Tengd aftur

Jæja, þá er aftur komið símasamband. Vorum ss. síma og þ.a.l. netsambandslaus alla síðustu viku. Þegar síminn fór að virka á mánudaginn var samt ekki hægt að komast á netið en það kom í ljós að við þurftum nýtt aðgangsorð. í gær reyndi ég reyndar að komast á þessa síðu á norska skólanum en komst ekki inn. Ég komst svo að því í gær að búið var að breyta lykilorðinu! Nú er hins vegar allt farið að virka í bili.

Annars erum við hress. Styttist í fjölgun og við erum mjög spennt. Mér finnst´líka spennandi að fá að fæða heima í þetta sinn. Er bara mjög örugg með það. Krakkarnir eru búin að vera meira eða minna slöpp eftir ráðstefnuna í Awasa en eru að hressast. Það urðu flestir eitthvað veikir eða slappir, bæði kvef og magapest og margir lengi að ná fullum kröftum, við fengum öll eitthvað en allt er á réttri leið. Ég læt fylgja´hér með dagbókarbrot sem ég skrifaði í síðustu viku.

Bið að heilsa í bili.

12.febÞá erum við komin til baak frá Awasa eftir velheppnaða ráðstefnu. Við komum reyndar öll hálfslöpp og þreytt til baka en svo er nú það . Dagbjartur Elí er mest lasinn. Hann var með hita í gær og er enn og aftur með alveg hrikalegt kvef svo er hann kominn með pípandi niðurgang að auki. Hann svaf  illa í nótt en við mæðginin vorum að vakana núna eftir að hafa sofið í þrjá tíma. Margrét Helga og Jóel eru líka mjög kvefuð og sváfu illa í Awasa vegna hósta, þau virðast nú sofa aðeins betur hér heima. Ég er líka kvefuð og tæp í maganum en ætli kristján sé ekki hressastur þótt hann sé með einhvern smá vott af þessu öllu saman. Það voru margir veikir og slappir í Awasa enda kanski ekki að fyrða þar sem svo margt fólk kemur saman í svo langan tíma. Þetta var mjög góð  ráðstefna en mjög mikil dagskrá. Ég skrópaði nú á einhverja fundi þar sem ég var svo illa sofin og átti líka erfitt með að sitja lengi. Það voru ýmis mál rædd og ekki allir sammála um allt en þetta fór allt fram í mesta bróðerni. Dagskráin er venjulega þannig að á morgnana er fyrst samverustund fyrir alla fjölskylduna sem byggir að mestu upp á söng, svo fara börnin á sínar stundir eða til barnafóstrann (þau minnstu) á meðan þeir fullorðnu hlýða á biblíulestur. Svo eru fundir um hin ýmsu mál frá kl. 11- 12:30 og aftur kl. 15- 17:30. Á kvöldin er svo mismunandi dagskrá td. Eins og lofgjörðarkvöld, altarisganga, skemmtikvöld o.fl. Það var gert ráð fyrir tveimur fríkvöldum en annað kvöldið varð síðan að nota undir fundi til að hægt væri að komast yfir öll málin sem voru á dagskrá. Allir kristniboðarnir fá ákveðin verkefni, Kristján fékk það verkefni að vera einn af riturunum og ég fékk það sama og venjulega, spila og sjá um lofgjörðastundina. Ég spilaði á öllum morgunstundum og svo er alltaf einhver söngur á millli sem við skiptumst á að spila við sem það kunnum. Barnakórinn sá að mestu um að leiða sönginn á morgunstundunum þar sem Ingunn sem er með kórinn með mér) s´aum þær það var því þægilegast fyrir þau að ég bara spilaði alltaf.Svo er frítíminn í hádeginu notaður til að sóla sig og kæla í sundlauginni sem var reyndar orðin vel skítug í lok vikunnar. Hreinsibúnaðurinn sem á að vera í henni er ekki alveg kominn í gagnið og þegar svona margir eru á staðnum verður laugin fljótt skítug. En krökkunum fannst þetta auðvitað algjört æði. Margrét Helga og Jóel eiga ekki langt í að verða synd. Vantar bara smá upp á tæknina. Við erum að spá í að reyna að koma þeim á sundnámskeið heima í sumar. Það er stundum dáldið erfitt að láta mömmu og pabba kenna sér! Kanski kemur þetta ef þau fara á námskeið.Það verður nú eitthvað í að þessi færsla komist á netið þar sem nú er algjörlega símasambandslaust! Það er nú ekki hægt að ætlast til þess að hafa bæði rafmagn, vatn OG líka síma!! Síminn datt alveg út í gær og gæti ég best trúað að þeir hafi slitið eitthvað í sundur í vegaframkvæmdunum sem eru í gangi hér úti á götu.

 


Ævintýri á 20 ára gömlum Landcruiser!

Kanski ég skelli inn smá færslu áður en við förum til Awasa. Við ætlum að fara á morgun og kanski stoppa á tveimur stöðum á leiðinni, bara taka því rólega. við erum reyndar vön að keyra þetta í einum strekk og krakkarnir orðin vel þjálfuð í löngum keyrslum (keyrðum td  í einum rikk  frá Arba Minch til Ómó Rate, c.a. 8 tíma!) Þetta leit nú ekki vel út á tímabili því gamli jálkurinn bíllinn sem við höfum gaf upp öndina á þriðjudaginn. Hann var´búinn að vera slappur í síðustu viku svo það var búið að setja í hann nýjan rafgeymi. á þriðjudagskvöldið þurfti ég síðan að fara inn á casa inces (norska skólann) og drap bíllinn á sér þrisvar á leiðinni en ég komst á leiðarenda við talsvert illan leik, klukkutíma of seint!  Fyrst soppaði ég í búð á leiðinni og kom honum ekki í gang þar eftir dálitla bið fékk ég nokkra vaska menn til að íta mér niður brekkuna, á móti umferð NB! og gat rennt honum í gang (ég man þetta vel eftir að hafa keyrt lödu í nokkur ár!). Svo þegar ég var alveg að koma að Casa inces drap hann á sér á gatnamótum en sem betur fer við brekku svo ég sá fyrir mér að það yrði ekkert mál að íta honum aftur í gang. Málið var bara að það var komin úrhellis rigning (það rignir óvenju mikið um þessar mundir, enn og aftur). að þeim sökum var erfitt að fá fólk til að íta, þau vildu bíða eftir að rigningin minnkaði. Það bara virtist aldrei ætla að gerast. ég var orðin svo sein og farin að hfa áhyggjur af að fólkið sem væri að bíða eftir mér væri farið að hafa áhyggjur (sem reyndist síðan rétt reyndar! Kasólétt kona ein að keyra að kvöldi til í afrískri stórborg og orðin klukkutíma of sein sem er ekki mér líkt!) Ég reyndi því að hringja heim en það var á tali, Kristján á netinu en ég mundi engin númar á casa inces svo ég ákvað blara að fara út og reyna sjálf að ýta bílnum. Þá komu nokkrir hlaupandi til að hjálpa og á endanu komst bíllinn í gang. á lóð kristniboðsins drap hann svo aftur á sér svo ég lét þar við sitja og reyndi ekki að koma honum aftur í gang. Ég fékk sem betur fer far heim svo allt fór vel.  Þið megið ekki halda að ég hafi verið í einhverri hættu stödd því Addis er mjög friðsamleg borg og fólk upp til hópa mjög hjálplegt. En bíllinn kemast  allavega ekki á konferansinn!.Það er eitthvað meira að en bara rafgeymirinn og tekur lengri tíma að gera við. Við fáum annan bíl í dag svo þetta verður í góðu lagi.

Annars hefur bæst í hóp Íslendinganna. Það var óvænt ánægja að hitta sigríði Ingólfsdóttur (dóttir Ingólfs og Karinar) hér í gær. Hún er hér með hópi nemenda frá Fjellhag sem eiga að sjá um barnadagskránna í Awasa.  Jakop Hjálmarsson hélt hinsvegar til Keníu í morgun. Þannig að það er alltaf eitthvað rennerí af Íslendingum hér þótt þetta sé nú ekki beint í alfaraleið.

Við erum núna komin með atvinnuleyfi og er það mikill léttir. Nú er verið að vinna í að endurnýja ID kortin okkar. Það hefði verið dáldið mikið vesen fyrir mig að þurfa að fara að flækjast fram og til baka úr landi þar sem ég get bráðum ekki flogið lengur. Nú á ég uþb 6 vikur eftir, á að eiga um miðjan mars ( en ætla samt ekkert að fara að bíða fyrr en í lok mars!) Það er þýsk ljósmóðir sem ætlar að taka á móti hjá mér hér heima en ef ég þarf að fara á spítala þá vinnur hún á einkaspitala´hér þar sem allt lítur vel út þannig að þetta lítur allt saman mjög vel út.

Ætli ég segi það ekki í bili, leit í mér heyra aftur eftir konferansinn. Takk fyrir kveðjur á síðuna, endilega verið dugleg að kvitta!

(Kristín Helga það var rosa gaman að fá kveðjur frá þér! Bið að heilsa mömmu og pabba og strákunum!)


Nýjar myndir

Jæja þá eru komnar nýjar myndir (sjá tengil hér á síðunnu "myndirnar okkar") Það eru myndir frá því í nóvember og desember og núna frá ferðinni. M.a. myndir af karateæfingum krakkanna, jólaguðsþjónustunni og aðfangadagskvöldinu hér heima, myndir af krökkunum frá því um áramótin, brúðkaup og svona eitt og annað.

Annars er lítið nýtt að frétta. Kennslan er að komast af stað hér á seminarinu. Það getur reyndar verið að ég kenni bara einn tíma og morgun og hætti svo því þeir eru búnir að fá nýjan kennara og betra fyrir hann að byrja fyrr en seinna. Það er ágætt ég er smátt og smátt að losa mig út úr öllum þeim verkefnum sem ég hef verið í.  Ég er reyndar enn með barnakórinn á casa inces en sú sem er með mér í ´því er svona að taka yfir aðalábyrgðina.

Álla næstu viku verðum við svo í Awasa á kristniboðaráðstefnu. Það er dáldill undirbúningur fyrir það í þessari viku. Ég er að æfa smá kór fyrir lofgjörðarkvöldið sem verður á þrisðjudeginum en það er bara næsta vika og svo búið.

Litli hnoðrinn verður tveggja ára daginn eftir að við komum til Awasa (4. feb.) ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Hann hefur stækkað mikið og þroskast undanfarnar vikur. við höfðum smá afmælisveislu fyrir hann sl. föstudag þaví það verður lítið svigrúm fyrir veisluhöld í Awasa. Tökum samt kanski með köku og hann fær restina af pökkunum. Honum finnst ægilega sniðugt að eiga afmæli og syngur ammælídag- hástöfum. Ef maður spyr hann: "átt þú bráðum afmæli?" Þá svarar hann.:" ammæli" "Hvað verðurðu gamall?" Svar:"gamall"!

Jæja rafmagnið er farið svo ég verð að hætta í bili. (batteríin léleg á tölvunni!)

Bless í bili og endilega kíkið á myndirnar og kvittið í gestabókina!!


Borta bra men hemma bäst...

Þá erum við komin heim  aftur. Er reyndar að verða heil vika síðan en ég hef bara ekki komið mér að því ennþá að skrifa. Ætli ég byrji ekki bara á að skrifa ferðasöguna svo þið fáið aðeins innsýn í þessa fínu ferð sem við fengum. Við lögðum af stað á þriðjudagsmorgni til Awasa þar sem við þurftum að skipta þar um bíl. Bíllinn okkar er orðinn gamall og lúinn og ekki alveg hægt að treysta honum í svona langferð á misjöfnum vegum. Jorunn Sörbö, sem býr í Awasa er hins vegar á betri bíl og féllst á að skipta við okkur þennan tíma þar sem hún þurfti ekki að keyra á neinum torfæruvegum. Við gistum því eina nótt í Awasa svo við gátum aðeins skolað af okkur þar og kælt okkur í sundlauginni. Morguninn eftir var svo förinni haldið til Arba Minch þar sem við ætluðum einnig að gista eina nótt áður en lengra væri haldið. Það tekur ekki nema u.þb. fjóra til fimm tíma að keyra þangað frá Awasa svo við þurftum ekkert að leggja eldsnemma af stað. Það var gaman að koma aftur til Arba Minch. Gulli frændi og fjölskylda bjuggu þar síðasta tímabilið sem þau voru hér úti og voru þar einmitt þegar ég var hér fyrir 11 árum. Ég var því oft hjá þeim í fríum og hélt m.a. jólin þar með þeim. Húsið sem þau bjuggu í er nú notað sem gestahús fyrir NLM kristniboða svo við gistum þar. Þetta var nú stutt stopp því við þurftum að fara snemma af stað því við höfðum hugsað okkur að fara beina leið til Omo Rate sem er um 8 tíma akstur. Þar sem við höfum ekki keyrt þessa leið áður (þ.e.a.s. ein, ég fór þangað fyrir 11 árum) þá var mikilvægt að vera nógu snemma til að vera komin fyrir myrkur til Omo Rate.  Raggi hafði gefið Kristjáni lýsingu á leiðinni svo það gekk greiðlega að komast á leiðarenda. Á leiðinni, ekki löngu áður en komið er til Turmí sem er næsta þorp við Omo Rate er á sem getur verið varhugaverð. Ef vatn er í ánni er ekki ráðlegt að keyra yfir nema maður sjái aðra bíla komast klakklaust yfir. Þegar við komum að ánni mátti glögglega sjá hvers megnug áin er. Tveir stórir trukkar voru sökknir djúpt ofan í jarðvegin sem hefur verið blautur þegar þeir reyndu að komast yfir. Það var örlítið rennsli í ánni þegar við komum að en við vorum ekki alveg viss hvað við áttum að gera svo við biðum aðeins. Kristján fór út og kannaði jarðveginn. Það varð fljótt steikjandi hiti í bílnum en eftir smá vangaveltur hugðum við að það væri óhætt að fara yfir. Við lögðum þessa keyrslu í Guðs hendur og létum svo vaða og komumst heil yfir.  Við komum svo til Omo Rate um  fjögurleitið um eftirmiðdaginn og fengum góðar móttökur hjá Kíu og Ragga. Það hefur rignt óvenju mikið þarna suðurfrá að undanförnu þannig að umhverfið var allt miklu grænna en þegar ég kom þarna fyrir nákvæmlega 11 árum síðan. Í minningunni hjá mér er þetta hálfgerð eyðimörk. Þá fór hitinn í 47 gráður í skugga og allt var skrjáfþurrt og fullt af ryki. Á meðan við vorum þarna fór hitinn aldrei yfir 36 gráður. Mér fannst gaman að sjá breytingarnar á kristniboðsstöðinni. Það hefur verið plantað talsvert af trjám svo nú er skuggsælla en var og húsin eru auðvitað mikil breyting. Þau eru byggð þannig að það loftar vel í gegnum þau. Það er oftast einhver smá gjóla sem er mjög nauðsynleg til að kæla niður! Við vorum í Omo Rate í viku og fengum að upplifa heilmargt. Kristján fór mikið með Ragga og hjálpaði til við hin ýmsu verkefni en ég var meira heima með Kíu og krökkunum. Ég þurfti að fara varlega fyrstu tvo dagana vegna hitans og passa að drekka nóg og hvíla mig. En það tók ekki langan tíma að venjast og mér leið t.d. betur í bakinu en nokkru sinni fyrr! Krakkarnir undu sér við leik og fannst frábært að þurfa ekki að vera í neinu nema nærbuxum. Minnsti maðurinn var reyndar dáldið plagaður af hitabólum en það var farið í sturtu minnst einu sinni til tvisvar á dag. Ég fór nú oft upp í þrisvar sinnum þar sem ég er með ”extra termo” innvortis núna!! Við fórum út á bát á krókódílavatninu, eins og krakkarnir kölluðu það. Það er ss. Ómó áin. Hún er reyndar full af krókódílum en þeir eru skíthræddir við mótorinn í bátnum svo okkur varð ekki meint af.  Svo fórum við á sunnudeginum í guðsþjónustu til Kambútsía sem er þorp í um 15 mín akstursfjarlægð frá kristniboðsstöðinni,. Guðsþjónustan fór fram á dasenetsj máli en predikunin á amharísku og var svo túlkuð yfir á dasenetsj. Við gátum því aðeins fylgst með (þ.e. amharískunni!) Mér fannst skemmtilegast að heyra sönginn. Tónlistin þarna er talsvert ólík tónlist Amharanna sem við heyrum hér í Addis og líkist eiginlega meira tónlist pókotmanna í Keníu. Á þrettándakvöld var okkur boðið í mat til Marie Amitzböll sem er danskur hjúkrunarfræðingur sem hefur starfaðí mörg ár þarna suðurfrá. Þar fengum við dýrindis danskt rúgbrauð og fínerí. Eftir matinn fórum við svo á stúlkna heimavistina sem er á lóð stöðvarinnar þar sem Raggi skaut nokkrum blysum við mikla kátínu stúlknanna. Á eþíópsku jólunum var okkur svo boðið að borða injera og wodd (þjóðarréttinn) á heimavistinni. Heimavistin var sett á stofn af Marie fyrir nokkrum árum til að auðvelda stúlkum skólagöngu. Þarna búa um 25 stúlkur á aldrinum 7- 15 ára og fá þarna föt og mat og fara svo í skóla í bænum. Þetta voru alveg sérlega prúðar og indælar stúlkur og gaman að hitta þær. Eftir vikudvöl í góðu yfirlæti hjá Schram- fjöslkyldunni ákváðum við að halda af stað til baka til Addis. Harpa þurfti líka að fara að byrja í skólanum svo við vildum ekki vera til trafala. Þetta var líka búnn að vera alveg frábær tími og við vorum þakklát fyrir að hafa getað náð að heimsækja þau þar sem þau flytja heim til Íslands í sumar. Margrét Helga spurði hvort við Kristján gætum ekki bara farið heim með Dagbjart Elí, hún og Jóel gætu bara verið eftir. Jóel var nú ekki alveg á því, er svoddan mömmus! En það tókst nú að fá hana með til baka. Það er er alveg frábært að fylgjast með samtölum hennar og Friðriks Páls því þau eru alltaf að plana framtíðina. Þau ætla sko að giftast þegar þau verða stór. Þau tala samt aldrei um að þau séu kærustupar eða neitt í þá áttina. Þetta er bara plan fyrir framtíðina! Jæja við fórum svo af stað til Arba Minch á miðvikudagsmorgni. Á leiðinni stoppuðum við aðeins í Gisma í Voito þar sem Gulli og Vallý hófu starf fyrir, ætli það séu ekki að verða hátt í 20 ár síðan. Eins og er eru engir kristniboðar á stöðinni og og hefur hún aðeins látið á sjá finnst mér. En það var gaman að koma þarna aftur og sjá aðeins og líka fyrir Kristján sem aldrei hefur komið þarna. Við fengum okkur nesti þar með slatta af áhorfendum af sjálfsögðu en vildum svo flýta okkur áfram til að ná til AM fyrir myrkur. Stuttu eftir að við keyrðum út af kristniboðsstöðinni í Voito komum við að bómullarakri. Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema hvað vatni er veitt á þennan akur sem svo safnast saman og rennur út á veginnn á einum stað. Þegar við komum að ”pollinum” (ætti frekar að segja ánni) sátu þar fastir tveir stórir vörubílar. Nú voru góð ráð dýr, áttum við að reyna að komast yfir eða áttum við að bíða í hitanum. Kristján fór út og athugaði málið og við ákváðum svo að láta á reyna. Ekki vildi betur til en svo að við komumst ekki alveg yfir og bíllinn pikk festist í drullunni sem er ekkert venjuleg hér úti (ekki skrítið að þessi jarðvegur sé notaður til að byggja úr hús!) Fljótlega hópuðust að fjöldi stráka á öllum aldri og fóru að biðja um peninga til að hjálpa. Þeir voru í fyrstu mjög agressívir og vildu ekkert gera nema við myndum borga þeim góða summu. Okkur tókst nú síðan að útskýra fyrir þeim að við værum ekki ríkir túristar heldur kristniboðar og að við þekktum Elsu (Lintjörn) Þá kom nú annað hljóð í strokkinn. Þeir vissu nánast allir hver Elsa var og héldu reyndar sumir að ég væri hún! Við vorum meira að segja á bílnum sem hún hafði úti hér síðast. Þess má geta að þeir töluðu ekki mikla amharísku en einhernvegin gátum við haft smá samskipti við þá. (Elsa Lindtjörn er norskur hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað lengi í Voito og m.a. í mörg ár með Gulla frænda og fj.) Nú fóru þeir að reyna að moka, aðallega með höndunum og svo reyndu þeir að ýta bílnum,áræðanlega tuttugu manns en ekkert gekk. Það var orðið verulega heitt í bílnum, lofthitinn úti vel yfir 30° og  kemst því fljótt yfir 40°inni. Krakkarnir voru orðin hálfskelkuð greyin og farin að gráta en ég reyndi að róa þau eins og ég gat. Kristján var farin að telja í huganum hversu mikið við værum með af vatni ef við þyftum að vera þarna einhvern tíma. Ég bara bað í Guð að senda enhvern til að hjálpa okkur. Við gátum ekki haft samband við neinn því ekki er farsímasamband á þessum slóðum og enginn vissi nákvæmlega hvar við vorum. Við þurftum samt ekkert að bíða mjög lengi þar til það komu bílar úr báðum áttum, Izuzu flutningabílar og gat einn þeirra dregið okkur uppúr- Guði sé lof! Við þurftum auðvitað að borga þeim fyrir en við hefðurm næstum borgað hvað sem var til að losna úr þessu. Þetta er ekkert grín með þrjú lítil börn og kasólétta konu!! En allt fór vel og við náðum þrátt fyrir allt til Arba Minch fyrir myrkur. Þar gistum við eina nótt. Áður en við héldum áfram til Awasa stoppuðum við í krókódílagarðinum í AM. Krakkarnir hafa beðið eftir því að fara þangað síðan við komum hingað út því þau sáu einhverntíma myndir sem ég ég hafði tekið þar og fannst það voða spennandi. Þetta er ss. Krókódílabúgarður og eru skinnin af þeim seld til Grikklands. Þarna eru krókódílar af öllum stærðum og líka slöngur (anacondur) til sýnis. Svo var bara förinn heitið til Awasa þar sem við vorum búin að ákveða að vera í nokkra daga áður en við héldum heimleiðis til Addis. Í Awasa hittum við svo sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson dómkirkjuprest sem er hér í skoðunarferð. Hann hefur boðið fram krafta sína á kristniboðsakrinum í 2-3 mán. á ári eftir að hann kemst á eftirlaun og er því að skoða aðstæður og spjalla við kristniboða og reyna að finna út hvar og hvernig kraftar hans geta sem best nýst. Hann var í Awasa að bíða eftir fari til Ómó Rate og ætlar svo að koma hingað aftur með Kíu og Ragga á miðvikudaginn. . Það var mjög gaman að hitta hann og spjalla. Aldrei leiðinlegt að hitta Íslendinga. Við áttum góða og afslappaða daga við sundlaug og sólböð í fimm daga áður en við hérldum heim á leið. Það var nú gott að koma heim þótt þetta hefði verið mjög gott ferðalag. Við ákváðum að leyfa svo húshjálpunum að vera bara í fríi þar til í dag þar sem við byrjuðum ekki að vinna fyrr. Það er stundum ágætt að vera bara fjölskyldan heima. Þótt það sé ótrúlegur lúxus að vera með húshjálpir og þær séu alveg frábærara getur það líka stundum verið álag að vera alltaf með fólk á heimilinu. Það var samt gott að fá þær aftur í dag og krakkarnir tóku þeim fagnandi. Á föstudaginn ákváðum við að gera okkur dagamun og skruppum í tívolí, nýjan skemmtigarð sem var verið að opna. Krökkunum fannst voða gaman. Þarna voru hringekjur, klessubílar, boltaland og hoppukastali svo eitthvað sé nefnt. Eftir það var okkur boðið í kaffi á Casa Inces þar sem við hittum fleiri Íslendinga, Jóhannes Ólafsson og Margréti dóttur hans og dætur hennar tvær Áslaugu og Ingunni. Þær komu með sendingu frá Íslandi, hangikjöt, flatkökur og fleira sem við kunnum vel að meta. Mamma og pabbi fengu að nota ferðina og sendu með þeim. Þær mæðgur voru svo í mat hjá okkur á laugardag. Jóhannes og Kari kona hans voru orðin eitthvað lasin en vonandi orðin hressari þar sem þau ætluðu að leggja af stað til Awasa í dag. Í gær fór ég að spila í kirkjunni en Kristján var heima með krakkana þar sem Dagbjartur Elí var hálf slappur. Hann er með hrikalegt kvef og var búinn að vera með smá hita. Þegar ég kom heim fékk ég þær sorgrfréttir að litla kanínan hún Karin (sem hét fyrst Brói) væri dáin . Þau höfðu bara komið að henni hreyfingarlausri í búrinu. Kristján hafðu hjálpað þeim að grafa hana og nú er lítið leiði í garðinum með krossi. Þau voru nokkuð fljót að jafna sig í gærmorgun en svo í gærkvöld hágrétu þau bæði yfir að vera búin að missa litlu kanínuna sína. Það endaði með því að ég þurfti að sitja hjá þeim þar til þau sofnuði bæði í Jóels rúmi. Við vitum ekki hvað varð henni að bana en svona er þetta stundum. Þetta var voða sorglegt, hún var svo sæt og þau voru voða dugleg að knúsa hana og passa hana. Við sjáum hvort við fáum aðra seinna en við látum nú kanski líða smá tíma. Svona er lífið. Í gær fengum við líka góða gesti í mat. Ann Kristin og Geir vinir okkar sem voru með okkur á Fjellhaug voru að koma frá Noregi eftir að hafa eignast lítinn dreng. Hann hefur fengið nafnið Joel André. Hugmyndin af nafninu er komið frá Jóel okkar og er Jóel voða stoltur yfir því. Þetta er mjög sjaldgæft nafn í Noregi og segja þau að margir hafi hváð og spurt út í nafnið þegar þau voru þar. Fjölskyldan þeirra var alveg steinhissa yfir nafninu! Jæja í dag byrjaði svo alvara lífsins, eða átti amk. að gera það. Það mætti nú enginn í tíma hjá mér en ég fékk svo upplýsingar um að það væri skráning í gangi svo þess vegna myndi enginn mæta. Kristján komst líka að því að hann fær nýja stundatöflu og átti því að kenna frá kl. 11 í stað þess að kenna frá kl. 8:00. Svona upplýsingum þarf maður bara að komast að eftir krókaleiðum hér á bæ!! Ekki alveg sömu vinnureglur og skipulag og maður á að venjast að heiman. Ég er hætt að kenna á norska skólanum nema ég verð með barnakórinn eitthvað áfram. Það er yfirdrifið nóg af kennurum þar núna svo það hentaði skólanum bara betur að ég hætti um áramót heldur en að ég kenndi fyrsta eða fyrstu tvo mánuðina. Mér finnst það fínt. Mér veitir ekkert af að hafa smá tíma til að hvíla mig auk þess sem nóg er af verkefnum hér heima. Ég ætla líka að herða dáldið á lestrarkennslunni fyrir krakkana þar til barnið fæðist, reyna að hafa skólatíma svona þrisvar í viku í staðinn fyrir einu sinni svo við náum allvega að komast yfir að kynnast öllum stöfunum. Að lokum langar mig að biðja ykkur að biðja fyrir atvinnuleyfismálum. Eins og er er erfitt fyrir alla útlendinga að fá atvinnu og dvalarleyfi. Okkar leyfi rann út 29. des og er starfsmaður krsitniboðsins hér úti að vinna í að fá það endurnýjað, eins og er erum við án atvinnuleyfis en hugsanlegt að við getum allvega fengið ferðamannaáritun allavega í einn mánuð í einu. Á föstudaginn þurfti ein norsk sex manna fjölskylda að fara til Keníu þar sem ekki tókst að fá atvinnuleyfi fyrir þau. Þau koma heim í kvöld og fá keypt ferðamanna áritun á flugvellinum hér vonandi í þrjá mánuði en kanski bara einn. Þið megið biðja fyrir þessu og gjarnan sérstaklega fyrir okkur þar sem ég get ekkert farið að fljúga neitt fram og til baka á næstunni. Ef við þurfum að fara úr landi þýðir það líka lengri tíma fyrir okkur því við getum ekki keypt visum á flugvellinum hér eins og Norðmennirnir þar sem það er ekkert íslenskt sendiráð í landinu. Þetta vandamál á við um alla útlendinga í landinu, ekki bara kristniboða og virðist fyrst og fremst vera vegna ósættis milli tveggja ráðuneyta hér í landinu þótt maður hafi heyrt ýmsar aðrar skýringar líka.Ætli ég fari ekki að segja þetta gott, þetta er orðin svoddan langloka. Ég vona samt þið hafið haft gaman af lestrinum, allvega þeir sem nenna að lesa þetta allt saman! Ég reyni svo að senda myndir við fyrsta tækifæri, þarf helst að gera það að nóttu til þegar lítil traffík er á netinu hér.Bið Guð að blessa ykkur öll”Því þín vegna bíður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum..” Sálm 91:11

Gelðilegt nýtt ár!!

Jæja þá er árið 2007 gengið í garð. Það var rétt svo að við hjónin héngum uppi fram yfir miðnætti til að geta sagt gleðilegt á við hvort annað!. Við vorum í gær í mat hjá danskri fjölskyldu sem er á málaskólanum. Það var mjög huggulegt. Við kveiktum í lítilli brennu en það var ekki hægt að fá flugelda enda ekki áramót hér í landinu núna eins og þeir sem hafa lesið bloggið vita. Margrét Helga og Jóel steinsofnuðu í sófanum hjá þeim en hnoðralingur dundaði sér við að leika sér að dótinu hennar Elisabetar vinkonu sinnar sem var líka sofnuð á meðan við fullorðnafólkið spiluðum Landnemana. Við vorum nú síðan komin heim um ellefeu enda hnoðralingur orðinn þreyttur en sofnar nú ekki hvar sem er! Við lásum svo fram til miðnættis, svona til að hafa vakað yfir áramótin en meiri urðu nú hátíðarhöldin ekki. - Nýja árið kom nú samt! Við vorum líka hálfuppgefin eftir laugardaginn. Það var mikið um dýrðir. Ragnhild gisti hjá okkur því húsið hennar var fullt af gestum frá Noregi. Við fórum svo eldsnemma á fætur á laugardagsmorguninn því Temesgen átti að sækja hana með sínu föruneyti kl. 10 og það þurfti að greiða brúðinni og mála og koma henni í kjólinn og taka fullt af myndum áður. Það kom í minn hlut að greiða henni og tókst bara nokkuð vel þótt ég segi sjálf frá. Það tók um einn og hálfan tíma þannig að ég rétt náði að klæða sjálfa mig og greiða mér áður en brúðguminn átti að koma. Fjölskylda hennar og vinir og myndatökumenn með video og ljósmyndavélar voru mættir á svæðið hálftíu svo það var fullt hús hér. Temesgen kom síðan reyndar klukkutíma of seint sem er nú bara nokkuð gott miðað við eþíópsk brúðkaup sem oftar en ekki byrja tveimur til þremur tímum seinna en áætlað er! Þegar vona var á honum hófst mikill söngur inni hjá okkur á meðan hann og hans fólk dansaði og söng í garðinum fyrir utan. Svo mætast brúðhjónin, hún færir honum blóm í barminn og hann færir henni vöndinn. Svo keyra þau saman til kirkju. Kirkjan er hér rétt hjá svo það gekk greiðlega að komast þangað. Kristján sá um að keyra fjölskyldu og vini Ragnhild frá Noregi en Asnakú og Fantanesh komu með mér og hjálpuðu mér með krakkana. Margrét Helga og Jóel voru í stóru hlutverki. Þau voru brúðarmær og brúðarsveinn en það er talsvert meiri vinna hér en heima. Um morguninn eru miklar myndatökur sem þau verða að vera með í svo eru þau auðvitað með í kirkjunni og ganga inn og út með brúðhjónunum. Í veislunni sitja brúðhjónin ásamt "svaramönnum" (hvort um sig hefur þrjá, hún þrjár konur, hann þrjá karla) blómastúlku og Margrét Helga og Jóel fengu líka hvort um sig sinn stólinn þar. Þau stóðu sig eins og hetjur og voru allir að tala um hvað þau væru dugleg. Auðvitað var mamman voðalega stolt enda var ég búin að vera pínu stressuð yfir þessu. Ég vissi sérstalgeg ekki hverju Jóel gæti tekið upp á. Hann hefði alveg geta orðið skyndilega hræddur og viljað hætta við allt saman en allt gekk eins og í sögu. Það var heilmikill veislu matur enda um 700 manns boðið, sem þykir nú bara í minna lagi þegar kemur að brúðkaupum hér í landi. Í veislunni var nú gefið svigrúm fyrir nokkrar ræður að norskum sið en það er ekki venjan hér. Svo var mikið dansað og sungið og heilmikið fjör. Þegar klukkan var orðin fimm var litli stubburinn minn allt í einu búinn að fá nóg. "Mamma ég vil ekki vera lengur þarna uppi" sagði hann. Uppahaflega var hugmyndin að við færum öll með í garð sem er hér rétt fyrir utan Addis þar sem átti að taka fleyri myndir en nú allt í einu þverneitaði litli brúðarsveinninn að taka þátt í meiru. Hann var alveg búinn og sömuleiðis bóðir hans sem hafði auðvitað neitað að sofa á meðan allt fjörið stóð yfir. Ég treysti mér heldur ekki til að keyra ein með börnin auk þess sem ég var alveg búin í bakinu eftir daginn þannig að það endaði með því að Margrét Helga fór bara með pabba sínum sem keyrði rútu með norsku gestunum og ég fór heim með þreyttu bræðurna sem voru sofnaði kl. hálf sjö! Ég sagði við Margréti Helgu að þetta hefði nú verið dáldið meiri vinna en að vera brúðarmær á Íslandi "Það tekur nú enga stund að gifta sig á Íslandi!"sagði hún þá, orðin veraldarvön daman!Þetta var nú samt frekar einföld útgáfa á eþíópsku brúðkaupi þar sem venjulega eru amk. tvær matarveislur en þau vildu reyna að fara einhvern milliveg og ekki hafa þetta allt of langt. Þetta var bara mjög gaman og mikið fjör bæði í kirkjunni og veislunni. En nú ætlum við að leggja upp í langferð á morgun. Ætlunin er að byrja á að fara til Awasa þar sem við fáum annan betri bíl og þar gistum við eina nótt. Svo ætlum við áfram til Arba Minch, verðum þar eina eða tvær nætur og höldum svo áfram til Ómó Rate til að heimsækja Kíu og fjölskyldu. Ég fékk grænt ljós frá ljósmóðurinni svo við ætlum bara að skella okkur þar sem það fer að verða síðasti séns fyrir okkur að heimsækja þau í Ómó rate. Þau eru svo að flytja til Íslands í sumar og það verður ekki auðvelt að koma þessu við eftir að barnið er fætt. Kristján er með jólafrí núna í janúar svo þá var bara að skella sér af stað. Þið megið gjarnan biðja fyrir að ferðin og allt saman gangi vel.Við vitum ekki alveg hversu lengi við verðum en það gætu orðið 10 dagar til tvær vikur. Ætlum kanski að stoppa nokkra daga í Awasa á bakaleiðinni.   

þriðji dagur jóla

Þá eru hátíðisdagarnir liðnir. Guðþjónustan gekk vel á aðfangadagskvöld. Hirðarnir og englarnir áttu reyndar dáldið erfitt með að halda einbeitingu. Skyndilega ákvað einn engillinn að fara og tala við mömmu sína sem var í fullorðinskórnum og þá fylgdu allir hinir á eftir. Hirðarnir æfðu sig að telja upp að tíu á ensku og skilmuðust aðeins með stöfunum sínum en að öðru leiti gekk allt vel! Þetta var bara krúttlegt. í þessum hlutverkum voru líka öll 4 ára börnin og ekki hægt að ætlast til að maður geri allt 100% í steikjandi hita á sjálft aðfangadagskvöld, vitandi af öllum pökkunum heima! Við komum svo heim og snæddumjólamatinn, hangikjöt en ísinn hálfmisheppnaðist. Spurning hvort það verði ekki eitthvað annað í eftirrétt næstu jól! á jóladag var okkur boðið í norskan jólamat hjá Thoresen fjölkyldunni sem býr á Casa inces (norska skólanum) Það var mjög huggulegt. Í gær varð svo ekkert úr neinu boði hér. Það var bara fínt að vera bara fjölskyldan heima. Krakkarnir voru upptekin af að leika með allt nýja dótið og svona. Í dag komu svo húsjálpirnar aftur til vinnu.

Svo fer að líða að brúðkaupinu. Ragnhild og Temesgen gifta sig núna á laugardag og húsið okkar verður hálfgerð miðstöð, allavega um morguninn og á ég von á talsvert af fólki. Fjölskyldan hennar kemur til með að bíða hér og brúðarmeyjarnar og svo kemur hann og sækir hana hingað til kirkju samkvækt eþíópskum sið. Það verður því líklega mikið dansað og sungið hér í garðinum á laugardagsmorgun.

Ætli ég segi þetta ekki gott í bili. ég vil nota tækifærið og þakka fyrir allar góðar gjafir og kveðjur sem okkur hafa borist. Það er ekki bara auðvelt, finnst mér allavega, að halda hátíð eins og jólin svona langt í burtu frá fjölskyldunni og heimahögum svo allar kveðjur og hlýhugur að heiman iljar manni um hjartarætur.

Ég bið Guð að gefa ykkur gleðileg áramót og blessa ykkur komandi ár.

 


Aðfangadagur jóla er einmitt í dag...

Jæja það fór þá svo að ég skrifaði aftur áður en jólin ganga í garð.  Nú er allt tilbúið, hangikjötið soðið og allir pakkarnir komnir undir tré og þetta er enginn smá hellingur get ég sagt ykkur! Við erum með gamalt gervijólatré sem við erfðum frá Ragga og Kíu sem þau erfðu frá kristniboðahjónum (Dag Ottar og Silju) sem fóru heim í hitteðfyrra sem þau svo aftur erfðu frá foreldrum Silju. Það má helst ekki anda á það því þá hrynja af því greinarnaren þetta er bara í góðu lagi. Þegar ljósin og skrautið var komið á ber ekki á neinu. Það er dáldið erfitt fyrir lítinn hnoðraling að láta jólaskrautið í friði, hann er algjör fiktari. Ég man ekki að systkini hans hafi verið svona voðalega mikið að fikta. Kanski er hann bara svona ólíkur þeim, kanski er ég bara ´búin að gleyma! Þau voru orðin dáldið spennt í gær systkinin. Við fórum í gærmorgun þ.e. ég Jóel og Margrét Helga, á norska skólann að æfa  í síðasta skipti fyrir guðsþjónustuna sem verður kl. 4 í dag. Eftir það fórum við svo að kaupa síðustu jólagjafirnar. Þau fengu að velja gjafir handa hvort öðru og litla bróður sínum og svo keyptum við saman gjöf handa pabba. Það er ekki alveg það auðveldasta að mega ekki segja neitt en þau hafa staðið sig vel. Ágætt að gera þetta í gær því þá þurfa þau ekki að þegja svo voðalega lengi!

Ég var að lesa á mbl.is að væri ekki beint jólaveður heima á Íslandi, a.m.k. ekki í Reykjavík. Það er þá kansi bara jólalegra hér í sólinni og hitanum. allvega er þetta voða þægilegt. Ég gerði reyndar misheppnaða tilraun til  að kaupa snjósprey í gær. Kristján hafði komið auga á þetta í einni búð og datt í hug að það gæti verið gaman að skreyta gluggana með þessu. Við héldum sem sagt að þetta væri svona sprey sem maður getur spreyjað á gluggana og notað skapalón til að búa til stjörnur og svoleiðis. En nei, það hefði alveg eins mátt setja fullt af sápu í fötu og búa til froðu og skvetta á gluggana. Það var líka svo megn sápulykt af þessu að það eyðilagði næstum hangikjötslyktina.- það er ekki á allt kosið!

Annars er planið að borða góðan morgunverð, svo verður möndlugrautur í hádeginu. Í eftirmiðdaginn er svo guðsþjónustan á norska skólanum þar sem ég er er að spila og leiða barnakórinn sem Margrét Helga og Jóel syngja í. Svo ætlum við að borða hangikjöt, sem á síðan eflaust eftir að endast okkur alla jóladagana eins og í fyrra. Ég fékk reyndar ekkert rauðkál í ár og það voru bara til 3 stk. 250ml maltflöskur í bænum en það verður bara að duga eins og ég sagði, það er ekki á allt kosið! við höldum svo í hefðir að heiman eins og að syngja saman jólasálma áður en við opnum pakkana. Svo er ég auðvitað búin að búa til til ís sem verður spennandi að sjá hvernig bragðast. Ég á svo erfitt með að venjast bragðinu af rjómanum hérna að ég gerði mitt besta til að kæfa rjómabragðið með mismunandi tegundum af súkkulaði og vanilludropum, sjáum hvað setur. Svo er búið að baka nokkrar sortir af smákökum. Það er eitthvað eftir ennþá þótt ein sortin hafi klárast alveg áður en aðventan var liðin. Litlu mömmusarnir mínir (bræðurnir á bænum) eru hrifnastir af mömmukökunum á meðan faðirinn vill helst súkkulaðibita og hnetukökur eða hnetusmjörskökur. Við mæðgurnar borðum þetta allt saman. Lofkökurnar misheppnuðust reyndar herfilega. Þær bragðast alveg eins og þær eiga að gera (þökk sé hjartarsaltinu sem mamma og pabbi sendu í pósti) en þær fóru alveg í klessu. Verða fínar með ísnum (þ.e. ef það er í lagi með hann þá!)

Við s.s. verðum bara ein hér fjölskyldan eins og í fyrra, sem var reyndar mjög notalegt. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég sakna eiginlega ennþá meira fjölskyldunnar núna en í fyrra. Þá vorum við líka eiginlega bara nýkomin hingað. En allt hefur sinn tíma. Það er þroskandi og margt gott við að halda jólin hér. Við erum síðan reyndar að spá í að hafa opið hús, eða opinn garð á annan í jólum. Bjóða þeim sem eru hér í Addis af kristniboðum að koma í smá jólaboð þar sem allir leggja til eitthvað matarkyns og það er hægt að hafa garðveislu hér! Flestir reyndar fara til Awasa á milli jóla og nýjárs en einhverjir verðar þó hér. Við verðum hér vegna brúðkaupsins hennar Ragnhild sem er 30. des. Svo erum við reyndar að spá í að leggja upp í ferð til Ómó Rate eftir áramót en það er undir því komið að við fáum annan bíl og að gert verði við brúnna yfir Voitó ánna. Hún er ss. í lamasessi og óökufært af þeim sökum alla leið suðureftir.Við sjáum hvað setur.

Jæja ætli ég segi þetta ekki gott í bili. Ungarnir fara að vakna, aldrei þessu vant vaknaði ég á undan þeim! Ætli það sé ekki bara jólaspenningurinn í manni! Ég ætla að fara að hita ostabollur og skinkuhorn og búa til kakó.

Kveð ykkur að sinni og óska ykkur gleðilegrar jólahátíðar í Jesú nafni með orðum Jesaja spámanns.

"Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað, Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi"


Brói litli

18. desBara tæp vika til jóla. Þetta líður hratt. Á laugardaginn bættist við fjölskylduna lítill kanínuungi sem gengur undir nafninu Brói. Við vitum samt ekki enn hvort það er karl eða kerling en svo mikið vitum við að hann er þrífættur greyið. Við tókum reyndar ekki eftir því fyrr en við vorum búin að hafa hann í nokkra tíma. Hann virðist samt spjara sig ágætlega og krakkarnir eru voða ánægð með hann. Við verðum að minna þau á að gefa honum að borða og svoleiðis. Þau vilja helst taka hann með hvert sem þau fara en það gengur nú ekki. Jóel vildi leyfa honum að horfa á sjónvarpið en kom svo og kvartaði undan því að hann vildi ekkert horfa, hann væri bara að gera eitthvað annað! Enn sem komið er er hann inni. Kanínur eiga víst að vera góð innigæludæyr en þær skíta hrikalega mikið og éta heil ósköp þegar þær stækka. Við erum með eina fullorðna sem er í búri úti í garði, hún fylgdi með húsinu og er ekki mikið fyrir að láta klappa sér og svoleiðis. Þess vegna ákváðum við að leyfa krökkunum á fá eina sem þau gætu hugsað um frá byrjun. Hann fær ss. að vera inni núna en svo hugsa ég að hann flytji allavega út á verönd þegar hann stækkar. Veðráttan hér leyfir a.m.k að hafa þær úti án vandræða.Í gær voru krakkarnir að syngja í kirkjunni og ég reyndar líka. Sunnudagaskólinn í kirkjunni sá um guðsþjónustuna og barnakórinn á norska skólanum söng sem hluti af prógramminu og einni skandinavíski jólakórinn. Ég var alveg búin aftir þetta því ég var bæði að spila heilmikið og syngja og stjórna barnakórnum. Í dag var svo síðasti tíminn á seminarinu fyrir jólin þaðeru svo tónleikar á föstudaginn þar sem kórinn á að syngja. Það verður gott að komast í frí þó það sé samt alltaf gaman að stússast fyrir jólin. Ég ætla síðan að minnka mikið við mig vinnu eftir jól. Á föstudaginn bökuðum við þetta líka fína piparkökuhús. Þetta er í fyrsta skipti sem húsið er ekki rammskakkt hjá mér svo ég var ægilega ánægð en einhverra hluta vegna þá varð húsið voðalega mjúkt svo það endaði með því að það hrundi. Það er nú ekki beint rakt núna svo ég veit ekki alveg hversvagna þetta gerðist. Venjulega þornar það við að standa. Krakkarnir voru nú ekkert ósátt við að fá að borða það strax en það hefí nú verið skemmtilegra hefði það staðið fram yfir jól. En svo er nú það, ekki er á allt kosið. Það er nú kominn smá jólaspenningur í litla fólkið, aðallega held ég það sé í tengslum við að jólapakkarnir eru að berast í hús. Allavega eru það ekki jólaljós í búðargluggum, jólasveinar, jólaverslun eða jólaauglýsingar í sjónvarpinu sem valda því. Annars eru þau nújna svo upptekin af dýrunum sínum að þau spá lítið í hvenær jólin eru. Jóel spurði reyndar í gær hve margir dagar væru þar til “jólar”! Hann er allur í að telja og leggja saman. Hann hefur þann áhuga ekki frá móður sinni, það er alveg á hreinu! Dagbjartur Elí er alltaf að reyna að siða til systkini sín og kallar á þau ef þau eru með einhver læti:”Tiggolóel,hættusu, skilið! (Margrét Helga og Jóel, hættið þessu, skilið!) Margrét Helga er farin að lesa dáldið núna en hún lærir orðin sem myndir, hún nennir ekki að standa í að hljóða. Það kemur kanski seinna og ég reyni að kenna henni það líka en enn sem komið gengur henni nokkuð vel að lesa. Hún les bæði í “við lesum” og svo litla bækur sem notaðar eru held ég í sérkennslu heima en eru mjög góðar til lestrarkennslu finnst mér, þar sem ákveðnir stafir eru þjálfaðir. Þetta kemur allt. Ég hef ekkert verið að pressa Jóel í lestrinum enda er hann ekki nema fjögurra ára og hefur nógan tíma.Ef ég næ ekki að skrifa aftur fyrir jól þá bið ég Guð að gefa ykkur gleðilega jólahátíð!  

7.-10.des

7. des    Ég er farin að vera eins og köttur, vil helst bara sofa og borða! Barnið er allavega að vaxa því maginn stækkar og svo virðist mér sem þetta sé algjör orkubolti, þvílík spörk og læti nánast allan sólarhringinn!Það mætti halda að regntíminn væri byrjaður aftur, eða bara hefði aldrei almennilega klárast. Nú á samkvæmt öllu að vera þurrt og allaveg asmá sól öðru hverju en það bara rignir hressilega á nánast hverjum degi og annars er bara skíjað og rakt og kalt. Kía var meira að segja að segja mér að það er búið að vera óvenjukalt í Omó Rate vegni óvenjulegra rigninga þar líka. Svona er þetta. Það mætti halda að maður byggi í Bergen en ekki
Addis Abeba.
Systkinin elstu eru farin að æfa karate. Það kemur kennari tvisvar í viku hingað heim og kennir þeim úti í garði. Sérstaklega Jóel finnst þetta alveg æðislegt. Systir hans er stundum pínu löt og heldur ekki alveg út í fjörtíu mínútur en það kemur allt. Henni finnst þetta líka gaman. Kennarinn er einn af þjálfurunum í sportprosjektinu sem Kristján stjórnar. Hann er með svarta beltið í karate, mjög klár og það er gaman að fylgjast með honum kenna krökkunum. Hnoðralingurinn stendur bara og fylgist með, er aðeins og lítill fyrir þetta ennþá!------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- 10.desInga frænka á Akureyri (Ingileif Jóhannesdóttir), systir hennar ömmu lést á föstudagsmorgun. Inga frænka var mikil kristniboðs og bænakona. Ég þakka Guði fyrir líf hennar og trúfastar bænir fyrir okkur og kristniboðinu.------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------ Ég er voða löt eitthvað í dag. Var bara heima með Margréti Helgu og Jóel en Kristján fór með Dagbjart Elí í kirkju.Á föstudaginn voru jólatónleikar og Lúsíukvöld í norska skólanum og gekk bara mjög vel. Margrét Helga og Jóel sungu með barnakórnum eftir að tónleikarnir höfðu hafist á því að leikskólabörnin gengu inn með luktir í englabúningum, eins og í fyrra. Þetta er ekkert smá sætt. Eftir tónleikana fór ég með skólakrakkana ásamt fleiri kennurum á sænska sendiráðið þar sem þau sungu Lúsíuprógrammið. Við konurnar sungum líka tvö jóaloög þar. Þetta heppnaðist allt mjög vel. Í gær komu svo Kía og krakkarnir hennar og við bökuðum saman piparkökur. Krakkarnir höfðu heldur meira úthald í ár en í fyrra, enda ári eldri en það sem koma mest á óvart var minnsti bakaradrengurinn sem sat lengst og undi sér alsæll með sama deigklumpinn allan tímann sem var orðinn vel útskorinn. Þetta var nú einhver sá krúttlegasti piparkökubakstur sem ég hef séð. Honum finnst líka svo mikið sport að vera með svuntu svo nú er ég farin að setja á hann svuntu þegar hann borðar því hann hefur alltaf neitað að vera með smekk.Það er ótrúlegt að það skuli bara vera tvær vikur til jóla, tíminn líður hratt. Það er líka mikið að gerast fram að jólum svo okkur leiðist nú ekki. Það verður samt gott að komast í jólafrí. Ég ætla að minnka mikið við mig vinnu eftir áramót, verð ekkert að kenna á norska skólanum en verð með barnakórinn svo lengi sem ég treysti mér til og svo geri ég ráð fyrir að ég þurfi að vera á seminarinu fram að fæðingu. Ég sagði þeima að þeir gætu ekki gert ráð fyrir mér lengur en út febrúar. Vona að þeir fari að leita að öðrum kennara. Það er ekki beint skipulaginu fyrir að fara á þeim bæ!--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- Ef þið hafið áhuga þá verður viðtal við mig á Lindinni fimmtudagskvöldið 14. des kl. 20:50 að íslenskum tíma. Siggi Bjarni ætlar að hringja í mig og spjalla um jólahaldið hér. ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- Annars óska ég ykkur áfram góðrar og blessunarríkrar aðventu. 

Myndir

Bara að láta vita að það eru komnar nýjar myndir þ.e. myndir frá ágúst og fram í nóv.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband