Færsluflokkur: Bloggar

Allt og ekkert

11.maíÍ dag er Davíð Ómar tveggja mánaða og það sem hann hefur stækkað! Allir litlu gallarnir sem voru allt of stórir fyrir mánuði síðan eru að verða of litlir! Hann er sko algjört krútt litla skinnið og síbrosandi. Í dag er líka nákvæmlega mánuður þar til við verðum á leið heim til Íslands. Við erum farin að hlakka mikið til. Á miðvikudaginn átti Kristján afmæli og hélt upp á það með því að bjóða körlunum út að borða. Það er svo ódýrt að fara út að borða hér að maður getur verið rausnarlegri með það hér en heima. Þeir skemmtu sér bara vel heyrðist mér. Margréti Helgu fannst nú frekar skítt af pabba að bjóða ekki Jóel með fyrst hann var að bjóða strákunum! Þau voru voða spennt yfir því að pabbi ætti afmæli svo við höfðum smá veislu hér heima með rjómapönnsum því pabba finnst þær svo góðar. En hvað haldiði nú að þessi elska hafi gert. Kristján var eiginlega búinn að banna mér að vera að kaupa afmælisgjöf því hann ætlaði frekar að fá að halda upp á afmælið með því að bjóða strákunum út að borða. En á þriðjudaginn fór hann í bæinn að versla og kemur bara með pakka handa mér í staðinn! Ég var eitthvað búin að tala um að mig vantaði eyrnalokka til að hafa hversdags og var þá bara að hugsa um einfalda hringi eða kúlur en gaf mér þessa líka flottu lokka ú gulli með steinum og allt. Þannig að ég fékk gjöf í staðinn. Ég er nú samt búin að fá leyfi til að kaupa eitthvað handa honum heima í sumar.Nú er Dagbjartur Elí orðinn stóri bróðir svo hann er farinn að fylgja stóru systkinunum meira eftir. Hann er farinn að æfa karate með Jóel (Margrét Helga gafst upp á karatenu) og svo er hann auðvitað byrjaður í barnakórnm. Margrét Helga og Jóel eru líka farin að æfa hlaup tvisvar í viku en það kemur stelpa, líka úr sport prosjektinu, sem er hlaupaþjálfari og kennir þeim. Þau eru mjög hrifin af henni og innst rosa gaman. Hún gerir þetta líka mikið í gegnum leik. Svo er stóra stelpan mín bara að fara að byrja í forskóla í næstu viku. Við héldum fyrst að hún yrði ein í fyrsta bekk hér í Addis en það kemur fjölskylda um helgina sem verður á málaskólanum til jóla sem eiga dóttur sem er líka að byrja í fyrsta bekk og því erum við voða fegin. Nú er heitt hjá okkur en rignir af og til.Maí er líka samkvæmt venjunni heitasti mánuðurinn hér. Í lokinn smá gullgorn.Jóel: ”Mamma, veistu hvað er stærsta dýrið í heiminum?” HV: ”Ég er ekki viss, kanski hvalur?” Jóel: ”Mamma þú veist það, það er….. konungurinn (hvíslar) gullfiskurinn!! Hann er með halaspjót!”Hér á seminarinu eru oft haldnar brúðkaupsveislur og núna um þessar mundir eru yfirleitt brúðkaup allar helgar bæði laugardaga og sunnudaga. Margét Helga og Jóel voru eitthvað eirðarlaus um daginn svo Kristján stakk upp á að þau færu aog kíktu á brúðkaupsveisluna, sem var úti. Þá sagði Jóel: Margrét Helga viltu koma með mér að skoða grúbaukið, ég hef aldrei séð svona grúbauk”(hann var nb. Brúðarsveinn fyrir stuttu!!) MH: ”Jóel þú veist hvar brúðan situr, brúðan situr í miðjunni hjá manninum sínum.”Hér eru svo nokkur orð og setningar sem þið getið giskað á hvað þýða!!:(lausn´í næsta bloggi!)Jóel:” Þegar maður lebb…..Dagbjartur Elí: ”Hvar er stilið mitt, mig langa stela”HVS:”Margrét Helga viltu ekki meiri graut”  MH: ”Já” 

Meiri fréttir

5.maíJá við sem sagt náðum okkur í alveg skelfilega flensu um miðjan apríl, eða eins og Eþíóparnir segja það, náði flensan í okkur!Margrét Helga veiktist fyrst og byrjaði á að fá hálsbólgu á fimmtudagskvöldi og var svo komin með hita á föstudeginum, þetta var 12. apríl minnir mig. Ég var bara að vona að þetta væri svona sólarhringspest en hún var veik í næstum tvær vikur. Dagbjartur Elí bættist við á föstudeginum líka. Þegar Dagbjartur Elí Kristjánsson biður um að fá að leggja sig á miðjum degi þá er hann veikur. Jóel veiktist svo á laugardeginum og ég á aðfaranótt sunnudags. Jóel er svo merkilegur þegar hann er lasinn. Ég spurði hann oft hvernig honum liði og hann svaraði:” bara vel” og brosti hálfdofinn og svo fimm mínútum seinna fannst hann sofandi á gólfinu inni í leikherbergi! Kristján bættist svo í hópinn á miðvikudeginum. Við fengum öll háan hita og slæmt kvef og krakkarnir köstuðu öll upp. Ég var með um 40°hita í 6 daga. Ég reyndi að halda því eitthvað niðri með paraset til að geta sinnt veikum börnunum og frískum litlum Davíð Ómari. Sem betur fer slapp hann alveg. Ég var mest hrædd um að hann myndi veikjast en hann fékk bara smá nefstíflu og hnerra, ekkert alvarlegt. Kristján druslaðist veikur í vinnuna og kom svo bara alveg búinn heim. Þegar við vorum komin yfir það versta ákváðum við að fara til Awasa til að ná okkur almennilega. Það var frídagur á seminarinu föstudaginn 27. apríl og svo auðvitað 1. maí frí hér eins og annars staðar í heiminum. Kristján gat síðan fært til nokkrar kennslustundir þannig að við fengum heila viku í Awasa. Það var bara alveg frábært. Við nutum þess að liggja í sólinni og hitanum og synda og busla í lauginni. Nú er kominn hreinsibúnaður í stóru laugina og dúkur breiddur yfir hana á kvöldin svo nú er hægt að sjá til botns, allt annað! Margrét Helga og Jóel eru orðin ótrúlega dugleg að synda. Þau geta látið sig fljóta og synda alveg ótrúlega langt í kafi. Það vantar reyndar aðeins upp á sundtæknina en þau kanski komast á sundnámskeið heima í sumar til að kippa því í lag. Dagbjarti Elí líður best á bakkanum eða í litlu lauginni. Skemmtilegast fannst honum að vera í litlu lauginni ef annað hvort mamma eða pabbi sátu hjá honum. Davíð Ómar fékk nú ekkert að fara í sund, aðeins of kaldar laugar fyrir svona lítinn kall! Hann fær bara að fara í sund á Íslandi í sumar! Í Awasa er allt morandi í apaköttum, þeir eru eiginlega algjör plága og verða alltaf kræafari og kræfari. Það er mikilvægt að krakkarnir séu ekki ein úti að labba með mat í höndunum því þá eru þeir komnir um leið og þessir apakettir bera rabies (hundaæði). Einn daginn voru dyrnar á veröndinni hjá okkur opnar í nokkrar sekúndur og þá vissum við ekki fyrr til en tveir apakettir voru komnir inn til að stela banönum sem voru uppi á ísskápnum! Kristjáni tókst að reka þá út að meðan ég beið inni með krakkana. Þeir voru líka alltaf að sniglast í krisngum vagninn hans Davíðs Ómars á meðan við vorum í sundi svo maður varð að vera vel á verði. Einn daginn reyndi einn lítill apaköttur að stela pelanum hans og annan daginn voru þeir kominir tveir upp í vagninn en þá var litli maðurinn ekki í vagninum. Það getur nú verið stundum skemmtilegt að fylgjast með þeim en þeir eru alveg ferlega kræfir. Eftir viku í Awasa vorum við öll næstum orðin frísk. Við Kristján erum bara ennþá með smá kvef og ég er ekki alveg komin með röddina til baka. Ég var gjörsamlega raddlaus í tvær vikur en nú er þetta að koma. Börnin eru orðin eldspræk en ég reyndar vaknaði með skelfilega magapínu í morgun- ég held samt að það sé að ganga yfir- alltaf eitthvað!!Svo erum við bara komin baka til hins daglega lífs. Kristján er auðvitað að kenna og svo er heilmikil vinna við íþróttaverkefnið sem hann stjórnar (Hope sport project). Þetta er verkefni þar sem fátækum börnum er boðið upp á að æfa íþróttir og um leið er þeim boðað fagnaðarerindið um Jesú. Hann er einmitt núna við athöfn þar sem taka á nýjan fótboltavöll í gagnið. Hverfisstjórninni (kebele) er boðið og Kristján átti að halda ræðu og svona. Svo er Kristján líka í stjórn alþjóðlegu kirkjunnar (International Lutheran Church) og þar er heilmikið að gera þar sem ekki hefur fengist neinn prestur til að leiða kirkjuna.Ég er alveg heima að sinna krökkunum en fæ til þess góða hjálp frá Asnakú. Davíð Ómar hefur verið með dáldið magavesen enn er reyndar misjafn eftir dögum. Suma daga er hann alveg ómögulegur og sefur lítið en annars dafnar hann vel og hann hefur stækkað heilmikið, aðallega lengst. Hann er sko algjört krútt og hann brosir mikið og hlær og hjalar. Ég er reyndar með barnakórinn áfram einu sinni í viku en það eru bara tvær æfingar eftir og svo eiga þau að syngja á 17. maí (þjóðhátíðardegi Norðmanna) Dagbjartur Elí fékk að byrja í kórnum og finnst voða sport. Hann átti reyndar dáldið erfitt með að sitja kyrr þegar framhaldssagan var lesin því hún er á norsku sem hann skilur lítið í þótt alltaf virðist hann skilja meira og meira og er farinn að segja nokkur orð á norsku.Þau þrjú eldri leika sér úti allan daginn og nú er sól og heitt nánast alla daga. Það rignir inn á milli en maí er heitasti mánuðurinn svo nú er voða notalegt hér, meira að segja hlýtt inni í húsinu. Annars erum við farin að hlakka mikið til að koma heim. Það verður gaman að fá að hitta fjölskyldu og vini. Ég er spenntust að sjá viðbrögð Dagbjarts Elís, hann þekkir auðvitað ekkert nema Eþíópíu. Margrét Helga man held ég mest frá Íslandi, Jóel man eftir eitthvað af fólkinu allvega ömmum og öfum en ég held stundum að hann rugli stundum saman Íslandi og Noregi. Hann var bara 2 ára þegar við fluttum út til Noregs. Einhverntíma var hann spurður hvaðan hann væri og þá sagði hann að hann væri frá Íslandi og Noregi. Vonandi verður veðrið svona skítsæmilegt en annars er það aukaatrtiði aðalmálið að hitt allt fólkið okkar.Ætlsi ég segi það ekki í bili. Látum heyra aftur í okkur fljótlega og vonandi fáið þið líka bráðum að sjá fleiri myndir.

Smá lífsmark

Halló öll! Það fer nú að koma að almennilegu bloggi en ástæðan fyrir þessu bloggleysi er skelfileg flensa sem við lágum í öll fjölskyldan í upp undir tvær vikur. Til að ná okkur almennilega fórum við svo í viku til Awasa sem var bara frábært svo nú erum við öll orðin frísk nema ég er enn hálfraddlaus. Það koma sem sagt betri fréttir fljótlega.

 


Nýjar myndir

Bara að láta vita að það eru komnar inn nýjar myndir. Annars allt gott að frétta. Núna er bara kalt og rigning(ég var í tveimur flíspeysum í morgun!!) en smáfólkið dafnar og unir sér vel.

Kveðja úr kuldanum í Addis


gleðilega páska!

5. aprílSpurning hvort ekki sé kominn tími á smá blogg.Í fréttum er það helst að Dagbjartur Elí er hættur með bleyju!! Mér finnst hann svooo duglegur . Í ljósi þess að hann er bara nýorðinn tveggja ára og að auki nýbúinn að eignast lítinn bróður sem er engin smá breyting fyrir hann þá finnst mér þetta ótrúlega vel af sér vikið þótt ég segi sjálf frá. Hann er núna búinn að vera bleyjulaus í viku og meira að segja á nóttunni líka og varla nokkurt slys. Hann er líka ægilega stoltur. Fyrstu dagana þurfti hann að pissa á fimm mínútna fresti en nú er aðeins að komast jafnvægi á þetta hjá honum.Davíð Ómar virðist nú vera farinn að þyngjast betur. Á mánudaginn ndi var hann orðinn 3850g, þ.e. búinn að ná fæðingarþyngdinni og 50g betur þannig að þetta er allt í áttina og erum við þakklát fyrir það. Hann er líka eitthvað að róast, ekki alveg eins óvær og hann var. A.m.k. eru næturnar rólegri. Ég þarf reyndar að fara með hann í göngutúr í vagninum á daginn til að hann sofni en þá sefur hann líka yfirleitt vært og í góðan tíma. Það er helst á kvöldin að hann er órólegur en það vonandi gengur yfir. Hann er líklega með vélindabakflæði eins og systir hans var með en hann gubbar reyndar ekki eins mikið og hún gerði. Ég þurfti stundum að skipta um alklæðnað á henni allt að fimm sinnum yfir einn dag! Nú er hann líka búinn að fá sendingu af litlum fötum sem ég átti heima svo hann er ekki lengur eins og einmanna kartafla í strigapoka! Hann er líka duglegur að vera á gólfinu, spriklar á fullu og er líka duglegur á maganum. Ég nota tækifærið meðan stóri bróðir leggur sig eftir hádegið því annars er lítll friður fyrirl litla manninn!Margrét Helga fékk bréf frá skólanum um daginn sem boðaði hana í forskóla og innritun núna í maí. Hún var svo stolt af bréfinu og meira en lítið spennt að byja í skólanum. Hún er sko búin að gera allt tilbúið í tösku. Setja það sem nauðsynlegt er í pennaveskið og allar vinnubækur og stílabók að auki í töskuna. Svo var hún að velta fyrir sér hvaða skór væru bestir fyrir skólann og hvaða buxur. ”Ég verð að finna allt sem er best fyrir skólann” sagði hún. Það verða viðbrigði fyir Jóel þegar hún fer í skólann á hverjum degi í haust. Þau eru svo miklir leikfélagar og alltaf saman að bralla eitthvað allan daginn. Reyndar verður Dagbjartur Elí þá orðinn aðeins stærri og þroskaðri svo ég vona að þeir geti þá farið að leika aðeins saman. Ég er líka búin að lofa Jóel að við höldum áfram að hafa skóla svo hann geti líka lært að lesa. Vonandi bara að það gangi vel allt saman. Líka að Margrét Helga verði ánægð í skólanum .Eins og það lítur út núna verður hún eini nemandinn í 1. bekk hér í Addis og enginn í 2. bekk og tveir í 3. bekk. Skólinn er mjög fámennur. Reyndar er verið að þreifa fyrir sér með samtarf við einhverja af stærri alþjóðlegu skólunum en það er ekkert komið á hreint ennþá.Við erum núna bara í páskafríi. Að þessu sinni eru okkar páskar og þeir eþíópsku á sama tíma en eins og þeir sem fylgst hafa með þessu bloggi í einhvern tíma vita þá er annað tímatal hér en hjá okkur. Venjulega eru eþíópsku páskarnir eini eða tveimur vikum seinna en okkar en með ákveðnu ára millibili lenda þeir á sama tíma. Við vorum eitthvað að spá í hvort við ættum að leggjast upp í ferðalög og fara til Awasa en svo bara orka ég það ekki alveg strax. Maður er enn að átta sig á og venjast lífinu með nýjan fjölskyldumeðlim. Það er líka bara ágætt að vera heima og slappa af. Við ætlum að borða hamborgarhrygg sem við fengum frá mömmu og pabba, á páskadag. Það verður víst ekkert grillað lambalæri eins og í fyrra! Pabbi er er svo búinn að bjóða upp á ís í eftirrétt (ís út úr búð hér er ekki á færi venjulegra kristniboða dagsdaglega!!) og svo eru mamma og pabbi líka búin að sjá til þess að við fáum Nóa og siríus páskaegg! Þannig að ekki líðum við skort hér! En að sjálfsögðu má svo ekki gleyma hvers vegna við höldum þessa hátíð. Páskarnir eru stærsta hátíð kristinna manna. Við minnumst þess að Guð sendi son sinn í heiminn til að deyja og íða fyrir syndir okkar mannanna. En Hann gerði miklu meira en það. Hann reis aftur upp, sigraði dauðann svo við getum eignast fyrirgefningu og eilíft líf með Honum. Það er þess vegna sem við erum hér úti vegna þess að við trúum því að það sé réttur allara manna að fá að heyra þessar gleði fréttir. Við trúum því og treystum að Guð hafi kallað okkur til starfa hér til þess að taka þátt í því að fleiri sem ekki hafa heyrt þessar fréttir fái tækifæri til að eignast hlutdeild í Guðs ríki.Guð gefi ykkur gleðilega og innihaldsríka páskahátíð!”Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf” Jóh. 3.16 

Dýrin út´í Afríku....

23. marsÞá erum við komin með nýtt gæludýr sem býr í vatnsleiðsluröri í garðinum hjá okkur. Og haldið ykkur nú, það er nefnilega risastór hýena! Ég get sagt ykkur það að það var ekki vegna þess að við hefðum sérstakan áhuga á að eignast hýenu heldur hefur hún kosið að dvelja í rörinu á daginn en þar sem hýenur eru næturdýr fer hún á stjá á milli kl. 6 og 7 á kvöldin. Nágranni okkar var búinn að sjá hana þrisvar sinnum koma úr holunni og varaði okkur við að láta krakkana vera eina úti á þessum tíma. Þau eru reyndar aldrei úti svona seint en það er gott að vera á varðbergi. Kristján sá svo skepnuna í gær þegar hún skreið úr holunni, hljóp á milli húsanna og út í skóginn sem er hér á bakvið hús. Ég verð nú að segja að mér er ekki beint vel við að hafa hýenu sofandi í svo gott sem í garðinum með fjögur lítil börn í húsinu. En þær eru víst ekki mjög hættulegar á daginn (þar sem þær sofa þá) og auk þess sem ein hýena er ekki líkleg til stórræða þar sem þær eru vanar að ferðast um í hópum. Meret- ab nágranni okkar var búin að ræða við vaktirnar að það þyrfti nú kanski að koma skepnunni fyrir kattarnef en það má víst ekki drepa þær. Hvers vegna nákvæmlega veit ég nú ekki , það er nú ekki eins og þær séu í útrýmingarhættu, en Kristján giskaði á að það væri vegna þess að þær hreinsuðu upp hræ og villihunda. Eitthvað verður samt að gera, spurning hvort það sé hægt að setja net fyrir rörið (það verður að komast vatn þarna í gegn á regntímanum) þannig að hýenan fari og finni sér annan dvalarstað. Hún er nú líklega búin að búa þarna einhern tíma núna svo ég held að okkur stafi ekki mikil hætta af henni en allur er varinn nú samt góður og ekki læt ég litlu drengina mína sofa úti á fremri veröndinni a.m.k! í kvöld ætluðum við að reyna að sjá hana koma út og Kristján var tilbúinn uppi á þaki á bílnum til að taka vídeo en þá bara lét hún ekki sjá sig, hefur verið eitthvað seinna á ferðinni í kvöld. Kanski við náum henni á morgun. En þetta er engin smá skepna allvega, á stærð við asna! 26. marsHýenan er enn á sínum stað en það verður eitthvað gert í þessu. Gengur ekki að hafa villidýr í garðinum eða hvað finnst ykkur????Davíð Ómar er búinn að fara tvær bílferðir. Kristján bauð mér út að borða í hádeginu á föstudaginn þar sem ég var ekkert búin að fara út af lóðinni eftir að drengurinn fæddist. Davíð Ómar fékk að koma með og steinsvaf allan tímann. Í gær fór hann svo í skólaguðsþjónustu á norska skólanum og hlustaði á stóru systkini sín syngja í barnakórnum. Jóel var alveg yndislegur söng með miklum tilþrifum eins og honum er einum lagið.Davíð Ómar dafnar bara vel þótt hann mætti kanski þyngjast aðeins meira. Hann léttist um allvega 400 g eftir fæðinguna og á enn eftir 300 g til að ná aftur fæðingarþyngdinni. Regina, ljósmóðir kom aukaferð í dag til að vikta hann og ætlar að koma aftur eftir viku. Hann verður þá vonandi búinn að ná fæðingarþyngdinni. Hann ætlar kanski bara að verða hár og grannur eins og mamman!(ha, ha, ha!!) Hvað sem öllum tölum líður er hann frískur og virðist vera í góðu lagi. Hann er vel vakandi og athugull þannig að ég held maður þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann er líka duglegur að drekka, fær megnið úr pela en ennþá nokkra dropa frá mér. Ég ætla að reyna að halda út þar til hanner allavega 6 vikna. Það verður líka bara að koma í ljós hversu lengi hann nennir þessu. En það er víst sagt að þótt þau fái ekki mikla móðurmjólk sé það betra en ekkert, sérstaklega í byrjun. En annars sýnist mér hann bara verða að gera sér þurrmjólk að góðu eins og systkini hans, ég er víst engin Búkolla!Í gær fengum við dáldið af barnadóti frá fjölskyldu sem er að fara að flytja til Noregs. M.a. svona grind með hangandi leikföngum og leikdýnu. Davíð Ómar fékk að prófa græjurnar í dag en fékk nú ekki mikinn frið fyrir systikinum sínum sem fannst nýja dótið líka mjög spennandi. Þeim fannst litli bróðir heldur ekki alveg nógu aktívur við leikinn og voru að reyna að kenna honum að slá í dótið! Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að hann væri enn of lítill til að leika sé markvisst en þetta kæmi nú allt saman. Það er reyndar spurning hvort hann fái einhverntíma frið til þess að prófa þetta upp á eigin spítur! Verðum bara að leyfa honum að leika sér á kvöldin þegar hin eru sofnuð. Hann er voðalega visnæll hjá sytkinunum. Þau nánast slást um að fá að halda á honum og knúsa hann. Hann á eflaust eftir að verða harður af sér en virkar nú samt hinn mesti ljúflingur. Mér finnst hann eiginlega alveg ný útgáfa, eiginlega ekkert líkur hinum nema kanski helst þá Jóel. Margrét Helga og Dagbjartur Elí eru svo lík, bæði í útliti og hegðun þannig að það var kanski ágætt að einhver líkist Jóel. Hann verður allavega voðalega glaður þegar ég ség segi að mér finnist Davíð Ómar líkur honum.Ætli þetta verði ekki látið duga í bili. Takk fyrir allar kveðjurnar og hamingjuóskirnar á síðunni. Þið megið endilega halda áfram að vera dugleg að kvitta, það hvetur mann áfram við skriftirnar. 

Lítið ljós

 19. mars Nú er Davíð Ómar orðinn viku gamall og í fullri vinnu við að sofa drekka, stækka og dafna og að vera krútt! Ég er óðum að ná fyrri kröftum en geri lítið annað en að gefa brjóst og pela og hvíla mig. Við förum líka í göngutúr á hverjum degi mæðginin og bætum við ferðalagið á hverjum degi. Þetta gengur bara alveg ótrúlega vel. Þetta eru mestu viðbrygðin fyrir Dagbjart Elí en hann er ósköp góður. Maður þarf bara að passa að hann sé ekki of harðhentur við litla bróður. Hann verður líka af og til pirraður á að mamma skuli hafa þennan litla hnoðra í fanginu einmitt þegar hann vill hafa mömmu í friði en það er nú ekki nema eðlilegt. Við tökum okkur alltaf góðan tíma eftir hádegi til að lesa og kúra okkur saman áður en hann fær sér hádegislúrinn og svo kemur hann stundum með í göngutúr eða við förum bara tvö saman. Margrét Helga og Jóel eru orðin svo ”sjóuð” í að eignast systkini að þetta er lítið mál fyrir þau og þau eru voðalega dugleg að hjálpa. Í morgun þegar við komum fram var búið að leggja á borð og setja morgunmatinn fram. Þetta var svo krúttlegt hjá þeim. Þau buðu upp á jógúrt en Jóel sagði að næst ætluðu þau að reyna að búa til hafragraut. Ég sagði að það væri nú best að mamma og pabbi sæju um það! En þau eru svo dugleg!  Annað er nú lítið að frétta. Litli regntíminn er byrjaður en það hefur nú svo sem ekkert verið venjulegt þegar kemur að veðurfari síðastliðið árið hér. Það er reyndar ágætt núna að fá smá rigningu því það er svo mikið ryk allsstaðar. Það er verið að breikka vegi um allan bæ og ekkert nema malarvegir allsstaðar.  Það er varla farandi fótgangandi hér út fyrir lóð á miðjum degi vegna ryks. Fólk er líka meira eða minna hóstandi og með kvef því þetta er svo ertandi. Það er líka skárra þegar rignir núna heldur en á aðalregntímanum því nú er ekki eins kalt. Það er heitara á næturnar núna en í fyrra en það hefur líka í för með sér annan ófögnuð- moskítóflugur. Þær bera ekki malaríu hér í Addis en eru alveg skelfilega pirrandi, halda fyrir okkur vöku á nóttunni og éta okkur upp til agna. Við erum öll útbitin. Krakkarnir eru síðan öll í flóabitum að auki. Ekki mjög skemmtilegt. Það er á hérna rétt við húsið okkar sem gerir það að verkum að hér er mikið af moskító. Ég held við verðum að fara að fá okkur net þetta er frekar hvimleitt. Ég held ég sé ekkert að blaðara meira því ég hef svo sem ekkert að segja. Vildi bara láta vita að allt gengur vel og litla ljósið dafnar. Það koma vonandi fljótlega nýjar myndir af honum. Hann hefur breyst svo og þroskast ótrúlega mikið á þessari einu viku, farinn að opna augun og skoða sig heilmikið um. En hann er ósköp smár finnst mér, fötin sem bróðir han notaði frá fyrsta degi  poka öll utan á honum! En hann er alveg yndislegur, svo ljúfur og góður!  

Fæðingarsaga

14. marsJæja, þá er maður aðeins að komast niður á jörðina eftir allt saman. Þetta var erfiðasta og skrítnasta fæðing sem ég hef gengið í gegnum en mér skilst að það sé oft þannig með þriðja eða fjórða barn. En þetta fór allt vel að lokum og við erum öll að hressast. Ég sem sagt byrjaði að missa vatnið á miðvikudagskvöld. Allar mínar fæðingar hafa byrjað svoleiðis þannig að það kom svo sem ekkert á óvart. Það sem ég var hins vegar að vona var að ég færi sjálf í gang með sótt eins og þegar ég átti Dagbjart Elí. Með bæði Margréti Helgu og Jóel þurfti dreypi til að koma sóttinni almenilega í gang en þá var ég samt komin með sæilega góða útvíkkun svo það tók bara stuttan tíma. Núna var hins vegar eitthvað allt annað í gangi. Við ákváðum í samráði við ljósmóðurina að bíða og sjá, ég fékk hjá henni töflur sem áttu að hjálpa til við að koma af stað samdráttum og byrjaði að taka þær á föstudagsmorgun. Ég var með veika samdrætti allan daginn en svo datt allt niður um nóttina. Það var því ákveðið að ég fengi dreypi á laugardagsmorguninn þar sem þá voru liðnir á þriðja sólarhring frá því vatnið byrjaði að leka og alltaf hætta á sýkingu. Áætlanir um heimafæðingu fóru því lönd og leið þar sem fæðing með dreypi verður að fara fram á spítala undir eftirliti lækna og í mónítor . Við lögðum af stað heiman frá kl. hálfátta á laugardagsmorgun. Á leiðinni bilaði svo auðvitað bíllinn, eða þ.e.a.s. hann ofhitnaði. Við renndum inn á næstu  bensínstöð og ætluðum að fá vatn en var tilkynnt að það væri vatnslaust, ekki einu sinni hægt að kaupa drykkjarvatn á flösku! Það reyndist nú síðan bara einhver misskilningur og fengum við vatn á bílinn sem dugði til að komast á spítalann. Asnakú, barnapían okkar var heima með krakkana. Hún er sko búin að vera betri en enginn siðustu daga.  Kl. 9:30 var svo dreypið komið af stað. Þetta gekk hægt í byrjun og ég fékk litla verki. Það sem var líka furðulegt við þetta allt saman miðað við fyrri fæðingar var að ég var ekki komin með nema 1 cm í útvíkkun. En við höfðum svo sem ekki mikið val þar sem svo langt var liðið frá því vatnið fór að fara. Hér í landinu eru reglur um að setja af stað eftir 8 klst. En í samráði við Reginu ljósmóður ákváðum við að bíða eins og gert er í okkar heimalöndum ef allt lítur vel út. Læknarnir á spítalanum voru að sjálfsögðu gapandi yfir þessu en þeir eru held ég vanir að Regina fari sínar eigin leiðir.  Jæja en ég sem sagt fékk dreypi og hélt að ég yrði bara komin heim fyrir kvöldmat en það var nú aldeilis ekki. Það leið á daginn og svo fram á kvöld. Útvíkkunin gekk ekki neitt og sóttin var alltaf að detta niður þrátt fyrir að dreypið væri í botni. Ég var orðin mjög þreytt og úrkula vonar þegar komið var fram á kvöld. Ég hafði ekkert sofið nóttina áður og nú var farið að nálgast miðnætti. Regina hafði samband við  yfirlækni kvennadeildar spítalans sem sagði að það væri ekkert annað að gera en að halda áfram og bæta við dreypi þar til barnið væri fætt. Við vorum farin að spá í hvort ekki væri hægt að stoppa svo ég gæti sofið og halda svo áfram morgunin eftir. Við vorum í stöðugu símasambandi við mömmu og pabba og ég talaði líka við Höllu vinkonu hennar mömmu sem er ljósmóðir og tók á móti Margréti Helgu og Jóel.við héldum kanski að þetta væri sama vandamálið og þegar Jóel fæddist þegar allt stoppaði með dreypi í botni en þá var hægt að sprengja belgina og ”hleypa” honum út. Í þetta sinn hinsvegar gat ljósmóðirin ekki fundið upp á belgina og því ekkert hægt að gera. Það var því bara haldið áfram og alltaf skipt um poka með dreypi. Svo leið á nóttina og loksins um þrjú eða fjögur leytið fór eitthvað að gerast. (ég er ekki alveg viss hvað klukkan var því ég var orðin svo þreytt að ég vissi varla hvað ég hét lengur) Upp úr því hófust svo átökin en þá var ekki mikil orka eftir, ég hélt ég myndi ekki hafa orku í þetta en allt gekk vel og loksins klukkan 8:08 (5:08 að íslenskum tíma) kom Davíð Ómar í heiminn. Mikið urðu nú allir glaðir! Ég var búin að tala aðeins við Margréti Helgu og Jóel í símann kvöldið áður. Þau skildu ekkert í hvað við vorum lengi og báðu mig bara að koma heim. Jóel sagði mér að skila til ljósmóðurinnar að gera þetta fljótt! En þennan tíma tók þetta og þar sem ég hafði nú einhverja orku eftir og allt í lagi var með hjartsláttinn hjá barninu var svo sem ekkert annað að gera. Ég held ég hafi aldrei verið jafnþreytt á ævi minni en það var yndislegt að fá litla krílið í fangið. Hann var ”bara” 3, 8 kg eða rúmar 15 merkur. Ég hef aldrei átt svona lítið barn áður! Líka þegar síðasta barn sem ég fékk í hendurnar var næstum 5 kg (19 m) þá finnst okkur hann ósköp smár. En hann er alveg yndislegur auðvitað, alveg fullkominn! Þegar Regina svo talaði aftur við yfirlækninn seinna um daginn og sagði honum hversu lengi við hefðum haldið áfram með dreypið sagði hann ” Þú ert aldeilis þolinmóð!” Eþíópskir læknar hefðu líklega löngu verið búinir að fyrirskipa keisaraskurð. Þeir grípa mun fyrr inn í hér en það sem tíðskast í Evrópu. Ég er mjög fegin að ekki kom til þess og að hann fæddist að lokum eðlilega. Við fórum svo bara fljótlega heim enda ekki mikill friður á spítalanum til hvíldar. Við vorum komin heim um 12 leytið. Asnakú var hjá okkur til kl. 4 svo við gátum öll, ég Kristján og Davíð Ómar hvílt okkur aðeins og svo fór Kristján út með krakkana seinni partinn þannig að við mæðginin bara sváfum og sváfum. Ég hef aldri getað sofið svona vel eftir fæðingu áður. Æðislegt að koma bara heim og hafa alla þessa hjálp og geta hvílt mig eins mikið og ég þarf. Ég er enn að vinna upp svefn og ná úr mér þreytu svo það er frábært að þurfa hvorki að elda nér þrífa og hafa svona mikla hjálp með hin börnin líka. Ég hef líka miklu meiri orku til að sinna þeim þegar Davíð Ómar sefur. Ég reyni að lesa fyrir þau og fara með þeim í göngutúr og þetta gengur líka bar rosalega vel. Þau eru hæstánægð með litla bróður. Það þarf helst að passa að Dagbjartur Elí knúsi hann ekki of fast en hann vill helst alltaf vera að kyssa hann og strjúka honum svo segir hann :”ekki pota” af og til! Hann er líka fljótur að láta vita ef litli bróðir er að gráta. Margrét Helga var nú fyrst ekki alveg sátt við að þetta skildi vera enn einn strákurinn. Hún sagði við Berit, nágrannakonu okkar þegar hún kom og tilkynnti þeim að þau væru búin að eignast bróður:” ég vildi heldur systur, en ég vissi það, það hlaut að þurfa að verða strákur því það er bara til bláir sokkar”! Þetta var auðvitað áður en hún var búin að sjá hann. En daginn eftir tók hún utan um hálsin á mér og sagði: ”Mamma ég ruglaðist bara mig langaði auðvitað að fá lítinn bróður!” Hún er voða hrifin af honum og Jóel líka og eru þau dugleg að hjálpa til. Það gengur sem sagt allt vel. Það er að komast regla á lífið aftur. Mér gengur reyndar ekkert með brjóstagjöf frekar en fyrri daginn. Við erum farin að þurfa að gefa honum pela með og fær hann megnið úr honum. Hann var farinn að gulna og þorna svo það var ekkert annað að gera. Hann fær þá bara þessa dropa sem ég hef og svo pelann. Hin hafa öll braggast vel svo ég ætla ekki að stressa mig. Eþíópunum finnst þetta dálítið undarlegt að ég skuli ekki geta haft hann á brjósti. En svona er þetta bara. Það er ekki á allt kosið. Ég er bara búin að læra af reynslunni eftir streð með þrjú stykki að það þýðir ekkert að stressa sig og börnin verða ekkert verri og ég ekkert verri mamma fyrir vikið!Jæja ætli þetta fari ekki að verða gott í bili. Við erum öll svo þakklát Guði fyrir litla Davíð Ómar og að allt gekk vel þrátt fyrir að hafa tekið á og tekið langan tíma. Við viljum þakka ykkur öllum sem voruð með okkur í bæn, það skipti miklu máli og við finnum að við erum borin áfram á bænarörmum í jafnt stóru sem smáu. Að lokum verð ég að láta fljóta með smá sögu af litla skáldinu á heimilinu honum Jóel:

Á föstudaginn hringdi mamma til að athuga hvernig gengi. Einmitt þegar hún hringdi vorum við Kristján í smá bíltúr. Jóel tilkynnti hins vegar ömmu sinni að barnið væri fætt og lægi inni í rúmi og það væri lítill drengur en við værum ekki búin að ákveða nafn á hann. Ömmu brá nú dáldið og vissi ekki alveg hvort hún átti að trúa þessu en drengurinn hljómaði nokkuð sannfærandi. ”En hvar er mamma?” spurði amma þá ”hún er úti í göngutúr” svaraði snáðinn. Ömmu fannst það nú dáldið undarlegt en spurði svo Jóel hverjum litli drengurinn líktist ” Hann er alveg eins og ég!” Og það fyndna er að Davíð Ómar er bara glettilega líkur honum!

Nafnið Davíð Ómar:

Davíð er nafn Davíð konungs úr Biblíunni og merkir hinn elskaði. Allir drengirnir okkar hafa eitt Biblíunafn þótt það hafi ekki verið neitt systematískt ákveðið!

Ómar kemur úr Kristjáns fjölskyldu en móðurbróðir hans sem lést ungur hét Ómar. Samkvæmt mannanofn.com er nafnið ungt í íslensku kom til landsins á fjórða áratug síðustu aldar en þó nokkuð margir heita nafninu bæði sem fyrsta og öðru nafni. Nafnið kemur fyrir í Biblíunni en er þó talið eiga uppruna sinn í Arabíu

 

Davíð Ómar fæddist í morgun

Segja má að fæðingin hafi verið löng og erfið en samt gengið vel. Móður og barni heilsast vel og við erum innilega þakklát öllum þeim sem hafa hugsað til okkar og beðið fyrir okkur.

Fæðingarþyngd var 0,6 breskir steinar og lengdin mældist 0,29 breskir faðmar. 

Smellið á myndasíðutengilinn til að sjá myndir af nýjasta fjölskyldumeðliminum.

Lofið Drottin, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna! Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk. Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra, er leita Drottins, gleðjist. Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans. 1Kro.16

 

 


sól sól skín á mig...

26. feb. 07 Ætli það sé ekki kominn tími á smá fréttir. Það er svo sem ekkert mikið nýtt að frétta. Ég reyndar hélt ég væri að fara af stað fyrir helgi. Ég hélt að vatnið væri byrjað að leka, þannig hafa allar fæðingarnar byrjað hjá mér og svo hefur yfirleitt ekkert gerst. Fyrstu tvö skiptin þurfti ég að fá dripp í æð en Dagbjartur Elí kom sjálfur. Ég fékk veika samdrætti kjölfarið svo ég þorði ekki annað en að hringja í ljósmóðurina til öryggis. Það kom í ljós að þetta var ekki legvatnið og samdrættirnir voru vegna þess að barnið var að færast neðar í grindina. Það hefur bara þrýst svona á blöðruna. Það var ágætt. Við vorum ekki alveg viðbúin því að þetta færi svona fljótt af stað- hefðum þurft að búa um barnið í kommóðuskúffu eða kassa! Það er nú samt vonandi ekki mikið meira en mánuður í þetta. Ég eignaðist litla frænku í gær sem átti að fæðast á sama tíma og okkar kríli. Sigurbjörg frænka átti sem sagt litla stelpu úti í London. Hún er voða sæt með mikið dökkt hár. Það er svo frábært að flestir eru með svona síður þannig að maður getur fylgst með séð myndir af krílunum og svoleiðis. Algjör snilld.Ég var með smá tónleika í gær á casa innces ásamt Ellen og Alf Åge. Þau bjuggu hér í þrjú ár en fluttu í fyrra til London þar sem þau vinna fyrir norska sendiráðið. (unnu áður í norska sendiráðinu hér í Addis) Við vorum með tónleika hér í fyrravor og notuðum hluta af því prógrammi þar sem ekki var mikill tími til æfinga. Þau voru hér bara í viku heimsókn. Það var rosa gaman að syngja með þeim. Þau eru bæði mjög flink að spila og syngja, hann á gítar og hún á píanó. Ellen vann á norska skólanum og kenndi hér á seminarinu þannig að ég tók eiginlega við hennar vinnu þegar hún fór. Þetta var æðislega gaman að fá að syngja almennilega en ég var rosalega lúin eftir það! Bumban tekur í !!! Krakkarnir eru orðin mun hressari, loksins laus við kvefið enda hefur líka verið frekar hlýtt hér undanfarið. Þau eru líka loksins farin að sofa alla nóttina. Það var orðið þannig að þau vöknuðu öll á hverri nóttu sem er frekar lýjandi. Það endaði með því að við ræddum þetta við Margréti Helgu og Jóel og sögðum að þau fengju verðlaun ef þau yrðu dugleg að sofa alla nóttina í sínum rúmum. Það virkaði svona svakalega vel. Þetta var held ég orðinn dáldið mikill ávani að vakna. Þau fengu svo ís í verðlaun á laugardaginn. Ég er því ekki eins þreytt og er orðin miklu betri í grindinni eftir að við fórum að fá heilan nætursvefn aftur. Ekki veitir af að hlaða batteríin áður en næturbröltið byrjar aftur með nýja krílið. Ég samt kvíði því ekki. Þetta gengur allt yfir. Það koma svona tímabil og allt gengur yfir á endanum.  Erum annars bara spræk öll og farin að hlakka til að taka á móti litla krílinu. Kanski maður fari að finna fram föt og athuga með rúm og svona!! Við erum svona frekar afslöppuð í þessu núna… Gullkorn í lokin:Það er nokkuð ljóst að verður séð fyrir okkur hjónakornunum í ellinni. Margrét Helga spurði mig eitt kvöldið hvers vegna börn færu frá foreldrum sínum þegar þau yrðu fullorðin, afhverju þau héldu ekki bara áfram að búa hjá mömmu sinni og pabba. Áður en ég gat svarað spurningunni var Jóel farinn að hágráta og sagðist aldrei ætla að fara frá mér:”Ég ætla alltaf að vera hjá þér mamma, ég ætla aldrei að fara frá þér!” Hann er líka yfirmömmus og ánægður með þann tiltil! 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband