15.12.2008 | 13:34
10.-15.des
10. des. 08
Jæja þá eru allir að skríða saman. Fystu tvær vikurnar hér í Addis hafa bara farið í veikindi. Fyrst var ég veik í heila viku, svo tók Dagbjartur Elí við, svo Davíð Ómar og svo Margrét Helga, Jóel og Kristján. Margrét Helga og Jóel voru hvort um sig frá skólanum bara einn dag með hita og hálsbólgu. Jóel fékk reyndar eitthvað í magann líka en það gekk sem betur fer fljótt yfir. Þau eru enn mjög kvefuð en að öðru leiti hress. Það var sama með Dagbjart Elí, hann fékk hita í einn dag en er orðinn sæmilega hress þrátt fyrir slæmt kvef og hálsbólgu. Kristján er líka búinn að vera eitthvað druslulegur en Davíð Óma varð veikastur af öllum, fékk háan hita í tvo daga, virtist svo vera á batavegi en fékk þá aftur hita og varð alveg ómögulegur. Tuula læknir kíkti á hann og hlustaði hann og fann út að hann væri með sýkingu í lungunum. Hann er því búinn að vera á sýklalyfjum. Hann hefur því lítið borðað en er núna að hressast og er farinn að verða aðeins duglegri að borða. Þetta er svona frekar slitsomt" eins og Norðmennirnir segja. Sérstaklega líka þegar maður kemur dauðþreyttur frá Voító.Við erum farin að hlakka til að fara í jólafrí til Awasa. Vonandi verða allir hressir þangað til.
Ég byrjaði loksins á smákökubakstri í gær og tókst að klára þrjár sortir. Við Dagbjartur Elí bökuðum fyrst tvær og svo var ráðist í piparkökubakstur þegar krakkarnir komu heim úr skólanum. Kristján þurfti að stússast í bænum og ganga frá innkaupum af vatnspumpunni fyrir Gisma svo ég var ein með krakkana en það gekk nú bara vel. Davíð Ómar var ánægður ef hann fékk að hafa kökukeflið og smá deigklessu og hin þrjú voru alveg svakalega dugleg. Meira að segja Dagbjartur Elí bjó til alveg helling af kökum. Svo gerðum við líka lítið piparkökuhús sem fær nú ekki að standa mjög lengi, þar sem við förum til Awasa, en krökkunum finnst það alveg ómissandi.
13. des. 08
Enn er veikindasögunni ekki lokið. Margrét Helga var heima í gær þar sem hún var komin með svo agalega hálsbólgu greyið, hún gat varla talað og vaknaði um miðja nótt vegna sársauka. Hún er líka komin á sýklalyf og er strax aðeins betri í dag.
Í gærkvöld fórum við að horfa á jólaleiksýningu sem Jóel tók þátt í í skólanum. Það voru KG1 og 2 (Kindergarten) og fyrsti bekkur. Jóel stóð sig eins og hetja og kunni allt sem hann átti að segja sem og alla texta við lög sem voru sungin. Þema leikritsins, eða söngleiksins öllu heldur var frásagan af fæðingu Jesú en sett upp með dáldið nýju sniði, mjög skemmtilegt fannst mér. Þetta var alveg hálftíma sýning og alveg hrikalega krúttleg! Við fórum öll fjölskyldan nema Margrét Helga sem var lasin fékk að vera hjá Toril á meðan og það fannst henni ekki slæmt.Hún var búin að sjá leikritið með bekknum sínum daginn áður svo það kom ekki að sök.
Ég hef verið minnt á það alla vikuna að 11. des. komi jólasveinarnir! Jóel er mjög spenntur fyrir þessu og passaði upp á að það væru skór fyrir alla úti í glugga. Ég held að hann og Margrét Helga viti nú nokkurnveginn hverjir þessir jólasveinar eru svona í alvörunni en þeim finnst þetta bara svo gaman! Dagbjarti Elí leist hins vegar ekkert á að það kæmi einhver jólasveinn inn í herbergi til hans en Jóel setti skó fyrir hann í gluggann og passar að hann fái líka eitthvað í skóinn.
Dagbjartur Elí fær að byrja í leikskólanum (KG1) á mánudaginn og er alveg alsæll með það. Hann hefur verið hálfeinmanna hér greyið og ekki haft neinn að leika við. Litli bróðir er ágætur stundum en ekki alveg nóg kanski þegar maður er alveg að verða 4 ára. Sigga verður bara með honum og hann er svo spenntur og ánægður að fá að byrja. Eiginlega átti hann ekki að byrja fyrr en í febrúar en kennarinn sagði að þetta væri ekkert mál. Það er líka bara ein vika eftir núna.
Davíð Ómar er orðinn mun hressari og farinn að borða betur og er það mikill léttir. Það er alveg ótrúlegt hvað þessi veikindi hans leggjast þungt á mann. Líka að hann borðar ekki og hefur svo litla mótstöðu. En í gær og í fyrradag borðaði hann mjög vel svo vonandi heldur hann því áfram. Ég finn bara að mér sjálfri líður betur svona andlega, þegar hann er frískur.
Ég er svona að komast á skrið í jólaundirbúningi, aðeins búin að baka og svona en öll jólabréf of kort og svoleiðis eftir, það verður því eitthvað síðbúið í ár! Við erum búin að vera eitthvað voða þreytt og slöpp eftir að við komum og ekki hjálpa öll þessi veikindi. Við Kristján fórum áðan og keyptum jólagjafir handa krökkunum. Loksins komin ný sending af leikföngum í Novis. Það er ítölsk verslun og sú eina þar sem hægt er að kaupa leiköng sem endast lengur en í viku! Þeir flytja inn alvöru Barbie og lego og svoleiðis. En við erum líka farin að hlakka til að fara til Awasa. Þar er vonandi aðeins hlýrra en hér í Addis og alltaf notalegt að slappa af við sundlaugina og bara hvíla sig, lesa og gera það sem maður gerir í fríi. Svo verður borðaður hamborgarhryggur og hangikjöt frá Íslandi og ís og Nóakonfekt. Mamma og pabbi sjá til þess að við fáum íslenskan jólamat! Ekki slæmt það.
15. des
Dagbjartur ELí byrjaði í leikskólanum ,KG1 í dag og ekkert smá stoltur. Þetta var pínu ógnvekjandi fyrst og mamma og Sigga urðu báðar að koma með. En ég lét mig hverfa fljótlega og kíkti svo bara við og við á hann. Hann fékk bók með sér heim og smá heimavinnu, minnisvers á ensku að sjálfsögðu og mjög spenntur að reyna að læra það! Á morgun reyni ég að senda hann einan með Siggu. Hann hefur alveg ótrulega gott af þessu.
Margrét Helga er orðin mun hressari og fór í skólann í dag. Davíð Ómar er líka eldsprækur og verður vonandi áfram!
Guð gefi ykkur öllum áfram góða aðventu!
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gott að þið eruð að hressast Helga mín. Vonandi náið þið góðri hvíld í Awasa. Ég væri alveg til í að slappa af með ykkur við sundlaugina og leika við litlu krúttin mín. Takk fyrir mynddiskinn af krökkunum og lífi ykkar þarna suður frá. Hann er mjög skemmtilegur. Við ætlum að sýna hann í jólaboðinu á annan í jólum. Kossar og knús frá ömmu Möggu til allra gullmolanna minna.
Margrét Erna Baldursdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.