykkur. Það er alltaf nóg að gera hjá ykkur öllum, skemmtilegar sögur af krökkunum. Hafið það gott kæru vinir, Köbenkveðjur, Svava María o.co.
Svava María (IP-tala skráð) 5.9.2006 kl. 10:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.