Aðventa í Addis Abeba

 

Þá erum við aftur komin til Addis. Það er eiginleg alltaf gott að koma hingað. Uppábúin rúm á gestahúsinu. Allt hreint og fínt, ekkert stöðugt ryk og hitastigið talsvert þægilegra. Það er reyndar kalt hér á morgnana og kvöldin núna en við erum með ofn í íbúðinni svo það er allt í lagi. Sólin skín á daginn og þá hlýnar.

Síðasti mánuður hefur einkennst af pensilín inntöku og tilheyrandi veikindum sem enn eru ekki alveg á enda. Síðast þegar við vorum í Addis var ég veik allan tímann og var enn ekki góð þegar við komum til Voító. Ég endaði á að fara á pensilín þar sem ég var svo slæm í lungunum og með ljótan hósta. Það sama átti við um litlu strákana. Margrét Helga og Jóel urðu bæð alveg hundlasin í Voító og enduðu líka á pensilíni. Það er ekki gaman að vera með hita þegar lofthitinn er 40°eða meira, vonlaust að reyna að kæla líkamann niður. En þau jöfnuðu sig nú öll og ég líka eða að minnsta kosti í smá stund. Pensilínið fer svo illa í mig. Ég var svo slöpp og þreytt af því og fékk svima og ógleði svo ég var mjög fegin þegar ég gat hætt að taka það. En Adam var ekki lengi í Paradís. Ég var búin að vera alveg frísk í þrjá daga þegar við fórum til Jinka og fyrsta kvöldið þar fékk ég hita, alveg upp úr þurru. Ég var strax skárri aginn eftir en var svona hálfdrusluleg í nokkra daga. Svo komum við aftur til Voító og þá tók ekki betra við. Eina nóttina fyrir svona viku síðan, þá vaknaði ég við alveg skelfilegan verk í handleggnum. Ég ætlaði að reyna að hrista þetta af mér en á endanum varð ég að far fram og hugsaði mér að taka verkjalyf til að geta sofnað. Þegar ég kom fram og kveikti ljósið sá ég hvers kyns var. Ég var ss. Með pínu ogguponsu sár á þumlinum sem hafði komist svona heiftarleg sýking í. Fingurinn var stokkbólginn og eldrauður og frá honum lá rauð rák upp undir handarkrika. Það fyrsta sem mér datt í hug var Alfreð vinnumaður í Emil í Kattholti því svona var því lýst í bókinni þegar hann fékk blóðeitrun. Svo þá var bara að byrja á nýjum skammti af pensilíni, þriðji skammturinn á tveimur mánuðum. (ég fékk líka slæma sýkingu í október þá í fótinn þannig að ég gat ekki gengið). Maginn á mér er búinn að fá yfir sig af pensilíni og ég er fegin að þetta er búið í bili. En ég þakka Guði fyrir að við höfum aðgang að þessum lyfjum. Maður veit ekki hvað hefði getað gerst hefði ég ekki strax tekið pensilín þarna um nóttina. Núna erum við krakkarnir hress en Kristján er búinn að vera hundlasinn frá því á laugardag. Hann fór samt að kenna á Seminarinu í gær og í dag og er eitthvað að skríða saman. Ég vona bara að við getum verið frísk yfir jólin. Við ætlum að vera hér núna til 18. Des. fara þá í fjóra daga til Awasa og vera svo hér um jólin. Við förum svo líklega aftur suðureftir á milli jóla og nýjárs.

Krakkarnir eru komin í skólann aftur og alsæl að venju. Bekkurinn hans DagbjartsElí er að fra að sýna jólasöngleik núna í vikunni. Við vorum með lögin á kasettu heima svo hann er búinn að læra allt saman, eða svona það helsta allavega, og er alveg rosalega spenntur. Ég held ég sé ekki minna spennt að fara að sjá hann! Þetta á eftir að verða alveg hrikalega krúttlegt. Svo eru allskonar jólapartý og allt mögulegt um að vera í skólanum. Margrétar Helgu og Jóels bekkur tekur þátt í tónleikum. Svo er líka ýmislegt um að vera í norræna samfélaginu. Aðventumorgunverður á hverjum sunnudegi, julespill á Mekanissa, jóleikrit sem allir taka þátt í. Þá er sett upp fjárhúsog allir fá hlutverk. Þá er jólafrásagan lesin í bundnu máli og söngvar sungnir og það er meira að segja lifandi asni. Venjulega er er Jesúbarnið leikið af yngsta kristniboðabarninu en í ár er enginn með svona pínulítið barn svo það verður stór dúkka í staðinn. Davíð Ómar var Jesúbarnið fyrir tveimur árum og við Kristján, María og Jósef. Þetta er alveg æðislegt og kemur manni svo sannarlega í jólaskap.

Svo verða æfðir jólakórar fyrir guðsþjónustuna hér á aðfangadag. Bæði barna og fullorðins. Í ár stjórna ég bara barnakórnum þar sem það er annar tónlistarkennari hér líka sem tekur að sér fullorðins kórinn. Ég er mjög fegin því. Ekki svo oft sem ég hef fengið bara að vera í í kór síðan við komum hér út.

Kristján er að kenna á Seminarinu, seinni tvær vikurnar af námskeiðinu sem hann var að kenna síðast þegar við vorum hér. Við Davíð Ómar erum tvö heima og höfum það hugglegt saman. Við vorum nú eitthvað búin að baka að smákökum og svoleiðis í Voító en við ætlum aðeins að bæta við. Piparkökurnar voru bakaðar og skreyttar í Voító og rétt svo lifðu ferðina til Addis. Það voru einhverjar sem brotnuðu en þær eru alveg jafngóðar á bragðið. Piparkökuhúsið ætlum við að gera hér. Tók ekki sénsinn á að fara að ferðast með það þessa 600 km á misgóðum vegum! Krakkarnir voru búin að vera á fullu að búa til jólakort til nánustu ættingja sem send verða út fljótlega og skila sér vonandi. Þau voru mjög spennt að byrja á jólaundirbúningnum. Við komum frá Jinka 28. Nóvember og það fyrsta sem þau spurðu um þegar við renndum í hlað í Gisma var: „Meigum við núna hlusta á Jóla- Ladda?"

 

Segi það í bili

Læt vonandi heyra frá mér fljótlega aftur.

„Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast og æskumenn hníga en þeir sem vona á Drottinn fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki."

                                                                                                                  Jesaja 40: 29- 31

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra fjölskylda

Alltaf gott og gaman að heyra frá ykkur. Hafið það sem allra best. Jólakortið fer bráðum í póst ;)

Svava María o.fjsk.

Svava María (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 22:14

2 identicon

Gaman að lesa!

 Gangi ykkur vel.

 kv.

Hildur Sveins

Hildur Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband