Færsluflokkur: Bloggar
21.11.2007 | 14:15
Hér kemur svo sagan öll í rituðu máli:
Eins og þið sem fylgst hafið með blogginu vitið þá var hýena sem bjó í dreni sem liggur undir innkeyrslunni í gegnum garðinn okkar, nb að sandkassanum sem börnin leika sér í.Við héldum að hún væri farin en svo virtist nú ekki vera! Það er mjög óvenjulegt að hýenur séu einar á ferð svo það sem okkur datt í hug var að þetta væri kerling með unga. En svo héldum við að hún væri farin og hugsuðum ekki meira um það. En við virðumst hafa haft rétt fyrir okkur. Frá því á fimmtudainn síðasta sáum við þær á hverju kvöldi bara svona 10-15metra frá útidyrahurðinni okkar! Ungarnir voru greinilega orðnir vel stálpaðir og hún var greinilega að þjálfa þá. Ég var farin að vera verulega hrædd um börnin. Kristján fór og ræddi vð yfirmanninn hér á lóðinni og hann var sammála okkur um að hafandi hýenur í garðinum væri bókstaflega stórhættulegt!! Það voru smá vangaveltur í gær hvað ætti að gera: Kveikja eld og svæla þær út? Berja þær í hausinn þegar þær kæmu út um hinn endann? En á endanum fundu þeir út að best væri að kæfa þær með reyk. Hljómar kanski ekki fallegt en ef einhver heldur að þetta séu saklaus dýr þá er það langt í frá! Þær höfðu meira að segja farið í sandkassann og tekið plastleikföng og tuggið. Ég skyldi ekkert í því að ég sá leikföng barnanna í tætlum úti á götu en svo tók Kristján eftir tannaförum. En allvega..... allir voru orðnir sammála um að þetta gengi ekki lengur. Svona til fróðleiks þá eru hýenur með sterkustu kjálka allra spendýra og þær geta brutt og melt nautshorn! Þær geta orðið 2 metra langar og eins meters háar (upp að öxlum) og upp undir 90 kg að þyngd. Hjartað í þeim er þrisvar sinnum stærra en í ljóni og þær geta hlaupið á 65 km hraða og þannig drepið td. Sebrahest með því að þreyta hann til dauða!! Ég hef heyrt sögur frá fleiri en einum kristniboða um að þær hafi ráðisst á fólk, bæði börn og fullorðna og jafnvel drepið. Þetta eru sem sagt engin lömb að leika sér svið!!!
Eftir þessar vangaveltur var svo látið til skarar skríða, Kristján ásamt nokkrum garðyrkjumönnum og vaktmönnum kveiktu eld, fyrst við opið sem liggur við sandkassan okkar en svo hinumegin líka og lokuðu svo þær kæmust ekki út. Það mætti ætla að auðveldara hefði verið að skjót þær en það er ekki svo einfalt og hefði geta orðið mjög hættulegt, særð hýena með unga sem er ógnað....þið getið ímyndað ykkur. Það hefði verið ómögulegt að ná almennilegu færi þar sem þær voru þrjár inni í þröngu röri. Að kvöldlagi hefði heldur ekki verið hægt að ná á þeim færi auk þess sem þá eru þær verulega hættulegar og ráðast auðveldlega á fólk þannig að þetta virtist eina leiðin. Þær voru farnar að ógna öryggi okkar og allra annara sem búa hér. Ég þorði ekki einu sinni að leyfa börnunum að vera einum úti að leika sér í garði á daginn eða láta Davíð Ómar sofa úti sem hann gerir yfirleytt tvisvar á dag. Þótt þær séu næturdýr veit maður aldrei og það hefur komið hýena hingað að degi til. Ég held þetta hafi samt ekki verið svo skelfilegur dauðdagi fyrir þær og þetta tók ekki langan tíma.
Einu hræinu náðu þeir svo út með því að toga það en hin liggja enn í rörinu, of langt til að hægt sé að ná þeim.
Fljótlega fór fréttin að berast og fullt af fólki, nemendum starfsfólki og fleirum af lóðinni komu til að sjá. Flestir Addisbúar hafa aldrei séð hýenur, bara heyrt í þeim svo þeim fannst þetta spennandi. Nemendurnir sem búa hér á heimavistinni sögðust nú getað andað léttar því þeir vissu af hýenunum og þorðu ekki að ganga um lóðina eftir myrkur (eða eftir kl.18:00).
Þetta er nú sagan svona nokkurnveginn. Nú verður tekið til við að girða öll dren á lóðinni (þau eru nokkuð mörg og leiða vatn á regntímanum) svo við fáum ekki fleiri svona ógnvekjandi íbúa. Hýenur eru reyndar ekki einu dýrin sem ganga vilt hér því við höfum séð mongoosa, civet, serval kött og svo vorum við með mýs í eldhúsinu aftur í síðustu viku.... en það er önnur saga.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2007 | 11:39
Sagan öll!
Kristján kveikti eld í báðum endum vatnsrörsins sem hýenan bjó í með og með hjálp varðanna var henni haldið inni þar til hennar sögu lauk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2007 | 11:16
Hýenum ekki hlátur í hug
Hýenuhjarta er þrisvar sinnum stærra en ljónshjarta!
Hýenur hafa sterkustu kjálkavöðva allra spendýra og geta bruðið og melt nautshorn!
Þær geta hlaupið á allt að 65 km. hraða!
Hýenur geta orðið 2 m. langar og 85 kg. þungar!
Þessi bjó í stóru vatnsröri í garðinum okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2007 | 07:11
Fegursta rósin
12. nóv
Ég ætla að byrja á að þakka fyrir öll komment og kveðjur. Það er mjög hvetjandi og uppörfandi að fá kveðjur þegar maður er að rembast við að halda þessari síðu úti, svo endilega verið dugleg að kvitta!!!
Ég var um helgina í alveg frábærri ferð með Addis konunum. Þ.e.a.s. öllum kvenkyns NLM kristniboðunum sem starfa í Addis. Á hverju ári er haldið svokallað "retreat" . Hvert starfssvæði hefur sína eigin samveru og í fyrra stakk Kristján upp á að hafa skipt karla og kvenna hér í Addis sem heppnaðist mjög vel svo ákveðið var að gera svipað aftur. Á föstudagskvöldið hittumst við öll á norska skólanum og borðuðum saman og höfðum samverustund með altarisgöngu og lofgjörðarstund. Krakkarnir fengu að gista hjá Önnu Lilju en Jóel þorði ekki alveg svo við tókum hann með okkur heim að dagskrá lokinni. Margrét Helga var þvílíkt spennt og sömuleiðis hinar fjórar stelpurnar sem fengu líka að gista. Það var svaka fjör hjá þeim en gekk bara mjög vel fannst mér á Önnu Lilju. Dagbjartur Elí og Davíð Ómar voru hér heima með Asnakú. Á laugardagsmorguninn fórum við konurnar svo til bæjar sem heitir Nazret á stað sem heitir Safari Lodge. Mjög huggulegt hótel með sundlaug og öllu og á þessa lands mælikvarða MJÖG flott! Það vantaði reyndar þrjár, tvær veikar og ein að kenna úti á landi. Við áttum mjög góða helgi, afslappandi og andlega og félagslega uppbyggjandi. Við höfðum smá samverustund á laugardagskvöldið og á sunnudagsmorgun, sungum og báðum saman og þetta var bara mjög frábært allt saman. Svo höfðum við líka góðan tíma til að liggja aðeins í sólinni svo við erum allar orðnar ægilega brúanar og sætar!! Karlarnir fara svo eftir tvær vikur en ég veit ekki hvort þeir verða yfir nótt eða taka bara einn dag. Þetta er bara alveg nauðsynlegt og það verður dálítið öðru vísi stemmning þegar það er svona kynjaskipt. Þá fáum við líka smá hvíld frá að hugsa um börnin sem gerir þetta enn meira afslappandi þó svo ég hafi nú skanað þess að geta ekki knúsað þau áður en ég fór að sofa! Ég er svoddan hænumamma eins og norðmennirnir segja! En allavega var þetta alveg frábært og alveg nákvæmlega það sem ég þurfti á að halda. Það ver búið að vera dáldið slítandi með litla amöbukallinn en hann er núna búinn á lyfjakúrnum og farinn að borða vel og fer vonandi að komast í almennilega rútínu með svefninn aftur.
Svona af því ég er alltaf búin að vera að segja eitthvað frá dýra og náttúrulífinu hér þá verð ég nú bara að minnast á alveg ótrúlega rós sem stendur á stofuborðinu núna. Fantanesh, húshjálpin okkar fann hana úti í garðí í síðustu viku og ég get sko sagt að fallegri rós hef ég bara aldrei á æfinni séð! Hún er stór og rauð og ilmurinn af henni fyllir allt húsið og er mjög sérstakur. Ekkert of sterkur, bara mjög mildur og góður. Þetta er sko eitthvað allt annað og meira en fyrsta flokks rós!!
Þessi rós minnti mig á jólasálm þar sem frelsaranum er líkt við fegurstu rós heimsins og þótt enn sé ekki komin aðventa er kanski allt í lagi að ég láti fyrsta versð fylgja með. Er ekki hvort eð er farið að minna á jólin allsstaðar á Íslandi ? Þá er gott að muna strax eftir hvers vegna við höldum jólin:
Hin fegursta rósin er fundin
Og fagnaðarsæl komin stundin.
Er frelsarinn fæddist á jörðu,
Hún fannst meðal þyrnanna hörðu.
H.Hálfd.
E.s.
Það eru komnar nýjar myndir myndasíðuna. M.a. af bleiku köngulónni og blómaskreytingunum hans Jóels!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.11.2007 | 11:30
Strokuskjaldbökur og bleik könguló
31. okt
Í gær fór Davíð Ómar aftur að fá blóðugar hægðir og er nú byrjaður aftur á sýklalyfjum til að vinna á amöbu. Það er ekki óþekkt að það taki tvo kúra til að losna við þær en þið megið gjarnan biðja fyrir því að hann nái sér alveg. Hann er núna loksins farinn að þyngjast almennilega svo við vonum að það komi ekki enn eitt bakslagið. Hann er annars sprækur og kátur og borðar og drekkur en lyfin geta alltaf valdið lystarleysi og ógleði. Hann byrjaði á lyfjkúrnum í gær og á að halda áfram í 10 daga. Vonandi bara að það dugi til að losna við þessi kvikindi.
Eins og ég hef nú einhverntíman minnst á erum við með þrjár skjaldbökur í garðinum. Eina risastóra og tvær litlar. Þær eru í sér girðingu en fá af og til að leika lausum hala og bíta gras í garðinum. Sérstaklega þessi stóra hefur þörf fyrir það. Hún er ekkert allt of sátt við að vera í þessu búri og í gær tókst henni að brjóta það! Ótrúlega sterkar þessar skepnur! Að sjálfsögðu struku þá þessar litlu í leiðinni. Ein, sú minsta er enn ekki fundin en er þó líklega bara í einhverju blómabeðinu. Ekki í fyrsta skipti sem þær hverfa!
Í einni af blómaskreytingunum hans Jóels fundum vð svo bleika og hvíta, röndótta könguló!! Hún var nákvæmlega eins og blómin á litin. Hún bjó á stofuborðinu í nokkra daga og spann vefi í blómunum en nú hefur hún fundið sér einhvern annan samastað. Í gær fann Jóel svo úti samskonar könguló, bara alveg skærgræna! Þær eru alveg ótrúlega fallegar. Ég vissi ekki að það væru til svona fallegar köngulær!
7.nóv
Jæja, öll loforð um að blogga oftar fokin út í veður og vind!! Það er bara eitthvað svo mikið að gera alltaf og það tekur líka á á meðan minnsti maðurinn er á þessum lyfjum. Hann vaknar einu sinni til tvisvar á nóttunni vegna þess að hann er með ónot í maganum og þá er maður hálfdruslulegur á daginn. Ég reyni nú alltaf að leggja mig í smá stund eftir hádegi en það tekst ekki alltaf. Hann er allvega kominn með betri matarlyst og farinn að borða kjöt og brauð og pasta og hrísgrjón í viðbót við grænmetið. Honum finnst kjötið mjög gott!! En svo er hann líka farinn að stríða mömmu sinni. Þegar hann er orðinn saddur heldur hann áfram að taka við en frussar svo öllum matnum út úr sér og skellihlær svo!! Já, það byrjar snemma.
Sl. föstuag fór ég með alla krakkana ásamt Asnakú og Fantanesh í skólann til Margrétar Helgu þar sem svokallaðri Eþíópíuviku var að ljúka. Einu sinni á á ári er svona vika í skólanum sem er sérstaklega helguð eþíópskri menningu. Margrét Helga var í hóp sem lærði sem skoðaði nánasta umhverfi skólans. Þau fóru á markaðinn, heimsóttu leirkeraverkstæði og lærðu að flétta körfur svo eitthvað sé nefnt. Á föstudaginn var svo kaffiserimónía að eþíópskum sið og krakkarnir sýndu muni og seldu á litlu markaði sem þau höfðu útbúið. Eftir það buðum við svo Asnakú og Fantanesh út að borða með okkur. Á laugardaginn skruppum við svo til Ambó sem er bær í um 125km fjarlægð frá Addis. Þar er náttúrulegt ölkelduvatn tappað á flöskur sem er svo selt undir nafninu Ambo og við drekkum MIKIÐ af (sérstaklega Kristján!!) Þarna er líka sundlaug en við vissum ekki af því og vorum því miður ekki með sundföt. En við fengum góðan doro wodd og skoðuðum okkur aðeins um í bænum og í garði hótelsisn þar sem við borðuðum. Þar var smá dalur í bakgarðinum með háum trjám og krakkarnir léku Tarzan og Jane í trjánum. Á leðinni til baka stoppuðum við svo á mjög fallegum skógi vöxnum stað og það merkilegasta var að þar var ekki nokkur sála! Nokkuð sem er mjög merkilegt hér í Eþíópí. Venjulega þegar við sjáum stað sem virðist vera mannlaus og við stoppum og förum út úr bílnum, líður ekki á löngu þar til það hefur safnast að hópur fólks til að skoða skrítnu útlendingana! En þarna var bara ekki nokkur einasti maður svo við nutum þess að ganga um og liggja í sólinni.
Á sunnudaginn fórum við í kirkju eins og venjulega. Við erum farin að fara bara í kirkjuna hér á seminarinu þar sem allt er að sjálfsögðu á amharísu. Krakkarnir fara í sunnudagaskólann og það gengur bara mjög vel. Við höfðum lengi hugsað okkur að fara að sækja amharíska kirkju og ákvaðum að láta verða af því núna eftir að við komum heim í haust. Kristján sagði sig úr safnaðarnefnd alþjóðlegu kirkjunnar og ég gaf ekki lengur kost á mér til að spila. Það var líka orðið þannig að ef Kristján átti að gera eitthvað í kirkjunni varð ég að vera heima með börnin og ef ég var að spila varð Kristján að vera hema. Núna förum við öll saman í kirkjuna sem er bara hérna við dyrnar hjá okkur, miklu þægilegra.
Annars gengur bara lífið sinn vanagang. Kristján kennir, Margrét Helga fer í skólann og strákarnir eru hér heima. Í dag koma svo krakkarnir í tónlistarhópnum mínum. Við verðum að byrja að fara að æfa jólalög því við æfum bara aðarhverja viku og þau eiga að syngja í byrjun des. En það er nú bara gaman að fá smá forskot á jólaundirbúninginn. Svo er maður að fara að græja jólaveðjur til að senda svo það er að koma smá jólafiðringur í mann.
En nú læt ég staðar numið og geri tilraun til að tengjast veraldarvefnum....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.10.2007 | 07:17
Fyrirsögn hvað???
25. okt
Ætli það sé ekki kominn tími á smá lísfsmark. Það er búið að vera mikið að gera og sérstaklega hjá Kristjáni. Það er ekki allt auðvelt og ýmislegt sem tekur á í starfinu. En við erum ekki ein og við vitum að margir biðja fyrir okkur.
Davíð Ómar virðist alveg vera búinn að ná sér eftir veikindin en nún eru fjórar tennur á einu bretti á reyna að brjótast í gegn sem hefur angrað hann mikið og m.a. minnkað matarlistina enn einu sinni. Kristján fann þó graut sem honum finnst rosalega góður svo það er helst hann borði hann og svo drekkur hann pelann, mismikið þó í einu. Hann verður viktaður í dag svo þá sjáum við hvort hann er ekki eitthvað að þyngjast þótt hann borði engin ósköp. Hann lítur allavega vel út og er hress og kátur. Hann er meira að segja farinn að segja "mamma" móður sinni til mikillar gleði!! Honum finnst voða gaman að sitja og leika sér og ekki verra að vera úti. Hann mjög spenntur fyrir þessu grasi sem er hérna um allt og reynir að slíta það upp og setja upp í sig. Það fer reyndar svo gott sem allt upp í hann sem hann kemst í tæri við! Uppáhaldsleikfangið hans þessa dagana er reyndar sleikja sem ég lána honum úr eldhúsinu!
28. okt
Jæja best að halda áfram. Þar sem Kristján var að vinna fórum við ekkert langt í haustfríinu hennar Margrétar Helgu en fórum þó í dagsferð á föstudeginum. Við fórum til staðar sem heitir Soddere. Þar er jarðhiti og hótel með stórri sundlaug. Vatnið í lauginni er svo heitt að það er vonlaust að synda mikið í henni en þetta var voða notalegt. Til marks um vatnshitann þá voru krakkarnir búin að fá nóg eftir hálftíma! Sjaldan sem þau endast svona stutt í sundi! Svo fengum við okkur að borða á Safari Lodge i bæ sem heitir Nasret. Þetta var ágætist tilbreyting, gott að komast aðeins út fyrir borgina.
Margrét Helga byrjaði í skólasundi í síðustu viku og var ekkert smá spennt. Skólasundið er sko á Sheraton hótelinu og þvílíkt sport! Jóel vildi nú elst fá að fara líka en hann verður víst að bíða til næsta árs.
Jóel er annars búinn að finna sér nýtt áhugamál, blómaskreytingar. Hann er í því að tína blóm og notar svo jógúrtdósir o.þ.h. til að búa til skreytingar og þær eru eiginlega bara mjög flottar hjá honum. Hann fékk að koma með mér aðeins á basarinn og að versla, einn, á laugardaginn og bílnum sagði hann mér að hann ætlaði að verða prins og blómaskreytingamaður þegar hann yrði stór! " Ég helt þú ætlaðir að verða dýralæknir" sagði ég" Þá sagði Jóel:" Maður getur ekki verið þrjú er það?" Við keyptum pottablóm á basarnum sem Jóel valdi og nú prýða þau stofuna.
Dagbjartur Elí fékk að fara einn í bæinn með mömmu og pabba á föstudaginn. Það er nauðsynlegt að leyfa þeim af og til að vera einum og sér og fá smá extra athygli. "Þetta er notalegt" heyrðist úr aftursætinu! Hann vekur altaf athygli hvar sem hann fer með þessar stóru mjúku kinnar, grallara bros og ekki síst þeta mikla ljósa hár. Ég gerði nú reyndar tilraun til að klippa vel af því um daginn en það vex svo svakalega hratt í sólinni.
Davíð Ómar var viktaður í gær og var orðinn 8,5 kg. Hann hafði hinsvegar ekkert lengst síðan síðast er ennþá 68 cm en það er kanski ekkert skrítið þar sem öll orkan hefur farið í að vinna upp tapaða þyngd. Hann er ss. núna nákvæmlega jafnstór og Jóel var 5 mánaða! Þótt hann sé smár skiptir mestu að hann er farinn að bæta aftur á sig og hann er alveg með allan þroska í lagi. Til samanburðar þá var hann fyrir mánuði síðan 7,9 kg og fyrir þremur vikum 7,7 kg þannig að hann hefur bætt á sig 700 g á þremur vikum sem er nú ekki slæmt. Nú eru tennurnar líka að verða komnar alveg niður og pirra hann ekki alveg eins mikið svo matarlystin er líka að verða betri. Hann er alltaf eitthvað að reyna að myndast við að setjast upp og einhverjar tilraunir til að fara upp á fjórar fætur. Hann vill nú samt helst bara sitja en maður verður víst að reyna að fá hann til að vera á maganum líka ef hann á einhverntíma a fara að skríða! Hann er reyndar duglegur að velta sé um. Ég gerði tilraun til að leyfa honum að leika sér úti í grasi með þeim afleiðingum að hann er allur útétinn af flóm svo það verður ekki gert meira í bráð. Hann fær blöðrur af bitunum og er allur þakinn á höndum fótum og bakinu. Ekki beint skemmtileg dýr!
Nú eru miklar hitabreytingar hér frá nóttu til dags. Það er steykjandi heitt í sólinni yfir daginn, allavega svona eftir hádegi, þótt reyndar sé oft köld gola. Næturnar eru hinsvegar ískaldaldar svo maður sefur bara í útilegugallanum. Við kveikjum nú upp í arninum kvölds og morgna og það hjálpar aðeins, ofnin er eitthvað farinn að stríða okkur og sló út rafmagninu svo hann er ekki í notkun í bili! Þetta er samt mun skárra en regntíminn þar sem við erum laus við rakann og nú er þurrkatíminn miklu greinilegri en í fyrra. Nú er bara þurrt.
Svo fer bara að líða að jólastússi! Ótrúlegt hvað tíminn líður. Ég þarf að byrja að æfa jólalög með tónlistarhópnum strax í næstu viku því við æfum bara aðrahverja viku og eigum að syngja í byrjnum des. Svo er það jólakveðjur og þ.h. sem maður verður að græja í tíma. Annars er sko jólaundirbúningurinn hér ekkert stress. Það eru allvega engar jólauglýsingar eða jólskreyttar verslunarmiðstöðvar í október!!
En ætli ég segi þetta ekki gott í bili. Ég ætla að reyna að vera aðeins duglegri við að skrifa á næstunni, ekki láta líða svona langt á milli. En það er bara nóg að gera og heldur ekki alltaf hægt að komast á netið eða þá að netið virkar ekki sem skildi þótt maður nái að tengjast, svona er þetta í Afrikunni!!
Bið ykkur vel að lifa og Guð blessi ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.10.2007 | 19:55
Von
15. okt
Nú er Davíð Ómar allur að taka við sér. Í gær borðaði hann loksins eitthvað sem heitið getur og í dag hefur hann haft nokkuð góða matarlyst svo þetta er allt að koma. Hann kláraði lyfið á laugardaginn. Þetta lyf veldur oft ógleði og lystarleysi svo það er kanski ekki skrítið að hann hafi ekki borðað mikið. Nú bara vonum við að hann taki kipp og verði duglegur að borða og drekka. Við erum mjög þakklát fyrir allar fyrirbænir og og þætti vænt um að hann væri áfram á bænalistanum. Nú er mikilvægt að hann nái að vinna upp tapið í veikindunum og að hann haldi sínu striki. Vaxtarkúrfan hans en bara sikk sakk alveg frá fæðingu svo nú væri gott að sjá að hún yrði í meira jafnvægi.
Það var dáldið krúttleg sena hérna um daginn með þeim tveimur yngstu bræðrunum. Þannig var að Davíð Ómar var eitthvað voðalega órólegur. Hann bara grét og grét og var alveg ómögulegur. Mér tókst gekk ekkert að róa hann þótt ég gengi með hann um gólf var hann alveg jafnómögulegur. Þá datt mér allt í einu í hug að setja DVD diskinn með Sálinni og Gospelkórnum í tækið því hann er svo hrifinn af tónlist og finnst líka gaman að horfa á sjónvarpið og viti menn það virkaði svona líka vel. Drengurinn hætti að skæla og steinsofnaði fljótlega. Stuttu eftir að hann var sofnaður vaknaði Bangsímon (Dagbjartur Elí) sem hafði sofnað kl. 6 um kvöldið en nú var kl. að ganga ellefu. Hann varð strax var við að kveikt væri á sjónvarpinu og vildi fara að horfa. Honum fannst þetta ekkert smá skemmtilegt. "Þetta er skemmtilegt mamma" sagði hann með sínum norðlenska, raddaða framburði (sem hlýtur honum bara að vera í blóð borinn þar sem hann er ættaður úr Þingeyjarsýslunni í báðar áttir- ekki tölum við svona!). Hann þverneitaði að fara að sofa og vildi bra horfa á tónleikana til enda sem hann og gerði. Ég spurði hann hvort hann ætlaði að spila svona þegar hann yrði stór og því svaraði hann játandi. "Hvaða hljóðfæri langar þig til að spila á" spurði mamman " ég ætla að spila lottó" svaraði þá snáðinn! Það skemmtilegasta sem hann veit þessa dagana er að spila myndabingó og er hann iðulega bingóstjórinn. Það er skemtilegast að spila við mömmu eða pabba og ekki verst þegar við spilum öll saman og hann fær að stjórna. Frekar krúttlegur, enda er hann atvinnukrútt!!
Það er nú bara allt annað líf hérna eftir ða regntíminn kláraðist. Einhvernveginn léttara yfir öllu og öllum. Þetta er ekki ósvipað því þegar vorið kemur heima eftir langt og erfitt skammdegi. Margrét Helga og Jóel eru nú byrjuð aftur á hlaupaæfingum tvisvar í viku og Jóel fer bráðum að byrja atur í karate líka. Núna er haustfrí á norska skólanum svo Margrét Helga er heima þessa vikuna. Jóel finnst það nú ekkert slæmt. Kristján er fastur í vinnu svo við förum nú ekkert út úr bænum eins og margir. En það er ágætt fyrir krúsluna að fá smá frí og hvíld frá skólanum. Ekki að henni finnist ekki gaman en það er gott að fá aðeins að sofa lengur og fá frí frá heimalærdómnum.
Þrátt fyrir að þurrkatíminn sé búinn þýðir það ekki betra líf fyrir alla í Addis Abeba. Fólka talar mikið um að nú séu erfiðri tímar og stafar það fyrst og fremst af mikilli verðbólgu síðastliðið ár og þá aðallegar síðasta hálfa árið. Það er ekki óalgengt að hjón séu samtals með um 1000 birr (uþb 8000 ískr.) á mánuði og er það þá jafnvel í hærri kantinum. Oft er ekki nema ein fyrirvinna á heimilinu. Nú orðið er algengt hér í Addis að fólk eignist tvö til þrjú börn. Margir eiga þó fleiri börn. Skólagjöld á mánuði fyrir eitt barn í sæmilega góðan skóla eru frá 100 birrum á mánuði. Þá á eftir að kaupa bækur, skólabúning og ýmislegt fleira sem tilheyrir. Verð á matvöru hefur hækkað að meðaltali um 40% síðan í maí á þessu ári. Það á við um allar búðir, bæði stórmarkaði sem aðallega útlendingar og ríkt fólk verslar í og líka minni verslanir sem algengara er að almenningur versli í. Svo ég taki dæmi þá kostaði kíló af berberre (aðalkryddið sem notað er í þjóðarréttinn) 25 birr þegar við komum út fyrir tveimur árum. Í maí kostaði kílóið 55 birr en nú er verðið á bilinu 80- 90 birr kílóið. Sama er að segja um "tef" sem er korntegund sem er uppistaðan í fæðu flestra hér. Svo ég taki fleiri dæmi, kostaði ein dós af niðursoðnum tómötum 10- 11 birr, núna kostar sama tegund 18 birr. Pampersbleyjur, einn pakki með 32 bleyjum kostaði í byrjun júní 64 birr en kostar núna frá í september 94 birr. Svona mætti lengi telja.
Við höfum það gott þótt það sé fleira sem við þurfum að neita okkur um en áður, það er yfirstíganlegt, en auðvitað bitnar svonlagað alltaf verst á þeim fátækustu og fátæktin hér og eymdin er slík að nánast ómögulegt er að lýsa því. Það er kanski engin ein skýring á þessu. Á meðan fleiri verða ríkari, stækkar bilið milli þeirra sem eru ríkir og fátækir og enn fleiri verða fátækir. Margir flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar í von um betra líf en lenda svo oftar en ekki á götunni alslausir. Það er auðvelt að horfa á yfirborðið og sjá að hér eru miklar framfarir og framkvæmdir í gangi en það er aðeins lítill hópur fólks sem fær að njóta þess. Flestir eru miklu fátækari en þeir fátækustu heima á Íslandi. Fjöldi barna hefur ekki tækifæri til að ganga í skóla því engir peningar eru til. Mörg þeirra enda því á götunni. Gamalt fólk á margt hvert hvergi höfði sínu að halla, það býr á götunni og reynir að draga fram lífið með betli. Lítil sem engin úrræði eru fyrir fatlaða, sem eru margir.Margt fatlað fólk býr á götunni og vinnur fyrir sér með betli.
Fólk talar um erfiðleikana en líka um að það sé von. Allt er í hendi Guðs og það eru Eþíóparnir óhræddir að tala um og þeir trúa því að það sé von um betra líf í Eþíóíu. Þess vegna bið ég ykkur að vera með að biðja fyrir Eþíópíu. Í raun er þetta auðugt land, miklar náttúruauðlindir og frjósamt land. En auðæfin eru illa nýtt og mjög ójafnt skipt. Við biðjum þess líka að við megum vera verkfæri í höndum Guðs hér til að reyna að skapa hér betri lífsskilyrði í okkar veika mætti. Okkar máttur er lítill en máttur Guðs er mikill og það er í þeirri trú sem við störfum hér.
Mig langaði bara að deila þessu með ykkur og til að vekja til umhugsunar. Þetta er það sem blasir við okkur á degi hverjum. Það venst aldrei og stundum verður þetta yfirþyrmandi. Mér finnst erfiðast að horfa upp á börnin, fatlaða fólkið og hina öldruðu sem eiga engan að.
Vér vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæðið fullreynd en fullreyndin von
Rómverjabréfið 5:3-4
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 17:39
Regntíminn búinn!!!
8. okt
Takk fyrir góðar kveðjur í gær í tilefni af afmælisdeginum mínum og brúðkaupsafmæli okkar Kristjáns! 7. október var líka fæðingardagur Helgu Sigurbjargar Örnólfsdóttur, móður ömmu minnar, sem ég heiti í höfuðið á. Hún lést langt fyrir aldur fram 4. Des. 1965. Þetta er líka skírnardagur Margrétar Helgu sem var skírð í Hallgrímskirkju fyrir sex árum. Þannig að þetta er stór dagur í okkar fjölskyldu. Ég var fyrir einhverju síðan búin að plana að halda afmælisveislu en þar sem Davíð Ómar er búinn að vera svo mikið veikur ákvað ég að hætta við það. Við fórum í gæar fjölskyldan ásamt Önnu Lilju frænku út að borða á hótel Gihon sem selur besta woddinn í bænum að okkar mati. Þetta var nú ekki beint afslappandi með ungabarn, þreyttan tveggja ára gaur og tvo gorma sem voru komnir með svefngalsa. En þetta var nú fínt þrátt fyrir það og góður dagur sem við áttum. Þegar ég vaknaði í gærmorgun stóðu tveir litli englar frammi og sungu afmælissönginn fyrir mömmu sína! Þetta var fallegasti afmælissöngur sem ég hef fengið. Þriðji engillinn lá skælandi í rúminu sínu af einhverjum ástæðum ekki var mögulegt að skilja en var nú fljótur að jafna sig og gefa mömmu afmælisknús. Ég fékk eþíópskt sjal og veski í stíl frá Kristjáni, sem ég hef lengi óskað mér. Eftir góðan morgunverð fórum við í kirkjuna hér á seminarinu og við Dagbjartur Elí fórum í sunnudagaskólann. Margrét Helga og Jóel voru einhversstaðar úti að hlaupa og Davíð Ómar með Kristjáni í kirkjunni. Dagbjartur Elí er farinn að koma fram við eþíópsku börnin eins og þau við hann, togar í hárið á þeim, potar í þau og bendir og reynir að kyssa þau, eins og það sé bara alveg fullkomlega eðlilegt!! Í eftirmiðdaginn fórum við í kaffi á norska skólanum þar sem "misjonssekretær" NLM fyrir austur Afríku var í sérstakri heimsókn. Daginn enduðum við svo á Gihon eins og áður sagði.
9. okt
Eins og ég sagði frá hefur Davíð Ómar verið mikið veikur undanfarið. Það byrjaði með því að hann fékk niðurgang á mánudegi fyrir tveimur vikum síðan sem síðan virtist ætla að lagast á laugardeginum þegar við höfðum skipt um mjólk. Á sunnudeginum fékk hann svo háan hita eins og ég var búin að segja frá og niðurgangurinn fór aftur að láta á sér kræla og var aftur orðinn blóðugur. Á miðvikudaginn í síðustu viku var okkur svo hætt að lítast á blikuna því við komum litlu sem engu af mat eða drykk ofan í hann, hann var orðinn fölur, með bauga undir augunum og mjög slappur og farinn að sýna merki um ofþornun. Við ákváðum því að fara með hann á sænsku læknastöðina (Swedish clinic) sem rekin er af sænska sendiráðinu. Þar er norskur læknir sem heitir Arne Bredvei, sem skoðaði hann. Það varu teknar blóðprufur, þvagprufa og strep- test (streptokokka) en allt virtist eðlilegt. Að sjálfsögðu kúkaði hann ekkert hjá lækninum en það varð að skoða hvað olli niðurganginum og blóðinu í hægðunum. Morguninn eftir fórum við Dagbjartur Elí með kúkableyju til læknisins og þeir voru ekki lengi að átta sig á að hann var með svokallaðar amöbur sem eru snýkjudýr og ekki óalgengt að fólk fái hér. Þetta smitast helst í gegnum vatn og mat en getur líka komið af óhreinum höndum. Fullorðið fólk og eldir börni geta fengið þetta án þess að verða mjög veik og líklega hefur fólk líka mismunandi þol en svona lítið barn þolir auðvvitað ekki mikið. Hann var búinn að léttast um 300 g á einni viku sem er mjög mikið fyrir lítinn kall sem var bara 7,9 kg. fyrir.Amöburnar éta blóðflögur og skýrir það blóðið í hægðunum. Hann var strax settur á lyf og nú er hann á hægum batavgi. Hann er enn með niðurgang o þangað til í gaær höfum við ekki komið nema 300- 400 ml. af vökva í hann á sólarhing. Í gær ogí dag hinsvegar hefur gengið betur að fá hann til að borða og drekka og hann er líka farinn að verða líkari sjálfum sér. Alla síðustu viku var hann bara á handleggnum á mér, svaf lítið og vildi ekki leika sér. Núna er hann farinn að una sér betur á gólfinu við að leika sér svo þetta lítur allt betur út.
Við vitum að margir hafa beðið fyrir Davíð Ómari og okkur og þökkum kærlega fyrir það. Þið megið gjarnan muna eftir honum áfram, að hann nái sér alveg og braggist.
Þetta hefur allt að sjálfsögðu tekið á og verið lýjandi en við erum örugg í hendi Guðs og finnum að við erum borin á bænarörmum. Nú er regntíminn líka búinn og þvílíkur munur! Það hafa ekki altaf verið svona skörp skil. Á miðvikudaginn rigndi þessi ósköp svo að áin flæddi yfir bakka sína en á fimmtudaginn var allt í einu loftið skrufþurrt og vindurinn farinn að blása OOOG sólin að skína!!! Sem er skýrt merki um að nú er kominn þurrkatími. Það getur auðvitað alveg rignt pínulítið inn á milli, en það er líka bara allt í lagi. Næturnar eru reyndar kaldar en það er þurrt og á daginn er heitt sem munar öllu. Nú þornar þvotturinn á engri stundu og meira að segja heitt í húsinu yfir daginn.
En nú er lítill maður farinn að kvarta svo ég læt þetta duga í bili....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2007 | 17:19
Í hendi Guðs
- 1. október
Nei nú er nóg komið af leti- eða andleysi öllu heldur. Mér fanns allt í einu eins og ég væri alltaf að tala um það sama en kanski er það nú bara ekkert svo ómerkilegt, allvega ekki það sem snýr að börnunum og þroska þeirra og ég veit líka að ættingjarnir vilja heyra meira svo þá er bara að koma sér af stað.
Svo ég byrji nú á að rapportera um heilsuna þá er ég loksins orðin góð af kvefinu og meira að segja farin að geta sungið nokkuð almennilega! Þakka ykkur fyrir að biðja fyrir mér! En það eru ekki alveg allir jafnfrískir því litli Trítillinn er ekki alveg búinn að vera nógu hress að undanförnu. Fyrir viku síðan fór hann að fá alveg skelfilegan niðurgang með blæðingum svo okkur leist nú ekki á blikuna. Þrátt fyrir það var hann alveg hress og líkur sjálfum sér en þetta leit ekki vel út. Okkur grunar helst, eftir að hafa lesið í sænsku barnalæknabókinni (Barnläkarbok ) sem Hilli og Sólveig gáfu okkur, að hann sé bara hreinlega með kúamjólkurofnæmi. Það var basl með magann á honum fyrstu þrjá mánuðina, hann var óvær og þyngdist illa. Svo þegar við komum til Íslands og hann fékk soyamjólk breyttist allt. Hann fór að sofa vel og þyngdist loksins almennilega. Nú er hann aftur fallinn dáldið mikið í kúrfu og svo kemur þetta. Við vissum að við áttum von á pakka frá mömmu og pabba með soyamjólk sem við fengum svo á fimmtudaginn og á laugardaginn var hann strax orðinn betri. Það fæst engin ungbarna soyamjólk hér en við ætlum að reyna að panta mjólk hjá þýskum kristniboðssamtökum sem selja soyamjólk á basar sem er hér einu sinni í mánuði. Mamma og pabbi eru líka búin að senda fleiri dósir. Þið megið gjarnan biðja fyrir þessu því þetta er dáldið mál og við vitum ekki hversu öruggt það er að við fáum soyjamjólk hér reglulega. Hann er enn svo lítill að mjólkin er uppistaðan í fæðunni hjá honum en þetta verður auðvitað auðveldara þegar hann eldist og getur farið að borða fjölbreyttari fæðu. En þar með er nú ekki öllu lokið því greyið litla er endalaust kvefaður og gær fékk hann háan hita. Í morgun var hitinn nú eitthvað lægri en hann hefur litla matarlyst og bara sefur og sefur. Þrátt fyrir slappleikann er nú alltaf stutt í brosið og hann spjallar og hlær. Þið megið gjarnan biðja fyrir honum að hann megi braggast og verða frískur aftur.
Jóel heldur áfram á dýraveiðum og var kominn með fimm froska sem höfðu fengið nöfnin Nebbi, Stebbi, Hanna, Anna og Kalli (það skal tekið fram að nafngiftirnar eru alfarið hans hugmyndir) En í morgun var ekki mjög góð lyktin í bílskúrnum þar sem allir froskarnir nema Nebbi voru dánir (ég veit ekki alveg hvernig hann þekkir þá í sundur en...) Nú er búið að búa til nýja tjörn handa Nebba og Jóel er í gríð og erg að veiða skordýr og flugur honum til matar. Hann er búinn að eignast nýja vini sem eru nokkrir litlir strákar frá Gambela sem er svæði í vestur Eþíópíu. Foreldrar þeirra eru við nám hér. Þeir tala reyndar ekki mikla amharísku en börn finna einhvernvegin alltaf einhverja leið til tjáskipta. Þeir eru duglegir að hjálpa Jóel við froskaveiðarnar og og komu m.a. með fulla fötu af halakörtum handa honum! Fyrir utan dýrastúss er drengurinn farinn að stauta sig í lestri og er mjög stoltur. " Ég er með miklu erfiðari lestrar bók en þú, Dagbjartur Elí" segir hann við litla bróður sem er bara alveg hæstánægður með myndlestrarbókina sína!
Dagbjartur Elí er svona smátt og smátt að ná áttum aftur eftir allt rótið í sumar. Hann þarf mikinn tíma með mömmu og er mjög sáttur og ánægður ef hann fær að vera eins mikið með mömmu og hann vill þannig að ég er fegin að vera ekki bundin í vinnu. Nú er Davíð Ómar líka orðinn það stór að Asnakú tekur hann stundum svo ég geti verið aðeins með Dagbjarti Elí. Hann er líka farinn að vera duglegur að pissa og kúka í klósettið aftur en er enn með öryggisbleyju á nóttunni. Við settum upp límmiðakerfi þar sem hann fær límmiða í hvert skipti sem hann fer á klósettið og svo fær hann smá verðlaun þegar hann hefur safnað 10 límmiðum. Þetta virkaði mjög vel á hann. Hann var farinn að pissa viljandi í buxurnar til að vekja á sér athygli en nú er allt að komast á rétt ról.
Margrét Helga er alltaf jafnánægð í skólanum og er orðin mjög dugleg að lesa. Hún er komin á það stig að lesa á öll skilti og allar pakkningar sem er nú ekki altaf einfallt því það er nú ekki mikið af því á íslensku. Hún var nú farin að óþekktast eitthvað við frænku sína í skólanum en svo ákváðum við að breyta aðeisn til og hvíla hana á skriftinni svo nú gengur allt miklu betur. Hún er að búa til bókaorm í stofunni sem lengist við hverja blaðsíðu sem hún les.
- 2. Okt
Davíð Ómar er aðeins hressari í dag en í gær. Hann var með 40 stiga hita í gær og mjög slappur. Hann hresstist samt aðeins þegar ég fékk hann til að drekka. Hann hefur ekki verið alveg hitalaus í dag en með mun lægri hita, var 38,5 þegar ég mældi hann seinni partinn. Hann er líka mun sprækari og og leikur sér í smá tíma þótt hann vilji nú helst vera í mömmufangi. Hann er samt ekki með mikla matarlyst og það þarf að pata ofan í hann mat og jafnvel pelann drekkur hann takmarkað. Vonandi að það fari að lagast því hann má varla við þessu. Ég verð alltaf svo stressuð þegar börnin fá svona háan hita og sérstaklega hér úti þar sem allskonar sjúkdómar eru til staðar sem afnvel þekkjast ekki heima. Sem betur er er þetta þó yfirleitt bara venjulegt kvef, flensa eða magapest sem um ræðir en maður er alltaf meira á varðbergi hér. Þótt við höfum kanski ekki sama aðgang að sjúkrahúsþjónustu hér og heima er þó aðstaðan, sérstaklega hér í Addis nokkuð góð. Hér er Kóreanskt sjúkrahús sem er talið nokkuð gott og svo sænskur klínikk sem kristniboðið notar ef um neyðartilvik er að ræða. Þar er norskur læknir og allar græjur og helstu lyf. Svo treystum við auðvitað og trúum því að við erum í Guðs hendi og hann verndar okkur og varðveitir. Í gærkvöld dró ég vers úr mannakornunum sem var mér mikil huggun, það er úr Jósúabók 1. kafla og 9.vers: "Hefi ég ekki boðið þér:Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur" Og á dagatalinu okkar fyrir daginn í dag standa þessi orð úr sálmi 23: "Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína" og svo þessar ljóðlínur eftir Matthías Jochumsson:
Í hendi Guðs er hver ein tíð,
Í hendi Guðs er allt vort stríð,
Hið minnsta happ, hið mesta fár,
Hið mikla djúp, hið litla tár
Oft finnst mér eins og Guð noti erfileikana til að minna mig á að ég er í Hans hendi. Við erum hér úti vegna þess að við trúum því að Hann hafi kallað okkur til þess að starfa hér og treystum því að hann leiði okkur hvert skref og jafnframt verndi okkur og börnin okkar. Við vitum líka að það eru margir sem biðja fyrir okkur á hverjum degi og erum óendanlega þakklát fyrir það því án fyrirbæna, án kristniboðsvina og ekki síst án Drottins gætum við ekki verið hér og starfað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Lífið í Eþíópíu
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar