Strokuskjaldbökur og bleik könguló

 

31. okt

 

Í gær fór Davíð Ómar aftur að fá blóðugar hægðir og er nú byrjaður aftur á sýklalyfjum til að vinna á amöbu. Það er ekki óþekkt að það taki tvo kúra til að losna við þær en þið megið gjarnan biðja fyrir því að hann nái sér alveg. Hann er núna loksins farinn að þyngjast almennilega svo við vonum að það komi ekki enn eitt bakslagið. Hann er annars sprækur og kátur og borðar og drekkur en lyfin geta alltaf valdið lystarleysi og ógleði. Hann byrjaði á lyfjkúrnum í gær og á að halda áfram í 10 daga. Vonandi bara að það dugi til að losna við þessi kvikindi.

 

Eins og ég hef nú einhverntíman minnst á erum við með þrjár skjaldbökur í garðinum. Eina risastóra og tvær litlar. Þær eru í sér girðingu  en fá af og til að leika lausum hala og bíta gras í garðinum. Sérstaklega þessi stóra hefur þörf fyrir það. Hún er ekkert allt of sátt við að vera í þessu búri og í gær tókst henni að brjóta það! Ótrúlega sterkar þessar skepnur! Að sjálfsögðu struku þá þessar litlu í leiðinni. Ein, sú minsta er enn ekki fundin en er þó líklega bara í einhverju blómabeðinu. Ekki í fyrsta skipti sem þær hverfa!

 

Í einni af blómaskreytingunum hans Jóels fundum vð svo bleika og hvíta, röndótta könguló!! Hún var nákvæmlega eins og blómin á litin. Hún bjó á stofuborðinu í nokkra daga og spann vefi í blómunum en nú hefur hún fundið sér einhvern annan samastað. Í gær fann Jóel svo úti samskonar könguló, bara alveg skærgræna! Þær eru alveg ótrúlega fallegar. Ég vissi ekki að það væru til svona fallegar köngulær!

 

7.nóv

Jæja, öll loforð um að blogga oftar fokin út í veður og vind!! Það er bara eitthvað svo mikið að gera alltaf og það tekur líka á á meðan minnsti maðurinn er á þessum lyfjum. Hann vaknar einu sinni til tvisvar á nóttunni vegna þess að hann er með ónot í maganum og þá er maður hálfdruslulegur á daginn. Ég reyni nú alltaf að leggja mig í smá stund eftir hádegi en það tekst ekki alltaf. Hann er allvega kominn með betri matarlyst og farinn að borða kjöt og brauð og pasta og hrísgrjón í viðbót við grænmetið. Honum finnst kjötið mjög gott!! En svo er hann líka farinn að stríða mömmu sinni. Þegar hann er orðinn saddur heldur hann áfram að taka við en frussar svo öllum matnum út úr sér og skellihlær svo!! Já, það byrjar snemma.

Sl. föstuag fór ég með alla krakkana ásamt Asnakú og Fantanesh í skólann til Margrétar Helgu þar sem svokallaðri Eþíópíuviku var að ljúka. Einu sinni á á ári er svona vika í skólanum sem er sérstaklega helguð eþíópskri menningu. Margrét Helga var í hóp sem lærði sem skoðaði nánasta umhverfi skólans. Þau fóru á markaðinn, heimsóttu leirkeraverkstæði og lærðu að flétta körfur svo eitthvað sé nefnt. Á föstudaginn var svo kaffiserimónía að eþíópskum sið og krakkarnir sýndu muni og seldu á litlu markaði sem þau höfðu útbúið. Eftir það buðum við svo Asnakú og Fantanesh út að borða með okkur.  Á laugardaginn skruppum við svo til Ambó sem er bær í um 125km fjarlægð frá Addis. Þar er náttúrulegt ölkelduvatn tappað á flöskur sem er svo selt undir nafninu Ambo og við drekkum MIKIÐ af (sérstaklega Kristján!!) Þarna er líka sundlaug en við vissum ekki af því og vorum því miður ekki með sundföt. En við fengum góðan doro wodd og skoðuðum okkur aðeins um í bænum og í garði hótelsisn þar sem við borðuðum. Þar var smá dalur í bakgarðinum með háum trjám og krakkarnir léku Tarzan og Jane í trjánum. Á leðinni til baka stoppuðum við svo á mjög fallegum skógi vöxnum stað og það merkilegasta var að þar var ekki nokkur sála! Nokkuð sem er mjög merkilegt hér í Eþíópí. Venjulega þegar við sjáum stað sem virðist vera mannlaus og við stoppum og förum út úr bílnum, líður ekki á löngu þar til það hefur safnast að hópur fólks til að skoða skrítnu útlendingana! En þarna var bara ekki nokkur einasti maður svo við nutum þess að ganga um og liggja í sólinni.

Á sunnudaginn fórum við í kirkju eins og venjulega. Við erum farin að fara bara í kirkjuna hér á seminarinu þar sem allt er að sjálfsögðu á amharísu. Krakkarnir fara í sunnudagaskólann og það gengur bara mjög vel. Við höfðum lengi hugsað okkur að fara að sækja amharíska kirkju og ákvaðum að láta verða af því núna eftir að við komum heim í haust. Kristján sagði sig úr safnaðarnefnd alþjóðlegu kirkjunnar og ég gaf ekki lengur kost á mér til að spila. Það var líka orðið þannig að ef Kristján átti að gera eitthvað í kirkjunni varð ég að vera heima með börnin og ef ég var að spila varð Kristján að vera hema. Núna förum við öll saman í kirkjuna sem er bara hérna við dyrnar hjá okkur, miklu þægilegra.

Annars gengur bara lífið sinn vanagang. Kristján kennir, Margrét Helga fer í skólann og strákarnir eru hér heima. Í dag koma svo krakkarnir í tónlistarhópnum mínum. Við verðum að byrja að fara að æfa jólalög því við æfum bara aðarhverja viku og þau eiga að syngja í byrjun des. En það er nú bara gaman að fá smá forskot á jólaundirbúninginn. Svo er maður að fara að græja jólaveðjur til að senda svo það er að koma smá jólafiðringur í mann.

En nú læt ég staðar numið og geri tilraun til að tengjast veraldarvefnum....

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bleik könguló?
Þú verður að seta mynd af þannig könguló!

En maður heldur alltaf áfram að fylgjast með blogginu ...:)
og jamm...
Allt gott að frétta af mínu fólki og svona...!
Kveðjaaa
Kristín Helga

Kristín Helga (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 23:05

2 identicon

sæl verið þið!

 mikið var gaman að fá kommentið frá þér helga vilborg á blogginu mínu..það fór allt í handaskol hjá mér með tenglana mína þegar ég hætti að blogga um tíma og breytti um stað..en nú ertu komin í tenglana svo nú fer ég að fylgjast gaumgæfilega með ykkur..eins og ég geri með önnu lilju..:)

já..köngulær og skorkvikindi..ég er löngu hætt að stíga á þau..eða eftir að ég fékk ljósmyndaáhugann og skoða þessi pínudýr í nærmynd..þær eru svo fagurlega skapaðar..maður hefur bara aldrei gefið því gaum..ég hef fundið könguló á pallinum mínum sem ég tók nærmynd af..hún var svo rosalega falleg!

ég mun standa með ykkur í bæn fyrir litla gæjanum að hann heimti fullkomið heilbrigði á ný og það fljótt!

kærkar kveðjur til ykkar allra..

árný jóhanns (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 16:48

3 Smámynd: Anna Pála Sverrisdóttir

Æ, ég vona að litlu músinni hafi tekist að losa sig við amöbuskrímslin. Skemmtilegt þetta nýja áhugamál hans Jóels líka! Vona að Margréti Helgu gangi vel í skólanum og að Dagbjartur - krúttið mitt- sé hress að vanda.

Ég nota minningarnar úr garðinum í Skaftahlíðinni og víðar í sumar, óspart til að ylja mér við í skammdeginu og "ég þykist vera svo upptekin og mikilvæg og hafa svo mikið að gera" stemmningunni sem maður dettur gjarnan niður í hérna.

Knús til ykkar allra. Kv. Anna Pála á leið í vinnuna eftir aðeins of fáa klukkutíma - þar prýða einmitt litlu snillingarnir tölvuskjáinn hjá mér.

Anna Pála Sverrisdóttir, 12.11.2007 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband