2.10.2007 | 17:19
Í hendi Guðs
- 1. október
Nei nú er nóg komið af leti- eða andleysi öllu heldur. Mér fanns allt í einu eins og ég væri alltaf að tala um það sama en kanski er það nú bara ekkert svo ómerkilegt, allvega ekki það sem snýr að börnunum og þroska þeirra og ég veit líka að ættingjarnir vilja heyra meira svo þá er bara að koma sér af stað.
Svo ég byrji nú á að rapportera um heilsuna þá er ég loksins orðin góð af kvefinu og meira að segja farin að geta sungið nokkuð almennilega! Þakka ykkur fyrir að biðja fyrir mér! En það eru ekki alveg allir jafnfrískir því litli Trítillinn er ekki alveg búinn að vera nógu hress að undanförnu. Fyrir viku síðan fór hann að fá alveg skelfilegan niðurgang með blæðingum svo okkur leist nú ekki á blikuna. Þrátt fyrir það var hann alveg hress og líkur sjálfum sér en þetta leit ekki vel út. Okkur grunar helst, eftir að hafa lesið í sænsku barnalæknabókinni (Barnläkarbok ) sem Hilli og Sólveig gáfu okkur, að hann sé bara hreinlega með kúamjólkurofnæmi. Það var basl með magann á honum fyrstu þrjá mánuðina, hann var óvær og þyngdist illa. Svo þegar við komum til Íslands og hann fékk soyamjólk breyttist allt. Hann fór að sofa vel og þyngdist loksins almennilega. Nú er hann aftur fallinn dáldið mikið í kúrfu og svo kemur þetta. Við vissum að við áttum von á pakka frá mömmu og pabba með soyamjólk sem við fengum svo á fimmtudaginn og á laugardaginn var hann strax orðinn betri. Það fæst engin ungbarna soyamjólk hér en við ætlum að reyna að panta mjólk hjá þýskum kristniboðssamtökum sem selja soyamjólk á basar sem er hér einu sinni í mánuði. Mamma og pabbi eru líka búin að senda fleiri dósir. Þið megið gjarnan biðja fyrir þessu því þetta er dáldið mál og við vitum ekki hversu öruggt það er að við fáum soyjamjólk hér reglulega. Hann er enn svo lítill að mjólkin er uppistaðan í fæðunni hjá honum en þetta verður auðvitað auðveldara þegar hann eldist og getur farið að borða fjölbreyttari fæðu. En þar með er nú ekki öllu lokið því greyið litla er endalaust kvefaður og gær fékk hann háan hita. Í morgun var hitinn nú eitthvað lægri en hann hefur litla matarlyst og bara sefur og sefur. Þrátt fyrir slappleikann er nú alltaf stutt í brosið og hann spjallar og hlær. Þið megið gjarnan biðja fyrir honum að hann megi braggast og verða frískur aftur.
Jóel heldur áfram á dýraveiðum og var kominn með fimm froska sem höfðu fengið nöfnin Nebbi, Stebbi, Hanna, Anna og Kalli (það skal tekið fram að nafngiftirnar eru alfarið hans hugmyndir) En í morgun var ekki mjög góð lyktin í bílskúrnum þar sem allir froskarnir nema Nebbi voru dánir (ég veit ekki alveg hvernig hann þekkir þá í sundur en...) Nú er búið að búa til nýja tjörn handa Nebba og Jóel er í gríð og erg að veiða skordýr og flugur honum til matar. Hann er búinn að eignast nýja vini sem eru nokkrir litlir strákar frá Gambela sem er svæði í vestur Eþíópíu. Foreldrar þeirra eru við nám hér. Þeir tala reyndar ekki mikla amharísku en börn finna einhvernvegin alltaf einhverja leið til tjáskipta. Þeir eru duglegir að hjálpa Jóel við froskaveiðarnar og og komu m.a. með fulla fötu af halakörtum handa honum! Fyrir utan dýrastúss er drengurinn farinn að stauta sig í lestri og er mjög stoltur. " Ég er með miklu erfiðari lestrar bók en þú, Dagbjartur Elí" segir hann við litla bróður sem er bara alveg hæstánægður með myndlestrarbókina sína!
Dagbjartur Elí er svona smátt og smátt að ná áttum aftur eftir allt rótið í sumar. Hann þarf mikinn tíma með mömmu og er mjög sáttur og ánægður ef hann fær að vera eins mikið með mömmu og hann vill þannig að ég er fegin að vera ekki bundin í vinnu. Nú er Davíð Ómar líka orðinn það stór að Asnakú tekur hann stundum svo ég geti verið aðeins með Dagbjarti Elí. Hann er líka farinn að vera duglegur að pissa og kúka í klósettið aftur en er enn með öryggisbleyju á nóttunni. Við settum upp límmiðakerfi þar sem hann fær límmiða í hvert skipti sem hann fer á klósettið og svo fær hann smá verðlaun þegar hann hefur safnað 10 límmiðum. Þetta virkaði mjög vel á hann. Hann var farinn að pissa viljandi í buxurnar til að vekja á sér athygli en nú er allt að komast á rétt ról.
Margrét Helga er alltaf jafnánægð í skólanum og er orðin mjög dugleg að lesa. Hún er komin á það stig að lesa á öll skilti og allar pakkningar sem er nú ekki altaf einfallt því það er nú ekki mikið af því á íslensku. Hún var nú farin að óþekktast eitthvað við frænku sína í skólanum en svo ákváðum við að breyta aðeisn til og hvíla hana á skriftinni svo nú gengur allt miklu betur. Hún er að búa til bókaorm í stofunni sem lengist við hverja blaðsíðu sem hún les.
- 2. Okt
Davíð Ómar er aðeins hressari í dag en í gær. Hann var með 40 stiga hita í gær og mjög slappur. Hann hresstist samt aðeins þegar ég fékk hann til að drekka. Hann hefur ekki verið alveg hitalaus í dag en með mun lægri hita, var 38,5 þegar ég mældi hann seinni partinn. Hann er líka mun sprækari og og leikur sér í smá tíma þótt hann vilji nú helst vera í mömmufangi. Hann er samt ekki með mikla matarlyst og það þarf að pata ofan í hann mat og jafnvel pelann drekkur hann takmarkað. Vonandi að það fari að lagast því hann má varla við þessu. Ég verð alltaf svo stressuð þegar börnin fá svona háan hita og sérstaklega hér úti þar sem allskonar sjúkdómar eru til staðar sem afnvel þekkjast ekki heima. Sem betur er er þetta þó yfirleitt bara venjulegt kvef, flensa eða magapest sem um ræðir en maður er alltaf meira á varðbergi hér. Þótt við höfum kanski ekki sama aðgang að sjúkrahúsþjónustu hér og heima er þó aðstaðan, sérstaklega hér í Addis nokkuð góð. Hér er Kóreanskt sjúkrahús sem er talið nokkuð gott og svo sænskur klínikk sem kristniboðið notar ef um neyðartilvik er að ræða. Þar er norskur læknir og allar græjur og helstu lyf. Svo treystum við auðvitað og trúum því að við erum í Guðs hendi og hann verndar okkur og varðveitir. Í gærkvöld dró ég vers úr mannakornunum sem var mér mikil huggun, það er úr Jósúabók 1. kafla og 9.vers: "Hefi ég ekki boðið þér:Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur" Og á dagatalinu okkar fyrir daginn í dag standa þessi orð úr sálmi 23: "Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína" og svo þessar ljóðlínur eftir Matthías Jochumsson:
Í hendi Guðs er hver ein tíð,
Í hendi Guðs er allt vort stríð,
Hið minnsta happ, hið mesta fár,
Hið mikla djúp, hið litla tár
Oft finnst mér eins og Guð noti erfileikana til að minna mig á að ég er í Hans hendi. Við erum hér úti vegna þess að við trúum því að Hann hafi kallað okkur til þess að starfa hér og treystum því að hann leiði okkur hvert skref og jafnframt verndi okkur og börnin okkar. Við vitum líka að það eru margir sem biðja fyrir okkur á hverjum degi og erum óendanlega þakklát fyrir það því án fyrirbæna, án kristniboðsvina og ekki síst án Drottins gætum við ekki verið hér og starfað.
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kæru vinir!
Ég vona að Davíð Ómar nái sér fljótt, litla krúttið. Gaman að heyra af hinum systkinunum að allt gengur vel. Hafið það öll gott.
Kveðja frá Kaupmannahöfn, Svava María.
Svava María (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 21:54
Við biðjum Guð að vera með ykkur öllum og sérstaklega minnsta manninum þessa dagana. "Veri Guð hans verndin, veiti hann honum styrkinn"
Kær kveðja Ragnhildur, Einar og börn
Ragnhildur Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 23:49
Vonandi er Davíð Ómar orðinn hressari. Við biðjum Guð að blessa ykkur öll og vaka yfir ykkur. Svo óskum við þér til hamingju með afmælið, elsku Helga Vilborg.
Kærar kveðjur, Bjarni, Rúna, Hildur og Lilja
Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.