Gleðilegt nýtt ár!

Já hér er nýjársdagur í dag, árið 2001 gengið í garð! og hér kemur svo önnur langloka fyrir áhugasama.

28.ágúst - 10. sept.

 

28.ágúst

Davíð Ómar er loks orðinn frískur. Hann kastaði upp í fimm daga og fékk svo einn dag með niðurgang. Hann er samt enn ekki kominn með neitt sérlega góða matarlyst sem er ekki alveg nógu gott því hann má varla við þessu. Ég þarf að fara með hann á sænsku klíkina í næstu viku því Arne læknir vildi fá að fylgjast með honum, sjá hvort hann sé ekki að stækka eitthvað og þyngjast eðlilega.

Krakkarnir byrjuðu í skólanum á þriðjudaginn og eru alsæl. Það eru langir skóladagar og í næstu viku bætist svo við heimavinna þannig að þetta er heilmikið. Sigga var með Jóel  þar til í dag. Hún ætlaði reyndar með honum en fékk eitthvað heiftarlegt í magann. Vonandi að hún nái sér fljótt. Jóel gekk bara vel að vera einn. Juho sem er finskur er í hans bekk og Saara sem er finski kennarinn hans fylgir honum. Hún talar góða sænsku svo hún gat aðeins aðstoðað Jóel þar sem hann skilur sænskuna vel líka.Hann skilur auðvitað ekki enn öll fyrirmæli en reynir að herma eftir hinum. Hann reynir líka stundum að fá Siggu til að gera hlutina fyrir sig en nú verður hann að sjá um þetta sjálfur, skóladrengurinn. Hann getur stundum dottið í sinn eigin hugarheim en er annars frekar duglegur að læra og fljótur að ná hlutunum. Hann er orðinn nokkuð góður í að lesa á íslensku og er líka að átta sig á enskunni.

Margrét Helga sat til að byrja með með norsku stelpunum en svo fundum við út að það truflaði hana að heyra þeirra túlk tala norsku svo ég bað kennarann hennar að færa hana. Nú situr hún bara með bandarísk/ eþíópsku stelpunum og það gengur mun betur. Hún einbeitir sér bara að enskunni í skólanum og svo talar hún norsku þegar hún kemur hingað og leikur með norsku krökkunum.

Ég er búin að vera sl. Þrjá daga á ráðstefnu fyrir heimaskólaforeldra. Það var mjög fínt og gagnlegt að heyra frá reynslu þeirra sem hafa verið lengi með heimaskóla. Í Bandaríkjunum og eins Ástralíu og Nýja- sjálandi er ekki óalgengt að fólk kenni börnum sínum heima. Í Bandaríkjunum er til ógrynni af námskrám og námsefni sem hægt er að velja um. Flestar mæðranna þarna blanda saman námskrám eftir því hvað hentar þeirra börnum best í hvaða fagi og flestar eru að nota námskrár og námsefni sem samið er af kristniboðum fyrir kristniboða. Ég er eignlega að setja saman mína eigin námsskrá þar sem ég tek mið bæði af íslensku aðalnámskránni og cambridge námskránni sem notuð er á Bingham. Cambridge er alþjóðleg námskrá sem er með mjög háan standard en er góð vegna þess að flestir krakkarnir sem útskrifast úr þessu kerfi komast án vandræða inn í hvaða háskóla sem er bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Þau eru langt á undan í stærðfræði og móðurmáli. Til að Margrét Helga og Jóel geti verið á sama stað í íslensku td. og hin eru í ensku, verð ég að nota alveg upp í 7. bekkjar námsefni og bara sníða það að þeirra þroska og skilningi. Sama má segja um stærðfræðina. Þetta er heilmikið púsluspil og mikil vinna þótt þetta séu bara tveir nemendur í 1. Og 2. bekk! En mér finnst þetta mjög gaman og spennandi og ótrúlega gaman að sjá hvernig þau læra tungumálin. Margrét Helga er orðin ótrúlega sleip í að lesa á ensku og getur jafnvel lesið rétt orð sem hún ekki skilur því hún er búin að átta sig á framburðinum. Hún situr og les fyrir Jóel sem er mjög gott því þá lærir hann líka. Ég hef fengið fullt af góðum lestrar bókum á Bingham bæði frá bókasafninu og heimaskólaherberginu.

Ég er allavega mjög ánægð með þennan skóla. Það er líka bara svo gott andrúmsloft þarna og kennararnir eru þarna allir af köllun og leggja hjartað í starfið. Það eru öll minstu smáatriði löggð í Guðs hendur og kennararnir sinna svo sannarlega kristniboðsstarfi meðal barnanna, á svo eðlilegan hátt. Trúin er einhvernvegin svo eðlilegur hluti af daglega lífinu í skólanum.

Asnakú er ekki enn búin að fá vinnu svo ég bauð henni að vinna hjá okkur núna meðan við erum hér. Dagbjartur Elí er svo glaður og kátur að fá Asnakú og Davíð Ómar líka. Við fórum í mat til Fantanesh á sunnudaginn eftir úrslitaleikinn í handbolta sem við horfðum á á Hilton hótelinu. Hún kom okkur sko aldeilis á óvart. Þegar við komum inn í stofuna blasti fyrst við okkur þetta fína sófasett og svo heilsaði okkur afskaplega hægverskur maður sem sat í horni stofunnar. Það var svo sem ekkert óvenjulegt því það er oft eitthvað fólk í heimsókn hjá henni. Fantanesh sem er alltaf eitthvað að fíflast sagði fyrst að þetta væri pabbi hennar en ég vissi nú að það var ekki rétt. Svo kom í ljós að þetta er heitmaður hennar! Ég hélt lengi vel að hún væri bara að grínast því hún er alltaf eitthvað að fíflast með þetta með mann og segist vilja giftast gömlum ríkum karli sem er við dauðans dyr svo hún fái góðan arf! En þetta var ss. hann Berhanu sem hún er trúlofuð og það er fyrir víst þar sem hún sagði okkur þetta því svona er allt mikið leyndarmál þar til fólk hefur ákveðið að gifta sig. Þau eru ekki enn formlega gift en það er víst bráðum en Fantanesh var eitthvað smeyk við þetta allt því allir ætlast til að það verði haldið almennilegt eþíópskt brúðkaup en það er nú aldeilis ekki ókeypis. Ég held líka að þau langi til þess þannig að ef einhvern langar að gefa henni smá brúðargjöf má leggja inn á reikninginn okkar. En okkur leist allvega vel á manninn og erum mjög glöð hennar vegna. Hún er enn ekki komin með vinnu en við lítum á þetta sem bænasvar þar sem hann Berhanu er með vinnu svo nú er hún ekki alveg ein á báti.

Kristján er núna kominn til Woito. Mér fannst eitthvað voðalega erfitt að hann væri að fara. Þetta er eitthvað svo langt í burtu. En við verðum nú í símasambandi og svo reynir hann að koma til baka eftir kanski 10 daga. Jóel er alltaf voðalega ómögulegur þegar pabbi fer og það má helst ekki tala um það því þá bara fer hann að gráta. En svona er þetta, Kristján getur ekki verið svona lengi í burtu frá starfinu í hvert skipi sem við komum í skólann. Í næstu umferð verðum við svo níu vikur í Woito og erum svo eiginlega búin að ákveða að vera aftur í þrjár vikur hér í Addis þar sem það er eiginlega nauðsylegt fyrir krakkana til að komast betur inn í tungumálið og allt saman á Bingham.

 

Gullkorn:

Sigga var að túlka fyrir Jóel sögu sem kennarinn var að les um lítinn ljónsunga sem var dálítið einmana því hann kunni ekki allt eins og hin dýrabörnin, hann kunni td ekki að lesa og skrifa eins og þau og fannst hann svo mikið öðru vísi. Svo spurði hún krakkana og Sigga túlkaði fyrir Jóel, hvort þeim hefði einhverntíman liðið þannig, Nei það hafði Jóel aldrei upplifað. Svo spurði hún ef þeim liði þannig hver er það þá sem er alltaf hjá þér. Þá svaraði Stubbur:" Margrét Helga!" "En á nóttunni ef þú verður kanski eitthvað leiður eða hræddur" "Margrét Helga er alltaf hjá mér" Svo spurði hún hvort honum findist leiðinlegt ef aðrir í kringum hann kynnu eitthvað sem hann kynni ekki td. Þegar Margrét Helga kunni að lesa en ekki hann:" Nei því þá getur hún kennt mér"! Svo héldu þau áfram að tala um þetta hver væri alltaf hjá manni, líka þegar Margrét Helga væri ekki og Sigga benti með fingrinum upp í loft þá kom loksin: "Já, Jesús!" Hún er ekkert smá STÓR þessi stóra systir og þau eru líka bestu vinir. Hann er líka alltaf svo jákvæður.

Ég hafði beðið norsk vinahjón okkar að kaupa fyrir mig eina söngbók í Noregi sem var dýrari en ég hélt því norska krónan er svo sterk miðað við birrið og ég hafði ekki gert mér grein fyrir því., Jóel heyrði eitthvað að ég var að tala um þetta og sagði strax:"Mamma ég á fullt af peningum í Woito sem þú getur fengið!" hann er svo mikið krútt, þetta eru nokkur birr sem hann á og einhver sent, Þau eru að safna sér systkinin fyrir að komast í sumarbúðir (einhver áhrif úr myndinni Regínu!)

Sigga og Margrét Helga sátu í skólabílnum á leiðinni heim og þá segir Margrét Helga allt í einu: "Ég er sko búin að sjá alla kúluna!" Sigga skildi ekki alveg hvað hún átti við með kúluna."Bara alla kúluna, ég er búin að fara til Noregs og Svíþjóðar og Íslands og London og Eþíópíu" Ekkert smá veraldarvön skvísa!

En nú er komin háttatími. Minsti maðurinn er yfirleitt vaknaður ekki seinna en sex, það er svo mikið að gera hjá honum! Mætti halda að hann ætti eigi að vera mættur einhversstaðar á morgnana! Svo það er eins gott að koma sér í rúmið! Ég kúri með alla krakkana hjá mér, þ.e. í sama herbergi. Þau komast ekk öll fyrir uppí. Ég geri það alltaf þegar Kristján, er í burtu, mér líður einhvernvegin betur með það. Algjör hönemor eins og Norðmennirnir segja! En það er líka bara allt í lagi. Börnin mín eru það dýrmætasta sem ég á!

  • 1. September

Jóelínus  sex ára á morgun! Hann er svo duglegur. Sigga er enn svo slöpp að hún hefur ekkert getað farið með honum í skólann og Asnakú getur ekki komið fyrr en kl. 9 á morgnana og ég hef í ýmsu öðru að snúast á meðan við erum hér í Addis svo hann hefur bara verið í einn í skólanum og plumar sig vel. Ég held hann skilji helling þótt hann skilji auðvitað ekki allt. Hann kemur dauðþreyttur en alsæll heim úr skólanum. Þau eru oft ekki komin heim fyrr en að verða hálffimm og í dag var klukkan orðin meira en hálffimm og svo er heimavinnan eftir þannig að þetta er hellings vinna. Margrét Helga fór ekkert í skólann í dag því hún kastaði upp í gær og var óttalega slöpp í dag. Ég ætla að hafa hana heima í morgun líka en ég vona nú að hún komist í skólann á miðvikudaginn. Verst að við ætluðum út að borða á morgun efir skólann í tilefni dagsins en ég samdi við Jóel um að ég sæki hann í skólann og svo förum við og kaupum eitthvað gott að borða og tökum með  heim. Hann fær líka að taka með sér smá gotterí og svona til að halda upp á daginn með bekknum sínum

Ég fór og lét vikta Davíð Ómar í morgun og mæla lengdina. Hann er ósköp smár litli trítillinn minn og var búinn að léttast um hálft kíló frá því hann var viktaður síðast um miðjan júní. Það er kanski ekki skrítið þar sem hann kastaði upp í fimm sólarhringa og fékk svo niðurgang og er enn ekki kominn með almennilega matarlist. Hann er ekki nema 10 kg og 75 cm. Ég hrindi í Arne Bredvei lækni á sænsku klínikinni sem sagði að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af þar sem hann hefði eitthvað lengst og það er búið að taka blóðprufur sem ekkert sýndu óeðlilegt. Hann samsvarar sér alveg en er mjög lítill miðað við aldur og undir normalkúrvunni en hann þroskast alveg eðlilega. Við verðum bara að fylgjast með honum og vikta og lengdarmæla hann reglulega. Hann er svo mikill grallaraspói, alltaf hlæjandi og kemur manni í gott skap með smitandi hlátri sínum. Hann klifrar upp um allt og allsstaðar og elskar að vera úti að leika. Hann talar líka svo mikið bæði íslensku og amharísku og meira að segja smá norsku líka núna. Hann hermir eftir öllu sem hann heyrir og er fljótur að tileinka sér ný orð. Honum finnst rosa gaman að sitja hjá vörðunum hér við hliðið og horfa á bílana og spjallar við þá á amharískunni sinni.

Davíð Ómar vaknar af og til á nóttunni svangur því það er misauðvelt að koma oní hann mat á daginn, maður verður að reyna að gefa honum oft að borða því hann borðar lítið í einu. Í nótt vaknaði hann svangur svo ég gaf honum banana og mjólk og svo hélt ég að hann væri tilbúinn að fara að sofa. En þegar hann var alveg að sofna rumskaði Margrét Helga og hélt hún þyrfti að gubba. Það gekk nú yfir en allt í einu heyrðist ámátlega úr rimlarúminu:"bubba, bubba" svo ég hélt kanski að Davíð Ómar þyrfti líka að gubba. Ég lét hann fá dollu og hann beygði sig yfir hana og þóttist gubba. Svo vildi hann bara ekkert fara að sofa og hélt áfram að tala um að hann þyrfti að "bubba". Svo loksins þegar ég tók hann upp í til mín sofnaði hann með bros á vör!

Í morgun þegar ég fór með hann upp í heilsugæsluherbergið þóttist hann líka vera að gubba. Þar er dáldið af leikföngum og m.a. svona bollar til að byggja turn úr. Hann tók einn bollann og beygði sig yfir hann og sagði:"bubba" og þóttist vera að gubba! Aumingja barnið, eins og hálfs árs er hann svo oft búinn að kasta upp að þetta er orðinn hluti af leiknum líka!

Kristán er enn í Woito og við söknum hans voðalega. Við reynum að hringjast á á hverjum degi en það er ekki alltaf jafnauðvelt að ná sambandi. Sérstaklega Jóel er voða viðkvæmur og stutt í tárin ef minnst er á pabba. En hann ætlar að reyna að koma eins fljótt og hann getur til baka hingað. Við verðum hér uþb tvær vikur í viðbót. Hér rignir eldi og brennisteini en í Woito er allt skrjáf þurrt. Skrítið að hugsa til þess að þetta sé sama landið.

3.sept

Ég varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu í gær að vera rænd um hábjartan dag á sæmilega fjölfarinni götu. Ég var að koma úr búð og var með Dagbjart Elí með mér svo ég leiddi hann öðrum megin og hélt svo á veskinu og pokunum með því sem ég hafði verið að kaupa í hinni. Ég var alveg grunlaus og gekk niður götuna og var alveg að koma að norsku lóðinni. Þá gengu fyrir framan okkur tveir unglingsstrákar, löturhægt og af því að það var talsvert af bílum á götunni og engin gangstétt, bað ég þá um að fá að komast framhjá þeim. Allt í einu finn ég að annar þeirra tekur um hálsinn á mér og slítur af mér gullhálsmen sem ég var með um hálsinn. Þetta var hálsmen með nafninu mínu á fídelum sem ég keypti hér úti fyrir 13 árum og kostaði á sínum tíma 1000 birr (um 9000 ísl) en er núna líklega milli 2 og 3 þúsund birra virði. Ég öskraði eins hátt og ég gat "leba, leba" (þjófur, þjófur) því það hafði mér verið sagt að ég ætti að gera ef eitthvað svona kæmi fyrir því þá myndi fólk hjálpa manni. En það hjálpaði mér enginn. Nokkrir stoppuðu og störðu bara en enginn gerði neitt og ég gat auðvitað ekkert gert með barnið með mér. Það fyrsta sem ég hugsaði samt var að ég var glöð að ég var ekki með krossinn sem amma gaf mér í fermingargjöf sem hún sjálf fékk þegar hún fermdist því hann hefur meira tilfinningalegt gildi fyrir mig og ekki hægt að kaupa nýjan. Ég er yfirleitt annað hvort með hann eða þetta hálsmen. Ég hélt einhvernvegin að maður væri öruggur hér, en mér skilst að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist einmitt á þessum stað sem ég var. Það hafði ég aldrei heyrt. Úti á Mekanissa,þar sem við bjuggum í þrjú ár, hef ég aldrei heyrt um neitt svona og alltaf gengið um róleg en núna erum við auðvitað í miðbænum. Ég er hinsvegar alltaf mjög varkár á Piaza og Merkato og svoleiðis stöðum þar sem svonalagað er alltaf að gerast. Ég tilkynnti þetta á hverfislögreglustöðinni en efast einhvernvegin um að þeir nái þessu aftur en þó veit maður aldrei. Ég lýsti þjófunum fyrir þeim og þeir fóru strax nokkrir að leita en það verður bara að koma í ljós. Ég kem a.m.k. aldrei framar til með að fara svona með krakkana og helst ekki ein og þá allavega alls ekki með nein stór verðmæti á mér. Ato Hailo sem vinnur hér á skrifstofunni sagði að þeir væru marg búnir að kvarta undan lélegri löggæslu og Solomon yfir vörðurinn á lóðinni hér sem fór með mér á löggustöðina var mjög reiður og spurði þá hvar þeir hefðu eiginlega verið.  Þeir eiga að ganga um hverfið og fylgjast með en ég var búin að labba stóran hring um hverfið og sá ekki einn lögregluþjón.

En að öðru og skemmtilegra. Jóel varð sex ára í gær og vaknaði klukkan hálfsex þannig að það náðist ekki að vekja hann með söng. Margrét Helga hafði verið heima á mánudaginn með uppköst og var líka slöpp í gær og steinsvaf  en vaknaði þó áður en Jóel fór í skólann og náði að gefa honum pakkann sinn. Hann fékk voða flottan 66°N jakka frá Sverri afa og Helenu og bumbuveski frá ömmu og afa á Karló sem hann fékk að fara með í skólann. Svo fékk hann legó og tölvuleik, risaeðlur úr plasti og ýmislegt annað skemmtilegt. Ég var búin að lofa honum að sækja hann í skólann og fara svo út að borða og af því að Margrét Helga var farin að hressast gerðum við það. Asnakú og Sigga komu með okkur og við fórum á Family resturant sem er uppáhaldsstaðurinn hans af því þar fær maður að teikna! Hann er líka duglegur að spjalla við þjónana þar og þeir eru farnir að kannast við þennan litla ljóshærða snáða sem talar reiprennandi amharísku. Jóel lék á alls oddi og dansaði við tónlistina á veitngastaðnum og var alsæll með daginn. Svo í morgun þegar hann vaknaði var hann eitthvað að kvarta um í maganum en mér fannst hann nú ekkert voðalega laslegur svo allt í einu gleymdi hann sér og sagði:" Mig langar svo að kubba- ég meina mér er svo illt í maganum" Við þurftum aðeins að spjalla um að maður ætti ekki að venja sig á að gera sér upp veikindi til að sleppa við að fara í skólann. Honum finnst alveg svakalega gaman í skólanum en þegar maður er búinn að fá svona margt skemmtilegt getur maður alveg hugsað sér að vera frekar heima. Hann fékk líka að taka smá gott með sér í skólann og hélt upp á afmælið í bekknum. Svo á laugardaginn verður allsherjar veilsa hér fyrir bæði Margréti Helgu og Jóel. Ég ætlaði fyrst að stinga upp á að þau hefðu sinhvora veisluna, eitt strákaafmæli og svo stelpu afmæli en það var nú ekki til að tala um. Þau hafa alltaf haft sameiginlega afmælisveislu og svo skildi það líka vera núna! Svo það verða strákarnir úr Jóels bekk og stelpurnar úr Margrétar Helgu bekk og svo norsku krakkarnir. Þau vildu helst bæði bjóða öllum bekknum sínum en ég legg ekki alveg í 50 barna veislu!

10. september

Kristján kom til baka í fyrradag. Það var nú gott að fá hann aftur. Nú á bara pabbi að gera allt svo það léttir aðeins á mér. Davíð Ómar var svo glaðaur að sjá pabba aftur. Hann vildi ekki fara að sofa kvöldið sem hann koma og vildi bara vera í fanginu á honum. Þegar Kristján fór út í bíl að ná í töskuna sína flýtti sá stutti sér í stígvélin og stóð við dyrnar og hrópaði:" babbí, babbí!" Hann var svo hræddur um að pabbi myndi fara aftur. En nú er hann orðin sannfærður um að pabbi er hérna hjá okkur.

Það var svaka afmælisveisla hér á laugardagin. Fantanesh og Asnakú komu báðar til að hjálpa mér og svo var Sigga líka með mér. Það var pöntuð pizza og svo var ég búin að baka afmælisköku og svo gerði Fantanesh vöfflur því ég átti svo mikið af gamalli mjólk. Svo vorum við með leikjaprógramm í kapellunni sem þjónar líka hlutverki íþróttahúss hér á lóðinni. Það varð auðvitað allt fara bæði fram á ensku og norsku svo allir krakkarnir myndu skilja. Margrét Helga og Jóel voru mjög ánægð með daginn.

Við áætlum að fara aftur til Woito á mánudaginn en við erum ekki alveg búin að ákveða hvort við keyrum á einum eða tveimur dögum. Nú þarf bara að versla og ganga frá áður en við förum. Það er frí í skólanum hjá krökkunum á morgun því það er eþíópskur nýjársdagur. Á morgun gengur árið 2001 í garð hér.

Ég reyni að láta í mér heyra áður en við förum en þangað til: Guðs veri með ykkur!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að fá fréttir!
En til hamingju með Margréti Helgu og Jóel !
bið að heilsa
bestu kv.
Kristín Helga

Kristín Helga (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband