Lauf Forest,lauf....!

14. oktÍ dag er Addis hlaupið. Það er auðvitað alveg dæmigert að það virðist hafa rignt í nótt svo grasið er rennandi blautt og nú er alveg skýjað svo sólin er ekki einu sinni til að þurrka. Það er nú vonandi að hún fari að láta sjá sig því annars er ég hrædd um að garðurinn okkar eigi ekki eftir að líta vel út eftir daginn! Þetta var mun seinna í fyrra, um miðjan nóvember minnir mig svo ég skil ekki alveg afhverju þetta er svona snemma í ár. Það er ekki hægt að treysta algjörlega á að það rigni ekki fyrr en október er liðinn. En þetta verður vonandi í lagi. Í fyrrakvöld var árlegur basar kristniboðsfélagsins hér (missjonsforeningen) þar sem safnað er fyrir mismunandi verkefnum sem eru í gangi í landinu. Þar var seldur matur, lukkuhjól með vinningum fyrir börnin, kökuuppboð og línuhappdrætti. Við fengum to vinninga í línuhappdraættinu, enda keypti Kristján dáldið margar línur. Ég fékk hálsmen og svo unnum við körfu með ávöxtum og sælgæti. Krakkarnir unnu svo leikföng í lukkuhjólinu, þar fengu allir vinning. Barnakórinn söng við góðan orðstýr. Þetta er alveg 25 barna kór þegar allir eru. Börnin á aldrinum 3- 10 ára. Ég held bara að þetta sé stærsti barnakór sem ég hef stjórnað. Þau sungu á fjórum tungumálum enda ekki óeðlilegt þar sem börnin í kórnum eru af fimm mismunandi þjóðernum (íslensk, dönsk, norsk, finnsk og eþíópsk- það eru tvö hálfeþíópsk og hálfnorsk og svo einn norskumælandi Eþíópi). Þetta var voða gaman.—Jæja Addishlaupið er afstaðið. Þetta gekk allt saman vel og grasið náði að þorna sæmilega. Margrét Helga og Jóel hlupu og hlupu og ég þurfti nú bara að fylgjast með Jóel svo hann myndi ekki detta niður. Ég fór tvisvar með hann inn til að drekka annars bara hljóp hann eins og vitlaus maður stanslaust í einn og hálfan klukkutíma. Margrét Helga hljóp 10 hringi eða 5 km og Jóel 12 eða 6 km. Dagbjartur Elí fór líka 5 hringi, einn með mér og 4 með Asnakú. Það var nú haldið á honum stóran hluta leiðarinnar en honum fannst samt ægilega gaman og vildi endilega fara af stað þótt hann nennti ekki alveg að labba allt sjálfur! Ég hætti við að vera með stelpupartý þar sem meira eða minna allar konurnar eru kallalausar eða uppteknar við eitthvað annað um helgina. Allir karlarnir hér af Mekanissa td. Fóru í ferðina til Langano sem Kristján er í. Ég fór líka að hugsa að maður yrði kanski frekar þreyttur eftir daginn í dag svo ég ætla bara að gera þetta einhverntíma seinna. Friðrik Páll varð eftir hér í dag svo þau eru að leika sér saman krakkarnir svo ætlar Kía að koma á eftir og ná í pítsu handa okkur á leiðinni. Raggi fór suðureftir í gærmorgun svo við erum báðar grasekkjur eins og er. Ég verð hissa ef krakkarnir verða ekki fljót að sofna í kvöld eftir öll hlaupin og svo hömuðust þau góða stund í busllauginni úti áðan. Á morgun á kórinn í kirkjunni, eða hluti af honum að leiða sönginn í messu í fyrsta skipti. Verst að það lítur út fyrir að ég verði föst hér þar sem ég er bíllaus og erfitt að fá fari fyrir fjóra. Það ætti nú samt alveg að bjargast. Við fórum vel yfir öll lögin á þriðjudaginn. Það hefði nú samt verið gaman að geta verið með svona í fyrsta skiptið. Hinn helmingur kórsins syngur svo næsta sunnudag. Ég vona að þetta eigi eftir að hjálpa aðeins til við sönginn í kirkjunni. Oft kann söfnuðurinn ekki lögin svo það er gott að hafa einhverja sem geta kennt og leitt sönginn.  Gullkorn að lokum: Jóel: “Mamma, hundar þeir tyggja rottur, það er viðbjóður” Margrét Helga: “Stig og skólakrakkinn komu í gær til að mæla fyrir Addishlaupið” (með “skólakrakkanum” átti hún við Per, danskan sjálfboðaliða sem vinnur á norska skólanum, Stig er skólastjórinn)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ, gamana að lesa um hvað er að gerast hjá ykkur. Ég bið að heilsa þeim sem ég þekki í Addis!
Þráinn

Þráinn (IP-tala skráð) 25.10.2006 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband