2.12.2008 | 17:07
Skýrsla okt/nóv 08
2.des 2008
Jæja loksins kemur þetta. Þegar ég var loksins að verða frísk varð Dagbjartur Elí veikur og svo Margrét Helga og Davíð Ómar. Kristján er líka búinn að vera druslulegur og Jóel er kominn með í magann og fer ekki í skólann á morgun a.m.k. Margrét Helga fór ekki skólann í gær en fór í morgun. Davíð Ómar er búinn að vera með háan hita en er eitthað skárri í dag, hitalaus a.m.k. en alveg hræðilega kvefaður. Sama má segja um Dagjbart Elí. En svona er þetta að koma úr næstum 40° í 15°. Líkaminn þolir þetta frekar illa. Ég er því ekki búin að gera neitt af því sem ég ætlaði mér eftir að við komum, ekkert farið að baka fyrir jólin eða neitt en það er víst lítið hægt að gera við þessum lasleika annað en vera þolinmóður. Það er samt stefnt á piparkökubakstur um helgina. En hérna kemur smá skýrsla:
26. nóv.2008
Jæja loksins!
Ég byrjaði á því að leggjast í pest þegar við komum til Addis þannig að það er fyrst núna sem ég setst niður. Þetta verður eflaust einhver langloka, þ.e.a.s. ef ég man eitthvað eftir því sem gerst hefur að undanförnu en svona er nú það. Við sjáum til. Ég er sem sagt búin að liggja með hita og kvef og kinnholubólgur og komin á sýklalyf sem virðast nú vera að hafa áhrif. Ég er allvega komin á lappir. Ég var orðin frekar þreytt núna á lokasprettinum suðurfrá og þá er alveg dæmigert að maður verði lasinn. Ég var líka veik vikuna áður en við komum hingað, með í maganum og fékk þá líka hita. Allir aðrir eru frískir eins og er. Davíð Ómar fékk reyndar möbur um daginn eina ferðina enn og þurfti enn og aftur að fá lyf við því, var kominn með bauga undir augun og blóðugar hægðir. Hann virðist nú hafa náð sér af því en er ekkert allt of duglegur að borða, ekki frekar en fyrr daginn. Kristján hefur líka þurft að vera á sýklalyfjum vegna sýkinga í sárum á fótunum og Jóel sömuleiðis. Jóel var kominn með hita og orðinn slappur og það gróf í sex sárum á fótunum á honum svo þá var ekki spurning að setja hann á sýklalyf. Strax daginn eftir var hann miklu betri. Þetta er víst ekki óalgengt í hitanum, að sár séu lengur að gróa og meiri hætta á sýkingum. En þetta er allt á uppleið.
Starfið í Voító gengur vel en það er ekki bara auðvelt að búa þarna. Ég ætti kanski frekar að orða það sem svo að það eru margar áskoranir sem við þurfum að takast á við, því okkur líður mjög vel þar. En það var gott að koma til Addis núna og alveg tímabært.
En eins og ég sagði líður okkur vel. Við höfum kynnst mikið af góðu fólki og ánægjulegt að sjá hvað það er góður kjarni af kristnu fólki sem leiðir safnaðarstarfið. Þetta er ekki stór söfnuður ef aðeins fullorðna fólkið er talið, líklega um tuttugu fjölskyldur en þessum fjölskyldum tilheyra um 150 börn svo það er mikilvægt að haldið sé utan um þau því þau eru framtíðin. Í Voító er viðhorf til barna dálítið öðruvísi en við þekkjum í hinum vestræna heimi, jafnvel meðal hinna kristnu þó svo það breytist mikið þegar fólkið tekur trú á Jesú og upplifir kærleika hans. Mér finnst samt of mikið talað um hvað börnin eru til mikilla vandræða í kirkjunni o.s.frv. og hef reynt að tala um hvað það sé mikilvægt að þau fái líka uppfræðslu á sunnudögum þegar það er guðsþjónusta. Því miður hefur ekki verið neinn sunnudagaskóli að undanförnu en mig langar að reyna að hjálpa til við að koma því í gang. Það er mikið betra ef heimafólkið sér um það sjálft því auðvitað er best fyrir börnin að fá fræðslu á móðurmálinu sínu. Mig langar hins vegar að vera til stuðnings og reyna að miðla af reynslu minni og þekkingu. Ég hef séð um samverur fyrir börnin á þriðjudagseftirmiðdögum þar sem við sitjum undir tré við kirkjuna, syngjum og heyrum frásögn úr Biblíunni og svo hef ég leyft þeim að hlusta á mismunandi tónlist. Þetta er alveg nýtt fyrir þeim og þau sitja alveg dáleidd og hlusta á Bach, Händel, Chopin og Grieg! Mig vantar samt einhvern með mér sem getur túlkað yfir á tsamakko sem er tungumálið þeirra. Þau elstu skilja amharísku og ég hef reynt að fá þau til að hjálpa mér en þau eru feimin við það. Börnin í í Gisma eru mér mjög hugleikin og þið megið gjarnan muna eftir þeim í bænum ykkar.
Kristján hefur verið duglegur að sinna drengjunum. Hvern eftirmiðdag hefur hann fótboltaæfingar sem hann byrjar með stuttri frásögn úr Biblíunni og bæn. Margir drengjanna koma frá fjölskyldum sem ekki eru kristnar. Um daginn voru svo haldnir ólympíuleikar í Gisma. Byrjað var á stund sem Lemma, evangelistinn okkar sá um og svo var keppt í stökki hlaupi og fleiru. Þetta kunnu þeir vela að meta og margir fullorðnir sem og yngri börn komu til að horfa á. Jóel var að sjálfsöðu með líka!
Kristján hefur í mörgu að snúast. Oftar en ekki er hann beðinn að keyra í fyrir sjúkraskýlið í fæðingarhjálp, bólusetningar, sjúkraflutningar og fleira. Bíllinn sem tilheyrir sjúkraskýlinu bilaði fljótlega eftir að við komum í sumar og hefur ekki komið aftur. Hann þarf líka að fara hitt og þetta um Voitodalinn í ýmsum erindagjörðum. Mekane Yesus kirkjan hefur ábyrgð á 10 skólum víðsvegar í dalnum og það þarf að fylgjast með þeim, keyra kennara fram og til baka o.s.frv. Það hefur ekki gengið of vel að manna þessa staði og margir kennararnir eiga í erfiðleikum. Þetta mikilvæga skólastarf þarfnast fyrirbænar. Í síðasta mánuði tók Kristján svo þátt í námskeiði á vegum suðvestur sínódunnar fyrir evangelistana á svæðinu. Þar fékk hann það verkefni að kenna bókhald á amharísku í fimm klukkutíma! Það var mikil vinna og undirbúningur en gekk vel með Guðs hjálp. Hann predikar líka í kirkjunni reglulega og gengur vel að mér finnst.
Margrét Helga virðist sæmilega sátt í Voító þótt hún kvarti stundum yfir að hafa ekki nógu marga leikfélaga. Stelpurnar í þorpinu koma örsjaldan til að leika því þær hafa svo miklum skildum að gegna heimafyrir. Hún hefur aðeins leikið við tvær stelpur sem eru aðfluttar en ekki samt einhvernvegin náð að eignast góðar vinkonur. Hún er samt dugleg að dunda sér og elskar að teikna og lesa. Hún les núna sér til ánægju hvort sem er á íslensku, ensku eða norsku. Svo er ég farin að kenna henni á píanó og það gengur bara mjög vel og henni finnst það mjög gaman. Hún er líka mikið að semja ljóð og lög sjálf og fékk um daginn stílabók hjá mér til að skrifa textana sína í. Hún er dugleg í skólanum og biður oft um auka heimaverkefni. Annars höfum við alveg sleppt heimavinnu því það er nóg að hafa mömmu yfir sér í skólanum hálfan morguninn og svo komumst við líka yfir svo ótrúlega mikið í skólanum þar sem þau eru bara tvö. Hún var glöð að koma til Addis núna og hitta vinkonur sínar. Hún er orðin alveg ótrúlega flink í ensku og skil næstum ekki hvernig hún hefur lært þetta svona fljótt og vel. Við höfum alltaf einn ensku tíma á hverjum degi í Voító en samt. Líklega hefur það mikið að segja hvað hún er dugleg að lesa.
Jóel er alsæll. Hann á heilan hóp af vinum og er úti að leika allan daginn. Hann er duglegur í skólanum líka, orðinn nokkuð vel læs og við erum byrjuð að undirbúa lestur á ensku líka. Honum finnst samt mest gaman í amharísku í skólanum. Það er stúlka frá Jinka sem vinnur á sjúkraskýlinu sem kennir þeim amharísku tvisvar í viku. Hann á ekki alltaf jafnauðvelt með að einbeita sér en vitlaus er hann ekki drengurinn! Það er bara svo margt að gerast í kollinum á manni stundum þegar maður er sex ára strákur, og skemmtilegra að vera úti í þorpi með hinum strákunum. Nú eru þeir reyndar líka í skólanum fyrir hádegi þannig að það hjálpar. Strax eftir hádegismat fer hann út og kemur kanski rétt aðeins í eftirmiðdaginn til að fá sér að drekka og fer svo í fótbolta. Svo kemur hann skítugur upp fyrir haus heim þegar fer að myrkva. Dobo nágrannakonu okkar (konan hans Dillo) finnst þetta alveg frábært hvað hann er bara eins og einn af strákunum, og klæddur eins og þeir þ.e. á nærbuxum einum fata. Þetta er auðvitað vitnisburður líka. Flestir strákana eru eldri en hann en það skiptir engu og það er leikið svo innilega að unun er að fylgjast með,þvílíkar vega- og byggingaframkvæmdir og náttúran leikvöllurinn! Þeir tala amharísku við Jóel en tsamakko sín á milli svo hann er farinn að skilja heilmikið. Svo eru strákarnir búnir að læra smá íslensku. Oftar en ekki heyrum við hrópað úr þorpinu: "Jóel, kondu!" Þegar við keyrðum suðureftir síðast var fyrst um sinn hrópað "Ferenge, ferenge" eftir því sem sunnar dró fara þau að hrópa "Highland, highland" sem er nafnið á vatni sem selt er hér í landi og túristar gefa krökkum oft flöskur á leiðinni. Þegar við komum svo til Gisma var hrópað "Jóel, Jóel"! Hér í Addis er það svo Lise sem er besta vinkona hans. Hún býr í Filtu svo þau hittast bara þegarallir eru saman í Addis. Þau eru eins og lítil hjón, hrikalega ktúttleg. Um daginn þegar hann ætlaði með Kristjáni að versla varð hann fyrst að láta Lise vita því hún vill gjarnan vita hvar hann er!
Dagbjartur Elí hefur átt hvað erfiðast með að venjast breytingunum. Þetta gengur upp á við en það koma oft erfiðir dagar inn á milli. Hann saknar Asnakú og Fantanesh hræðilega mikið og talar mikið um Mekanissa. Einn daginn heyrði ég hann segja við sjálfan sig að hann ætlaði að kveikja í húsinu í Voító því þá þyrftum við að flytja til baka til Mekanissa og þá yrði gaman, húrra! Elsku litli karlinn! En svo koma dagar þar sem hann leikur við strákana úti með Jóel og allt virðist í himnalagi. En hann er auðvitað að ganga í gegnum sorgarferli. Hann var mjög glaður að koma núna til Addis. Asnakú gat reyndar ekki verið að vinna hjá hjá okkur því hún er búi að fá aðra vinnu og það erum við auðvitað þakklát fyrir. En hún kom í heimsókn einn morguninn og við fórum til hennar á laugardaginn og svo ætlar hún að reyna að koma næsta laugardag og vera með honum. Hann fær að vera með í skólanum í Voító eins og hann vill og er farinn að þekkja nokkra stafi og tölusafi og duglegur að telja. Hann kemur oft með fulla tösku af bókum og situr og les á meðan ég er að kenna krökkunum. Hann er algjör bókaormur. Hann segir yfirleytt ekki mikið eða syngur með þegar við erum að syngja en svo allt í einu heima fer hann að syngja söngva eða fara með þulur sem við höfum verið að læra í skólanum og ég hafði ekki hugmynd um að hann hefði lært.Ég ætla að athuga hvort hannfær ekki aðeins að koma í heimsókn í leikskólann á Bingham, bara til að sjá hvernig þetta er og svo fær hann að byrja í febrúar þegar hann er orðinn fjögurra ára.
Davíð Ómar hefur verið frískur að mestu og það erum við þakklát fyrir. Hann fékk reyndar amöbur enn eina ferðina um daginn en fékk strax lyf. Hann vill líka vera í skóla eins og stóru systkinin en það er ekki allveg jafnauðvelt að fá hann til að sitja kyr eins og hin. Sigga fer því yfirleitt með hann í göngutúr í kerrunni á meðan ég er að kenna fyrstu tímana og það finnst honum líka mjög gaman. Svo kemur hann hlaupandi á bleyjunni í skólann og segir "Gódæ!" og krakkarnir segja að nú sé skólastjórinn kominn. Hann er ósköp lítill eftir aldri en duglegur er hann, mjög fimur og prílar upp um allt og allsstaðar. Hann talar líka orðið heilmikið, mest íslensku, svo amharísku og líka smá tsamakko. Hann gerir sér líka grein fyrir þegar fólk er að tala norsku því þá svarar hann með mjög norsku "ja" og kveður á norsku þegar fólkið fer! Hann hefur orið orð á öllu á íslensku og er líka farinn að búa til setningar. Hann kallar á systkini sín með nöfnum, Margrét Helga er "Gaggaleia" Jóel er "Lóvel" og Dagbjartur Elí er "Billí" sjálfur heitir hann "Dawit" sem er amharíska útgáfan af Davíð. Um daginn vorum við askoða bók sem er um afríska stelpu. Á fyrstu blaðsíðunni var stór mynd af stelpunni. Hann benti á hana og sagði "Habtama" Habtama er lítil stelpa sem býr á kristniboðslóðinni hjá frænku sinni. Svo skoðuðum við lengra í bókinni og þar var aðeins minni mynd af sömu stelpunni. Og ég spurði: "hver er þetta?" Dawít" svaraði hann á. Ætli hann haldi ekki sjálfur að hann sé Eþíópi! Hann er allvega nokkuð sáttur í Voító og á nokkra leikfélaga sem eru á hans aldri. Hann leikur oft við dóttur þvottakonunnar og svo í koma nokkur svona kríli í kirkjuna á sunnudögum. Þau eru svo krúttleg saman og virðast vera í mjög alvarlegum samræðum og skipulögðum leik með litla steinsvölur sem þau finna.
Skólinn gengur vel og það hefur gengið vel með Siggu líka. Ég kenni íslensku, ensku, stærðfræði og tónmennt og hún kennir kristinfræði, samfélagsfræði, norsku og myndmennt. Ég tek þrjá fyrstu tímana á morgnana og Sigga tvo seinni. Fantae sem vinnur á heilsugæslunni kennir þeim svo amharísku tvo tíma í viku. Ég undirbý og skipulegg alla kensluna og reyni að fylja bæði íslensku námskránni og þeirri sem notuð er á Bingham. Þetta er heilmikil vinna, en mér finnst þetta gaman og mér finnst hafa gengið vonum framar að kenna krökkunum sjálf. Það er ekki bara sjálfsagt að það gangi vel að hafa mömmu sem kennara. Það eru mörg hlutverk sem ég þarf að sinna gagnvart börnunum, vera mamma, kennari, píanókennari osvfr. Það er ekki alltaf auðvelt en með Guðs hjálp gengur þetta.
Eitt af því er er stundum lýjandi er að við höfum lítið einkalíf. Fólkið fylgist grant með öllu sem við gerum og allar sögur breyðast út sem örskot. Bara svona sem dæmi þá voru konurna alltaf að segja mér að gefa Davíð Ómari brjóst. Það byrjaði með konunum í kirkjunni en þær hættu smám saman að tala um þetta þegar ég kom þeim í skilning um að þar væri bara ekkert fyrir hann að fá, alveg tómt. Svo í hvert skipti sem ég mætti konum úr þorpinu var þetta aðal málið, þær benda á brjóstin á sér og brjóstin á mér og barnið (sem er ekkert að kvarta by the way!) og benda mér að leggja hann á brjóst. Svo einn daginn hitti ég konu úr þorpinu sem talar amharísku og hún sagði mér að þær héldu að ég ég væri ófrísk fyrst ég væri ekki lengur með Davíð Ómar á brjósti. Það hefur ss. Mikið verið spáð í þessa hvítu konu sem ekki gefur eins og hálfsársgömlu barni sínu brjóst, hún hlýtur þá að eiga von á öðru! Eins ef Kristján hefur farið einhverja ferð af mismunandi ástæðum, sem kanski bara tveir vita um, fyrir utan mig þegar hann fer, þá veit allt þorpið það daginn eftir og karlarnir koma til að forvitnast um hvað hann hafi verið að gera! Það er auðvitað hægt að brosa að þessu en þetta getur líka verið lýjandi.
Við höfum reynt að setja reglur um umgang á lóðinni en þð gengur. Það eru ekki bara við sem verðum þreytt á þessum umgangi heldur líka eþíópska samstarfsfólkið okkar sem býr á lóðinni. Um daginn var verið að deila út korni vegna þurkanna og þá var enginn friður við húsið. Stundum verðum við bara að loka og vera inni til að fá smá frið. En sem betur fer er þetta sjaldan svo slæmt. Það er erfitt að finna milliveginn, við viljum reyna að sýna fólkinu kærleika og taka vel á móti fólki sem kemur en það eru auðvitað líka takmörk fyrir hversu mikinn ágang maður getur þolað stundum. Við biðjum Guð að vera með okkur í þessu líka og sýna okkur hvernig við eigum að mæta fólkinu.
Okkur líður vel í Voító og sjáum svo sannarlega tilgang með veru okkar þar. Við lítum á hlutverk okkar fyrst og fremst að vera til staðar og styðja við starfið í kirkjunni eins og við getum.
Báðir regntímarnir í ár brugðust svo nú er útlit fyrir uppskerubrest á ný. Kristján fékk reyndar jákvætt ssvar við styrk til að kaupa vatnsdælu sem getur dælt vatni úr ánni og vökvað akrana. Í næsta nágrenni við Gisma er þessi aðverð notuð á stórum bómullarökrum sem er grænir þrátt fyrir regnleysi. Reyndar hefur rignt annarsstaðar í Voítódalnum en regnið hefur alltaf einhvernvegin farið fram hjá Gisma. Það er því bæn okkar að þessi vatnsdæla verði til hjálpar og karlarnir finni hjá til ábyrgðar að láta hana ganga. Hingað til hafa þeir ekki reynt að gera svo mikið því þeir vita að það kemur neyðaraðstoð frá ameríku með korn. Auð vitað er það gott inn á milli en þegar fólkið er algjörlega farið að stóla á það og reynir ekkert til að halda ástandinu stöðugu er þeta ekki gott. Kristján sýndi nokkrum körlum á korti hvaða leið þetta korn hefði farið og hversu mikil vinna og keyrsla, og skipsferðir voru á bak við það. Þetta þótti þeim mjög merkilegt og höfðu auðvitað aldrei spáð í það!
Það er bæn okkar á hverjum degi að Guð leiði okkur í starfinu í Voító og sýni okkur á hvern hátt við getum hjálpað og verið fyrirmyndir. Þótt ekki séu margir kristnir ennþá er ekki spurning að Drottinn hefur breytt miklu í lífi þessa fólks sem tekið hefur á móti kærleika hans og ég trúi því að þetta sé bara byrjunin. Nú fá fleiri börn að lifa í Voító því kristna fólki hefur tekið að sér börnin sem annars áttu ekki að fá að lifa samkvæmt trú tsemaifólksins. Ef barn fær tönn fyrst í efrigóm er það merki um bölvun forfeðra andanna og barnið verður að deyja, sömuleiðis ef kona með barn á brjósti verður ófrísk verða bæði börnin að deyja því á þeim hvílir bölvun. Kynlíf utan hjónabands virðist lítið tiltökumál en ef stúlka verður ófrísk utan hjónabands má barnið ekki lifa. Lemma evangelistinn okkar hefur tekið að sér tvö slík börn sem nú eru orðin fullorðin og hafa hlotið menntun. Áður samþykkti fólkið aðeins að farið væri með börnin úr dalnum en núna er í lag að þau fái að vera í Voító ef kristið fólk tekur þau að sér. Mér hefur fundist mjög sérstakt að sjá þessi börn og mjög sterkur vitnisburður. Þetta fólk á lítið og á kanski mörg börn sjálft en vegna kærleika Jesú hafa þau tekið þessi dauðadæmdu börn að sér. Læbó er kristinn tsemaimaður sem rekur litla verslun og myllu í Gisma. Hann hefur tekið að sér dreng sem á aldur við Davíð Ómar og átti sá drengur ekki að fá að lifa. Hann gaf drengnum nafnið Setota sem merkir gjöf. Hann leit á þennan litla dreng sem ekk átti að fá að stækka og dafna sem gjöf Guðs til sín. Þetta segir meira en mörg oUm bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl og blessuð öll sömul.
Gott að heyra frá ykkur og gaman að lesa fréttirnar. Vonandi hressast allir fljótt og njóta aðventunnar.
Kær kveðja, Svava María o.fjsk.
Svava María (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 18:35
Þið eruð svo dugleg og uppfinningasöm að það er erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja það!!! Þið eruð hetjur í ríki Guðs. Nú þegar við búum líka erlendis skil ég betur hvað það hlýtur að vera erfitt að vera svona svakalega langt frá fjölskyldunni og vinum á Íslandi. Þó maður upplifi það sem barn þá er það alls ekki það sama og þegar maður upplifir það sem fullorðinn, því sem barn þá þekkir maður ekkert annað, en sem fullorðinn þá fylgir söknuðurinn manni alltaf. Guð blessi ykkur og gefi ykkur að verða frísk og eiga yndislega aðventu.
Bestu kveðjur,
Ólöf Inger, Kiddi og Gunnar Jakob.
Ólöf Inger (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 11:58
Sæl Helga Vilborg!
Ég kíki stöku sinnum inn á heimasíðuna þína og hef alltaf svo gaman af að lesa pistlana. Ótrúlegustu ævintýri sem þið fjölskyldan upplifið.
Kærar jólakveðjur,
Ingileif.
Ingileif (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.