Aðventa

26. nóv Þá erum við komin heim frá Awasa. Það var alveg frábært að komast út úr bænum í smá tíma. Við höfðum staðinn út af fyrir okkur og gátum alveg notið þess að slaka á. Það er líka viss afslöppun í að tala nánast bara íslensku í fjóra daga. Á leiðinni suðureftir þá sprakk á bílnum sem er nú kanski ekki ífrásögu færandi nema hað dekkin eru orðin hræðilega léleg svo þetta fer að verða nokkuð algengt. Við sem búum í Addis nýtum upp restarnar af dekkjum sem ekki lengur duga úti á landi. En allvega þá stoppuðum við til að skipta um dekk, dekkið var alveg hvellsprungið og handónýtt. Eins og venjulega þegar maður stoppar og þá sérstaklega þegar komið er út fyrir Addis, flykkjast að áhorfendur úr öllum áttum. Einn maðurinn í hópnum kunni amharísku en annars virtist fólkið tala aðallega órómómálið sem er allt annað tungumál. Hann var heilmikið að spyrja mig og næstum óþarflega forvitinn fannst mér en það fyndnasta var að þeir voru heillengi að býsnast yfir og furða sig á því að börnin okkar kynnu ekki ensku (hann kunni einhverja pínu litla ensku sjálfur) og eins á að enska skyldi ekki vera móðurmálið okkar þar sem við vorum nú hvít! Ég reyndi að útskýra að við værum frá landi sem héti Ísland og þar væri bara talað allt annað tungumál en að börnin töluðu reyndar amharísku að auki. Hann spurði þá hvort íslenska væri svona eins og enska en ég sagði að svo væri nú ekki, það væri allt annað tungumál. Þetta fannst þeim voða furðulegt. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem fólk verður hvumsa yfir því að börnin okkar skuli ekki tala ensku. Nær undantekningalaust í búðum og úti á götu reynir fólk að tala við þau á ensku sem þau kunna nú ekki meira en nokkur orð í. Svo verður það mjög hissa þegar ég segi;” en þau skilja og tala amharísku”. Þeim finnst nær óhugsandi að hvít börn skuli geta tjáð sig á þeirra máli. Reyndar er það svo hér í Addis að flest börn útlendinga ganga í alþjóðlega skóla þar sem kennt er á ensku og fæst þeirra kunna mikla amharísku þannig að þetta eru kanski ekkert undarleg viðbrögð. Ég held líka að okkar krakkar kunni óvenju mikla amharísku miðað við flest börn útlendiga sem búa í Addis og það er fyrst og fremst barnapíunni okkar henni Asnakú að þakka. Hún er mjög dugleg að tala við þau og beinlínis kenna þeim málið. Endurtekur þegar þau segir vitlaust og og ég hef heyrt hana útskýra fyrir þeim hvernig maður talar í karlkyni og kvenkyni osfrv. Það er auðvitað bara frábært. Svo eru þau eins og er mest í amharísku og íslensku málumhverfi á daginn þar sem þau fara ekki nema einu sinni í viku í leikskólann. 4. des.-06Ætlli maður reyni þá ekki að halda áfram. Þá er bara aðventan byrjuð. Ótrúlega líður tíminn hratt. Það var nóg að gera hjá mér um helgina og ég var alveg uppgefin þar sem krakkarnir sváfu heldur ekkert allt of vel. Á laugardaginn heimsótti ég tvo barnakóra. Annar kórinn erí kirkju sem er hér rétt hjá og sá sem stjórnar honum vinnur á prantstofunni hér á Seminarinu. Hann hefur sjálfur enga tónlistarmenntum svo ég hef verið að hálpa honum með því að spila inn fyrir hann raddir og söngva á kassettu. Þau voru voða æst og  spennt krakkarni þegar við komum, alltaf spennandi að fá útlendinga í heimsókn. Margrét Helga og Jóel komu með mér. Þau voru fyrst voða feimin efóru svo smátt og smátt að tala við krakkana. Stelpurnar voru ekki lengi að taka Margréti Helgu að sér en strákarnir voru dáldið aðgangsharðir við Jóel og klipu hann í handleggina og toguðu í hárið á honum. Hann sagði samt að sér hefði fundist gaman þótt hann hefði nú grátið undan móttökunum!. Eftir hádegi heimsótti ég svo barnakór sem ein af nemendum mínum stjórnar í Kalihiwot kirkjunni. Það var bara alveg stórkostleg upplifun. Þetta var bara einhver besti barankór sem ég hef heyrt í. Þau sungu svo vel og frá hjartanu og það var svo greinilegt að söngurinn var fylltur heilögum anda. Ég sat bara með gæsahúð og tárin í augunum. Ég held ég hafi aldrei heyrt börn á aldrinum 10- 15 ára syngja af jafnmikilli sannfæringu um frelsara sinn. Ég vildi bara að ég hefði verið með myndbandstökuvélina. Hún ætlar að láta mig vita þegar þau hafa tónleika. Þá kanski fæ ég að taka þau upp. Þau stefna á að gefa út geisladisk svo þið megið gjarnan biðja fyrir því verkefni þeirra. Það var allaveg alveg stórkostleg blessun fyrir mig að hlusta á þau. Í gær spilaði ég í messu og kórinn allru söng í fyrsta skipti. Það gekk bara mjög vel þrátt fyrir að báðir tenórarnir væru fjarstaddir og við værum með “lánstenór” og annar af bössunum væri veikur af malaríu. Hann mætti samt og þetta gekk allt vel. Við fengum allavega mikið hrós. Þá er sá kór kominn í jólafrí en það er en hellingsvinna eftir hjá mér fyrir jól. Kórinn á seminarinu á að syngja á tónleikum 22. des. Og ég er að rembast við að berja inn í þau raddir, getur stundum tekið á! Barnakórinn er með heilmikið prógram, tónleikar í skólanum og syngja í Sænska sendiráðinu nk. Föstudag, syngja í ILC 17. des og svo sjáum við um jólaguðsþjónustuna á aðfangadag. Svo er ég líka með jólakór, nokkrar kristniboðskonur sem hittumst einu sinni í viku til að syngja jólalög. Við eigum líka að sygja á nokkrum stöðum fram að jólum. En kl.6 á aðfangadag ætti ég að vera komin í frí. Ég finn að ég er farin að þreytast og verð að passa mig að reyna að hvíla mig á daginn. Þið megið gjarnan muna eftir öllu þessu í bænum ykkar. Við erum líka farin að undirbúa jólin aðeins. Það er lítið utanaðkomandi áreiti hér. Þá a´ég við það eru eingar skreytingar á götunum eða í búðum, nema kanski einstaka útlenskum súpermörkuðum. Engar jólagjafaauglýsingar eða þh. Að mörgu leiti finnst mér það gera það að verkum að sjálft innihald jólanna skilar sér betur til barnanna og okkar líka. Við kveiktum auðvitað á aðventukransinum í gær og tókum Maríu og engilinn út úr fjárhúsinu. Svo er ég að reyna að kenna börnunum að syngja íslensk jólalög og jólasálma. Þeim finnst gaman að syngja svo það er í rauninni lítið mál. Við erum búin að baka eina smákökusort saman og svo ætlum við að baka piparkökur með Kíu og krökkunum þegar þau koma. Þau fengu sendar nýjar svuntur frá ömmu og afa og voru frekar krúttleg með þær, sérstaklega minnsti maðurinn sem fannst þetta alveg æðislegt. Svuntan er líka skósíða á honum en það gerir ekkert til. Svo dundar maður séra bara við að baka aðeins og föndra fram að jólum. Í gær eftir messu fórum við á árlegan jólabasar þýsku kirkjunnar. Þar var hægt að fá keyptar þýskar pylsur grillaðar, fleira góðgæti og ýmsan varning. Fyrir utan jólaskreytingarnar sem voru til sölu minnti þetta eiginlga meira á sumarfestival, þó svo það rigndi talsvert í gær. Það var heitt og ekki beint jólaveður eins og maður á að venjast en þetta var mjög gaman. Svo fórum við heim og fengum okkur heitt kakó og smákökur og svo komu Ragnhild og Temesgen í mat í gærkvöldi. Það fer nú að styttast í brúðkaupið þeirra og gestirnir óðum að streyma frá Noregi svo við vorum glöð að þau gátu komið í smá heimsókn áður en allt skellur á. Þau flytja svo til Jinka eftir áramót. Vonandi að við getum einhverntíma heimsótt þau þangað. Að lokum við ég óska Guðrúnu Laufeyju vinkonu minni og Þóri sambýslimanni hennar til hamingju með Benedikt sem fæddist 17. nóv. Þau gengu í gegnum miklar hrakningar en allt er á góðri leið samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Guð blessi ykkur aðventuna! Gullkorn: Jóel að syngja borðsálminn “Öll góð og öll fullkomin”:“Öll góð og öll fullkomin gjöf er frá mér (á að vera þér)Þú gjafarinn eilífi fyrir mér sérð Ég meðtek sem ástgjöf hvern einasta völl (á að vera verð)Með auðmýkt og hjarta míns þakklætisgerð. Eitt kvöldið voru dálítil læti í þeim tveimur elstu en þegar ég sagði:”Jæja nú skulum við biðja bænirnar” Var minnsti maðurinn ekki lengi að spenna greipar og lúta höfði og svo bað hann fyrir allri fjölskyldunni: blessa Lóel (Jóel), blessa Gagga (Margrét Helga), blessa mamma,blessa pabba, Amen.”Þetta var bara alveg ótrúlega fallegt.  

Gullkorn

Gleymdi tveimur gullkornum sem ég ætlaði að hafa með síðustu færslu:

Margrét Helga: "Mamma, amma Lína er kindamamma þín" (kindamamma= tengdamamma)

 Jóel: "Ég ætla að geyma þetta þangað til það jólar" (hann notar þetta orðasamband mjög mikið um þessar mundir og geri ég ráð fyrir að hann eigi við að hann ætli að geyma hlutina til jóla)


Helga "móða"

17. nóv. 06Þá er ég líka orðin móðursystir! Agla Marta og Maggi eignuðust Ernu Lilju í gærdag. Það var búið að ákveða að Agla Marta færi í keisara 30. nóv en svo voru eitthvað litlar hreyfingar í gær, sú litla hafði flækt sig í naflastrengnum svo ákveðið var að gera keisara í gær. Hún er, miðað við mína hlunka allvega, bara lítil písl, 11 merkur og 50 cm. Við erum spennt að sjá myndir.  Allavega innilega til hamingju með litlu prinsessuna kæra systir og mágur. Nafnið kom mér reyndar ekki á óvart, ég var bara svo viss um að þetta væri strákur! Erna er seinna nafn mömmu og mamma hans Magga heitir Lilja.Annars er bara allt fínt af okkur að frétta. Síðustu helgi fór ég ásamt hinum Addis- kristniboðakonunum til bæjar sem heitir Debrezeit á svokallað reatreat. Við gistum á frístað SIM kristniboðsins. Þetta var alveg frábær ferð. Staðurinn er við vatn svo við gátum legið í sólbaði og kælt okkur í vatninu. Á laugardagskvöldið höfðum við lofgörðar og vitnisburðarstund og á sunnudagsmorguninn höfðum við svo aftur samveru þar sem við meðal annars tókum góðan tíma í að biðja saman og hvor fyrir annari. Þetta var mjög uppbyggilegt auk þess sem það hristi hópinn vel saman. Karlarnir fara svo þessa helgi í útilegu og fjallgöngu.Sl. miðvikudag fengum við óvænta og ánægjulega heimsókn. Sr. Berharður Guðmundsson bankaði upp á hjá okkur en hann er hér í vinnuferð. Hann starfar með kristilegri fjölmiðlun sem er hér á næstu lóð og býr á finnska gestahúsinu hér. Hann kom færandi hendi með sælgæti og dagblöð frá ´Íslandi. Hann var svo með okkur á bænastund á fimmtud og borðaði með okkur í gær (föstud) Alltaf gaman að fá gesti frá Íslandi. Hann verður hér viku í viðbót svo við eigum eftir að hitta hann áður en hann fer. Við höfum reyndar hugsað okkur að fara til Awasa næsta miðvikudag og vera fram á sunnudag. Það er bara nauðsynlegt að komast af og til burt frá borginni og Awasa er bara frábær staður til að vera á með krakkana.Jóel er búinn að ná sér af sýkingunum, er reyndar enn að taka lyfin en þau virðast virka vel. Dagbjartur Elí er reyndar orðinn stútfullur af kvefi aftur en það er kanski ekki skrýtið því nú er farið að verða svo kalt á nóttunni allt að 20- 25° munur á nóttu og degi. Þá er það bara að láta hann sofa í flísgalla og sokkabuxum. Þetta er bara eins og í tjaldi! Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili.   

Afsakið laaaaaangt hlé!

31. okt Komið að októberlokum og regtíminn á að vera búinn en skyndilega hætti hann við að hætta svo það hefur rignt eldi og brennisteini nánast alla helgina. Frekar pirrandi. Ég var búin að pakka niður öllum stígvélum og pollagöllum því ég gerði ekkert ráð fyrir meiri rigningu en svona er víst alltaf eitthvað að breytast veðráttan í heminum. Þetta er verst fyrir bændurna hér, sérstaklega þá sem rækta “teff” sem er aðalkorntegundin sem notuð er í “indjera” sem er meginuppistaðan í fæðu fólks hér. Núna þurfa þeir vindinn og þurrkinn sem venjulega er á þessum árstíma því annars er uppskeran í hættu. Það hefur reyndar ekkert rignt í dag en það er voða dumbungslegt. Í gærmorgun þegar við vöknuðum var sól svo við ákváðum að taka áhættuna og fara á Sheraton hótelið í sund. Mamma og pabbi gáfu okkur pening í sumar til að fara en þá var bara aldrei nógu góður dagur. Í gær var frí á seminarinu svo við ákváðum að skella okkur. Við vorum bara nokkuð heppin með veður en vindurinn var kaldur og það getur verið blekkjandi í sólinni. Kristján og Jóel brunnu dáldið þrátt fyrir að við hefðum notað vel af sólavörn. En þetta var allvega voða gaman og krakkarnir skemmtu sér konunglega. 9. nóv.-06 Jæja, nú er nóg komið að leti. Ég hef bara ekki nennt að skrifa í langan tíma en nú skal ég reyna að bæta úr því. Við erum öll nokkuð hress nema hvað Jóel greyið hefur verið plagaður af sýkingum. Fyrst fékk hann sár á rassinn sem síðan blés út og síðan síðasta sunnudag hef ég borið á hann bakteríudrepandi kvölds og morgna. Hann hefur verið með umbúðir því það vessar svo úr þessu. Þetta er samt allt á góðri leið og að jafna sig. Honum finnst bara verst þegar taka þarf umbúðirnar af því það er svo sárt. Þetta er líka á dáldið stóru svæði og á viðkvæmum stað. Heilsugæsluhjúkrunarfræðingur kristniboðsins hefur verið að fylgjast með þessu líka og það var hún sem lét mig fá smyrsl og umbúðir. En svo tók nú reyndar ekki betra við. Fyrir tveimur dögum fór hann að kvarta um verk í annarri stóru tánni, vildi hafa plástur á henni en ég sá ekkert sár eða neitt svo ég hélt þetta væri ekki neitt. Í gær fór svo táin að bólgna og í dag var komin stór blaðra og táin og hluti af fætinum rauður og stokkbólgin. Hann kemst ekki í skó og á erfitt með að ganga. Við sögðum við hann í gærkvöld að við yrðum að tala við Bjarte sem er norskur læknir og biðja hann að skoða tánna. Honum leist ekkert á það. Var eitthvað smeykur greyið. Hann vildi endilega fá að fara með pabba sínum að versla í morgun og svo þegar hann kom heim sagði hann að þeir hefðu hitt Bjarte í Bambis, sem er búðin og hann hefði skoðað tánna og nú væri allt í lagi! Ég vissi nú að það gat ekki verið því Bjarte er í málaskólanum á morgnana. Þetta var því bara tilraun til að losna við að fara til læknisins. Kristján sagði mér síðan að hann hefði verið að reyna að fá sig á leiðinni heim til að fresta þessari læknisheimsókn eitthvað. En í dag tókst mér svo að fá hann með mér til Bjarte. Hann var nú ekkert á því til að byrja með en svo fékk hann blöðru og varð sáttari. Þetta virðist vera einhver sýking, gæti tengst hinni sýkingunni en nú er hann kominn á sýklalyf svo vonandi fer þetta að lagast. Ég er bara hress. Fer ennþá í leikfimi á þriðjudagskvöldum með kristniboðakonunum en get nú ekki gert alveg allar æfingarnar. Svo er ég með meðgönguleikfimi á myndbandi sem ég reyni að gera reglulega. Ég finn samat að ég er farin að þreytast meira en áður. Húshjálpin mín skilur ekkert í því að ég skuli vera að sprikla svona á meðgöngunni og var alveg viss um að þetta væri stórhættulegt fyrir barnið. Ég held mér hafi tekist að sannfæra hana um að það þetta sé í fínu lagi og bara betra fyrir barnið. Það tíðkast ekki að ófrískar konur séu stunda í þróttir hér. Mér finnst stundum eins og það sé nánast litið á þær sem sjúklinga. Eftir fæðingu eiga þær líka að liggja fyrir í amk. Mánuð og ekki að ljáta sjá sig utan húss. Þær fá að fara á salerni kvölds og morgna en eiga annars að liggja og borða, næringarríkan, þ.e.a.s. feitan mat. Margar fitna því mikið á meðgöngu og eftir fæðingu. Þetta er kanski dálítið eins og það var áður fyrr í hinum vestræna heimi. Svona er menningin ólík en það er nú spurning hversu hollt þetta er fyrir konuna. Reyndar er þetta stundum ein fríið sem þessar konur fá og hér er fæðingrorlof aðeins þrír mánuðir. Margar hefja fæðingarorlofið mánuði fyrir fæðingu og eiga svo tvo mánuði eftir að barnið er fætt. Eftir það þurfa þær sem eru útivinnandi (sem á við um orðið flestar yngri konur hér í Addis) að fara að vinna og annað hvort ættingjar eða vinnufólk sjá um barnið á meðan. En nóg um það. Annars er ég stundum að verða vitlaus því mig langar svo í saltlakkrís en það er nokkuð sem ekki fæst hér frekar en nokkur lakkrís yfir höfuð! Það var betra meðan appelsínu og sítrónuæðið gekk yfir því það er nokkuð sem auðvelt er að ná í hér!Dagjartur Elí verður bara meira og meira krútt með hverjum deginum þótt ég segi sjálf frá. Hann talar orðið í heilum setningum bæði á amharísku og íslensku svo er hann ótrúlega fljótur að pikka upp orð og setningar á norsku líka þótt hann skili ekki mikla norsku að öðru leiti. Hann er sko alveg með á hreinu hver á að tala íslensku og hverjir amharísku. Honum finnst alveg fáránlegt þegar við segjum eitthvað við hann á amharísku. Raggi reyndi líka einhverntíma að segja eitthvað við hann en honum fannst það nú bara út í hött því hann vissi alveg að hann kann íslensku! Hann fer bara að skelli hlæja! Ragnhild má hinsvegar alveg tala við hann amharísku því hún kann ekki íslensku og hann skilur ekki alveg allt sem hún segir á norsku! Hann er algjör bókaormur og er lesandi allan daginn. Hann þykist líka kunna stafina og þegar Margrét Helga og Jóel eru að lesa eða skrifa eða leika með segulstafina sína tekur hann einn og einna staf eða bendir og segir: “ess” eða “A” osfrv. Hann er alveg hrikalega ákveðinn og getur tekið sig til og lamið bróður sinn eða bitið þegar hann fær ekki það sem hann vill. Jóel virðist vera auðveldari bráð en systir hans. Þau eru álíka hörð í horn að taka bæði tvö meðan Jóel er aðeins mýkri allur. Margrét Helga er núna farin að lesa aðeins en hún lærir með því að læra orðin utan að eins og myndir. Það virðist liggja betur fyrir henni en að læra eftir hljóðaaðferðinni svo ég reyni þá bara að fara meira þá leið þótt ég reyni líka að kenna henni að tengja saman hljóðin. Henni finnst skemmtilegast að lesa blaðsíðurnar í lestrarbókinni sem hún kann utanað en er ekki alveg eins til í að reyna á sig að lesa eitthvað nýtt. En þetta kemur allt saman. Jóel finnst gaman að læra stafina og skrifa þá en ég er ekkert að ýta á eftir honum við lesturinn . Það er nógur tími ennþá. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur Kristjáni í kennslu. Ég er byrjuð á jólaundirbúningi í skólanum nú þegar því það er svo mikið um að vera. Áttunda des verða jóltónleikar þar sem nemendurinir verða með alls konar atriði. Ég ætla að láta tónmennta hópana flytja tvö jólalög. 1-4. bekkur syngur og 5. bekkkur leikur undir. Það þarf að æfa vel svo ekki seinna en vænna að byrja. Það kvöld verður líka Luciatåg að sænskum sið þar sem sænski skólinn tekur líka þátt. Krakkarnir þurfa að kunna allt utanað fyrir það og svo eiga þau seinna um kvöldið að syngja í sænska sendiráðinu. Barnakórinn syngur líka á tónleikunum. Svo er barnakórinn byrjaður að undirbúa aðfangadagskvöld því þau koma til með að vera í aðalhlutverki í guðsþjónustunni sem við verðum með þá. Ég ákvað að nota hugmyndina úr Hallgrímskirkju og við ætlum að nota textann út tölvubiblíu barnanna ( á norsku að sjálfsögðu) svo leika þau og syngja auk þess sem söfnuðurinn tekur að hluta til þátt í söngnum. Þau þurfa að læra svo mörgt lög utan að að við ákváðum að byrja í síðustu viku þannig að það er bara jólastemning. Það gengur líka bara vel á seminarinu nema hvað á mánudaginn mætti ég til vinnu en nemendurnir, allir nema þrír af 45 neituðu að mæta í tíma. Þau sátu bara fyrir utan og sögðust vera í verkfalli. Ástæðana er sú að ákveðið var að loka tónlistarhúsinu kl. 11 á kvöldin af ýmsum ástæðum. Þau vilja hinsvegar að það sé opið á nóttunni. Mér skildist nú samt að yfirmanni deildarinnar að það væri búið að ræða við nemendurna og komast að samkomulagi þannig að vonandi mæta þau í tíma á mánudaginn. Þau eru búin að missa þrjár kóræfingar í röð því hinir tveir mánudagarnir hafa verið frídagar. Það gegnur líka vel með kórinn í kirkjunni. Þetta er lítill hópur en góðir söngvarar svo það er bara gaman. Ég er svo búin að safna saman konum í skandinavískan kvennajólakór til að syngja á kristniboðssamkomu og á jólatónleikunum í skólanum. Þær ætla að koma á mánudaginn og við ætlum að æfa norræn eða allvega jólalög á skandinavískum tungum. Þannig að ég sit ekki auðum höndum. Svo eru allskyns nefndarfundir og hitt og þetta í gangi. Ég lenti í undirbúningsnefnd fyrir kristniboðaráðstefnuna í febrúar og höfum við verið að leggja drög að prógrammi og nefndum. Svo er ég í nefnd fyrir málaskólaíbúðirnar svo það er alltaf eitthvað. Kristján hefur líka nóg á sinni könnu. Hann komst að því að nokkrir nemenda hans hafa verið að svindla á prófum hjá honum og það tók á að takast á við það. Ekki skemmtilegt. Það fer líka ennþá mikil orka hjá honum í að útskýra allt því enskukunnátta nemendanna er svo takmörkuð. Þannig er þetta hér þrátt fyrir að öll kennsla í öllum skólum frá og með 5. bekk grunnskóla fari fram á ensku. Þið getið ímyndað ykkur hversu margir ná að læra eitthvað að viti. Fantanesh húshjálpin okkar sagði mér að hún hefði bara hætt í skólanum á sínum tíma þegar allt fór að vera á ensku því hún skildi ekki neitt!  En ég má ekki gleyma aðalfréttinni. Ég er búin að fá píanó!!! Þvílíkur munur. Það bara er mikill sálarléttir að hafa loksins hljóðfæri heima eftir tvö ár án þess. Það er orðin dáldið löng saga á bak við þetta píanó og ekki allir hlutar hennar jafnskemmtilegir. Þannig var að Kristján minn fékk þá hugmynd að gefa mér píanó (stage piano) í þrítugs afmælisgjöf. Þetta er dýrt hljóðfæri svo hann bar þetta undir vini og ættingja og margir lögðu lið. Ástarþakkir öll sömul fyrir það ef ég var ekki búin að þakka almennilega fyrir mig. Það sem hins vegar gerðist var að píanóið var pantað frá Þýskalandi af er virtist traustu og árennilegu fyrirtæki og hafði Kristján kannað það allt saman eins vel og mögulegast var. Hins vegar reyndist maðkur í misunni. Náungarnir hirtu peningana en sendu okkur aldrei hljóðfærið. Núna ári seinna er enn verið að vinna í málinu með lögfræðiaðstoð. Við vorum auðvitað miður okkar og ég var svo reið þessum óprúttnu náungum. Ekki síst fannst mér þetta miður þar sem þetta var gjöf  sem margir góðir vinir og fjölskyldur okkar höfðu lagt í auk þess sem við lögðum talsverða fjármuni í þetta sjálf. En stuttu eftir að elsku Didda frænka dó hringdi amma mín og sagði mér að hún vildi gefa mér píanó sem eiginlega væri gjöf frá Diddu. Ég fór bara að gráta í símann, mér fannst það allt of mikið en amma vildi fá að gera þetta svo pabbi keypti flottustu gerð af stage píanói heima á Íslandi og sendi það hingað með flugfrakt. Ég er svo ánægð og þakklát fyrir þetta hljóðfæri. Það tók nú tvo daga að ná því úr tollinum en allt gekk vel og við borguðum bara sanngjarnan toll held ég. Við ákváðum svo að hafa lofjörðarkvöld hér heima viku eftir að við fengum hljóðfærið og buðum nágrönnum og samstarfsfólki að koma og áttum við góða stund saman. Ég hugsa að við höfum fljótlega aftur svona kvöld því fólk var mjög ánægt með það. Ég bara bið að þetta hljóðfæri megi fyrst og fremst vera Guði til dýrðar og starfi mínu í hans ríki til framdráttar. Núna sitjum við oft á kvöldin fjölskyldan og syngjum saman. Jóel var voða þreyttur eitt kvöldið og lagðist í sófann og sagði;” Mamma geturðu ekki spilað fyrir okkur” þannig að þau njóta þess líka. Ég er líka farin að æfa mig aftur að spila klassík sem ég hef ekki gert síðan börnin fæddust og er meira að segja farin að kenna Kristjáni líka. Krakkarnir geta vonandi lært seinna. Þau eru enn ekki orðin mjög móttækileg fyrir því en finnst gaman að sitja og syngja saman. Talandi um söng fjölskyldunnar. Sl. laugardag grilluðum við úti í garði á litlu eldstæði sem er hér og kveiktum svo bál á eftir. Þá ætluðum við að syngja saman. Minnsti maðurinn vildi fá að stjórna söngstundinni algjörlega og það mátti bara syngja lög sem hann valdi. Ef við reyndum að syngja eitthvað annað þá gerði hann sér upp voða grátur. Hann er sko algjör gormur stundum og vill fá að stjórna öllu en það er nú eins gott að hann komist ekki upp með það. Ef ég syng eitthvað annað en hann vill tekur hann fyrir munninn á mér og segir: “mamma, topp!!” (mamma stopp!) Það vantar ekki ákveðnina í drenginn.Jæja þetta er að verða allt of langt. Mig langar samt að bæta einu við og biðja ykkur að biðja fyrir garðyrkjustráknum okkar sem heitir Molla. Hann kom ekki til vinnu í dag en kom svo eftir hádegi og þá kom í ljós að það hafði verið brotist inn hjá honum í nótt og hann barinn í höfuðið. Hann var búinn að fara í röntgenmyndatöku og allt virtist vera í lagi en Kristján sendi hann líka til Bjarte sem kítki líka á hann. Það er alltaf að aukast glæpir og innbrot hér eins og kanski annars staðar í heiminum. Annars er Addis Abeba friðsæl borg, ein friðsælasta stórborgon í Afríku held ég. Þið megið líka gjarnan muna eftir Fantanesh, húshjálpinni okkar en hún missti húsið sitt vegna rigninga í sumar. Hún er núna að byggja nýtt hús en það er mikil vinna og kostar mikla peninga. Hún hefur líka verið óheppin með verkafólk sem hefur svikist um að vinna á meðan hún er í burtu en vill svo fá full laun. Svo er mikið stapp og þref við yfirvöld því það þarf allskonar leyfi og stimpla til að geta byggt hús þrátt fyrir að hún eigi lóðina sjálf. Það voru margir sem lenntu í húsnæðisvandræðum í regntímanum því það rigndi svo stöðugt og flestir búa í moldarhúsum sem þurfa að fá að þorna á milli rigninganna eigi þau ekki að grotna alveg niður. Verðlag hefur hækkað mikið hér síðustu árin en laun kanski ekki alveg í samræmi við það alltaf svo margir hafa átt og eiga í erfiðleikum þess vegna hér í Addis a.m.k. Ætli ég fari þá ekki að segja þetta gott og athugi hvort ég komi þessu á netið. Þið megið svo endilega skrifa komment eða kveðjur í gestabókina, það hvetur mig áfram að skrifa ef ég sé að einhver nennir að lesa þetta. Ég fékk einmitt bréf frá Svövu vinkonu í dag sem var að kvarta undan bloggleysi og það hafði þessi líka góðu áhrif á skrifletina!Guð veri með ykkur! 

Lauf Forest,lauf....!

14. oktÍ dag er Addis hlaupið. Það er auðvitað alveg dæmigert að það virðist hafa rignt í nótt svo grasið er rennandi blautt og nú er alveg skýjað svo sólin er ekki einu sinni til að þurrka. Það er nú vonandi að hún fari að láta sjá sig því annars er ég hrædd um að garðurinn okkar eigi ekki eftir að líta vel út eftir daginn! Þetta var mun seinna í fyrra, um miðjan nóvember minnir mig svo ég skil ekki alveg afhverju þetta er svona snemma í ár. Það er ekki hægt að treysta algjörlega á að það rigni ekki fyrr en október er liðinn. En þetta verður vonandi í lagi. Í fyrrakvöld var árlegur basar kristniboðsfélagsins hér (missjonsforeningen) þar sem safnað er fyrir mismunandi verkefnum sem eru í gangi í landinu. Þar var seldur matur, lukkuhjól með vinningum fyrir börnin, kökuuppboð og línuhappdrætti. Við fengum to vinninga í línuhappdraættinu, enda keypti Kristján dáldið margar línur. Ég fékk hálsmen og svo unnum við körfu með ávöxtum og sælgæti. Krakkarnir unnu svo leikföng í lukkuhjólinu, þar fengu allir vinning. Barnakórinn söng við góðan orðstýr. Þetta er alveg 25 barna kór þegar allir eru. Börnin á aldrinum 3- 10 ára. Ég held bara að þetta sé stærsti barnakór sem ég hef stjórnað. Þau sungu á fjórum tungumálum enda ekki óeðlilegt þar sem börnin í kórnum eru af fimm mismunandi þjóðernum (íslensk, dönsk, norsk, finnsk og eþíópsk- það eru tvö hálfeþíópsk og hálfnorsk og svo einn norskumælandi Eþíópi). Þetta var voða gaman.—Jæja Addishlaupið er afstaðið. Þetta gekk allt saman vel og grasið náði að þorna sæmilega. Margrét Helga og Jóel hlupu og hlupu og ég þurfti nú bara að fylgjast með Jóel svo hann myndi ekki detta niður. Ég fór tvisvar með hann inn til að drekka annars bara hljóp hann eins og vitlaus maður stanslaust í einn og hálfan klukkutíma. Margrét Helga hljóp 10 hringi eða 5 km og Jóel 12 eða 6 km. Dagbjartur Elí fór líka 5 hringi, einn með mér og 4 með Asnakú. Það var nú haldið á honum stóran hluta leiðarinnar en honum fannst samt ægilega gaman og vildi endilega fara af stað þótt hann nennti ekki alveg að labba allt sjálfur! Ég hætti við að vera með stelpupartý þar sem meira eða minna allar konurnar eru kallalausar eða uppteknar við eitthvað annað um helgina. Allir karlarnir hér af Mekanissa td. Fóru í ferðina til Langano sem Kristján er í. Ég fór líka að hugsa að maður yrði kanski frekar þreyttur eftir daginn í dag svo ég ætla bara að gera þetta einhverntíma seinna. Friðrik Páll varð eftir hér í dag svo þau eru að leika sér saman krakkarnir svo ætlar Kía að koma á eftir og ná í pítsu handa okkur á leiðinni. Raggi fór suðureftir í gærmorgun svo við erum báðar grasekkjur eins og er. Ég verð hissa ef krakkarnir verða ekki fljót að sofna í kvöld eftir öll hlaupin og svo hömuðust þau góða stund í busllauginni úti áðan. Á morgun á kórinn í kirkjunni, eða hluti af honum að leiða sönginn í messu í fyrsta skipti. Verst að það lítur út fyrir að ég verði föst hér þar sem ég er bíllaus og erfitt að fá fari fyrir fjóra. Það ætti nú samt alveg að bjargast. Við fórum vel yfir öll lögin á þriðjudaginn. Það hefði nú samt verið gaman að geta verið með svona í fyrsta skiptið. Hinn helmingur kórsins syngur svo næsta sunnudag. Ég vona að þetta eigi eftir að hjálpa aðeins til við sönginn í kirkjunni. Oft kann söfnuðurinn ekki lögin svo það er gott að hafa einhverja sem geta kennt og leitt sönginn.  Gullkorn að lokum: Jóel: “Mamma, hundar þeir tyggja rottur, það er viðbjóður” Margrét Helga: “Stig og skólakrakkinn komu í gær til að mæla fyrir Addishlaupið” (með “skólakrakkanum” átti hún við Per, danskan sjálfboðaliða sem vinnur á norska skólanum, Stig er skólastjórinn)

Ammli

7. oktÍ dag er merkilegu dagur. Það eru komin heil 31 ár síðan ég fæddist. Ætli ég verði ekki að óska mömmu og pabba til hamingju með það afrek. Þau eru líklega þau sem muna best eftir þessum degi og amma kanski líka því þá varð hún amma í fyrsta skipti. Allavega finnst mér ég ekki vera deginum eldri en 17 ára- er það ekki þannig sem það á að vera, er maður nokkuð eldri en manni finns maður vera? Í dag hefði Helga Sigurbjörg móðuramma mín orðið 82 ára hefði hún lifað en hún lést langt um aldur fram 4. des 1965 þannig að ég fékk því miður aldrei að kynnast henni. En mér þykir vænt um að bera nafnið hennar og að eiga sama afmælisdag og hún. Fyrir sex árum síðan, á 25 ára afmælisdaginn minn var líka dásamlegur dagur, nefnilega brúðkaupsdagurinn okkar Kristjáns og ári seinna, eða fyrir fimm árum síðan áttum við annan góðan dag í kirkjunni okkar, Hallgrímskirkju, þegar Margrét Helga okkar var skírð. Þannig að þið sjáið að þetta er ekki lítið sérstakur dagur fyrir okkur. Við borðuðum góðan morgunmat í morgun og ég opnaði nokkra pakka sem ég fékk frá Íslandi. Takk fyrir mig! Í kvöld ætlum við hjónin svo út að borða bara tvö. Asnakú kemur og passar krakkana. Ég ætlaði að hafa stelpupartý í gærkvöld en komst að því að allir voru meira eða minna út úr bænum þar sem nú er haustfrí í norska skólanum. Ég er að hugsa um að hafa það í staðinn næstu helgi, þá verður Kristján heldur ekki í bænum. Hann er að fara með kirkjunni í svona “Mens campout” (tjaldferð fyrir karlana) til Langanó. Næsta laugardag er líka hið svokallaða Addis- hlaup ávegum norska skólans. Á hverju ári hlaupa krakkarnir og safna áheitum. Peningarnir fara svo í að hjálpa börnum hér í Eþíópíu sem eiga um sárt að binda. Í ár er safnað fyrir þremur verkefnum, Vefnaðarverkefni fyrir stúlkur, þar sem þær læra að vefa til að vinna sér inn peninga. Þetta verkefni er á vegum KFUK. Annað verkefnið er að hjálpa fólki sem býr í nágrenni skólans til að gera við húsin sín, kaupa ný þök eða laga gólfin. Mörg húsin eru illa farin eftir regntímann. Þriðja verkefnið fer er að styrkja börn sem hafa misst foreldra sína úr HIV/Aids (eyðni). Allir sem vilja heita á Margréti Helgu og Jóel geta gert það. Það er bæði hægt að heita ákveðinni upphæð á hvern hring (500m) sem þau ná að hlaupa, eða gefa fasta upphæð. Ég get gefið upp reikningsnúmerið þeim sem vilja með tölvupósti. Hlaupið hefst hér í garðinum okkar og verður hlaupinn 500m hringur hér á lóðinni. Það er alveg með ólíkindum hvað sum ná að hlaupa, allt upp í 20 hringi á einum og hálfum tíma. Það er mikill metnaður hjá krökkunum og ekki síst að slá út met sín frá fyrra ári. 8. oktVið áttum mjög huggulegt kvöld í gær. Borðuðum á voða fínum ítölskum stað sem reyndar tók okkur smá stund að finna en fundum hann að lokum og fengum góðan mat og góða þjónustu. Takk fyrir allar góðar kveðjur í tilefni gærdagsins!Kristján fór með tvö elstu í kirkju en við Dagbjartur Elí erum heima og undirbúum hangikjötsveislu. Kía og co ætla koma eftir kirkju og borða með okkur hangikjöt. Smá forskot á jólin! Þannig að nú þarf ég að fara að sjóða kartöflur og gera uppstú og svona....namminamm!

Bæjarferð

5.oktVið hjónin fórum í bæinn í gær sem er nú kanski ekki í frásögu færandi nema hvað að það sprakk á bílnum. Það er nú svo sem ekkert sjaldgæft þar sem dekkin á bílnum sem við höfum til umráða eru frekar léleg og vegirnir eru núna alveg hræðilegir eftir regntímann. Allvega þá komum við við á dekkjaverkstæði sem er bara hérna aðeins ofar í götunni. Þetta er alveg ákaflega frumstætt dekkjaverkstæði. Þeri voru ekki með neinar græjur aðrar en sleggjur til að ná dekkjunum af hjólkoppunum og svo handknúna litla tjakka, svona eins og maður hefur í bílnum. Til að finna göt á slöngum eru þeir með stórt baðkar fyrir utan, fullt af vatni. En þrátt fyrir allt tókst þeim að gera við dekkið og það kostaði heilar 80 íslenskar krónur!Svo fórum við í bæinn til að versla og til að láta gera við gleraugun mín og úrið mitt. Úrið mitt var í viðgerð fyrir tveimur vikum síðan en það hélt ekki nema nokkra daga svo við sjáum hversu lengi þessi viðgerð dugir. Gleraugun mín brotnuðu líka í annað skiptið fyrir nokkuð löngu síðan og þar sem ég er frekar slæm af ofnæmi er ekki mjög gáfulegt að vera alltaf með linsur. Þegar gelraugun brotnuðu í Noregi í fyrra fór ég bara inn í næstu gleraugnaverslun og gert var við þau, ekkert mál. Hér fór ég búð úr búð en hvergi hægt að gera við þau. Þannig að það endaði með að ég keypti nýja umgjörð og lét setja gömlu glerin í. Ég held að umgjörðin kosti svipað og viðgerðin kostaði í Noregi í fyrra. Þetta eru sko "lacoste" umgjarðir en líkurnar á að þær séu ekta eru engar! Allavega fær maður ekki sæmilegar umgjarðir heima fyrir 4000 kall svo ég er bara sátt. Vonandi að þetta endist eitthvað. Mig var nú farið að langa dáldið mikið í nýjar umgjarðir, hin var ég búin að eiga frá því að ég kom frá Eþíópíu fyrir 10 árum og geri aðrir betur! Þetta verður bara afmælisgjöfin mín í ár.

Tappi litli

2. október    Tíminn flýgut áfram. Ég er búin að vera voða andlaus eitthvað og hef ekki funndist ég hafa neitt merkilegt að skrifa um. Allavega virðist regntíminn vera búinn. Það hefur ekkert rignt í fimm daga og í dag og í gær er alveg heiður himinn. Það munar mjög miklu þótt enn sé kalt inni í húsinu og þegar líður nær jólum verða næturnar mjög kaldar en þetta er allt annað líf. Annars gengur lífið sinn vanagang. Núna er reyndar haustfrí í norska skólanum þannig að ég fer ekkert að kenna þar á miðvikudaginn. Ég var hinsvegar að kenna á seminarinu í morgun og nú er ég búin að hafa tvær kennslustundir fyrir kórinn þar sem allt í lagi. 45 mínútur á viku er frekar lítið fyrir kór. Svo er ég að fara að byrjs með kór í ILC, kirkjunni sem við sækjum. Ég ætlaði að byrja í síðustu viku en þá mættu bara tveir þar sem það var Meskel hátíðin og mikið um að vera í bænum. Sjáum hvort ekki mæta einhverkir á morgun. Það ætla meira að segja nokkri af nemendum mínum hér að vera með.  3.okt. Jóel er búinn að eignast fósturbarn. Það er lítil skjaldbaka sem Kristján fann úti í gær og tilheyrir víst þessu húsi. Jóel er svo ánægður með hana. Gefur henni að borða og heldur á henni út um allt. Hann er mikill áhugamaður um dýr og á hverju kvöldi þegar hann er að fara að sofa fáum við ótal spurningar um lifnaðarhætti hinna ýmsu dýra. Það eru reyndar helst spurninngar um hver étur hvern. Hann er líka kominn með annað áhugamál og það er að safna töppum af gosflöskum. Pabbi hans drekkur mikið Ambo sem er náttúrulegt sódavatn selt í glerflöskum (eins og allt annað gos hér). Hann er því alltaf mættur um leið og pabbi opnar flösku og fær að hirða tappana. Systir hans styður hann einlæglega í þessari söfnun. Í gær benti Fantanesh, húshjálpin okkar mér á að það væru fimm opnar kókflöskur, með kókinu í, í kókkassa sem stendur í þvottahúsinu. Við skildum nú ekki alveg hvernig í þessu lá. Asnakú hafði ekki séð krakkana neitt vera að vesenast enda fannst okkur ólíklegt að svona lítil börn gætu opnað kókflöskur. Þegar ég fór hinsvegar að ræða málið við dóttur mína kom í ljós að hún var sökudólgurinn.” Já, en Jóel langaði svo í tappana svo ég bara tók þá fyrir hann!” Ég spurði hana hvernig hún hefði farið að því. “Bara svona eins og þið gerið, svona..” og svo sýndi hún með látbragði hvernig hún hefði farið að. Já henni er ekki fisjað saman. Nú er Margrét Helga að mér virðist vera farin að hjóla. Hjálpadekkin á hjólinu voru svo léleg og eru núna bara beyglur sem standa út í loftið en hún hjólar samt alveg á fullum krafti. Það er ekki að sjá að þetta sé nýtt hjól. Allir aukhlutir dottnir af og afturhjólið orðið svo skakkt að það skröltir og ískrar í hjólinu þegar hún fer af stað. En áfram kemst hún og finnst þessi ólæti bara í fína lagi því þá er þetta eins og mótorhjól! Þetta eru bara kínversku gæðin sem boðið er uppá hér á landi.Í morgun vorum við með langan skóladag. Það er gaman að sjá hvað þau eru ólík systkinin. Jóel er svo nákvæmur og vandvirkur með öll sín verkefni. Passar vel að lita ekki útf yrir og lita jafnt og fallega meðan systir hans nennir eiginlega ekki að standa í þessu og hálfkrotar með blýanti það sem hún á að lita. Hún vill komast sem fyrst í næsta verkefni! Líkist kanski móður sinni þar! 4.okt. Jæja þá er nokkuð öruggt að regntíminn er búinn. Það er alveg yndislegt hér núna. Krakkarnir fóru meira að segja í buslulaugina í gær og nú getum við kanski farið að nota Sheraton ferðina sem mamma og pabbi gáfu okkur í sumar. En ætli ég láti þetta ekki gott heita í bili og reyni að koma þessu á netið. Ég alltaf að vinna í því að koma fleiri myndum til hans bróður míns en það hefur gengið heldur treglega en þetta hefst allt að lokum.Guð blessi ykkur

Nýjar myndir

Bara að láta vita að það eru komnar nýjar myndir á myndasíðuna og fleiri bætast við á næstu dögum

Fjölgun

17. september Jæja, ætli það sé ekki tímabært að gera það opinbert hér að það er von á fjölgun í familien Sverrisson (það erum við sem sagt. Norðmennirnir eiga dáldið erfitt með að skilja að ég er ekki sonur Sverris, það er bara Kristján, en það kanski kemur með tímanum!)En allavega þá er ég bara spræk og komin 15 og ½ viku á leið. Á að eiga einhversstaðar í kringum 10 mars. Margrét Helga og Jóel eru hæst ánægð með þetta og eru bæði viss um að þetta sé stelpa. Jóel sagði einhverntíman við pabba sinn þegar þeir voru saman í bænum:“Þetta er annaðhvort strákur eða stelpa” Kristján spurði hvort hann héldi að þetta væri og þá sagði hann:” Ég veit að þetta er stelpa, bara ég og Guð vitum það”. En það kemur allt í ljós.Ég var að kenna annan tímann á seminarinu í morgun. Það mættu næstum allir nemendurnir í dag. Ég fékk síðan lista af nöfnum og frá og með næsta mánudegi verð ég að vera mjög stíf með mætingu. Þau eru ekkert voðalega dugleg að mæta á réttum tíma en það er verið að reyna að halda uppi einhverjum aga þarna. Þetta er dálítið spes kór. Af 47 nemendum eru 6 stelpur og svona 80% af strákahópnum eru bassar! Ég verð því bara að prófa mig áfram með raddskiptingu. Þetta verður spennandi, allt öðruvísi en allir aðrir kórar sem ég hef stjórnað. Ég fæ stundum á tilfinninguna að ég sé stödd í miðju atriði í kvikmyndinni “Sister act” svona sönglega séð en nemandurnir mínir eru yfirmáta hógværir og þora varla nokkuð að tjá sig. Þetta verður gaman að sjá hvernig þróast. Mér skilst að mér sé fyrst og fremst ætlað að láta þau syngja vestræna tónlist, gospel og þh. Sem þau mörg hver þekkja lítið sem ekkert. Eþíópsk tónlist er allt öðru vísi. Hún byggir á fimmtóna (pentatóníska) tónskalanum og líkist því oft arabískri og indverskri tónlist meira en því sem fólk almennt tengir við afríska tónlist. Þau eru ekki vön að syngja í röddum og svo eiga þau oft erfitt með að hitta á tónanna sem eru á milli þessara fimm sem þau þekkja. Þ.e.a.s að syngja allan áttundaskalann er ekki alveg það einfaldasta fyrir þau. Í gær hittum við Tsige og Haile og börnin þeirra Jóhönnu og Jónatan. Þau eru eþíópskir vinir okkar sem búa á Íslandi en eru núna hér í heimsókn í fyrsta skipti síðan þau giftu sig fyrir þremur árum. Börnin eru bæði fædd á Íslandi og Jóhanna sem er tveggja og hálfs árs talar eiginlega bara íslensku. Foreldrarnir tala alltaf amharísku við hana en hún svarar bara á íslensku. Krökkunum fannst voða gaman að hitta hana og ég held henni hafi þótt jafngaman að hitta þau. Annars gengur bara lífið sinn vanagang. Kristján er sáttur í kennslunni á seminarinu og krakkarnir vaxa og dafna og eru ánægð með lífið. Nú erum við farin að æfa lestur á hverjum degi og sérstaklega Margrét Helga er að ná tökum á þessu. Jóel er nú ekki nema fjögurra ára svo ég er ekkert að ýta á hann. Hann nennir ekki alltaf að lesa á hverjum degi svo hann bara les þegar hann langar til. En það er mikil framför hjá þeim báðum eftir að við þau eru farin að lesa bara pínulítið á hverjum degi. Við höfum svo skóladag einu sinni í viku en það er of lítið til að ná almennilegum tökum á stöfunum og lestri. Það er ennþá kalt hér og rignir oft mikið í eftirmiðdaginn en það fer vonndi að sjá fyrir endann á regntímanum. Þetta fer að verða gott! 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband