Voito 9.-23. ágúst

Hér kemur ægileg langloka! Við komum til Addis sl. miðvikudagskvöld og gekk ferðin vel. Davíð Ómar er reyndar orðin lasinn en allir aðrir hressir. Sjá nánar í lok þessarar færslu. En hér er allvega smá innsín í lífið okkar í Voito:

 

9.ágúst

Þá erum við búin að vera tæpar þrjár vikur hér í Voito og erum bara mjög sátt. Það er mjög heitt. Svona yfirleitt á bilinu 36- 37°C á daginn og fór í fyrradag upp í 38°. Það er yfirleitt svona í kringum 32° þegar við förum aðs ofa á kvöldin. Hitinn hefur ekki truflað okkur neitt af ráði nema helst Davíð Ómar sem hefur ekki sofið allt of vel, hvorki á daginn né á nóttunni en Kalli og Raggý komu með viftu frá Ómó Rate sem þau nota ekki og það hjálpar. Gallinn er bara hvað hún tekur mikið rafmagn og er hávær. Davíð Ómar er nú bara sáttur við suðið í henni og finnst gott að sofa við það. Það er frekar að það trufli okkur Kristján! En hann verður að sofa barnið.Vonandi nest hann hitanum. Hann er annars orðinn svo hraustur og lítur svo vel út. Duglegur að borða og og er meira að segja farinn að nota koppinn! Hann segir frá í hvert sinn sem hann þarf að kúka eða pissa eða jafnvel bara að leysa vind! Þá heyrist angistarfullt:"gúga" og þá er hlaupið á koppinn með hann. Það næst ekki alltaf í tæka tíð en gengur alltaf betur og betur. Svei mér þá ef hann verður ekki bara hættur með bleyju fyrir jól. Reyndar er þetta mjög auðvelt hér þar sem hnn er bara mest berrassaður allan daginn. Er bara með bleyju ef hanner úti að leika í sandinum og þegar hann sefur og það eru bara taubleyjur sem ég held að geri líka að verkum að hann er farinn að átta sig á þessu þetta snemma, ekki orðinn 17 mánaða einu sinni! Margrét Helga og Jóel eru alsæl hérna og leika sé allan daginn úti. Jóel sagði við mig um daginn:"Mamma það er svo miklu auðveldara að sofna í Voito!" Ég held það stafi af því að þau eru á fullu allan daginn í sólinni og hitanum. Það eru þrír krakkar hér á lóðinni frá Jinka og búa núna hjá frænku sinni sem vinnur hér á sjúkraskýlinu, í sumarfríinu. Þau fara svo aftur til Jinka í haust þegar skólinn byrjar. Þetta eru systkini sem heita Eyerusalem og Lemma og svo lítil frænka þeirra sem heitir Habtama. Hún reyndar fór til baka til Jinka í dag með mömmu sinni. Eyerusalem hefur verið aðins að líta eftir Davíð Ómari líka sem hefur aðeins létt undir. Þau eiga eftir að sakna þeirra þegar þau fara en það hjálpar vonandi að þá byrjum við líka í skólanum og Sigga verður komin til okkar. Dagbjartur Elí fór mjög hægt í sakirnar til að byrja með. Fór helst ekki út fyrir hússins dyr og vildi helst bara vera hjá mömmu. Hann hefur smátt og smátt orðið öruggari og er nú farinn að hlaupa út með krökkunum. Hann fer  meira að segja sjálfur á kamarinn sem var dáldið erfitt í fyrstu. Hann er farinn að líkjast meira sjálfum sér aftur og farinn að sætta sig við breytingarnar. Hann er að þroskast svo mikið núna og er alltaf að minna á að hann ætli líka að byrja í skólanum. Hann er orðinn voða duglegur að telja og er alltaf að spyrja um stafina. Ég ætla að leifa honum að vera eitthvað með og útbúa verkefni sem hæfa honum.

Jóel er alltaf jafnmikill dýrakarl og hér á lóðinni er alltaf fullt af litlum kiðlingum. Hann og Margrét Helga eru sérstaklega búin að taka ástfóstri við einn þeirra sem er orðinn svo heimavanur að hann kemur hiklaust og drekkur úr balanum hjá Davíð Ómari þegar hann fær að fara í balann á pallinum bakdyramegin. Hann tryllist hinsvegar úr hræðslu! Það eina sem dugir núna er að gefa þá kiðlingnum smá vatn í annað ílát og þá fer hann þegar hann hefur fengið nægju sína. Annars erum við ekkert að gefa geitunum sem eru í eigu nágrannanna því þá er ekki flóarfriður fyrir þeim. Þær éta blóm og bara allt sem þær komast í.  Fyrstu agana var Jóel mjög upptekinn af því að smakka geitamjólk . Strákarnir hérna tóku hann með sér og hann beið eftir að geiturnar komu heim til að geta mjólkað eina sem var með kiðling. En eftir tvær smakkanir hætti hann því þar sem mjólkin var ekki jafngóð og hann hafði vonast til. Hér fæst auðvitað engin ferskmjólk svo við erum bara með þurrmjólk sem krakkarnir eru lítið hrifin af. Davíð Ómar drekkur hana með bestu lyst n ég held að í næstu ferð verðum við að kaupa hreina jógút svo ég geti búið til súrmjólk.

Einn sunnudaginn var einn af strákunum hér með pínulítinn músarunga sem var svo lítill að hann var blindur. Jóel vildi helst fá að eiga hann en það varð úr á endanum að honum var sleppt aftur út í grasið. Hann var með hann hérna í einn dag og lét hann renna sé í playmorennibraut og ýmislegt fleira en varð síðan sannfærður um að honum ætti eftir að líða betur úti í náttúrunni. Móðir hans varð mjög fegin þar sem mýs eru ekki akkúrat uppáhaldsdýrin mín þótt ég held ég hafi nú eitthvað sjóast í þeim efnum eftir allt músa og rottufarganið á Mekanissa.

Kristján hefur nóg að gera við að sinna hinum ýmsu verkefnum. Stuttu eftir að við komum bilaði landcruiserinn sem tilheyrir sjúkraskýlinu þannig að Kristján hefur þurt að keyra hjúkrunarfræðinginn, Dinote, sem er frá Konsó, í ýmsar vitjanir og bólusetningarferðir. Oftar en ekki koma öldungar og aðrir úr þorpinu sem vilja sitja og spjalla og reynir Kristján þá eins og hann getur að deila með þeim Guðs orði. Einn öldungurinn sem kemur nokkuð oft heitir Gúdabbo. Hann þekkir orðið alla kristniboðana sem hafa verið hér frá upphafi. Hann hefur heyrt Guðs orð en á erfitt með að taka við því. Hann sagðist vera orðinn of gamall en við reyndum að segja honum að það væri enginn of gamall til að taka á móti Jesú. Um daginn keyrði Kristján að Voito ánni sem er í 11 km fjarlægð héðan fra stöðinni. Þar hitti hann Gúdabbo sem var að sækja við í nýja húsið sem hann var að byggja sér. Hann sagði við Kristján að Guð væri góður að hafa sent hann til sín. Kristján gat keyrt hann til baka í þorpið og setti viðinn á bílþakið. Eitthvað hefur því orðið sem hann hefur heyrt í gegnum árin haft áhrif. Við biðjum þess að hann meigi taka á móti Jesú og velja að fylgja honum.

Fyrstu dagana eftir að við komum fylltist allt hér af börnum, aðallega strákum sem vildu skoða nýju útlendingana. Fyrsta daginn voru kanski svona 10, 20 þann næsta og þriðja daginn var bara svartur veggur í kringum húsið! Við urðum að setja strangar reglur til að fá einhvern frið á daginn svo nú er þetta orðið rólegra. Verðirnir hjálpa okkur að halda þessum heimsóknum í skefjum en svo hefur Kristján líka  farið að stjórna fótboltaæfingum fyrir þessa stráka á skólavellinum kl. 16 á hverjum degi. Þessu bíða þeir spenntir eftir og fá svo að hafa boltana þar til dimmir. Boltarnir urðu reyndar fljótt að tuðrum þar sem það er svo mikið af þyrnum allsstaðar en þeir láta það ekki á sig fá þótt það sé smá gat á boltanum. Það er bara frábært að fá alvöru bolta, nokkuð sem enginn þeirra á. Kristján og Jóel hafa líka verið að kenna þeim frisbí. Í dag byrjaði Kristján á því að lesa fyrir þá úr amharísku barnabiblíunni og hlustuðu þeir allir vel. Þar sem flestir þessara drengja tala takmarkaða amharísku fékk Kristján einn úr hópnum til að túlka. Hann kann nokkuð góða amharísku. Þetta er uþb tólf ára gamall strákur sem er kristinn og ætlar sér að verða evangelisti þegar hann er orðinn fullorðinn. Guð gefi að hann varðveitist í trúnni haldi fast við það sem Guð hefur kallað hann til. Fyrir þá sem ekki vita eru evanglistar, eða fagnaðarboðar fólk sem starfa fyrir kirkjuna á stöðum eins og Voito, Omo Rate og annarsstaðar þar sem kirkjan er ung og segja fólkinu frá Guði, leiða krisjustarfið osfrv.

Ég sit aldeilis ekki auðum höndum. Það er að mörgu að huga á heimilinu. Nú hef ég ekki neina húshjálp nema eina konu sem heitir Gatja og kemur til að þvo þvottinn tvisvar í viku. Það munar helling um það því það er hrikaleg vinna að þvo í höndunum. Ég samt legg allt í bleyti daginn áður en hún kemur og bleyjur og tuskur þarf að leggja í klór og sápuvatn. Ég gæti eflaust fengið hana til að gera einhver húsverk en allvega í bili viljum við hafa húsið bara fyrir okkur, smá svona griðarstað. Margrét Helga og Jóel eru líka nokkuð dugleg að hjálpa til við að tiltekt oþh þannig að þetta gengur bara vel. Allt brauð þarf að baka og þar sem lítð pláss er í frystinum verður að baka uþb annan hvern dag. Ofninn bilaði um daginn eða þeas hurðin brotnaði af honum þannig að það voru steiktar flatkökur í ýmsum útgáfum nánast daglega. En nú er búið að fixa ofninn þannig að í dag var bökuð pitsa, bollur og snúðar! Svo þarf að passa að alltaf sé nóg af drykkjarvatni. Vatnið sem við notum er rigningarvatn sem safnað er af þakinu í stóran tank fyrir utan húsið. Eins og er er tankurinn næstum fullur en samt þarf að fara sparlega með vatnið. Núna hefur td ekkert rignt í marga mánuði að ráði. Maður reynir að nota afgangsvatn í að vökva td blómin og það sem safnast í sturtunni er td hægt að nota til að þvo bílinn eða skola kúkableyjur svo eitthvað sé nefnt. Allt vatn til dykkjar verður að fara í gegnum filterinn og svo í ískápinn og það er ekki lítið sem fer af vatni í hitanum. Eina rafmagnið sem við höfum em sólarrafhlaða þannig að bæði eldavélin og ísskápurinn ganga fyrir gasi. Það þarf því að passa að alltaf sé nóg af gasi. Það getum við fengið frá Jinka þar sem kristniboðarnir þar eru með lager. Það eru eflaust ekki margar íslenska húsmæður sem lenda í því að ruslið sem maður sópar af gólfinu annað hvort hleypur eða hoppar í burtu á meðan maður er að sópa. Svo þarf stundum að veiða smáflugur og pöddur eða maura upp úr pottunum!

Maurar og eðlur eru helstu húsdýirn okkar ásamt pínulitlum flugum sem sækja í ljósið á kvöldin. Lítið sem ekkert er um moskító eins og er þar sem það er of heitt og þurrt. Geitur nágrannana koma svo daglega að reyna að kroppa í eitthvað á lóðini og reyna að fá sér að drekka af þvottavatninu. Ástandi hér fer að verða erfitt vegna þurrka og uppskerubrests. Einhver aðstoð hefur borist n þær byrgðir eru brátt á þrotum. Dinote, hjúkrunarfræðingurinn, fór í könnunarleiðangur til að athuga hlutfall vannærðra barna á svæðinu. Honum taldist til að það væri um 15% prósent og sagði það ekki svo slæmt en ef ekki færi að berast meiri hjálp myndi það hlutfall hækka.

18. ágúst.

Litla heimasætan varð 7 ára á fimmtudaginn var og var að vonum mjög spennt. Við vöktum hana um morguninn með söng eins og hún hafði pantað og svo fékk hún nokkra pakka. Ég var m.a. annars búin að sauma hlíralausa Barbiekjóla sem hún hafði sérstaklega óskað eftir. Það var gjöfin frá bræðrum hennar. Jóel var mjög spenntur að gefa henni þá og hlakkaði svo til að sjá hvað hún yrði glöð þegar hún fengi þá.Svo fékk hún bréfsefni frá litlu frænkum sínum á Íslandi, ferðalúdó frá Kalla og Raggý og tölvuleik í nýja gameboy spilið sem við keyptum í staðin fyrir playstation tölvuna þeirra. Svo er víst eitthvað sem bíður í Addis.

Við buðum Lemma og Jerúsalem og Fantaje frænku þeirra í kaffi.Svo komu Dinote hjúkrunarfræðingur og Tammerú sem er yfirmaður á sjókraskýlinu lía í kaffi. Hún fékk að vera í jólakjólnum, litla skottið og var ægilega ánægð. Svo sýndu þau systkinin öskubukudans af sinni alkunnu snilld!

Á þriðjudaginn í síðustu viku tókst Jóel að fá gat á hausinn. Hann var að príla á vegg hérna úti og datt á jarnrör og fékk gat á hnakkann sem þurfti að sauma. Það gat Tammerú gert á sjúkraskýlinu en hér er ekki til nein staðdeifing svo hann hélt dauðahaldi í mig á meðan og æpti af sársauka greyið. Þetta voru sem betur fer ekki nema tvö spor og verða saumarnir teknir úr á morgun. Hann var ótrúlega duglegur.

 

21. ágúst

Þá erum við komin aftur til Addis. Við lögðum af stað kl 6 í gærmorgun og vorum komin til Addis um sjöleitið. Krakkarnir eru alveg ótrúlega góðir í bíl. Þau bara lesa og lita og spila tölvuspil og litlu kallarnir sofa nú alltaf slatta. Davíð Ómar var síðan alveg upptjúnaður í gærkvöld og ætlaði aldrei að sofna!

23. ágúst

Davíð Ómar fór að kasta upp morguninn eftir að við komum og heldur enn engu niðri. Vökvi virðist þó tolla betur en föst fæða og hann virðist alveg vera að fá nóg vökva. Það er læknir í næstu íbúð við okkur á gestahúsinu og hún fylgist með honum. Hann svaf ekkert alla fyrrinótt, kúgaðist bara og kúgaðist en svaf aðeins betur í nótt. Vaknaði nokkrum sinnum til að kasta upp en náði samt að sofa lengur. Allir aðrir eru frískir þannig að líklega hefur hann fengið eitthvað í sig í gegnum mat eða eitthvað annað.  Í Voito vill fólkið alltaf vera að hald á honum og taka í hendurnar á honum og það eru ekkert allir alveg hreinir svo það er erfitt að eiga við þetta. Maður reynir eins og maður getur að þvo honum en auðvitað geta alltaf einhverjar bakteríur slæðst upp í hann. Svo er hann eflaust viðkvæmari af því hann fékk þessa heiftarlegu amöbusýkingu þegar hann var lítill. En Tuula læknir fylgist með honum og henni leist nú aðeins betur á hann í dag en í gær. Ef hann fer samt ekki að koma til almennilega þarf að athuga hvort þetta sé einhver bakteríusýking.

Í gær fengum við pakka bæði frá tengdapabba og frá mömmu og pabba. Það voru bæði afmælisgjafir og ýmislegt fleira skemmtileg. Litlu karlarnir fengu líka fullt af pökkum og auðvitað alsælir með það. Þetta voru eins og jólin hér í gær! Kristján er á fullua að útrétta bæði fyrir kirkjuna í Voito og svo er hann að stússast vegna hóps sem kemu frá Íslandi í október til að skoða starfið. Hann þarf að fara á fund í Biraile næsta laugardag svo hann ver á föstudaginn suðureftir og kemur svo og sækir okkur aftur.

Sigga Ingólfs er komin og krakkarnir alveg rosalega ánægð að fá hana! Hún kemur líklega til að fylgja Jóel aðeins eftir í skólanum til að byrja með. Margrét Helga er orðin svo sjóuð að hún getur alveg farið ein. Það verður síðan námskeið fyrir heimaskólaforeldra frá þriðjudegi til fimmtudags á Bingham sem ég ætla að reyna að taka þátt í. Vona bara að Davíð Ómar fari að hressast. Asnakú er ekki komin með neina aðra vinnu þannig að ég ætla að spyrja hana hvort hún vilji vera með litlu strákana meðan við erum hér, allvega þar til hún fær svar frá danska sendiráðinu þar sem hún er búin að sækja um vinnu.

Smá gullkorn áður en ég hendi þessu á netið:

„Mamma þú ert alltaf með svuntuna" Dagbjarti Elí finst mamma eyða helst til of miklum tíma í eldhúsinu í Voito!

Margrét Helga er mikið að pæla í trúnni og tilverunni. Hún les mikið í Nýja Testamentinu sínu sem hún fékk frá guðforeldrum sínum, Öglu Mörtu og Magga. Einn morguninn fór hún að spyrja mig út í heilagan anda og hvað væri rétt og rangt og um syndina. Við spjölluðum um það og ég reyndi að útskýra eftir bestu getu, ekki kanski alveg það auðveldasta að útskýra fyrir sjö ára barni en við spjölluðum um það hvernig mennrnir hefðu óhlýðnast Guði og hvers vegna Jesús kom í heimin til að frelsa okkur frá syndunum, og gefa okkur eilíft líf. Ég sagði henni að fullorðið fólk gerði líka oft eitthvað sem væri rangt, ekki bara börn og þess vegna þyrftu fullorðnir líka á fyrirgefningu Guðs að halda. „ Em mér finnst nú fullorðið fólk bara frekar friðsælt. Td. ef einhver situr einhversstaðar og svo fer hann og einhver annar sest í sætið hans þá bara sest hann í næsta sæti. Börn fara alltaf að rífast." Ég sagði henni að börn hugsuðu stundum öðruvísi en fullorðnir og þess vegna bregðast þau öðruvísi við ýmsum aðstæðum en fullorðið fólk getur samt gert ýmislegt rangt, td. að tala eða hugsa illa um aðra. MH:"Mamma, mér finnst þú nú bara alveg ágæt, þú ert alltaf góð við okkur og svona!" Mér fannst þetta frekar krúttlegt. Það gleður mig líka að þau taka trúna alvarlega og spá og spegúlera. Því trúin á Jesú er það mikilvægasta í mínu lífi og bæn okkar að börnin velji líka sjálf að fylgja Jesú.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Helló,

Gaman að heyra frá ykkur og að það gangi vel.  Við fylgjumst vel með. Lita konan okkar er með hlaupabólu þessa dagana og hefur því þurft að vera heima.  Annars er hún stálhress og þetta virðist ekki bíta mikið á hana.

Sendum ykkur bestu kveðjur frá Íslandi. Guð blessi ykkur,

Gunnar, Úlla og Sigrún.

Gunnar, Úlla og Sigrún (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 13:41

2 identicon

Söknum ykkar mikið. Gaman að heyra fréttir af því hvernig gengur í Voito. Annars allt gott að frétta af okkur hérna á Hofteignum. Guð leiði ykkur og blessi. kveðja, Agla Marta Maggi og Erna Lilja.

Agla Marta Maggi og Erna Lilja (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 20:35

3 identicon

Hæ fjölskylda

Takk fyrir skrifin, þetta var engin smá lesning, ótrúlegur dugnaður í ykkur þarna. Vonandi gengur allt vel þegar fram líður og krakkarnir aðlagist vel. Óska þess líka að Davíð Ómar fari að hressast, gaman að heyra hvað hann er duglegur með koppinn.

Kveðja

 Guðrún Laufey og Benedikt

Guðrún Laufey (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 22:12

4 identicon

gaman að fá smá fréttir af fólkinu
og segðu Margréti Helgu að Kristín óski
henni hjartanlega til hamingju með afmælið um daginn
gangi ykkur vel með Davíð Ómar!
Kveðja,
Kristín Helga

Kristín Helga (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 17:33

5 identicon

Komiði sæl elsku fjölskylda!

Nú var ég loksins að lesa allt frá því snemma í sumar. Ég hef verið að pakka upp og koma okkur fyrir í allt sumar, (hef varla kíkt í tölvu) já, það er ótrúlega mikið sem maður sankar að sér, gott hjá ykkur að gefa margt á milli flutninganna ykkar. Við höfum það annars fínt, ég farin að kenna og krakkarnir ánægðir á sínum stöðum. Ég vona að þið öll hafið það gott og gangi ykkur vel áfram úti í henni frumstæðu Afríku.

Að lokum sendi ég bestu afmælisóskir til Margrétar Helgu og Jóels!

Kærar kveðjur úr Vesturbænum, Svava María og fjölskylda.

Svava María (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband