Ísskápslaus í 42° hita

Jæja kominn tími á smá fréttir eða hvað???

Við áttum frábært jólafrí í Awasa og náðum að slappa vel af og safna kröftum. Þetta var orðið löngu þarft frí. Það var heilmikil breyting að flytja frá Addis til Voító og magt sem maður þarf að aðlagast og átta sig á. Það er ekki bara alltaf einfalt að búa þarna þótt okkur líði vel og finnist við vera á rétum stað. Við gerðum svosem mest lítið í jólafríinu annað en að slappa af, vera í sundi og sólbaði og borða góðan mat. Bara svona eins og alvöru frí á að vera ekki satt? Á aðfangadag var guðsþjónusta í salnum á ferieplassen þar sem ég og Margrét Helga og Jóel sungum og ég spilaði bæði á flautu og píanó. Svo var hamborgarhryggur í matinn með öllu tilheyrandi. Krakkarnir fengu fullt af pökkum og við reyndar líka. Við höldum Þórsgötuhefðinni að syngja saman jólasálma eftir matinn áður en pakkarnir eru opnaðir. Það getur verið erfitt fyrir lítið fólk að bíða en þeim finnst nú líka gaman að syngja og við vorum búin að æfa jólasálmana alla aðventuna.  Á jóladag var svo hangikjötið á boðstólum. Það er nú lítið um jólaboð hjá okkur hér úti. Það er margt gott við jólin hér úti en þetta er samt alltaf sá tími sem við söknum fjölskyldu og vina heima hvað mest. Mér finnst ekkert auðveldara með hverju árinu sem líður. En það kemur nú að því ef Guð lofar að við fáum að halda jól með fjölskyldunni. Á gamlársdag var töfrasýning í salnum í Awasa. Það var danskur strákur sem hefur lært gospel magic sem var með sýningu fyrir krakkana og við fullorðnu höfðum líka gaman af. Allir krakkarnir fengu svona fígúrublöðrur.  Kristján keypti nokkur blys og eina rakettu og stjörnuljós svo við gætum sprengt gamla árið. Eins og sum ykkar vita eru ekki áramót hér á sama tíma og hjá okkur þar sem Eþíópía fylgir ekki sama tímatali.

4.Janúar héldum við svo til baka til Voító. Þar tók á móti okkur ónýtur ísskápur og 42 ° hiti! Ekki alveg það skemmtilegasta en gekk nú betur en það kanski hljómar en þetta var frekar sveitt verð ég að segja! Aldrei þessu vant höfðum við keypt slatta af kjöti, osti, smjöri og fleiri kælivörum. Ég bakaði ostabollur og ýmislegt fleira til að reyna að bjarga ostinum en restina, kjötið og smjörið urðum við bara að gefa. Þetta var all frosið þegar við komum með það en þegar hitinn er yfir 40°gráðum á daginn og fer ekki undir 32°á nóttunni geymist svona ekki lengi eins og þið getið ímyndað ykkur! Nágrannarnir urðu að vonum glaðir á fá kjöt í jólamatinn, því þetta var einmitt á eþíópsku jólunum. Eftir 10 ísskápslausa daga fórum við í skreppitúr til Jinka til að kæla okkur aðeins niður. Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum þangað vara að setjast  niður á veitingahúsi og fá okkur kalda kók og ambó (náttúrlegt ölkelduvatn). Það var dásamlegt! Við vorum tvær nætur í Jinka þar sem loftið er talsvert kaldara en í Voító og ísskáparnir virka! Þar hittum við Björgu Jónsdóttur læknanema og Auði vinkonu hennar sem voru verknámi á sjúkrahúsinu undir leiðsögn Sverris Ólafssonar (sonar Jóhannesar Ólafssonar, kristniboða til margra ára hér í Eþíópíu), sem er nokkra mánuði núna að starfa á sjúkrahúsinu í Jinka. Allt í einu voru því Íslendingar orðnir í meirihluta á kristniboðslóðinni í Jinka, eitthvað sem ekki gerist á hverjum degi. Það er alltaf gaman að hitta Íslendinga og spjalla við fólk á ástkæra, ilhýra.Björg og Auður komu svo með okkur til Voito og fengu að fara með í bólusetningarferð og fylgjast með á sjúkraskýlinu hér meðal annars. Svo kom enn einn Íslendingurinn hingað í lok janúar, Árni Torfason atvinnuljósmyndari, sem er sambýlismaður Auðar og kom hann og tók mikið af góðum myndum. 

Í Jinka fengum við líka ráð frá fyrrum Voító kristniboða Mariann Espeland, um hvernig kæla má vatn ísskápslaus. Þegar við komum heim var bara öllum vatnsflöskum skellt í bala með vatni á gólfið og blautum taubleyjum vafið utan um. Þð er ótrúlegt hversu kalt vatnið verður við það þrátt fyrir lofthitann. Það er nefnilega það sem maður saknar mest, að fá ekki eitthvað kalt að drekka. Það er frekar óskemmtilegt að drekka 38° heitt vatn í svona hita, þá er skárra að drekka sjóðandi heitt te, ég segi það satt! Svo meiga ekki vera neinir matarafgangar eða opnar maioneskrukkur eða lifrakæfubox því það eyðileggst allt á einni nóttu! Við létum auðvitað yfirmanninn í Addis vita og það var farið á fullt að leita að gas eða kerosín ísskáp en niðurstaðan var sú að svoleiðis nokkuð er bara ekki til sölu neinsstaðar í Addis Abeba. En við létum okkur þetta ísskápsleysi hafa í þrjár vikur því þá var komið að því að við fæum á kristniboðaráðsstefnu í Awasa.

Að venju (fyrir utan eitt skipti) gistum við í tjaldi. Krakkarnir hafa sjaldan sofið betur. Okkur fannst reyndar dáldið kalt að koma til Awasa en vorum með ullarföt með okkur svo það var bara að klæða sig. Það var nú ekki kanski mjög kalt svona á íslenskan mælikvarða en komandi úr hitanum í Voító er kalt í Awasa! Við sátum á morgnana dúðuð í ull og flís og furðuðum okkur á hvernig við lifðum af í Skaftafelli fyrir tveimur árum þegar hitinn fór niður fyrir frostmark á nóttunni! (reyndar hélt ég í alvöru þá að ég myndi frjósa í hel!)

Ráðstefnan var ágæt, alltaf erfiðar og þreytandi svona fundarsetur finnst mér og ekki hjálpar að allt fer fram á ensku sem fólk er missleipt í og því oft erfitt að halda þræði í umræðum og öðru. Þetta er víst út af Finnunum sem eru reyndar ekki margir en skilja flestir litla sem enga norsku. Mér finnst þetta stór galli því þetta skerðir gæði umræðnanna mikið. Það voru mjög góðir biblíulestrar á morgnana sem voru í höndum Espen Ottesen sem er ritsjóri Utsyn sem er fréttablað NLM (sambærilegt Kritniboðsfréttum SÍK) Það var alveg frábært að hlusta á hann. Kvöldstundirnar voru líka góðar. Krakkarnir voru alsæl í öruggum höndum Fjellhaug nema. Þaðan kemur orðið hópurfrá biblíuskólanum á hverju ári og sér um barnaprógrammið. Dagbjartur Elí var reyndar með pínu vesen, vildi bara mömmu. Í fyrra var hann alveg á fullu með í barandagskránni en þá var líka Asnakú með. Núna vorum við ekki með neina baranpíu en við fengum Meseret sem var barnapía hjá Ann Kristin og Geir vinum okkar lánaða líka fyrir Davíð Ómar. Hún var barfóstra hjá þeim í Addis svo strákarnir þekkja hana og hún er mjög dugleg. Við vorum að vona að Asnakú kæmi þar sem húner að passa hjá annarri norskri fjölskyldu núna en húna gat ekki komið þar sem hún er byrjuð í kvöldskóla, kennaranámi, sem er bara frábært. En allvega þetta var bara fín ráðstefna og allir frískir. Svo fórum við beint þaðan til Addis þar sem við vorum í tvær vikur.

Krökkunum finnst alltaf mjög gaman að koma til Addis og fá að vera í skólanum. Magrét Helga og Jóel eru alveg ein og óstudd núna og gengur mjög vel. Þau reyndar fylgja ekki alveg alltaf öllu í öllum fögum og voru núna með smá áhyggjur af því að þau kunnu ekki fargmöldrun eða marfnöldrun eða hvað það nú heitir! Ég sagði þeim að þð væri nú bara allt í lagi, því kennararnir þeirra á Bingham vita alveg að við erum ekki að gera nákvæmlega það sama og þau í skólanum okkar í Voító þótt ég reyni eftir bestu getu að fara einhvern milliveg á mill íslensku náskránnar og þeirrar bresku sem þar er notuð. Ef þau eru eitthvað óörugg meiga þau alltaf taka upp íslensku bækurnar sínar og vinna í þeim i skólanum. Ég sagði líka að við gætum bara kíkt á marföldunina þegar við kæmum til Voító sem við höfum og gert og mér sýnist þau nú bara orðin nokkuð sleip í henni!

Dagbjartur Elí fór líka í KG1 á hverjum degi og ég ákvað að fara með hönum þar sem hann er búinn að vera svo óöruggur undanfarna mánuði vegna allra breytinganna sem orðið hafa á lífi hans. Ég var inni hjá honum alla fyrri vikuna en seinni vikuna var hann að mestu einn. Ég var bara með honum fyrta klukkutímann, þangað til búið var að lesa upp og svona, (honum finnst dáldið erfitt að láta lesa sig upp, aðeins of mikil athygli! Líkist kanski dáldið mömmu sinni eins og hún var sem barn) og svo fór ég bara í heimaskólaherbergið að vinna (undirbúa kennsluna í Voító) og sótti hann svo í  hádeginu þegar hann var búinn. Honum fannst alveg rosalega gaman og skemmtilegast af öllu að fá að velja bók með sér heim. Hann er algjör bókaomur.

Kristján fór til Voító strax á mánudeginum eftir að við komum frá Awasa. Hann var beðinn um að fara með bíl til ArbaMinch og koma til baka með annan og keyra í leiðinni gest frá Noregi, stúlku sem er í NLM menntaskóla sem styrkir heilsugæsluna hér í Gisma. Hann var því nokkra daga hér og kom svo aftur til baka á föstudeginum fárveikur. Þetta var nú bara einhver pest en ekki malaría eins og maður hefð kanski getað haldið. Ég var sjálf hálfslöpp alla vikuna og varð hálflasin á sunnudeginum eftir að hafa haldi afmælisveislu fyrir Dagbart Elí á laugardeginum. Hann átti afmæli í Awasa, 4. Febrúar og þar sem það var á miðri ráðstefnu var ekkert hægt að halda upp á það. Hann fékk því að hafa smá veislu í Addis og það átti að vera D- kaka með jarðaberjum! Hann er mjög upptekinn af því að núna er hann fjögurra ára og orðinn stór strákur.

Það fannst enginn nýr ísskápur en við tókum með okkur einn gamlan sem var sendur til Addis frá Ginnir. Við vorum nú ekkert allt of bjartsýn á að hann virkaði þegar við værum komin hingað en það mátti reyna. Hann virkar að því leiti að frystihólfið, sem er nú ekki stórt, virkar eins og ísskápur, ekki meira en það. Ísskápshlutinn er alveg ónýtur, enginn kuldi í honum. En nú höfum við allavega eitthvað kalt að drekka og við getum opnað lifrakæfudós og búið til túnfisksalat! Þetta er allt í lagi í bili en eitthvað verður að gera til að við fáum ísskáp. Málið er bara að kostar miljón íslenskar að flytja inn svona skáp!! En við sjáum hvað setur.

Við komum semsagt til Voító núna á þriðjudaginn í mesta hita sem við höfum upplifað hér til þessa. Hitinn hefur farið í 43°á hverjum degi og er oft 36- 37° inni þegar við förum að sofa! (Það þarf ekki að taka fram að við erum ekki með neina loftkælingu þar sem eina rafmagnið er lítill sólarpanell). Ef einhver er að velkjast í vafa þá er það skelfilega heitt svo vægt sé til orða tekið. Í dag kom reyndar smá vindur (sem ekki gerist oft hér í Gisma) og í kjölfarið rigning og smá kaldur vindur sem var bara himneskt!! Undan farna daga hefur vindgusturinn verið líkastur því að blásið sé á mann úr heitum hárblásara! Núna fór hitinn niður í 33° sem er reyndar ennþá heitt klukkan 9 að kvöldi en það munar um hverja gráðu þegar maður fer að sofa sérstaklega. Spurning hvernig verður að koma í kuldann á Fróni í sumar!! Ég hef reynt að hugsa ekki mikið um kalda svalandi sjávargoluna heima en verð að viðurkenna að í mesta hitanum sakna ég hennar þótt mér líði ekki sem verst í hitanum. 

Nokkur gullkorn:

Krakkarnir eru orðnir mjög spenntir að fara til Íslands í sumar og í skólabílnum voru þau gjarnan að plana hvað þau ætla að gera í sumar. Allt í einu heyrist í Dagbjarti Elí:“ Ég verð að fá vettlinga mamma, amma og afi verða örugglega búin að prjóna og sauma handa mér vettlinga. Svo ætla ég að sitja með vettlingana og horfa á Lilla“ (Brúðubílinn)

Margrét Helga spurð í miðjum Íslandsplanleggingum: „Mamma er ennþá svona ástand á Íslandi. Við lendum þá í miðju ástandinu.“  Það fer ekki fram hjá þeim kreppan á Íslandi þar sem þau heyra okkur tala um þetta og var það ástandið sem hún víðsaði til.

Á rástefnunni í Awasa stendur iðulega ísskápur með köldum drykkjum í salnum. Jóel kom eitt kvöldið og sagðist vera þyrstur svo ég gaf honum ambó úr umræddum ísskáp. Eftir að hafa fengið fyrsta sopann horfði hann dreymandi augum á ísskápinn og sagði:“Mamma. Þetta er góður ísskápur, svona ættum við að hafa í Voító“

Eitt kvöldið fengu Margrét Helga og Jóel að vera með á kvöldsamveru. Á samveru þessari hafði framkvæmastjóri FLOM (finnska kristniboðið) hugleiðingu á ensku. Hann talaði með mjög sterkum finnskum hreim. Eftir smá stund hvíslaði Jóel að mér:Mamma hvaða tungumál er hann eiginlega að tala, talar hann finnsku eða hvað“ Þau eru orðin nokkuð góð í ensku bæði tvö og alveg með suður karólínskan framburðinn á hreinu (kennarar þeirra beggja koma frá South Carolina í Bandaríkunum) og voru dugleg að gagnrýna framburð mælenda á ráðstefnunni!

Læt þetta duga að sinni

Verið Guði falin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að heyra af ykkur og að allt gangi vel. Ættum kannski að senda eitthvað af snjónum héðan til ykkar. Allt hvítt núna og afskaplega fallegt að horfa út um gluggan. Var að koma úr saumó þar sem nýjasti meðlimurinn var mættur, litli latino Önnuson. 

Bið að heilsa ykkur í bili.

Nina og co.

Nína (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 00:24

2 identicon

til hamingju með Dagbjart Elí 4.feb.
b. kv.
Kristín Helga

Kristín Helga (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 16:43

3 identicon

Sæl Helga Vilborg.

Mikið var gaman að fá kveðju frá þér um daginn í gegn um Auði. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær kveðju frá Afríku ;o)

Ég kíki stundum á bloggið þitt og finnst gaman að fylgjast með ykkur þarna úti.

Vona að þið hafið það eins gott og hægt er í hitanum.

Bestu kveðjur, Dóra

Dóra Margrét (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 22:15

4 Smámynd: Fanney og Fjölnir í Kenýu

Hæ hæ... gaman að lesa bloggið þitt. Hvernig er með Sigríði.. er hún ekki hjá ykkur ennþá? Við erum að undirbúa okkur fyrir Nairobi fyrst og svo Kapenguria. Hlökkum mikið til. Verðum á Íslandi í júlí, vonandi hittum við ykkur þá. 

Ég fékk þétta vers fyrir ykkur.. Vááá:   1. Kór 15:58

Klem frá Fanney og fjölskyldu

Fanney og Fjölnir í Kenýu, 11.3.2009 kl. 07:55

5 identicon

Hæ,

Við söknum ykkar mikið - innilega til hamingju með Davíð Ómar. Vona þið eigið góðan dag.

kveðja, Agla Marta, Maggi og Erna Lilja.

Agla Marta (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 12:39

6 identicon

Þið eruð algjörar hetjur að geta verið þarna í hitanum! Við vorum að kafna síðasta sumar í Omo Rate, þessa 5 daga sem við vorum þar :) Við hugsum oft til ykkar og hlökkum til að sjá ykkur í sumar. Skilaðu kveðju til krakkanna. Bestu kveðjur

Guðrún, Pétur og Daníel (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Lífið í Eþíópíu

Höfundur

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir
Hér getur þú lesið um líf of störf Helgu Vilborgar og Kristjáns sem eru kristniboðar í Woitodalnum í Suð-vestur Eþíópíu ásamt börnum sínum, Margréti Helgu,Jóel, Dagbjarti Elí og Davíð Ómari

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Reyking
  • Brosa!
  • Sögustund
  • DSC02602
  • Brosa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 33139

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband