Af sebrahestum og krókódílum

 

19. febrúar 2010

 

Úff! Þetta er víst fyrsta bloggið mitt á þessu herrans ári! En allvega.....

Við áttum langt jólafrí hér í Addis. Lengra en upphaflega var planlagt, sem kom nú reyndar ekki til af góðu. Þ.e. við sátum hér föst vegna veikinda bóndans. Hann fékk einhverja heiftarlega sýkingu í eitil á hálsi sem læknarnir hérldu fyrst að væri hettusótt. Dr. Eina Eriksen, norskur læknir sem skoðaði hann, var samt ekki alveg viss og sendi Kristján í rannsókn á Swedish clinic, þar sem fljótlega kom í ljós að þetta var bakteríusýking. Hann er orðinn frískur núna en er samt enn að klára fjórða sýklalyfjakúrinn. Þá er þetta vonandi búið.

Krakkarnir voru í skólanum síðustu tvær vikurnar fyrir jól og að venju er alltaf mikið um að vera fyrir jólin. Dagbjartur Elí tók þátt í jólasöngleiknum „Whoops a daisy angel" sem var alveg hrikalega krúttlegt. Við vorum búin að vera að æfa lögin heima og hann stóð sig eins og hetja! Rétt fyrir jól fórum við í nokkra daga til Awasa svona rétt til að slappa af fyrir jólin. Sjálfa hátiðina vorum við svo hér í Addis. Það var borðað hangikjöt að venju og meira að segja líka lambalæri sem við tókum með að heiman í sumar. Á jóladag voru tónleikar hér í kapellunni þar sem bæði hérbúandi kristniboðar og gestir komu fram. Það tókst mjög vel og góð tilbreyting. Við ætluðum síðan að vera komin til Voító fyrir áramót þar sem við áttum von á gestum, norskri fjölskyldu sem býr hér í Addis, en eins og áður sagði gekk það ekki eftir vegna veikinda. En í staðin gátum við hitt Katrínu og Vilborgu (frænkur mínar sem eru aldar upp hér í Eþíópíu) sem voru komnar til að vinna í Addis og í Jinka. Það var gaman að fá aðeins að hitta þær áður en við fórum svo suður eftir. Þær ætla svo að heimsækja okkur til Voító núna í byrjun mars.

Við vorum ekki nema tvær vikur í Voító áður en við þurftum að fara af stað aftur á ráðstefnu NLM kristniboða í Awasa. Á þessum tíma gerðist samt ýmislegt. Margrét Helga er búin að eignast nokkrar vinkonur í Gisma og er farin að syngja í kirkjukórnum. Kórar Mekane Yesus kirkjunnar eru allir í sérstökum búningum, kirtlum með skuplur á höfðinu og er litli kirkjukórinn okkar í Gisma engin undantekning. Hún fer á kóræfingar á hverum degi og syngur lög með mörgum erindum á bæði amharísku og tsamakko. Það var ekki laust við að mamman táraðist í fyrstu guðsþjónustunni sem litla krúsin var að syngja.

Jóel er alltaf sami dýrakallinn og á þessum tveimur vikum eignaðist hann tvö gæludýr, fuglinn Che che sem lifði ekki nema tvo daga og íkornann Kirrkirr sem fékk að gleðja okkur aðeins lengur. Vinir hans komu með dýrin til hans. Þegar fuglinn dó varð mikil sorg og hann var jarðaður í bakgarðinum. Kirrkirr var alveg ótrúlega krúttlegur og alveg frábært gæludýr. Það var smíðað búr handa honum , aðallega til að sofa í  á nóttunni. Hann var svo lítill að við urðum að gefa honum mjólk úr sprautu og til að byrja með vildi hann ekkert annað. Hann braggaðist fljótt og hændist mjög að krökkunum. Vildi helst kúra í hálsakotinu á þeim og ef hann var settur á jörðina elti hann þau og stoppaði ef þau stoppuðu. Það varð úr að hann var tekinn með til Awasa í með viðkomu í Arba Minch og svo til Addis. Það gekk vel með hann í bílnum. Hann bara kúrði hjá krökkunum og fékk sér af og til mjólk og brauðmola. Í Awasa var hann hvers manns hugljúfi og allir bæði ungir og eldri yfir sig hrifnir af honum. En Addis varð honum ofviða greyinu. Hann þoldi lílega ekki kuldann og varð veikur nokkrum dögum efir að við komum hingað þrátt fyrir ýtrekaðar tilraunir til að halda á honum hita. Hann dó síðan fyrir viku síðan. Það var mikil sorg og mikið grátið. En svona er lífið...

Ráðstefnan í Awasa gekk vel og var óvenju afslappað andrúmsloft. Fá mál voru á dagskrá og því gafst meiri tími en ella til að ræða starfið almennt. Krakkarnir voru í góðum höndum nema frá biblíuskólanum á Fjellhaug í Osló. Þaðan hefur komið hópur á hverju ári til að sjá um barnadagskrá sem er bara alveg frábært. Munar miklu fyrir okkur foreldrana.

Dagbjartur Elí átti afmæli fjórða febrúar og voru bakaðar pönnsur í tilefni dagsins. Almennileg veisla var svo haldin efir að við komum til Addis þar sem ekki gafst tími til þess í Awasa. Hann lenti reyndar í því tveimur dögum fyrir afmælisdaginn að handleggsbrotna þegar hann datt úr klifurgrind. Það var farið með hann í röntgenmyndatöku í Awasa og svo skoðuðu hann Torleif og Jerin Kiserud, sem eru læknar í Jinka. Það kom í ljós að hann þufti að fá gifs. Sama dag höfðu Fjellhaug krakkarnir verið að föndra gifsgrímur með börnunum og það var akkúrat afgangur sem passaði á höndina á Dagbjarti Elí. Torleif setti svo á hann gifsið úti á tréstólpa með aðstoð efnilegra ungra stúlkna! Hann er enn með gifsið en losnar við það eftir u.þ.b. viku.

Sl. tvær vikur höfum við svo verið í Addis. Krakkarnir una sér vel í skólanum og það er mikið fjör hér á lóðinni líka. Margrét Helga og þrjár norskar vinkonur hennar stofnuðuð dans og söng hópinn „Makíato" sem hefur komið fram við hin ýmsu tækifæri bæði í Awasa og í Addis. Þær eru líka búnar að vera á fullu að búa til skartgripi sem þær selja til styrkar kristniboðsstarfinu. Elisabeth norskur kennari hér, saumaði á þær allar eins tunikur og þær skottast um allt með ósýnilegan þráð á milli sýn. Bara alveg frábært. Jóel leikur mest við Samúel vin sinn sem býr hér á lóðinni go svo eru norskir bræður sem búa hér rétt hjá sem eru líka góðr vinir hans og leikfélagar. Hann fékk að gista hjá þeim síðustu helgi og ég get ímyndað mér að það hafi verið fjör. Dagbjartur Elí unir sér vel í leikskólanum. Hann fékk reyndar ekki alveg pláss núna alla dagana vegna aukins fjölda nemenda í KG1 núna eftir jól en það hjálpaði að Mikael Kiplesund vinur hans er hér núna líka. Þeir bralla margt saman og fara oft að heimsækja „mormor" ömmu hans Mikaels sem býr hér á lóðinni. Við vorum svo heppin núna að fá alveg frábæra barnapíu fyrir Davíð Ómar. Hún heitir Selam og hefur verið hér stundum í afleysingum. Það var bara ást við fyrstu sýn. Hún er dugleg og ákveðin sem á vel við Davíð Ómar. Þau eru líka oft með Asnakú, sem er barnfóstran sem við höfðum meðan við bjuggum í Addis, og Jon Gabriel, vini Davíðs Ómars sem Asnakú er núna að passa.

Þannig að við gætum eiginlega ekki haft það betra. Á meðan börnin eru sátt og ánægð erum við það líka. Það skiptir alveg ótrúlega miklu máli.

Við fengum líka óvænta heimsókn frá Önnu Páu mágkonu minni nú í febrúar. Hún kom og var nokkra daga hjá okkur í Voító og fór svo með okkur til Arba Minch þar sem við m.a. fórum í Nech sar þjóðgarðin og sáum sebrahesta, flóðhesta, krókódíla og antílópur. Þar drukkum við líka vatn úr uppsprettu lindunum sem Arba Minch (Fjörtíu lindir) dregur nafn sitt af. Og stukkum meira að segja út í til að kæla okkur. Aveg dásamlegt! Anna Pála kom svo með okkur til Awasa og var þar í tvo daga en fór svo í ferð til norður Eþíópíu á meðan við vorum á ráðstefnunnni. Svo hittumst við aftur í Addis þar sem hún fékk m.a. að vera með á menningarkvöldi í bekknum hans Jóels. Þar höfðu krakkarnir allir undirbúið kynningar af löndum sínum og allir áttu að koma með mat sem fólk gat svo keypt fyrir ljósritaða peninga frá hverju landi. Við komum með rjómapönnsur sem vöktu mikla lukku.

En nú fer þessari Addis dvöl að ljúka og við höldum suður á mánudaginn þar sem við verðum næstu sjö vikurnar. Það fer síðan að styttast í að við flytjum heim, um miðjan júní í sumar. Ég verða að viðurkenna að því fylgja blendnar tilfinningar. Við hlökkum að sjálfsögðu til að búa nálægt fjölskyldu og vinum en það verður líka erfitt að kveðja og fara héðan og margt sem við komum til að sakna. En ef Guð lofar komum við aftur....

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Gott að heyra að allt gengur vel, allir eru frískir og líður vel. Gangi ykkur á vel á ferðalaginu og Guð gefi ykkur þrótt í starfinu.

Kveðjur úr Hafnarfirði, Nanna Guðný.

Nanna Sigurdardottir (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband