7.9.2007 | 06:38
Af dýrum og mönnum
Nú eru komnar fjórar vikur síðan við komum aftur til baka til Eþíópíu. Það verður að segjast eins og er að það tekur smá tíma að venjast lífinu hér aftur sem er um margt dáldið mikið öðruvísi en heima á Íslandi. Það var komið fram yfir miðnætti þegar við komum heim til okkar. Það var skelfilega kalt og rakt í húsinu þar sem nú er regntíminn í hámarki. Við erum með einn rafmagnsofn og næstu daga vorum við að færa hann á milli herbergja til að reyna að þurrka upp og hita húsið eins og hægt er. Við komum eignlega þegar kominnn var sunnudagur hér og sama dag var svokallað velkomstkaffe á norska skólanum. Á þessum samverum eru þeir formlega boðnir velkomnir sem eru nýkomnir út til starfa annað hvort í fyrsta sinn eða eftir einhverja fjarveru. Ásamt fleirum voru Anna Lilja og Kalli og Raggý boðin velkomin. Við stoppuðum nú ekki mjög lengi þar sem allir voru frekar þreyttir eftir ferðalagið ennþá og Margrét Helga átti að byrja í skólanum daginn eftir. Mánudaginn 13. Ágúst var svo skólasetning og fór ég með henni í skólann svona fyrsta daginn. Daginn eftir 14. Ágúst var svo afmælisdagurinn hennar og fyrsti venjulegi skóladagurinn. Hann byrjaði heldur harkalega! Skólabíllinn átti að sækja Margréti Helgu kl. 7:25 þannig að ég stillti vekjaraklukkuna á 6:20 til að vera alveg örugg um að vakan á réttum tíma. Klukkan hringdi og ég lá bara smá stund í rúminu svona rétt að jafna mig. Mér fannst nú reyndar sólin komin eitthvað óvenju hátt á loft en spáði ekkert meir í það. Þegar klukkan var hálfsjö- að ég hélt- hrukkum við upp við að það var bankað á útidyrnar. Það var þá skólabíllinn kominn. Ég varð alveg kexrugluð og skildi ekki hvað hann var snemma. Ég áttaði mig þó fljótt á því að eitthvað var vekjaraklukkan ekki alveg rétt og dreif Margréti Helgu á fætur. Kristján varð að keyr hann í skólann því við gátum ekki látið Selam (skólabílstjórann) bíða því hann átti eftir að sækja fleiri. Margrét Helga fékk bara nesti með sér í bílinn og brunuðu feðginin af stað! Asinn var svo mikill að ég gleymdi næstum að hún átti afmæli greyið litla! En þetta fór allt vel. Batteríið var ss. Búið í vekjaraklukkunni og af tilviljun var hún nákvæmlega klukkutíma of sein auk þess sem okkar líkamsklukka var ekki alveg orðin stillt á eþíópskan tíma. Um kvöldið fórum við svo með Önnu Lilju og Kalla og Raggý á Gíon hótelið og fengum okkur injera og wodd.
Það hefur sem betur fer ekki komið fyrir aftur að við höfum sofið yfir okkur en Margrét Helga var til að byrja með mjög þreytt og fannst erfitt að vakan svona snemma. Það er nú aðeins að lagast. Henni finns rosalega gaman í skólanum en það reynir heilmikið á hana þar sem allt (nema íslenskan auðvitað) er á norsku. Hún talar norskuna alveg reiprennandi en það er eitt að leika við krakkana og annað að sitja í skólanum og hlusta á langar sögur og flóknar útskýringar. Það eru líka mörg ný hugtök sem hún þarf að tileinka sér en þetta kemur allt og hún er mjög dugleg. Anna Lilja er með henni 7 tíma í viku í íslensku og er hún núna aðallega að æfa skrift og lestur og svo er hún búin að læra öll þrjú erindin í Ó blessuð vertu sumarsól!
Jóel og Dagbjartur Elí eru byrjaðir í mömmuskóla og fer svona eftir því hvað þeir nenna að vera oft í viku. Oft erum við í svona 40 mín. á morgnana áður en Asnakú kemur kl. hálfníu. Við erum að læra stafina og Jóel gerir ýmis forskóla og stærðfræðiverkefni. Dagbjartur Elí er líka með sína eigin skólabók og hermir eftir bróður sínum og segir reglulega:gaman mömmuskóla! Við höfum líka notast dáldið við myndlestrarbók og það finnst þeim báðum mjög gaman. Dagbjartur Elí er alveg ótrúlega duglegur að sitja og hlusta og lita í skólabókina og lesa í myndlestrarbókinni.
Það hefur ýmislegt gerst í gæludýramáum að undanförnu. Skjaldbökurnar tvær og stóra svarta kanínan eru hér sem fyrr en um stund reyndi Jóel fyrir sér í umönnun halakarta. Hann fór daglega í síðustu viku og veiddi halakörtur í polli hér á lóðinni og var kominn með heilan helling í skúringarfötu úti á verönd sem hann fóðraði með ungbarnagraut sem var runnin út á tíma. Þetta gekk bara vel í byrjun en ég var farin að velta fyrir mér hvernig þetta yrði þegar allar halkörturnar yrðu að skoppandi froskum (þær hafa örugglega verið a.mk. 50 stk!) En það náði ekki svo langt því allt í einu tóku þær upp á því að drepast hver af annarri og á tveimur dögum voru þær allar dauðar. Jóel sem var búinn að hugsa svo vel um þær. Hann tók meira að segja nokkrar inn og ætlaði að leyfa þeim að sofa á náttborðinu hjá sér því hann var viss um að þær væru veikar! Hann hefur ekkert reynt frekar með halakörtuuppfóstrun er núna farinn að safna ormum! Hann er algjör dýrakall, hann segist líka skilja dýramál og veit upp á hár hvað hýenurnar eru að spjalla um á kvöldin (að eigin sögn!) Í gær bættist svo nýr félagi í hópinn sem er hér allavega um stundarsakir. Það er risastór skjaldbaka sem Kristján gaf nafnið Halldór í höfuðið á litla bróður sínum (sem er yfir tveir metrar á hæð- Halldór mágur minn, ekki skjaldbakan)Við vitum ekki hvaðan hún kemur eða hvort einhver eigandi er að henni. Þessar skepnur eru lífsseigar og fara sínar eigin leiðir. Það getur vel verið að einhver hér hafi átt hana fyrir einhverjum árum en eins og er fær hún að dvelja með hinum skjaldbökunum okkar í skjaldbökugirðingunni.
Davíð Ómar vex og dafnar og er alltaf jafnbrosmildur. Hann er reyndar búninn að vera dáldið mikið kvefaður síðan við komum út en sem betur fer verið hress að öðru leyti. Við erum dáldið búin að vera að þreyfa fyrir okkur með mjólk handa honum þar sem hann þolir ekki venjulega ungbarnaþurrmjólk sem unnin er úr kúamjólk. Heima fékk hann soya SMA en það fæst ekki hér þótt það sé mikið úrval af ungbarnamjólk hér. Við erum komin niður á að gefa honum venjulega soyamjólk og svo fær hann með SMA mjólkina sem við komum með að heiman. Fyrst tókst okkur að fá lífræna soyamjólk sem hann var mjög sáttur við en núna síðast fannst ekkert nema soyamjólk með bragðefnum sem honum finnst ekkert voðalega góð á bragðið. Það gengur samt ef hún er blönduð með hinni mjólkinni. Svo angar hann eins og vanillubúðingur! Hann er orðinn voð duglegur að velta sér um allt á gólfinu og kvartar hástöfum ef hann lendir undir sófa! Honum finnst alveg rosalega gaman að láta lesa fyrir sig og syngja með sér og er eitt sólskinsbros þegar systkini hans eru að syngja. Þangað til núna á föstudaginn, 31. ágúst (brúðkaupsafmæli mömmu og pabba) hefur brosið verið alveg tannslaust en nú glittir í eina litla tönnslu. Hann er enn ósköp smár svona ef hann er borinn saman við bræður sína á sama aldri en margur er knár þótt hann sé smár- segir máltækið! Hann líkist ennþá BARA pabba sínum og elsta bróður. Ég hef nú alltaf séð einhvern svip úr báðum áttum í hinum börnunum en Davíð Ómar er bara eins og ljósrit af pabba sínum!
Kristján er kominn á fullt í kennslu. Hann er að kenna meira núna enn í fyrra og þetta er allt nýtt námsefni þar sem hann heldur áfram með sama hópinn og í fyrra. Hann stjórnar líka áfram íþrótta verkenfnu (Hope sport project) sem hefur verið í fríi núna í regntímanum en fer aðð fara á fullt aftur þegar stytta fer upp.
Ég er heima núna og nóg að gera við að sinna börnunum og heimilinu þó svo ég hafi góða hjálp. Litlu strákarnir eru allir heima á meðan Margrét Helga fer í skólann. Mér finnst gott að núna get ég fengið góðan tíma til að sinna Davíð Ómari og líka stóru strákunum mínum. Mér fannst erfitt að vera í fullu málanámi með Dagbjart Elí bara 6 mánaða og finnst ég eiginlega skulda honum dáldinn tíma. Ég aðstoða reyndar Önnu Lilju aðeins með undirbúning íslenskukennslunnar og svo þarf líka að aðstoða Margréti Helgu við heimanámið og fylgjast með að allt gangi vel í skólanum og að hún nái að fylgjast með öllu. Svo er alltaf eitthvað sem fellur til. Ég byrjaði í dag með tónlistarhóp fyrir yngstu kristniboðabörnin sem verður nk. tónlistarforskóli þar sem sem við syngjum mikið, vinnum með rytma, lærum um hljóðfæri og hlustum á tónlist svo eitthvað sé nefnt. Það var bara mjög gaman og ætlum við að hafa þetta hér heima hjá okkur annan hvern miðvikudag. Annaðkvöld verður svo misjonsforening hér heima hjá okkur með lofgjörðarþema.
Sl.sunnudag . sept, átti Jóel afmæli og varð loksins 5 ára. Hann var nú reyndar eitthvað búinn að tala um það við ömmu sína og afa að hann vildi ekki verða fimm ára því Margrét Helga segði að það væri svo leiðinlegt, það væri miklu skemmtilegra að vera 6 ára (hún er lengi búin að bíða spennt eftir að verða 6 ára) Einhvern morguninn var Dagbjartur Elí að tala um að fara með skólabílnum eins og Margrét Helga en ég sagði að hann væri nú aðeins of lítill. Núna fer Margrét Helga með skólabílnum en næsta ár fer svo Jóel líka með skólabílnum. Þá sagði Margrét Helga: Jóel, það tekur dáldinn tíma að vera fimm ára! En nú er hann orðinn fimm ára og hæstánægður með það. Ég var búin að hugsa að við gætum farið út að borða með honum líka en lá svo bara hundveik með einhverja skelfilega magakveisu allan sunnudaginn. Ég spurði Jóel um kvöldið hvort þetta hefði verið góður afmælisdagur og hann sagði að þetta hefði verið mjög skemmtilegur dagur. Hann fékk að fara í tölvuleik með Margréti Helgu m.a. (þau fengu playstation í afmælisgjöf á Íslandi). Ég sagði að mér hefði fundist svo leiðinlegt að vera veik á afmælisdaginn hans en þá svaraði þetta yndi: Já svona er þetta, maður verður stundum veikur á afmælisdögum
Ég er svona nokkunvegin orðin góð í maganum. Hef líklega bara borðað eitthvað sem maginn hefur ekki þolað.Þetta fylgir bara hér úti, allavega mér. Ég er með svo viðkvæman maga og fæ alltaf við og við einhverjar svona kveisur.En hvað sem öllum kveisum líður er Íslandsforðinn farinn að fjúka af okkur- veitti ekki af það var nú ekkert smá sem maður lifði í vellistingum þarna heima!
En nú held ég að ég sé búin að vinna upp allt sem ég átti eftir að skrifa um svo vonandi verða þetta ekki svona mikla langlokur á næstunni.
Bið að heilsa í bili og Guðs blessun
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heil og sæl!
Alltaf gaman að lesa skrifin. Já, Kristján á mest í MH, J og DÓ en DE er mjög líkur þér Helga mín, ekki satt?
Gangi ykkur áfram vel og hafið það gott!
Kveðja frá Kaupmannahöfn, Svava María o.fjsk.
Svava María (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 11:14
Gaman ad lesa um ykkur aftur. Takk fyrir sídast. Fylgjumst vel med ykkur. Guds veri med ykkur öllum, kossar og knús. Magga Salla og co i Kristiansand
Magga Salla (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 20:59
Sæl Helga Vilborg!
Alltaf svo gaman að lesa bloggsíðuna þína. Kem reglulega inn og kíki á ykkur!
Þetta er allt svo eksótískt sem þið eruð að upplifa, finnst mér!
Kær kveðja,
Ingileif.
Ingileif Gisladottir (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 12:19
HæææH.
Alltaf gaman að heyra í ykkur
loksins gat ég skoðað myndir og bara gangi ykkur vel með allt
Kozz og Knúz Kristín Helga
Kristín Helga (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.