Brúðkaup ofl.

8. september Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist en það sem átti að vera 2. september í síðustu færslu breyttist í fyrsta. Jóel á auðvitað afmæli 2. sept. Ég byrjaði að kenna á seminarinu sl. mánudag. Það mættu 20 af 47 nemendum! Næsta mánudag er svo frí því það er eþíópskur nýjársdagur. Hér er farið efir dagatali austurkirkjunnar svo nú er árið 1998 að líða og árið 1999 að ganga í garð. Spennandi að sjá hvort allir mæta eftir eina og hálfa viku.  12. septemberÞá er nýtt ár gengið í garð hér í Eþíópíu, árið 1999. Þannig að eiginlega er ég bara 24 ára! (hahaha) Þetta er ein af stærstu hátíðunum hér bara eins og þegar nýtt ár gengur í garð hjá okkur. Það eru brennd bál, skotið upp flugeldum og borðaður hátíðarmatur. Við fórum í bíltúr á laugardaginn sem við einnig gerðum fyrir ári síðan. Það er gaman að fylgjast með mannlífinu svona rétt fyrir gamlárskvöld. Allir eru að kaupa hátíðarmatinn og því er verslað með hæns, sauðfé og nautgripi hvarvetna á götum úti. Það má sjá vesalings dýrinn bundin föst niðurr á bíltoppana, vælandi af angist, (svona til þess að kjötið verði aðeins seigara!!) Fólkið kvartar mikið yfir verðhækkun sérstaklega á hænum. Hænur eru aðaluppstaðan í hátíðarmatnum. Um páskana voru þær hræódýrar, um 12 birr (uþb. 100 ísl. Kr) fyrir fyrstaflokks hænu, þar sem allir voru skíthræddir við fuglaflensu. Nú er ekkert talað um fuglaflensuna svo góð hæna kostaði fyrir nýja árið 90 birr. Í dag væri líklega hægt að fá eina á 30 birr. Svona til samanburðar þá eru laun daglaunamanns hér í Addis15 birr á dag og meðallaun verkamanns um 4- 500 birr á mánuði (um 4500 ísl.kr)Annars gengur lífið sinn vanagang hjá fjölskyldunni á Mekanissa. Það er reyndar í fréttum að Margrét Helga og Jóel eiga að verða brúðarmær og brúðarsveinn því Ragnhild vinkona okkar er að fara að gifta sig í lok árs (okkar árs 2006 sem sagt!) Þetta er búið að vera leyndarmál í dálítinn tíma bæði vegna stöðu hennar innan NLM og líka vegna þess að sá er siðurinn í þessu landi og tilvonandi eiginmaður hennar er eþíópskur. Hún þurfti að senda tilkynningu til NLM (norska kristniboðsins) um brúðkaupið og vildi ekki gera þetta opinbert fyrr en komið væri á hreint hver staða hennar yrði innan NLM áframhaldandi. Það var þannig áðurfyrr að ef starfsmaður kristniboðsins giftist innfæddum fékk hann ekki lengur að starfa úti fyrir kristniboðið, þá er ég að tala um norska lútherska kristniboðssambandið, NLM. Ekki veit ég hver rökin voru fyrir því en nú er þetta breytt svo Ragnhild heldur sinni stöðu áfram hér úti. Fyrst þegar hún sagði systkinunum frá því að hún ætlaði að gifta sig sögðust þau ekki ætla að koma í brúðkaupið. Ég held þeim hafi fundist þetta eitthvað fjarstæðukennt þar sem þau höfðu aldrei hitt Temesgen sem er unnusti Ragnhild. Jóel var samt fljótur að sættast á að verða brúðarsveinn. Það er þannig hérna að oft ganga tvö börn á undan brúðhjónunum með lifandi ljós. Einhverntíman vorum við að ræða þetta og hún sagðist sko ekki ætla að mæta þá sagði Jóel: “Ég get alveg borið tvö ljós!” Svo Komu Ragnhild og Temesgen í heimsókn síðustu helgi og þeim leist svona ljómandi vel á hann að um kvöldið sagði Margrét Helga: Ég gleður mig svo til brúðkaupið” (norsk/íslensk útgáfa af Ég hlakka svo til brúðkaupsins) Svo nú er hún voða spennt og alveg á því að hjálpa Ragnhild að gifta sig! Hún er nú líka með reynslu þar sem hún var brúðarmær þegar Agla Marta systir gifti sig. Það er til siðs hér að brúðguminn komi og sæki brúðina til kirkju heim til fjölskyldu hennar. Ragnhild ætlar að fá að vera hér heima hjá okkurað búa sig ásamt sínum brúðarmeyjum (eða forlovere eins og það heitir á norsku) Hún verður með þrjár brúðarmeyjar sem eru þá eiginlega svaramenn hennar og hann sömuleiðis með þrjá svaramenn. Hann kemur svo ásamt þeim að sækja hana hingað svo það verður eflaust sungið og dansað í garðinum! Þetta verður voða gaman.Nú er að síga á seinni hluta regntímans og í dag  (13. sept) hefur ekkert rignt. Krakkarnir voru meira að segja úti að busla í litlu lauginni sinni í fyrsta skipti í langan tíma. Hins vegar er erfitt að komast á netið sem getur verið regntímavandamál. Það eru allvega fáar mínútur á hverjum degi sem hægt er að komast inn. Ég reyni því bara að birta skrifin alltaf við fyrsta tækifæri.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf svo svakalega gaman að lesa um ykkur öll. Og í dag kíkti ég líka á myndirnar aftur. Þetta eru svo miklir hnoðrar.
Guð geymi ykkur Öll sömul. ;o)
Bestu kveðjur frá Kristiansand
Magga

Magga (IP-tala skráð) 16.9.2006 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband