10.4.2008 | 20:21
Já ég er hér enn...
10. apríl
Vegna vatnsskorts í landinu er allt í frekar miklum lamasessi þar á meðal nettenging og símasamband. En ég held ég hafi loks náð að tengjast þannig að nú kemur þetta vonandi....
Hér kemur því loksins lífsmark frá okkur:
7.apríl
Jæja, ætli allir séu ekki búnir að gefast upp á að tékka a þessu bloggi. Ég var bara komin með eitthvað svo mikið leið á þessu að ég varð að taka smá pásu. Það var bara líka búið að vera svo mikið að gera. Ég hef verið að fylgja Margréti Helgu í skólann þrjá daga í viku og kenna henni tvo daga og svo þarf líka að sinna drengjunum. Mamma og pabbi eru líka búin að vera hjá okkur núna í rúmar þrjár vikur og voru að fara núna áðan. Mér finnst alltaf erfiðara og erfiðara að kveðja, það verður allavega ekkert auðveldara og venst ekki neitt. En það er auðvitað frábært að þau gátu komið og verið með okkur þennan tíma. Við erum búin að gera margt skemmtilegt. Margrét Helga fékk frí frá skólanum, þ.e.a.s við vorum bara með skóla heima á meðan amma og afi voru hjá okkur svo hún gæti verið meira með þeim. Við vorum mest hér í Addis en vorum eina viku í Awasa. Það var farið tvisvar á Sheraton í sund, tvisvar í tívolí. Svo fórum við í lautarferð og svo var mikið leikið og sungið hér í garðinum og amma og afi voru endalaust beðin um að segja sögur. Kristján útbjó grill í garðinum áður en þau komu svo afi gat grillað lambalærið á páskadag. Það var sko íslenskt lambalæri kjöt sem hægt er að tyggja" eins og Jóel orðaði svo skemmtilega. Krakkarnir fengu páskaegg sem við földum í stofunni. Þau fengu tvö páskaegg hvert, eitt frá ömmu og afa og eitt frá Ragga og Rósu en það ætlum við að geyma til eþíópsku páskanna sem eru eftir tvær vikur. Hér eru nefnilega alltaf tvenn jól, tvennir páskar og tvenn áramót! Þ.e.a.s. okkar og svo eþíópsk.
Amma og afi komu auðvitað færandi hendi með allskonar góðgæti og skemmtilegt dót. Karkkarnir fengu m.a. Latabæjarbúninga sem þau höfðu óskað sér. En það er nú aldeilis saga á bak við búningana. Fyrst var nú útlit fyrir að aðeins fengist einn íþróttaálfsbúningur á Jóel. Það var leitað um allt af búning á Dagbjart Elí og Sollu stirðu búning á Margréti Helgu. Það voru ekki bara amma og afi sem leituðu heldur tóku vinnufélagar ömmu þátt í þessu og líka Helena og Anna Pála. Það var hringt í allar Hagkaupsverslanir á landinu,auglýsing sett í Moggann þar sem auglýst var eftir jafnvel notuðum búningum og Helena auglýsti í skólanum hjá sér. Þetta endai með því að Margrét Helga fékk tvo Sollu búninga einn frá stelpu í skólanum hennar Helenu sem heitir líka Margrét og ætlar að skrifast á við Margréti Helgu. Svo var það þannig að vikona vinnufélaga mömmu er tengdadóttir Magnúsar Scheving svo amma og afi fóru heim til þeirra til að fá búing á Dagbjart Elí og fengu þá annan Sollubúning líka aðeins stærri en hinn reyndar. Íþróttaálfurinn sjálfur sendi þeim svo allskonar Latabæjardót, geisladisk, myndir og blöð sem þau voru auðvitað hæstánægð með. Þetta er auðvitað dæmigert fyrir litla Ísland og ég hef mjög gaman af að segja útlendingum svona sögur frá Íslandi, það er alltaf einhver sem þekkir einhvern!Þau fóru varla úr búningunum fyrstu dagana en nú þarf að fara að þvo þá! Daginn sem amma og afi komu var haldin afmælisveisla fyrir litla trítil sem varð eins árs 11. mars. Við biðum með afmælisveisluna svo amma og afi gætu verið með. Hann var mjög krúttlegur í skyrtu með afmælishatt. Hann fékk allskonar gjafir frá Íslandi og var bara mjög sáttur. Hann er búin að borða eins og hestur sl. Mánuðinn og hefur blásið út og stækkað. Það er eins og hann sé að bæta sér upp allt tapið eftir veikindin þegar hann var lítill. Hann er enn frekar lítill eftir aldri en hefur tekið svakalega við sér. Hann er farinn að standa upp sjálfur á miðju gólfi. Byrjaði á því rétt eftir að mamma og pabbi komu, en er ekki farinn að taka skref. Hann príla hins vegar upp um allt og allsstaðar og er ægilega ánægður með sig. Hann er alltaf að bæta við sig orðum, bæði íslensku og amharísku og tönnunum fjölgar jafnt og þétt. Hann er ekki sá eini sem er að taka tennur því Kristján er að fá endajaxlana og fékk sýkingu í síðustu viku í kjölfarið á því. Hann talaði við vin okkar sem er læknir sem setti hann á sýklalyf svo það er allt komið í samt lag. Hann var eins og hamstur um tíma, hann var svo bólginn. Margrét Helga er líka loksins að missa fyrstu tennurnar. Framtennurnar niðri eru komnar upp á bak við barnatennurnar en þær eru orðnar laflausar og fara sjálfsagt baráðum að detta. Það er lengi búið að bíða eftir þessu. Hún var þriggja mánaða þegar hún fékk þessar tennur svo þær eru vel nýttar. Jóel er alltaf sami íþróttaálfurinn, æfir karate af fullu krafti og gerir svo armbegjur og hangir á stöng þess á milli. Honum finnst líka mjög gaman í fótbolta og að hlaupa. Hann er svo að fara að byrja í Kindergarten á Bingham á morgun. Hann verður bara tvo daga í viku, fyrst og fremst til að læra að skilja og tala enskuna. Ég hef litlar áhyggjur af honum, hann er alveg ótrúlegur málamaður, fljótur að læra ný tungumál. Dagbjartur Elí er alltaf sami krúttkallinn og bræðir alla með krúttstandinu sínu. Hann var svo krúttlegur áðan þegar mamma og pabbi voru að fara og ég var grátandi þá kom hann til mín og sagði mamma ertu leirur (leiður, hann segir ekki ð"), þú mátt fá koddann minn, hann er svo mjúkur" Svo náði hann í koddann sinn svo ég gæti knúsað hann og sagði Það er gott að þurrka í koddann" þá var hann að meina að það væri svo gott að gráta í koddann og þurrka tárin- ekkert smá sætur!
Kisurnar sem voru hjá okkur eru búnar að finna sér nýjan samastað. Fyrst hvarf einn kettlingurinn og erfitt að vita hvað um hann hefur orðið, garðyrkju strákurinn okkar fékk einn en hinir tveir voru orðnir svo sjálfstæðir og miklir villikettir að það var ekki nokkur leið að taka þá inn á heimili. Það var kona sem vinnur hér á skólanum sem vildi fá þá en hún gafst upp, það var ekki nokkur leið að ná þeim svo þeir voru hér úti með mömmu sinni þangað til við fórum til Awasa. Þá gáfust þeir upp, þrátt fyrir að Molla hafi gefið þeim þegar hann kom en svona eru kettir, fara sínar eigin leiðir og eru þar sem þeir fá mat. En ég hef nú litlar áhyggjur af þeim, þeir bjarga sér. Pabbinn er hins vegar alltaf hér af og til að sniglast. Hann er ekkert smá stór og þvílíka vöðva á ketti hef ég aldrei séð áður! Maður saknar þeirra nú pínulítið en við meigum ekki vera með gæludýr eins og hunda og ketti samkvæmt reglum NLM vegna hættu á hundaæði þannig að það var aldrei inni í myndinni fyrir okkur að taka þá inn auk þss sem við erum að fara að flytja til Voitó. En þeir bjarga sér.
Jæja nú fer lífið aftur að ganga sinn vanagang. Ég fer aftur að fylgja krökkunum eftir í skólanum og svo þarf ég að fara að undirbúa flutninga enn og aftur. Það er reyndar ágætt að flytja svona oft því þá neyðist maður til að taka til og grisja. Kristján fer til Voitó núna í lok apríl til að skoða aðstæður og spjalla við Jens Espeland sem býr í Jinka en hefur starfað í Voito í nokkur ár og þekkir því vel aðstæður og starfið þar. Við gerum svo ráð fyrir að flytja um mánaðarmótin júní/júlí þegar Krsitján verður búinn að útskrifa nemendur sína hér á Seminarinu.
9. apríl
Það fór loksins að rigna hér í Addis í gær eftir næstum 7 mánaða þurrkatímabil. Ástandið er víða orðið erfitt vegna regnskorts, uppskeran bregst ef ekki rignir og þar með er fótunum kippt undan tilveru flestra hér í landi. Við finnum líka verulega fyrir þessu þar sem rafmagnið fer oftar af og í lengri tíma. Tvo til þrjá daga í viku er rafmagnslaust í 12- 13 tíma og eins og er er algjörlega vatnslaust. Við höfum alltaf tvær tunnur fullar af vatni í bíslkúrnum því vatnið er mjög óstöðugt hér en nú er farið að ganga verulega á byrgðarnar og í dag þurftum við að kaupa flöskuvatn til drykkjar því ekki setjum við vatn sem búið er að standa lengi í plasttunnu í filterinn til drykkjar. Síminn, þ.e. landlínan liggur líka niðri og þar með netið líka þannig að ég veit ekkert hvenær þessi skrif birtast. Við höfum þó gemsasamband. En það fór sem sagt að rigna hressilega í gær og vonandi verður þetta almennilegt þannig að allt komist í samt lag. Mikilvægast er þó fyrir bændurna að fá regnið því annars verður uppskerubrestur sem getur leitt af sér hungursneyð og haft aðrar alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þegar fór að rigna í gær vildi Dagbjartur Elí strax fara út í rigninguna. 7 mánuðir er langur tími í lífi 3 ára barns svo hann var mjög spenntur og vissi fyrst ekki alveg hvernig hann átti að haga sér. Hann var frekar hikandi í fyrstu, kominn í regngalla og stígvél en hoppaði svo í pollunum af mikilli ákefð ásamt stóra bróður sem fylgdi í kjölfarið. Davíð Ómari sem hefur nánast aldrei upplifað regn síðan hann fæddist þar sem við vorum heima á Íslandi í sumar í þurrkinum þar þegar regntíminn stóð sem hæst hér, leist hins vegar ekkert á blikuna og háskældi yfir háfaðanum í rigningunni. Enda er þetta engin smá rigning, miklu öflugri og meiri en mestu rigningar heima á Fróni. En hann á eftir að venjast þessu. Hann fær kanski að sulla í pollunum í litli grænu stígvélunum sem Dagbjartur Elí er vaxinn upp úr.
Ég gleymdi að segja frá því að við hittum sendiherra Íslands í Danmörku, Svavar Gestson og konu hans Guðrúnu á laugardaginn var. Hann hafði samband við Jónas Þórisson formann Kristniboðssambandsins og vildi gjarnan hitta okkur. Við fórum með þeim í smá sýnisferð um borgina, upp á Entotto fjallið og keyrðum svo fram hjá Merkato, stærsta markaði í Afríku. Svo fórum við saman og fengum okkur að borða. Það var mjög gaman að hitta þau og spjalla. Svavar verður mikið hér næstu mánuðina að vinna í samnorrænu framboði í öryggisráð Sameinuði þjóðanna þannig að við eigum kanski eftir að hitta hann aftur. Það er alltaf gaman að hitta Íslendinga. Talandi um það þá hittum við fyrir nokkru Íslending alveg fyrir tilviljun á veitingastað í bænum. Hann heyrði að við vorum að tala íslensku og kom og heilsaði okkur á því ástkæra ilhýra. Han heitir Dagur Vilhjálmsson og er loftskeytamaður hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann er búinn að búa út um allan heim og hefur búið sl. 4 ár hér í Addis. Einhvernveginn hélt maður alltaf að maður myndi vita af öllum Íslendingum búandi hér.
Jóel var fyrsta daginn sinn á Binham Academy í gær og gekk svona líka vel. Hann er svo afslappaður yfir þessu og fannst bara alveg rosa gaman . Hann var kominn í fótbolta við strákana og allt í lagi þótt ég skryppi aðeins frá af og til. Mamma þú varst ekki hér í smá stund og ég fór samt ekkert að gráta!" sagði hann svo við mig. Þetta virðist vera auðveldara fyrir hann en systur hans. Hún getur verið svo nákvæm og vill að ég sé helst alltaf með henni til að túlka hvert einasta orð en ég er að reyna að segja henni að það sé barasta allt í fína lagi þótt hún skilji ekki allt. En hún er líka búin að vera mjög dugleg að vera ein bæði í allan gærdag og svo megnið af deginum í gær. Þau eru orðin svo ákafir námsmenn að eftir skólann í dag heltu þau sér út í stærðfæðiverkefni og ætluðu aldrei að vilja stoppa! Bandaríkjamenn og Bretar eru talsvert langt á undan okkur og hinum Norðurlöndunum í stærðfræði svo það er gott að þau sýna þessu svona mikinn áhuga því við þurfum dáldið að vinna í því að þau nái hinum. Strax í Kindergarten er farið að vinna með tölur upp í 100! Þetta er auðvitað heilmikil vinna fyrir mig, bæði að fylgja þeim eftir í skólanum og vera túlkur og svo undirbúa alla kennsluna hérna heima og reyna að samræma og gera þetta á sem skynsamlegastan máta en mér finnst það mjög gaman. Næsta vetur þarf ég sjálf að setja saman stundatöfluna þeirra og mun ég kenna þeim að hluta til út frá íslensku aðalnámskránni og að hluta eftir þeirri bresku sem kennd er á Bingham. Svo verð ég nú líka að reyna að hafa einhverja orku til að sinna litlu krúttköllunum tveimur! Skóladagurinn er mjög langur á Bingham eða frá 8:20 - 15:20 plús 40 mín keyrslu hvora leið alla daga en Margrét Helga er bara þrjá daga í viku og Jóel tvo. Hina dagana kenni ég þeim hér heima. Þetta fyrirkomulag virkar mjög vel finnst mér. Þetta er svona vegna þess að þau eru skráð í heimaskólaprógramm en ekki með venjulegri skráningu í skólann þar sem við komum til með að vera með heimaskóla í Voító.
Es.
Ég skal reyna að vera aðeisn duglegri að skrifa en það er undir tengingunni komið hversu oft færslur birtast (gott að hafa afsökun!)
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Halló öllsömul!
Mikið var gaman að fá fréttir af ykkur. Æðislegt að amma og afi hafi verið svona lengi hjá ykkur. Gangi ykkur áfram vel stóra fjölskylda.
Köbenkveðja, Svava María o.fjsk.
Svava María (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 11:52
Hæ kæra fjölskylda!
Við fylgjumst reglulega með ykkur. Okkur er farið að hlakka til að fara út í sumar, ef allt gengur vel með okkur. Þið hafið eflaust heyrt fréttirnar? Það er búið að skipuleggja ferðir á alla helstu staði og Omo Rate af sjálfsögðu. Vonandi eigum við eftir að rekast á ykkur, kannski í Woitó... Gangi ykkur vel í flutningunum.
Ykkar, Guðrún og Pétur
Guðrún og Pétur (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.