27.2.2008 | 17:35
21.-27.feb
21. feb
Þá er vika síðan við komum heim frá Awasa. Við erum öll búin að vera kvefuð og voða þreytt eitthvað. Það er lýjandi að vera viku í tjaldi en þetta er nú bestu tjaldaðstæður sem hugsast getur. Það var dáldið kalt á morgnana en annars alveg fullkomið hitastig og sem betur fer rigndi ekki dropa. Í fyrra var svo mikil rigning og við vorum því fegin að vera í húsi þá. Mér finnst samt skemmtilegra að vera í tjaldi á ráðstefnunni, meiri stemmning. Í fyrra var ég svo kasólétt að ég lagði ekki í tjaldbúskap. Núna komu bæði Asnakú og Fantanesh með okkur sem var bara alveg frábært. Það var gott fyrir krakkana og svo gátum við líka aðeins notið þessa stutta frítíma sem er á milli fundarseta. Áður hefur nánast allur tíminn farið í að elda mat og vaska upp en nú gerði Fantanesh þetta fyrir mig svo það var bara algjör lúxus. Þá hfði maður aðeins meiri tíma með krökkunum. Núna voru líka allir fundirnir búnir á réttum tíma. Áður hefur það oftast verið þannig að það hefur farið korter til hálftíma framyfir sem er mjög þreytandi. Þannig að þetta var bara mjög afslappað og fínt.
Það komu krakkar frá Fjellhaug einnig í ár til að sjá um barnadagskrá og stóðu þau sig alveg frábærlega. Krökkunum fannst svo gaman og Dagbjartur Elí var líka með og tók þátt í öllu. Þau gerðu þetta alveg snilldar vel og höfðu tekið allt mögulegt með sér frá Noregi, andlitsmálningu, taumálningu, perlur, trúðablöðrur og þetta var bara allt svo vel skipulagt og vel gert hjá þeim Það munar öllu þar sem það eru langar fundarsetur hjá fullorðna fólkinu og í fyrra voru krakkarnir mjög leið. Núna var allt annað hljóð í strokknum.
Það var ýmilegt rætt en það sem fyrst og fremst var til umræðu var markmiðssetning fyrir starfið næstu árin. Þetta er skoðað á fimm ára fresti. Það var mikið talað um að það vantar fólk. Það er orðið erfitt að fá fólk sérstaklega til að starfa úti á landi á afskekktum stöðum og erfitt að fá fólk til lengri tíma. Stór hluti kristniboðanna kemur aðeins til tveggja ára. Það kom líka fram að það vantar sárlega lækna, helst þá skurðlækna. Það var rætt hvernig hægt væri að bregðast við þessum áskorunum. Það er margt sem breyst hefur í starfinu á síðustu árum en enn er stór óplægður akur svo ég noti Biblíumál. Við vorum minnt á að við verðum að biðja fyrir því að fleiri svari kallinu til að koma út til starfa því það er svo sannarlega þörf.
Einn af mikilvægu hlutum ráðstefnunnar er líka að hitta alla hina sem vinna úti á landi og heyra frá starfinu á hverjum stað. Lesnar eru upp skýrslur frá hverju starfssvæði en einnig er mikið spjallað á milli funda og fólk deilir því sem á dagana hefur drifið.
Það var kanski ekki mikið nýtt sem kom fram á ráðstefnunni en mér fannst þetta mjög góður tími. Fyrir mig var þetta mjög andlega uppörvandi vika.
26. feb.
Nú er maður loksins að skríða almennilega saman. Ég er búin að vera slæm af kvefi en það er að lagast. Davíð Ómar er líka búinn að vera alveg hrikalega kvefaður og hefur sofið illa á nóttunni af þeim sökum. Hann er nú loksins eitthvað að skána og svaf í alla nótt í fyrsta skipti í langan tíma. Dagbjartur Elí var eitthvað slappur í maganum í gær, kastaði upp í gærmorgun en hresstist í eftirmiðdaginn. Hann hefur líklega bara borðað eitthvað á sunnudaginn sem maginn hefur ekki þolað.
Það er nóg að gera í skólanum hjá Margréti Helgu. Nú eru þau að æfa leikrit sem á að sýna á morgun í fyrsta skipti og síðan tvisvar á föstudag. Hún er í danshópi og þarf því ekkert að tala. En hún er búin að læra alla söngvana. Ég bauðst til að spila undir á píanóið þar sem ég sat þarna og fylgdist með allan tímann. Þetta gengur bara vel hjá henni og hún er farin að kynnast stelpunum í bekknum. Hún er mjög vinsæl og allar stelpurnar vilja helst alltaf sitja hjá henni! Hún er líka farin að skilja heilmikla ensku og farin að geta tjáð sig dálítið. Þetta kemur allt en tekur tíma. Við stefnum svo á að Jóel byrji eftir páska í kindagarðinum eins og þau systkinin kalla kindergarten!
Það er alltaf jafnlíflegt dýralífið hjá okkur og nú er læða með fjóra kettlinga sest að í garðinum. Maður er alltaf á varðbergi með villiketti hér því það er erfitt að vita hvaða sjúkdóma þeir geta borið. En þeir eru svo hrikalega sætir og mamman er svo ljúf. Við freistuðumst til að gefa þeim aðeins að borða til að hæna þá að húsinu og halda músum og rottum frá. Það er reyndar mús í eldhúsinu núna sem virðist eitthvað ætla að taka tíma að losna við en það hlýtur að takast á endanum. Sem betur fer hafa mýsnar ( og rotturnar) bara haldið sig við eldhúsið, eru ekkert að fara lengra inn í húsið. Á meðan svo er get ég verið nokkurnvegin róleg þótt þetta séu ekki beint uppáhaldsdýrin mín!!!
Ég verð að segja ykkur krúttlega sögu af Dagbjarti Elí. Hann er mjög mikið að spá í snjó þessa dagana. Líklega vegna þess að hann var að skoða myndir af Ernu Lilju frænku sinni að leika í snjónum á Íslandi. Eitt kvöldið þegar hann var að fara að sofa þurfti hann mikið að spjalla og sagði mér að hann hefði einu sinni verið að leika í snjónum (NB barnið hefur búið í Afríku síðan hann var 6 mán! Það var reyndar snjór í Noregi þegar hann fæddist en þá var hann ekki kanski alveg að leika sér í snjónum!) hann ætti gul snjóföt og gula vettlingasnjó" og gula húfusnjó" og gulan brettasnjó" (það er allt gult núna). Ég spurði hann hvort það hefði snjóað hér í Eþíópíu, Nei, bara í Kenýju" sagði sá stutti"Hefur þú verið í Kenýju" spurði ég Já , ég fæddist í Kenýju!" svaraði hann þá. Hann líka mikið að tala um Kenýju, hefur heyrt mikið um Kenýju upp á síðkastið og finnst það eitthvað spennandi. Hann er svoddan ofurkrútt, hann er núna á fullu að einbeita sér að því að læra norsku og fékk góða æfingu á ráðstefnunni í Awasa þar sem hann var að leika með norskum og dönskum krökkum allan tímann. Hann er mjög áhugasamur um að læra norsku og er orðinn mjög duglegur, skilur nánast allt sem sagt er við hann og reynir heilmikið að tala. Ég hugsa að íslenskan og amharískan sú nokkuð jöfn fyrir honum. Hann talar mikið miðað við aldur og ég held að þetta fjöltyngi tefji ekkert málþroskan hjá honum þannig en það er sumt sem maður tekur eftir eins og það að hann man ekki alveg alltaf hvað er kýr, hvað hestur og hvað kind og ég held að það stafi fyrst og fremst af öllum þessum tungumálum sem hann er að læra samtímis. En hann talar mjög skýrt og hefur nokkuð góðan orðaforða held ég.
Davíð Ómar er líka alltaf að bæta við sig orðum, mest amharísku en svo er eitt og eitt á íslensku eins og datt" og etta" (þetta) dó" (stór). Svo er hann loksins farinn að klappa saman lófunum!
27. feb.
Í dag var mjög góður dagur í skólanum hjá Margréti Helgu. Það var fyrsta sýning á leikritinu og hún var svo glöð og kát allan daginn. Sagði meira að segja að hún gæti kanski verið smá ein í skólanum á morgun! Það bætist við enskuna á hverjum degi og hún skilur alltaf meira og meira. Ótrúlegt að fylgjast með krökkunum læra þessi tungumál!
Dagar músarinnar eru taldir...
Jóel sagði mér reyndar þegar ég kom heim í gær að hann og pabbi hefðu veitt músina, pabbi var með net og hann með háf- en hún slapp síðan aftur! En ein sagan úr hugarheimi Jóels!
Það er alltaf nóg að gera hjá Kristjáni. Hann er núna að kenna kúrs á tölvur og eru nemendurnir vægast sagt áhugasamir. Þau fara ekki út í frímínútur og eru helst lengur en tíminn á að vera! Þau eru ss. Að læra á reiningshalds forrit sem ég kann ekki nánair skil á en Kristjáni finnst alveg frábært.
Sem sagt bara allt gott af okkur að frétta.
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að fá nýjar fréttir af ykkur. Söknum ykkar mikið. Kveðja Agla Marta og fjsk.
Agla Marta Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 13:17
Það er alltaf gaman að lesa fréttir frá Afríku.
Gangi ykkur allt í haginn.
kv. Salóme og fjölsk.
Salóme Huld (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 14:20
hæhæ gaman að heyra nýjar fréttir af ykkur!
krúttleg sagan um Dagbjar Elí
rosalgea krúttleg!
en ef ég man rétt þá á Davíð Ómar 1.árs afmæli 11.mars er það ekki rétt ?
vonandi ! af því að ég ætla að óska honum til hamingju núna til að ég gleymi því ekki ..
Kveðjaa
Kristín Helga
Kristín Helga (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 18:39
Hæhæ, alltaf gaman að lesa fréttir frá ykkur og fylgjast aðeins með. Við kíktum aðeins á Karlagötuna áðan og erum viss um að það verður gaman hjá ykkur. Við óskum stjörnu dagsins, Davíð Ómari, hjartanlega til hamingju með afmælið og vonum að þið verðið hraust heilsu um páskana.
Ástarkveðjur úr Skaftahlíðinni.
Sverrir afi og fjölskylda (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.