Regntíminn búinn!!!

 

8. okt

 

Takk fyrir góðar kveðjur í gær í tilefni af afmælisdeginum mínum og brúðkaupsafmæli okkar Kristjáns! 7. október var líka fæðingardagur Helgu Sigurbjargar Örnólfsdóttur, móður ömmu minnar, sem ég heiti í höfuðið á. Hún lést langt fyrir aldur fram 4. Des. 1965.  Þetta er líka skírnardagur Margrétar Helgu sem var skírð í Hallgrímskirkju fyrir sex árum. Þannig að þetta er stór dagur í okkar fjölskyldu. Ég var fyrir einhverju síðan búin að plana að halda afmælisveislu en þar sem Davíð Ómar er búinn að vera svo mikið veikur ákvað ég að hætta við það. Við fórum í gæar fjölskyldan ásamt Önnu Lilju frænku út að borða á hótel Gihon sem selur besta woddinn í bænum að okkar mati. Þetta var nú ekki beint afslappandi með ungabarn, þreyttan tveggja ára gaur og tvo gorma sem voru komnir með svefngalsa. En þetta var nú fínt þrátt fyrir það og góður dagur sem við áttum. Þegar ég vaknaði í gærmorgun stóðu tveir litli englar frammi og sungu afmælissönginn fyrir mömmu sína! Þetta var fallegasti afmælissöngur sem ég hef fengið. Þriðji engillinn lá skælandi í rúminu sínu af einhverjum ástæðum ekki var mögulegt að skilja en var nú fljótur að jafna sig og gefa mömmu afmælisknús. Ég fékk eþíópskt sjal og veski í stíl frá Kristjáni, sem ég hef lengi óskað  mér. Eftir góðan morgunverð fórum við í kirkjuna hér á seminarinu og við Dagbjartur Elí fórum í sunnudagaskólann. Margrét Helga og Jóel voru einhversstaðar úti að hlaupa og Davíð Ómar með Kristjáni í kirkjunni. Dagbjartur Elí er farinn að koma fram við eþíópsku börnin eins og þau við hann, togar í hárið á þeim, potar í þau og bendir og reynir að kyssa þau, eins og það sé bara alveg fullkomlega eðlilegt!!  Í eftirmiðdaginn fórum við í kaffi á norska skólanum þar sem "misjonssekretær" NLM fyrir austur Afríku var í sérstakri heimsókn. Daginn enduðum við svo á Gihon eins og áður sagði.

 

9. okt

 

Eins og ég sagði frá hefur Davíð Ómar verið mikið veikur undanfarið. Það byrjaði með því að hann fékk niðurgang á mánudegi fyrir tveimur vikum síðan sem síðan virtist ætla að lagast á laugardeginum þegar við höfðum skipt um mjólk. Á sunnudeginum fékk hann svo háan hita eins og ég var búin að segja frá og niðurgangurinn fór aftur að láta á sér kræla og var aftur orðinn blóðugur. Á miðvikudaginn í síðustu viku var okkur svo hætt að lítast á blikuna því við komum litlu sem engu af mat eða drykk ofan í hann, hann var orðinn fölur, með bauga undir augunum og mjög slappur og farinn að sýna merki um ofþornun. Við ákváðum því að fara með hann á sænsku læknastöðina (Swedish clinic) sem rekin er af sænska sendiráðinu. Þar er norskur læknir sem heitir Arne Bredvei, sem skoðaði hann. Það varu teknar blóðprufur, þvagprufa og strep- test (streptokokka) en allt virtist eðlilegt. Að sjálfsögðu kúkaði hann ekkert hjá lækninum en það varð að skoða hvað olli niðurganginum og blóðinu í hægðunum. Morguninn eftir fórum við Dagbjartur Elí með kúkableyju til læknisins og þeir voru ekki lengi að átta sig á að hann var með svokallaðar amöbur sem eru snýkjudýr og ekki óalgengt að fólk fái hér. Þetta smitast helst í gegnum vatn og mat en getur líka komið af óhreinum höndum. Fullorðið fólk og eldir börni geta fengið þetta án þess að verða mjög veik og líklega hefur fólk líka mismunandi þol en svona lítið barn þolir auðvvitað ekki mikið. Hann var búinn að léttast um 300 g á einni viku sem er mjög mikið fyrir lítinn kall sem var bara 7,9 kg. fyrir.Amöburnar éta blóðflögur og skýrir það blóðið í hægðunum. Hann var strax settur á lyf og nú er hann á hægum batavgi. Hann er enn með niðurgang o þangað til í gaær höfum við ekki komið nema 300- 400 ml. af vökva í hann á sólarhing. Í gær ogí dag hinsvegar hefur gengið betur að fá hann til að borða og drekka og hann er líka farinn að verða líkari sjálfum sér. Alla síðustu viku var hann bara á handleggnum á mér, svaf lítið og vildi ekki leika sér. Núna er hann farinn að una sér betur á gólfinu við að leika sér svo þetta lítur allt betur út.

Við vitum að margir hafa beðið fyrir Davíð Ómari og okkur og þökkum kærlega fyrir það. Þið megið gjarnan muna eftir honum áfram, að hann nái sér alveg og braggist.

 

Þetta hefur allt að sjálfsögðu tekið á og verið lýjandi en við erum örugg í hendi Guðs og finnum að við erum borin á bænarörmum. Nú er regntíminn líka búinn og þvílíkur munur! Það hafa ekki altaf verið svona skörp skil. Á miðvikudaginn rigndi þessi ósköp svo að áin flæddi yfir bakka sína en á fimmtudaginn var allt í einu loftið skrufþurrt og vindurinn farinn að blása OOOG sólin að skína!!! Sem er skýrt merki um að nú er kominn þurrkatími. Það getur auðvitað alveg rignt pínulítið inn á milli, en það er líka bara allt í lagi. Næturnar eru reyndar kaldar en það er þurrt og á daginn er heitt sem munar öllu. Nú þornar þvotturinn á engri stundu og meira að segja heitt í húsinu yfir daginn.

En nú er lítill maður farinn að kvarta svo ég læt þetta duga í bili....

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ. Vildi bara láta ykkur vita að við hugsum til ykkar og biðjum fyrir ykkur. Gott að heyra að það gangi betur með yngsta manninn. Vonum að hann nái sér fljótlega. Kveðja úr Danmerkunni.

Ólöf Inger (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 18:29

2 identicon

Sæl kæra fjölskylda!  Leitt að heyra af veikindum Davíðs Ómars. Fréttum hjá foreldrum þínum í dag Helga að hann væri enn ekki góður.  Amaban getur verið mjög erfið viðureignar. Man þegar Britta var slæm af henni og þurfti tvo kúra til að losa sig við hana. Við höldum áfram að biðja fyrir ykkur og sérstaklega fyrir litla skinninu, þetta er mikið álag á lítinn líkama og líka álag á ykkur hin í fjölskyldunni. Frábært að rigningatímabilinu sé lokið. Til hamingju með það og svo öll afmælin þann 7. Friðrik Páll þakkar Jóeli, besta vini sínum, rosalega vel fyrir bréfið sem hann fékk fyrir viku síðan. Honum fannst þetta æðislega flottar myndir! Hann er búinn að teikna mynd handa honum sem hann ætlar að senda honum þegar hann er búinn að lita hana.  Biðjum að heilsa öllum sem við okkur vilja kannast, Kær  kveðja, Kía og Raggi

Kía (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband