Von

 

15. okt

Nú er Davíð Ómar allur að taka við sér. Í gær borðaði hann loksins eitthvað sem heitið getur og í dag hefur hann haft nokkuð góða matarlyst svo þetta er allt að koma. Hann kláraði lyfið á laugardaginn. Þetta lyf veldur oft ógleði og lystarleysi svo það er kanski ekki skrítið að hann hafi ekki borðað mikið. Nú bara vonum við að hann taki kipp og verði duglegur að borða og drekka. Við erum mjög þakklát fyrir allar fyrirbænir og og þætti vænt um að hann væri áfram á bænalistanum. Nú er mikilvægt að hann nái að vinna upp tapið í veikindunum og að hann haldi sínu striki. Vaxtarkúrfan hans en bara sikk sakk alveg frá fæðingu svo nú væri gott að sjá að hún yrði í meira jafnvægi.

 

Það var dáldið krúttleg sena hérna um daginn með þeim tveimur yngstu bræðrunum. Þannig var að Davíð Ómar var eitthvað voðalega órólegur. Hann bara grét og grét og var alveg ómögulegur. Mér tókst gekk ekkert að róa hann þótt ég gengi með hann um gólf var hann alveg jafnómögulegur. Þá datt mér allt í einu í hug að setja DVD diskinn með Sálinni og Gospelkórnum í tækið því hann er svo hrifinn af tónlist og finnst líka gaman að horfa á sjónvarpið og viti menn það virkaði svona líka vel. Drengurinn hætti að skæla og steinsofnaði fljótlega. Stuttu eftir að hann var sofnaður vaknaði Bangsímon (Dagbjartur Elí) sem hafði sofnað kl. 6 um kvöldið en nú var kl. að ganga ellefu. Hann varð strax var við að kveikt væri á sjónvarpinu og vildi fara að horfa. Honum fannst þetta ekkert smá skemmtilegt. "Þetta er skemmtilegt mamma" sagði hann með sínum norðlenska, raddaða framburði (sem hlýtur honum bara að vera í blóð borinn þar sem hann er ættaður úr Þingeyjarsýslunni í báðar áttir- ekki tölum við svona!). Hann þverneitaði að fara að sofa og vildi bra horfa á tónleikana til enda sem hann og gerði. Ég spurði hann hvort hann ætlaði að spila svona þegar hann yrði stór og því svaraði hann játandi. "Hvaða hljóðfæri langar þig til að spila á" spurði mamman " ég ætla að spila lottó" svaraði þá snáðinn! Það skemmtilegasta sem hann veit þessa dagana er að spila myndabingó og er hann iðulega bingóstjórinn. Það er skemtilegast að spila við mömmu eða pabba og ekki verst þegar við spilum öll saman og hann fær að stjórna. Frekar krúttlegur, enda er hann atvinnukrútt!!

 

Það er nú bara allt annað líf hérna eftir ða regntíminn kláraðist. Einhvernveginn léttara yfir öllu og öllum. Þetta er ekki ósvipað því þegar vorið kemur heima eftir langt og erfitt skammdegi. Margrét Helga og Jóel eru nú byrjuð aftur á hlaupaæfingum tvisvar í viku og Jóel fer bráðum að byrja atur í karate líka. Núna er haustfrí á  norska skólanum svo Margrét Helga er heima þessa vikuna. Jóel finnst það nú ekkert slæmt. Kristján er fastur í vinnu svo við förum nú ekkert út úr bænum eins og margir. En það er ágætt fyrir krúsluna að fá smá frí og hvíld frá skólanum. Ekki að henni finnist ekki gaman en það er gott að fá aðeins að sofa lengur og fá frí frá heimalærdómnum.

 

Þrátt fyrir að þurrkatíminn sé búinn þýðir það ekki betra líf fyrir alla í Addis Abeba. Fólka talar mikið um að nú séu erfiðri tímar og stafar það fyrst og fremst af mikilli verðbólgu síðastliðið ár og þá aðallegar síðasta hálfa árið. Það er ekki óalgengt að hjón séu samtals með um 1000 birr (uþb 8000 ískr.) á mánuði og er það þá jafnvel í hærri kantinum. Oft er ekki nema ein fyrirvinna á heimilinu. Nú orðið er algengt hér í Addis að fólk eignist tvö til þrjú börn. Margir eiga þó fleiri börn.  Skólagjöld á mánuði fyrir eitt barn í sæmilega góðan skóla eru frá 100 birrum á mánuði. Þá á eftir að kaupa bækur, skólabúning og ýmislegt fleira sem tilheyrir. Verð á matvöru hefur hækkað að meðaltali um 40%  síðan í maí á þessu ári. Það á við um allar búðir, bæði stórmarkaði sem aðallega útlendingar og ríkt fólk verslar í og líka minni verslanir sem algengara er að almenningur versli í. Svo ég taki dæmi þá kostaði kíló af berberre (aðalkryddið sem notað er í þjóðarréttinn) 25 birr þegar við komum út fyrir tveimur árum. Í maí kostaði kílóið 55 birr en nú er verðið á bilinu 80- 90 birr kílóið. Sama er að segja um "tef" sem er korntegund sem er uppistaðan í fæðu flestra hér. Svo ég taki fleiri dæmi, kostaði ein dós af niðursoðnum tómötum 10- 11 birr, núna kostar sama tegund  18 birr. Pampersbleyjur, einn pakki með 32 bleyjum kostaði í byrjun júní 64 birr en kostar núna frá í september 94 birr. Svona mætti lengi telja.

Við höfum það gott þótt það sé fleira sem við þurfum að neita okkur um en áður, það er yfirstíganlegt, en auðvitað bitnar svonlagað alltaf verst á þeim fátækustu og fátæktin hér og eymdin er slík að nánast ómögulegt er að lýsa því. Það er kanski engin ein skýring á þessu. Á meðan fleiri  verða ríkari, stækkar bilið milli þeirra sem eru ríkir og fátækir og enn fleiri verða fátækir. Margir flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar í von um betra líf en lenda svo oftar en ekki á götunni alslausir. Það er auðvelt að horfa á yfirborðið og sjá að hér eru miklar framfarir og framkvæmdir í gangi en það er aðeins lítill hópur fólks sem fær að njóta þess. Flestir eru miklu fátækari en þeir fátækustu heima á Íslandi. Fjöldi barna hefur ekki tækifæri til að ganga í skóla því engir peningar eru til. Mörg þeirra enda því á götunni. Gamalt fólk á margt hvert hvergi höfði sínu að halla, það býr á götunni og reynir að draga fram lífið með betli. Lítil sem engin úrræði eru fyrir fatlaða, sem eru margir.Margt fatlað fólk býr á götunni og vinnur fyrir sér með betli.

Fólk talar um erfiðleikana en líka um að það sé von. Allt er í hendi Guðs og það eru Eþíóparnir óhræddir að tala um og þeir trúa  því að það sé von um betra líf í Eþíóíu. Þess vegna bið ég ykkur að vera með að biðja fyrir Eþíópíu. Í raun er þetta auðugt land, miklar náttúruauðlindir og frjósamt land. En auðæfin eru illa nýtt og mjög ójafnt skipt. Við biðjum þess líka að við megum vera verkfæri í höndum Guðs hér til að reyna að skapa hér betri lífsskilyrði í okkar veika mætti. Okkar máttur er lítill en máttur Guðs er mikill og það er í þeirri trú sem við störfum hér.

Mig langaði bara að deila þessu með ykkur og til að vekja til umhugsunar. Þetta er það sem blasir við okkur á degi hverjum. Það venst aldrei og stundum verður þetta yfirþyrmandi. Mér finnst erfiðast að horfa upp á börnin, fatlaða fólkið og hina öldruðu sem eiga engan að.

 

Vér vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæðið fullreynd en fullreyndin von

                                                                                                     Rómverjabréfið 5:3-4

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ og takk fyrir kveðjuna á heimasíðunni minni. Ég sakna ykkar mikið. Þið megið endilega senda mér mynd. Mamma og pabbi biðja svo líka að heilsa.

kveðja,

Erna Lilja

Erna Lilja (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband